Eiga trúarbrögðin eftir að stuðla að friði?
„BÆTUM heiminn. Losum okkur við trúarbrögðin.“ Hollenski heimspekingurinn Floris van den Berg leggur þetta til í ritgerð sem hann nefnir: „Hvernig við eigum að losna við trúarbrögðin og hvers vegna.“ Sérfræðingar í ýmsum greinum beita sér sömuleiðis fyrir því að trúarbrögðunum verði útrýmt.
„Heimurinn þarf að vakna af þeirri löngu martröð sem trúin er.“ Þetta segir nóbelsverðlaunahafinn og eðlisfræðingurinn Steven Weinberg. Á síðustu árum hefur því verið haldið fast fram að hægt væri að draga stórlega úr illskunni í heiminum með því að útrýma trúarbrögðunum. Æ fleiri bækur eru gefnar út sem eru andsnúnar trú og trúarbrögðum og þær njóta töluverðra vinsælda.
Merkir vísindamenn hafa hist til að ræða þá hugmynd sína að það sé áríðandi að útrýma trúarbrögðunum. Trúleysingjar keppast um að koma andúð sinni á trúarbrögðum á framfæri í fjölmiðlum. Eru þessir virtu hugsuðir á réttri braut?
Er til ein sönn trú?
Ef öll trúarbrögð væru á rangri braut og það væri ekki til neinn Guð gæti virst rökrétt að útrýma trúarbrögðunum. En hvað nú ef til er Guð? Segjum sem svo að það sé til hópur fólks á jörðinni sem er í raun fulltrúi Guðs, það er að segja að til séu sönn trúarbrögð.
Ef saga trúarbragðanna er skoðuð vandlega kemur í ljós að til er ein trú sem sker sig úr og er gerólík öllum hinum. Þeir sem stunda hana eru tiltölulega fáir miðað við heildina. Þetta er sú trú sem Jesús Kristur og postular hans lögðu grundvöllinn að. En þetta er ekki sama trúin og stunduð hefur verið í kristna heiminum í aldanna rás.
Að hvaða leyti er kristindómurinn ólíkur hinni sönnu trú sem Jesús Kristur lagði grunninn að? Þar er af mörgu að taka. Lítum á eitt.
„Ekki af þessum heimi“
Frumkristnir menn tóku ekki afstöðu í pólitískum deilumálum. Þar líktu þeir eftir hlutleysi Jesú. Í Biblíunni segir að honum hafi að minnsta kosti tvisvar verið boðið að gerast pólitískur leiðtogi en hafi hafnað því afdráttarlaust. (Matteus 4:8-10; Jóhannes 6:15) Hann ávítaði jafnvel lærisveinana þegar þeir vildu beita vopnum til að koma í veg fyrir að hann yrði handtekinn. — Matteus 26:51, 52; Lúkas 22:49-51; Jóhannes 18:10, 11.
Jesús leiðrétti rómverska landstjórann í Júdeu þegar hann spurði Jesú hvort hann hefði einhver pólitísk áform. Jesús svaraði honum: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi hefðu þjónar mínir barist svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ (Jóhannes 18:36) Greinilegt er að Jesús vildi ekki blanda sér í stjórnmál og hermál síns tíma.
Lærisveinar Jesú líktu eftir honum. Fyrr í þessum greinaflokki var vísað í skýrslu rannsóknarmanna um þátt trúarbragða í styrjöldum. Þar segir: „Frumkristnir menn voru friðarsinnar . . . Kristnir menn neituðu að jafnaði að ganga í herinn og berjast.“ Í kenningum Jesú og postula hans er lögð áhersla á að elska náungann, þar á meðal ókunnuga og fólk af öðru þjóðerni og kynþætti. (Postulasagan 10:34, 35; Jakobsbréfið 3:17) Þessi trú stuðlaði sannarlega að friði.
Upprunalegar hugmyndir kristninnar blönduðust smám saman sundrandi áhrifum heimspeki, erfikenninga og þjóðernishyggju. Í áðurnefndri skýrslu um þátt trúarbragða í vopnuðum átökum segir: „Eftir að Konstantínus [keisari í Róm] tók kristna trú var hin kristna hreyfing hervædd. Hún hafði ekki lengur að leiðarljósi kenningar Krists um mildi og miskunn heldur tileinkaði sér kenningar keisarans um pólitíska sigra og landvinninga. Kristnir menn, þeirra á meðal keisarinn, neyddust til að réttlæta stríð með trúnni.“ Nú var komin til skjalanna fölsuð útgáfa af kristninni.
Hópur sem „sker sig úr“
Er frumkristnin endanlega glötuð? Því fer fjarri. Til er hópur sem verðskuldar sérstaka athygli. Vottar Jehóva líkja betur eftir frumkristninni en nokkur annar trúarhópur. Þeir tengjast ekki neinum af trúardeildum eða trúfélögum kristna heimsins. Í bókinni The Encyclopedia of Religion er sagt að þeir séu hópur sem „sker sig úr“ vegna þess að þeir byggja allar trúarkenningar sínar „á Biblíunni sem kemur að öllu leyti í stað erfikenninga“.
Vottar Jehóva taka ekki afstöðu til pólitískra átaka frekar en frumkristnir menn. Í skýrslu, sem gefin er út af Úkraínsku vísindaakademíunni, segir að vottar Jehóva leitist við að vinna bug á „ágreiningi af völdum kynþáttar, þjóðernis, trúar, efnahags og félagslegrar stöðu“. Fram kemur í skýrslunni að vottar Jehóva séu „löghlýðnir borgarar í landi sínu“ og taki ekki þátt í „aðgerðum gegn ríkinu“.
Prófessor Wojciech Modzelewski við Varsjárháskóla í Póllandi segir í bók sinni Pacifism and Vicinity: „Vottar Jehóva eru fjölmennasta samfélag í heimi sem er andvígt stríði.“ Þar sem þeir reyna að líkja sem best eftir frumkristnum mönnum má segja að þeim hafi tekist að endurreisa þá trúarhætti sem Kristur og postular hans komu á laggirnar. Það er þess konar kristni sem stuðlar að friði í heiminum. — Sjá rammagreinina á næstu síðu.
Björt framtíð
Rétt er að það komi fram að mörgu trúhneigðu fólki blöskrar hræsnin sem einkennir þeirra eigið trúfélag, og hið sama er að segja um marga trúar- og safnaðarleiðtoga. Virða ber starf og viðleitni allra þeirra sem helga sig friði og einingu í veröldinni.
En þótt margir séu einlægir í baráttu sinni fyrir friði blasir við að það er takmarkað sem mennirnir geta gert til að leysa vandamálin í heiminum. Spámaðurinn Jeremía skrifaði endur fyrir löngu: „Örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ — Jeremía 10:23, Biblían 1981.
Framtíðin er björt engu að síður. Í Biblíunni kemur fram að komið verði á friðsömu nýju samfélagi hér á jörð. Þá verður ósvikið bræðralag meðal manna. Allir kynþættir munu búa saman í sátt og samlyndi og mannkynið skiptist þá ekki eftir landamærum eða fjandskap af völdum þjóðernis eða trúar. Hin hreina tilbeiðsla á Jehóva Guði verður það afl sem sameinar mannkyn.
Í Biblíunni er einnig boðað að þau trúarbrögð líði undir lok sem kasta rýrð á Guð. Jesús sagði: „Hvert það ríki sem er sjálfu sér sundurþykkt leggst í auðn og hver sú borg eða heimili sem er sjálfu sér sundurþykkt fær ekki staðist.“ (Matteus 12:25) Guð sér til þess, þegar þar að kemur, að þessi orð rætist á öllum falstrúarbrögðum.
Endur fyrir löngu var boðað í Biblíunni að Guð myndi „dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða“. Í þessum spádómi kemur einnig fram að fólk muni „smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ (Jesaja 2:4) Þessi spádómur er að rætast núna. Hin sanna trú, sem vottar Jehóva stunda, stuðlar nú þegar að friði.
[Innskot á bls. 8]
Kærleikurinn sameinar votta Jehóva.
[Rammi á bls. 9]
Hvernig eru Vottar Jehóva ólíkir öðrum?
Það kemur mörgum á óvart hve ólíkir Vottar Jehóva eru öllum öðrum trúfélögum sem telja sig fylgja Kristi. Eftirfarandi eru nokkur dæmi um það hvernig Vottar Jehóva eru frábrugðnir öðrum:
SKIPULAG
● Þeir hafa enga prestastétt.
● Safnaðaröldungar, kennarar og trúboðar eru ólaunaðir.
● Þeir gjalda ekki tíund og standa ekki fyrir fjáröflun eða samskotum á samkomum.
● Öll starfsemi þeirra er fjármögnuð með frjálsum framlögum.
● Þeir eru hlutlausir í stjórnmálum.
● Þeir eru friðarsinnar og taka ekki þátt í hernaði.
● Þeir byggja trú sína á Biblíunni og fylgja sömu kenningum alls staðar í heiminum.
● Ekki er gerður mannamunur eftir stétt, þjóðerni eða kynþætti.
● Þeir eru ekki tengdir neinum kirkjudeildum, svo sem kaþólsku kirkjunni, rétttrúnaðarmönnum eða lúterstrú.
KENNINGAR
● Þeir trúa að aðeins sé til einn Guð og hann heiti Jehóva.
● Þeir trúa ekki að Jesús Kristur sé alvaldur Guð og aðhyllast ekki kenninguna um heilaga þrenningu.
● Þeir fylgja kenningum Jesú og heiðra hann sem son Guðs.
● Þeir nota hvorki krossinn né líkneski við guðsdýrkun sína.
● Þeir trúa ekki að til sé helvíti þangað sem vondir menn fari eftir dauðann.
● Þeir trúa að Guð veiti þeim sem hlýða honum fullkomleika og eilíft líf í paradís á jörð.
Vottar Jehóva telja að þeim hafi tekist að endurreisa frumkristnina, það er að segja þá kristni sem postular Jesú iðkuðu.
[Mynd á bls. 8]
Serbi, Bosníumaður og Króati.