Hvernig eru fórnarlömbin valin?
Monika hafði nýlokið skólagöngu þegar hún fór að vinna sem ritaranemi á lögfræðiskrifstofu. Hún bjóst við að það yrði auðvelt fyrir sig að aðlagast vinnumarkaðinum.
Horst var hálffertugur læknir. Hann var kvæntur og átti börn og allt benti til þess að hann myndi ná langt og þéna vel.
Monika og Horst voru bæði lögð í einelti.
VIÐ getum dregið lærdóm af því sem Monika og Horst lentu í: Erfitt er að segja til um hverjir verða fyrir einelti og hverjir ekki. Það getur komið fyrir hvern sem er í hvaða starfi sem er. Hvernig geturðu þá varið þig gegn einelti? Svarið felst meðal annars í því að læra að stuðla að friði á vinnustað jafnvel innan um erfiða samstarfsmenn.
Að falla inn í hópinn
Margir vinna störf sem gera kröfu til þess að þeir falli inn í samstarfshóp og leggi sitt af mörkum til að hópurinn starfi vel saman. Ef vinnufélögum semur vel kemur það fram í góðum vinnubrögðum. Ef svo er ekki kemur það niður á vinnubrögðunum og hættan á einelti eykst.
Hvað getur komið í veg fyrir að samstarfshópur vinni vel saman? Tíð mannaskipti gæti verið ein ástæðan. Við slíkar aðstæður er erfitt að mynda vináttutengsl. Þar við bætist að nýir starfsmenn þekkja ekki venjubundið vinnuferli og það dregur úr afköstum allra. Ef vinnuálagið eykst er líklegt að hópurinn sé undir stöðugu álagi.
Enn fremur verður samheldnin lítil hafi hópurinn ekki skýr markmið. Þetta getur til dæmis gerst þegar yfirmann skortir sjálftraust og hann eyðir meiri tíma í að verja stöðu sína en sinna stjórnunarstörfum. Hann gæti reynt að hafa tögl og hagldir með því að etja starfsfólkinu saman. Til að bæta gráu ofan á svart gæti samstarfshópurinn verið svo illa skilgreindur að sumir í hópnum vita ekki hvað er í þeirra verkahring. Til dæmis gæti komið upp ágreiningur þegar tveir starfsmenn halda báðir að þeir eigi að meðárita reikninga.
Þegar svo ber við verða samskiptin stirð og særðar tilfinningar eru oft látnar afskiptalausar. Öfund hefur slæm áhrif á starfsandann og vinnufélagar keppast um að koma sér vel við yfirmanninn. Litið er á minni háttar misskilning sem meiri háttar móðgun. Í rauninni er verið að gera úlfalda úr mýflugu. Þar með er grunnurinn lagður að einelti.
Leitað að blóraböggli
Með tímanum gæti einn starfsmaður verið valinn sem blóraböggull. Hvers konar manneskja er líkleg til að verða skotspónninn? Sennilega einhver sem sker sig úr. Það gæti til dæmis verið eini karlmaðurinn á kvennavinnustað eða eina konan á vinnustað karla. Sjálfsörugg manneskja gæti verið álitin ýtin en hlédræg manneskja talin undirförul. Fórnarlambið gæti einnig verið sá sem er yngri eða eldri en aðrir á vinnustaðnum eða jafnvel hæfari til starfsins.
Vinnufélagarnir verða „rætnir og ósvífnir í garð fórnarlambsins, hvert svo sem það er, og fá einhvers konar útrás fyrir eigin streitu“, segir í þýska læknablaðinu mta. Þó að þolandinn reyni að bæta ástandið er það til lítils og gæti jafnvel gert illt verra. Því tíðari og kerfisbundnari sem ógnunin er þeim mun einangraðri verður blóraböggullinn. Þegar hér er komið ræður fórnarlambið sennilega ekki við ástandið án aðstoðar.
Auðvitað hefur alltaf verið viss hætta á að fólk verði fyrir áreitni á vinnustað. En margir minnast þeirra tíma þegar meiri góðvild virtist ríkja meðal vinnufélaga. Skipulögð áreitni þekktist varla. Eins og læknir nokkur komst að orði hefur „dregið almennt úr samstöðu og velsæmiskennd“ með árunum. Núna hikar fólk varla við að takast umbúðalaust á í vinnunni í allra viðurvist.
Öllum á vinnumarkaðinum leikur því hugur á að vita hvort hægt sé að koma í veg fyrir einelti og hvernig megi stuðla að friði á vinnustað.
[Mynd á blaðsíðu 6]
Markmið eineltis er að útskúfa fórnarlambinu.