16. kafli
‚Múgurinn mikli‘ fer núna ‚brautina helgu‘ til skipulags Guðs
1, 2. Hvenær á 35. kafli Jesajabókar sér andlega uppfyllingu og hverju lýsa fyrstu tvö versin?
Í ÞÚSUNDÁRARÍKI Friðarhöfðingjans munu mörg þeirra atriða 35. kafla Jesajabókar, sem nú eru að uppfyllast fyrir eyðingu Babýlonar hinnar miklu, rætast bókstaflega á mannkyninu. Það sem áorkað hefur verið andlega mun sannarlega líka rætast bókstaflega. Andleg aðaluppfylling þessa spádóms á sér stað núna í og með lausn þjóna Guðs úr ánauð Babýlonar hinnar miklu. Spámaðurinn Jesaja lýsti því með yndislegu orðalagi:
2 „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. Vegsemd Líbanons skal veitast þeim, prýði Karmels og Sarons. Þau skulu fá að sjá vegsemd [Jehóva].“ — Jesaja 35:1, 2.
3. Hvar var hið ófrjóa land á sjöttu öld f.o.t. og hvernig gat það fagnað?
3 Hvar var eyðimörkin, hið þurra landið og öræfin? Á sjöttu öld f.o.t. voru þau þar sem Júdaríkið hafði verið. Árið 537 f.o.t. hafði landið legið í eyði og mannlaust í 70 ár. En hvernig gat eyðimörkin glaðst og fagnað? Til þess þurftu fyrri íbúar landsins að flytjast heim á ný. Landið yrði upphafið úr niðurlægingu sinni og veitt reisn hinna háu og tignarlegu Líbanonsfjalla.
Táknrænn Edengarður gróðursettur
4, 5. (a) Hvenær á okkar tímum átti svipuð umbreyting sér stað og hvers vegna? (b) Hvaða afleiðingar hafði endurreisnarstarf hinna smurðu leifa? (c) Hvernig lýsti Jesaja 35:5-7 andlegri endurnýjun þeirra?
4 Andleg nútímahliðstæða þessara umskipta landsins, frá því að vera yfirgefið af Guði til endurvakinnar hylli hans, byrjaði að koma í ljós árið 1919. Endurheimt fólk Jehóva var staðráðið í að notfæra sér til hins ýtrasta friðartímann sem upp var runninn. Hinn meiri Kýrus, Jesús Kristur, og faðir hans, Jehóva Guð, fólu leifum andlegu Ísraelsþjóðarinnar stórfenglegt verkefni sem samsvaraði því er endurleystar leifar Forn-Ísraels endurreistu musterið eftir 537 f.o.t. Endurreisnarstarfið frá 1919 leiddi til þess að ræktaður var táknrænn Edengarður.
5 Sagt hafði verið fyrir um þetta með eftirfarandi orðum Jesaja í 35. kafla: „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum. Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr.“ — Jesaja 35:5-7.
6. Hvað hefur tilvist þess sem Edóm táknaði ekki náð að hindra, og hverjir hrópa fagnandi með hinum endurreistu leifum?
6 Þótt það veldi standi enn, sem átti sér fyrirmynd í Edóm fortíðar, hefur það ekki hindrað að hinn andlegi Ísrael hafi endurheimt andlegt paradísarástand til uppfyllingar 35. kafla Jesajabókar. Edómítar nútímans hafa því enga ástæðu til að gleðjast og fagna með leifum Ísraelsþjóðarinnar og hinum vaxandi ‚mikla múgi.‘ Þessi ‚mikli múgur‘ á stóran þátt í að viðhalda andlegri paradís nútímavotta Jehóva.
7. Hvað höfðu skilningsaugu leifanna aldrei séð fyrir 1914 en hvernig opnuðust þau nú?
7 Fyrir lok heiðingjatímanna höfðu skilningsaugu andlegu Ísraelsmannanna ekki opnast fyrir því að leifar þeirra yrðu enn á jörðinni þegar endi yrði bundinn á heimsvandamálin sem hófust árið 1914. Ekki sáu þeir heldur að þeir og mikill múgur annarra sauða fengju þau sérréttindi að bera stofnsettu Messíasarríki Guðs vitni um allan heim. Því voru andlega blind augu leifanna opnuð árið 1919. Hvílík sjón blasti við þeim um allra nánustu framtíð!
8. Hvaða áhrif höfðu mótin tvö í Cedar Point í Ohio á andleg eyru og tungu leifanna?
8 Á mótum sínum í Cedar Point í Ohio árið 1919 og 1922 fengu þeir vísbendingu um það starf sem framundan var og tóku því fagnandi. Andleg eyru þeirra opnuðust svo að þeir heyrðu hinn hrífandi boðskap um ríki Guðs og þörfina á að kunngera hann. Eins og hjörtur hlupu þeir léttstígir til að bera vitni því ríki sem beðið hafði verið um svo lengi. Tunga þeirra, sem verið hafði mállaus, hrópaði fagnandi lofsöng um stofnsett Messíasarríki á himnum. — Opinberunarbókin 14:1-6.
9. Hvernig spruttu andlega fram vötn í eyðimörkinni?
9 Það var eins og vatn hefði skyndilega streymt fram yfir andlega landareign sem legið hafði auð og skrælnuð, svo að allt varð skyndilega grænt og gróskumikið og tilbúið að bera mikinn ávöxt. Engin furða er að þjónar Jehóva skyldu fagna lofsyngjandi og finna til kraftar eins og hjörturinn sem hleypur léttstígur upp hæðirnar! Vötn sannleikans um stofnsett Guðsríki í höndum Jesú Krists árið 1914 fossuðu fram af vaxandi krafti, tær og svalandi. — Jesaja 44:1-4.
„Brautin helga“
10, 11. (a) Hvað táknaði þessi hressandi breyting? (b) Hvaða braut fóru leifarnar til sinnar andlegu paradísar og hvernig lýsir Jesaja 35:8, 9 því?
10 Hvað merkir það sem á undan er farið? Þetta: Fyrst hafa leifarnar og síðan mikill múgur annarra sauða gengið út úr Babýlon hinni miklu og gerst vottar Guðsríkis. En hvaða veg skyldu þeir fara til að endurheimta hylli Guðs og ganga inn í þessa andlegu paradís? Það var eins og þeim hefði opnast víður og breiður vegur þar sem mikil þröng brautryðjandasinnaðra Ísraelsmanna gat gengið fylktu liði inn í það heimaland sem Guð hafði gefið þeim. Hinn heillandi spádómur Jesaja gefur það til kynna:
11 „Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki fáráðlingar. Þar skal ekkert ljón vera, og ekkert glefsandi dýr skal þar um fara.“ — Jesaja 35:8, 9.
12. Opnaðist leifunum ‚brautin‘ sjálfkrafa við það að fyrri heimsstyrjöldinni lauk? Hvað gerðist 4. dag ársins 1919?
12 Lok fyrri heimsstyrjaldarinnar opnuðu ekki sjálfkrafa þessa „braut.“ Átta úr starfsliði aðalstöðva Varðturnsfélagsins voru enn í fangelsi og stórlega hafði hægt á vitnisburðarstarfinu. Þann 4. janúar 1919 var J. F. Rutherford, forseti Varðturnsfélagsins í Pittsburgh í Pennsylvaníu endurkjörinn þótt hann sæti í fangelsi, í þeirri vissu að hann væri saklaus þjónn hins hæsta Guðs.
13, 14. Hvaða atburðir ársins 1919 sýndu að hin táknræna braut hafði opnast leifunum og hverjir gengu hana?
13 Þann 25. mars 1919 var honum og sjö samföngum hans sleppt úr fangelsi og fengu þeir síðar algera uppreisn æru. Varðturninn flutti þann 15. september 1919, á blaðsíðu 283, þær hvetjandi fréttir að skrifstofur Félagsins yrðu fluttar aftur frá Pittsburgh til Columbia Heights 124 í Brooklyn þann 1. október 1919. Þann 15. desember 1919 var frá því skýrt að tímaritið Varðturninn væri nú aftur gefið út í Brooklyn í New York.
14 Það var því árið 1919 að táknræn braut var opnuð hinum glöðu þjónum Guðs. Þeir sem vildu vera heilagir í augum Jehóva gengu þessa „braut,“ ‚brautina helgu.‘ Þeir sem ekki höfðu rétt tilefni eða hreinar hvatir lögðu ekki leið sína út á þessa ‚helgu braut‘ og endurheimtu ekki hylli Guðs.
15. Hvað sannar að ‚múgurinn mikli‘ hefur stigið inn á brautina?
15 Þann 1. júní 1935, á móti í Washington D.C., létu 840 af ‚múginum mikla‘ skírast í vatni, og gáfu þar með sönnun fyrir að þeir hefðu stigið inn á ‚brautina.‘ Núna hafa milljónir þeirra streymt inn á þá braut til liðs við leifarnar smurðu sem fer fækkandi. Þeir ganga nú saman þessa „braut,“ friðsamir og í ánægjulegum félagsskap, staðráðnir í að með fulltingi Guðs skuli ekkert fá sundrað einingu þeirra.
16. Hvernig er táknrænt talað hvorki ljón né glefsandi dýr á þessari braut?
16 Táknrænt talað er hvorki ljón né nokkurt annað glefsandi dýr að finna á þessari braut. Með öðrum orðum er ekkert þar sem hindrar eða hræðir hinar smurðu leifar og ‚múginn mikla.‘ Þeir lögðu af stað fullir trúartrausts eftir þeirri braut sem frelsari þeirra, hinn meiri Kýrus, opnaði þeim. Áfangastaður þeirra er Síon.
17. (a) Er „brautin“ enn opin þótt langt sé liðið á ‚endalok veraldar‘? (b) Hverjir stíga inn á ‚brautina helgu‘ og hvernig gera þeir það?
17 Þótt mjög sé nú liðið á ‚endalok veraldar‘ stendur þessi „braut“ Guðs enn opin. Stórir hópar þakklátra manna breyta eftir þeirri vitneskju að Babýlon hin mikla sé fallin fyrir árás hins meiri Kýrusar, Jesú Krists. Og þeir flýja hana og halda út á hinn andlega paradísarveg, ‚brautina helgu.‘ — Jeremía 50:8.
18. Hvernig lýsir síðasta vers 35. kafla Jesajabókar núverandi ástandi trúfastra votta Jehóva, og hverjum ber þakkir fyrir uppfyllingu þessa spádóms?
18 Þeir öðlast þá ólýsanlegu gleði og fögnuð sem lokavers 35. kafla Jesajabókar talar um: „Hinir endurkeyptu [Jehóva] skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.“ Hryggð þeirra og andvarpan yfir að hafa áður gengið gegn vilja Jehóva Guðs hefur flúið frá þeim frá og með 1919. Og hryggð og andvarpan hefur ekki lagst aftur á trúfasta, glaða votta Jehóva. Þökk sé hinum sannsögla Guði, Jehóva, sem hefur með svo lofsverðum hætti uppfyllt hinn fagra spádóm í 35. kafla Jesajabókar!