Er ríki Guðs innra með okkur?
Svar Biblíunnar
Nei, Guðsríki er ekki tilfinning í hjarta kristinna manna.a Biblían bendir á hvar það er með því að kalla það „himnaríki“. (Matteus 4:17) Biblían sýnir að ríki Guðs er raunveruleg stjórn sem ríkir frá himnum. Skoðaðu rökin.
Ríki Guðs hefur stjórnendur, þegna, lög og umboð til að hrinda vilja Guðs í framkvæmd, bæði á himni og jörð. – Matteus 6:10; Opinberunarbókin 5:10.
„Allir menn, þjóðir og tungur“ verða þegnar stjórnar Guðs, það er að segja Guðsríkis. (Daníel 7:13, 14) Stjórnin fær völd sín beint frá Guði en ekki þegnunum. – Sálmur 2:4-6; Jesaja 9:7.
Jesús sagði trúum postulum sínum að þeir myndu verða með honum og „sitja í hásætum“ í ríki hans. – Lúkas 22:28, 30.
Guðsríki á óvini sem verður eytt. – Sálmur 2:1, 2, 8, 9; 110:1, 2; 1. Korintubréf 15:25, 26.
Biblían kennir ekki að Guðsríki sé innra með okkur í þeim skilningi að það ríki í hjörtum okkar. En Biblían sýnir að „orðið um ríkið“ eða „fagnaðarerindið um ríkið“ getur og ætti að hafa áhrif á hjörtu okkar. – Matteus 13:19; 24:14.
Hvað þýða orðin „Guðs ríki er innra með yður“?
Sumum finnst óljóst hvar Guðsríki er miðað við orðalagið í Lúkasi 17:21 í sumum biblíuþýðingum. Til dæmis segir í íslensku biblíunni frá 2010 „Guðs ríki er innra með yður“. Til að skilja þetta vers rétt er nauðsynlegt að skoða samhengið.
Jesús var að tala við faríseana, en það var hópur trúarleiðtoga sem var á móti honum og átti þátt í að láta taka hann af lífi. (Matteus 12:14; Lúkas 17:20) Er rökrétt að álykta að Guðsríki hafi verið tilfinning í forhertum hjörtum þeirra? Jesús sagði þeim að þeir væru „að innan fullir hræsni og ranglætis“. – Matteus 23:27, 28.
Neðanmáls í íslensku biblíunni frá 2010 kemur fram skýrari merking orða Jesú í Lúkasi 17:21. Þar segir: „Guðs ríki er meðal yðar.“ Sama merking kemur fram í sumum öðrum þýðingum eins og New World Translation. Ríki Guðs var „meðal“ faríseanna í þeim skilningi að Jesús, sá sem Guð hafði útnefnt til að ríkja sem konungur, stóð mitt á meðal þeirra. – Lúkas 1:32, 33.
a Margar kirkjudeildir kenna að Guðsríki sé innra með fólki eða í hjarta þess. Tökum sem dæmi Suður-baptista í Bandaríkjunum sem lýstu yfir að „ríki Guðs ríki að hluta til í lífi og hjarta einstaklingsins“. Benedikt páfi sextándi tók í sama streng í bók sinni Jesús frá Nasaret og sagði: „Guðsríki kemur með hlustandi hjarta“.