NÁMSGREIN 6
SÖNGUR 10 Lofum Jehóva
„Lofið nafn Jehóva“
„Þið sem þjónið Jehóva, lofið hann, lofið nafn Jehóva.“ – SÁLM. 113:1.
Í HNOTSKURN
Það sem fær okkur til að lofa nafn Jehóva við hvert tækifæri.
1, 2. Hvernig getum við skilið betur hvað Jehóva finnst um að nafn hans hefur verið rægt?
ÍMYNDAÐU þér að einhver sem þér þykir vænt um segi eitthvað hræðilegt um þig. Þótt þetta sé lygi trúa sumir þessu. Og ekki nóg með það, þeir breiða lygina út og enn fleiri trúa henni. Hvernig liði þér? Ef þér er annt um fólk og mannorð þitt myndi rógburðurinn örugglega særa þig. – Orðskv. 22:1.
2 Að setja okkur í þessi spor getur hjálpað okkur að skilja hvernig Jehóva leið þegar orðstír hans var svertur. Einn af andasonum hans laug um hann við fyrstu konuna, Evu. Hún trúði lyginni. Það var þessi lygi sem fékk foreldra mannkynsins til að gera uppreisn gegn Jehóva. Fyrir vikið er allt mannkynið syndugt og allir deyja að lokum. (1. Mós. 3:1–6; Rómv. 5:12) Öll vandamál heimsins – dauði, stríð og hörmungar – eru tilkomin vegna lyganna sem Satan byrjaði að dreifa í Edengarðinum. Hryggir slíkur rógburður og afleiðingarnar Jehóva? Við getum verið alveg viss um það. En Jehóva er samt ekki bitur eða gramur. Hann er enn „hinn hamingjusami Guð“. – 1. Tím. 1:11.
3. Hvaða dýrmæta verkefni höfum við fengið?
3 Við höfum fengið það dýrmæta verkefni að eiga þátt í að helga nafn Jehóva með því að hlýða þessum einföldu fyrirmælum: „Lofið nafn Jehóva.“ (Sálm. 113:1) Það getum við gert með því að tala vel um þann sem ber þetta heilaga nafn. Munt þú gera það? Tökum til athugunar þrjár mikilvægar ástæður til að lofa nafn Guðs af öllu hjarta.
VIÐ GLEÐJUM JEHÓVA ÞEGAR VIÐ LOFUM NAFN HANS
4. Hvers vegna gleður það Jehóva þegar við lofum hann? Lýstu með dæmi. (Sjá einnig mynd.)
4 Við gleðjum föður okkar á himnum þegar við lofum nafn hans. (Sálm. 119:108) En þýðir þetta að almáttugur Guð sé eins og ófullkomnir menn sem krefjast athygli vegna þess að þeir eru óöruggir? Nei. Tökum dæmi. Lítil stelpa hleypur í fangið á pabba sínum og segir: „Þú ert besti pabbi í öllum heiminum!“ Faðirinn er snortinn þegar dóttir hans gerir þetta af eigin frumkvæði. Er það vegna þess að hann er óöruggur faðir sem þarf uppörvun og hrós frá barninu sínu? Nei. Við gerum ráð fyrir því að hann sé traustur faðir sem gleðst yfir því þegar dóttir hans lætur í ljós ást sína og þakklæti. Hann veit að slíkir eiginleikar stuðla að hamingju hennar þegar hún vex úr grasi. Jehóva, besti faðir sem hugsast getur, er líka ánægður þegar við lofum hann.
5. Hvaða lygi getum við átt þátt í hrekja með því að lofa nafn Guðs?
5 Þegar við lofum föður okkar á himnum stuðlum við að því að hrekja lygi sem snertir okkur öll persónulega. Satan heldur því fram að enginn maður muni sýna nafni Guðs trúfesti þegar á reynir. Hann heldur því fram að við myndum öll snúast gegn Guði ef við héldum að við græddum á því. (Job. 1:9–11; 2:4) En Job var trúfastur og sannaði Satan lygara. Hvað með þig? Við getum öll tekið málstað föður okkar og glatt hann með því að þjóna honum af trúfesti. (Orðskv. 27:11) Það er sannur heiður fyrir okkur.
6. Hvernig getum við líkt eftir Davíð konungi og Levítunum? (Nehemíabók 9:5)
6 Trúfastir menn sem elska Jehóva vilja lofa nafn hans af öllu hjarta. Davíð konungur skrifaði: „Ég vil lofa Jehóva, allt sem í mér býr lofi heilagt nafn hans.“ (Sálm. 103:1) Davíð skildi að þegar við lofum nafn Jehóva lofum við hann sjálfan. Nafn Jehóva felur í sér orðstír hans og kallar fram í hugann alla þá fögru eiginleika sem hann býr yfir og stórkostleg verk hans. Davíð áleit nafn föður síns heilagt og vildi lofa það með ‚öllu sem í honum bjó‘ – það er að segja af öllu hjarta. Það var líka hjartans mál hjá Levítunum að lofa nafn Jehóva. Þeir viðurkenndu auðmjúkir að orð þeirra gætu aldrei túlkað það lof sem heilagt nafn Jehóva verðskuldaði. (Lestu Nehemíabók 9:5.) Það hefur án efa yljað hjarta Jehóva að heyra þá lofa hann með þessum hætti.
7. Hvernig getum við lofað Jehóva í boðuninni og daglegu lífi?
7 Þegar við tölum um Jehóva þannig að fólk sér að við elskum hann og erum honum þakklát þá gleður það hann. Meginmarkmið okkar í boðuninni er að hjálpa fólki að nálgast Jehóva og kynnast föður okkar eins og við þekkjum hann. (Jak. 4:8) Við fögnum því að sýna fólki hvernig Jehóva er lýst í Biblíunni, hvað hún segir um eiginleika hans eins og kærleika, réttlæti, visku, mátt og aðra aðlaðandi eiginleika. Við lofum líka Jehóva og gleðjum hann með því að gera okkar besta til að líkja eftir honum. (Ef. 5:1) Þegar við gerum það skerum við okkur úr fjöldanum í þessum vonda heimi. Fólk tekur kannski eftir því að við erum ólík öðrum og veltir fyrir sér hvers vegna. (Matt. 5:14–16) Í samskiptum okkar við aðra í daglegu lífi fáum við kannski tækifæri til að útskýra hvers vegna svo sé. Og einlægt fólk dregst að Guði okkar. Við gleðjum hjarta Jehóva þegar við lofum hann með þessum hætti. – 1. Tím. 2:3, 4.
VIÐ GLEÐJUM JESÚ ÞEGAR VIÐ LOFUM NAFN JEHÓVA
8. Hvernig er Jesús besta fordæmið í að lofa nafn Jehóva?
8 Engin vitiborin sköpunarvera á himni eða jörð þekkir föðurinn betur en sonurinn. (Matt. 11:27) Jesús elskar föður sinn og er besta fyrirmyndin í því að lofa nafn Jehóva. (Jóh. 14:31) Í bæn til föður síns kvöldið áður en hann dó lýsti hann þjónustu sinni á jörð í hnotskurn og sagði: „Ég hef kunngert þeim nafn þitt.“ (Jóh. 17:26) Hvað átti hann við?
9. Hvaða dæmisögu notaði Jesús til að útskýra á besta mögulega hátt hver faðir hans væri?
9 Jesús sagði ekki fólki bara að nafn Guðs væri Jehóva. Gyðingarnir sem Jesús kenndi þekktu nafn Guðs þegar. En hann tók forystuna í að ‚skýra hver hann er‘. (Jóh. 1:17, 18) Hebresku ritningarnar gefa til dæmis til kynna að Jehóva sé miskunnsamur og samúðarfullur. (2. Mós. 34:5–7) Jesús sýndi það skýrar en nokkru sinni þegar hann sagði dæmisöguna af týnda syninum og föður hans. Þegar við lesum þessa dæmisögu sjáum við hversu miskunnsamur og samúðarfullur Jehóva er. Faðirinn kemur auga á iðrunarfullan son sinn ‚meðan hann er enn langt í burtu‘, hleypur á móti honum, faðmar hann að sér og fyrirgefur honum af öllu hjarta. (Lúk. 15:11–32) Jesús lýsir föður sínum eins og hann í sannleika er.
10. (a) Hvernig vitum við að Jesús notaði nafn föður síns og vildi að aðrir gerðu það líka? (Markús 5:19) (Sjá einnig mynd.) (b) Hvað vill Jesús að við gerum?
10 Vildi Jesús að aðrir notuðu nafn föður hans? Já, vissulega. Sumir heittrúaðir trúarleiðtogar þess tíma héldu að nafn Guðs væri of heilagt til að segja það upphátt, en Jesús lét slíkar óbiblíulegar mannasetningar aldrei hindra sig í að heiðra nafn föðurins. Eitt sinn læknaði hann mann haldinn illum anda í Gerasenahéraði. Fólkið var óttaslegið og bað Jesú um að yfirgefa héraðið, sem hann og gerði. (Mark. 5:16, 17) Jesús vildi samt að fólkið þar fengi að kynnast nafni Jehóva. Hann sagði því manninum sem hann hafði læknað að segja fólki frá því sem Jehóva hafði gert en ekki hann sjálfur. (Lestu Markús 5:19.)a Hann er sama sinnis í dag og vill að við segjum öðrum frá nafni föður hans um allan heim. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Þegar við leggjum okkar að mörkum gleðjum við konung okkar, Jesú.
11. Hvað kenndi Jesús fylgjendum sínum að biðja um og hvers vegna er það mikilvægt? (Esekíel 36:23)
11 Jesús vissi að fyrirætlun Jehóva væri að helga nafn hans og hreinsa það af allri smán. Þess vegna kenndi meistari okkar fylgjendum sínum að biðja: „Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt helgist.“ (Matt. 6:9) Jesús vissi að þetta væri mikilvægasta málið sem sköpunin stæði frammi fyrir. (Lestu Esekíel 36:23.) Engin vitiborin sköpunarvera í alheiminum hefur gert það sem jafnast á við það sem Jesús gerði til að helga nafn Jehóva. En fyrir hvaða synd var Jesús þrátt fyrir það ákærður? Guðlast! Það að rægja heilagt nafn föður hans var versta synd sem hugsast gat í huga Jesú. Það olli honum miklum kvölum að hugsa til þess að hann yrði sakfelldur og fundinn sekur um þennan glæp. Það gæti verið meginástæðan fyrir því að Jesús var „svo angistarfullur“ síðustu klukkustundirnar áður en hann var handtekinn. – Lúk. 22:41–44.
12. Hvernig helgaði Jesús nafn föður síns á besta hugsanlega máta?
12 Jesús þoldi hvað sem að höndum bar til að helga nafn föður síns, hvort sem það voru pyndingar, háð eða lygar. Hann vissi að hann hafði hlýtt föður sínum í öllu og þurfti ekki að skammast sín fyrir neitt. (Hebr. 12:2) Honum var líka ljóst að hann þurfti að þola beinar árásir Satans á þessari myrku stund. (Lúk. 22:2–4; 23:33, 34) Satan vonaðist örugglega til að brjóta ráðvendni Jesú á bak aftur en honum mistókst hrapallega. Jesús sannaði svo ekki verður um villst að Satan er grimmur lygari og að Jehóva á sér trúfasta þjóna sem eru ráðvandir í erfiðustu prófraunum.
13. Hvernig geturðu glatt konung þinn sem er við stjórn?
13 Vilt þú gleðja konung þinn sem ríkir á himnum? Haltu þá áfram að lofa nafn Jehóva með því að hjálpa öðrum að kynnast honum eins og hann í sannleika er. Þannig fetarðu í fótspor Jesú. (1. Pét. 2:21) Eins og Jesús gleður þú líka Jehóva og sannar að andstæðingur hans, Satan, er blygðunarlaus lygari.
VIÐ BJÖRGUM MANNSLÍFUM ÞEGAR VIÐ LOFUM NAFN JEHÓVA
14, 15. Hvað gott getur gerst þegar við fræðum fólk um Jehóva?
14 Þegar við lofum nafn Jehóva hjálpum við til við að bjarga mannslífum. Hvernig þá? Satan hefur „blindað huga hinna vantrúuðu“. (2. Kor. 4:4) Það hefur orðið til þess að þeir trúa lygum Satans eins og þessum: Guð er ekki til. Guð er fjarlægur og stendur á sama um mannkynið. Guð er grimmur og kvelur illa menn að eilífu. Slíkar lygar hafa aðeins það markmið að fela eða sverta nafn Jehóva og orðstír, svo að fólk missi alla löngun til að nálgast hann. En með boðun okkar komum við í veg fyrir að Satan nái markmiði sínu. Við kennum fólki sannleikann um föður okkar og lofum heilagt nafn hans. Hver er árangurinn?
15 Sannleikurinn í orði Guðs er gríðarlega kröftugur. Þegar við fræðum fólk um Jehóva og hver hann er í raun getum við upplifað eitthvað mjög sérstakt. Smátt og smátt hverfur hulan sem Satan blindaði huga fólks með og það fer að sjá kærleiksríkan föður okkar eins og við sjáum hann. Það fyllist lotningu yfir takmarkalausum mætti hans. (Jes. 40:26) Það lærir að treysta honum vegna þess að hann er fullkomlega réttlátur. (5. Mós. 32:4) Það nýtur góðs af djúpstæðri visku hans. (Jes. 55:9; Rómv. 11:33) Og það finnur huggun í því að læra að hann er persónugervingur kærleikans. (1. Jóh. 4:8) Þegar fólk nálgast Jehóva styrkist vonin um að lifa að eilífu hér á jörð sem elskuð börn hans. Það er einstakur heiður að fá að hjálpa fólki að nálgast föður okkar. Þegar við gerum það lítur Jehóva á okkur sem „samverkamenn“ sína. – 1. Kor. 3:5, 9.
16. Hvaða áhrif hefur það á suma að kynnast nafni Guðs? Nefndu dæmi.
16 Í fyrstu segjum við fólki kannski einfaldlega að Guð heiti Jehóva. Það eitt og sér getur haft varanleg áhrif á einlægt fólk. Ung kona sem heitir Aaliyahb ólst ekki upp í kristinni trú. Hún var ekki ánægð með trú sína og náði ekki að tengjast Guði. Það breyttist þegar hún fór að kynna sér Biblíuna með vottunum. Hún fór að líta á Guð sem vin sinn. Hún var undrandi þegar hún komst að því að nafn Guðs hafði verið fjarlægt úr mörgum biblíum og titlar eins og „Drottinn“ settir í staðinn. Að kynnast nafni Jehóva breytti lífi hennar. Hún segir: „Besti vinur minn heitir Jehóva.“ Hvaða áhrif hafði það á hana? „Ég hef frið í hjartanu. Ég er svo þakklát,“ segir hún. Maður sem heitir Steve var tónlistarmaður og alinn upp sem strangtrúaður Gyðingur. Hann varð fráhverfur skipulögðum trúarbrögðum því að hann sá svo mikla hræsni. En eftir að hann missti mömmu sína samþykkti hann að sitja með í biblíunámskeiði með votti Jehóva. Það snerti hann djúpt að fá að vita nafn Guðs. Hann segir: „Ég hafði aldrei heyrt um nafn Guðs.“ Hann bætir við: „Í fyrsta skipti áttaði ég mig á því að Guð er raunverulegur. Hann er persóna. Ég vissi þá að ég hafði eignast vin.“
17. Hvers vegna vilt þú halda áfram að lofa nafn Jehóva? (Sjá einnig mynd.)
17 Segir þú frá heilögu nafni Jehóva í boðuninni? Hjálparðu fólki að skilja hvernig Guð er í raun og veru? Þegar þú gerir það lofarðu nafn Guðs. Haltu áfram að lofa heilagt nafn Jehóva með því að hjálpa fólki að kynnast persónunni á bak við nafnið. Þá bjargarðu mannslífum. Þannig líkirðu eftir fordæmi konungs okkar, Jesú Krists. Og umfram allt gleðurðu kærleiksríkan föður þinn, Jehóva. Haltu áfram að „lofa nafn [hans] um alla eilífð“. – Sálm. 145:2.
ÞEGAR VIÐ LOFUM NAFN GUÐS
Hvernig gleðjum við Jehóva með því?
Hvernig gleðjum við Jesú með því?
Hvernig björgum við mannslífum með því?
SÖNGUR 2 Þú heitir Jehóva
a Það bendir allt til þess að Markús hafi upprunalega skrifað nafn Guðs þegar hann vitnaði í Jesú. Það hefur því verið sett aftur þar sem við á í Nýheimsþýðingu heilagrar ritningar.
b Nöfnum hefur verið breytt.