Glaðir nú og um eilífð
„Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði.“ — JESAJA 65:18.
1. Hvaða áhrif hefur sönn tilbeiðsla haft á menn í aldanna rás?
Í ALDANNA rás hafa ótaldir menn haft mikla gleði af því að þjóna hinum sanna Guði, Jehóva. Davíð var aðeins einn þeirra sem hafði yndi af sannri tilbeiðslu. Biblían greinir frá því að þegar sáttmálsörkin var flutt til Jerúsalem hafi ‚Davíð og allt Ísraels hús flutt örk Jehóva upp með fagnaðarópi.‘ (2. Samúelsbók 6:15) Slík gleði í þjónustu Jehóva er ekki bara liðin tíð. Þú getur átt hlutdeild í henni og jafnvel notið enn ríkulegri gleði bráðlega.
2. Hverjir eiga nú á tímum hlutdeild í annarri uppfyllingu 35. kafla Jesajabókar?
2 Í greininni á undan athuguðum við byrjunaruppfyllingu hins örvandi spádóms í 35. kafla Jesajabókar. Við getum réttilega kallað þetta endurreisnarspádóm af því að það var þannig sem hann uppfylltist meðal Gyðinga til forna. Hann á sér áþekka uppfyllingu á okkar tímum. Hvernig þá? Síðan á hvítasunnunni árið 33 hefur Jehóva átt samskipti við andlega Ísraelsmenn en postular Jesú og aðrir lærisveinar hans voru þeirra fyrstir. Þetta eru menn sem eru smurðir með heilögum anda og verða hluti af „Ísrael Guðs“ er Páll postuli kallar svo. (Galatabréfið 6:16; Rómverjabréfið 8:15-17) Þú manst líka að 1. Pétursbréf 2:9 kallar þessa kristnu menn ‚útvalda kynslóð, konunglegt prestafélag, heilaga þjóð, eignarlýð.‘ Pétur bendir síðan á verkefnið sem hinum andlega Ísrael hefur verið falið: „‚Þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“
Uppfylling á okkar tímum
3, 4. Hvernig var ástatt þegar Jesaja 34. kafli tók að uppfyllast á okkar tímum?
3 Sú var þó tíðin snemma á öldinni að leifar hins andlega Ísraels hér á jörð voru ekki sívirkar í því að boða slíkan boðskap. Þær fögnuðu ekki fyllilega í hinu undursamlega ljósi Guðs. Satt að segja voru þær í töluverðu myrkri. Hvenær var það? Og hvað gerði Guð í málinu?
4 Það var á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar, skömmu eftir að Messíasarríki Guðs var stofnsett á himnum árið 1914. Þjóðirnar voru hver annarri reiðar og nutu þar stuðnings klerka kirknanna í ýmsum löndum. (Opinberunarbókin 11:17, 18) Guð var að sjálfsögðu jafnandsnúinn hinum fráhverfa kristna heimi, með sinni upphöfnu klerkasétt, og hann hafði verið andsnúinn hinum drembilátu Edómítum. Spádómurinn í 34. kafla Jesajabókar á því við Edóm nútímans, kristna heiminn. Og hann uppfyllist jafnörugglega nú á tímum með endanlegri útrýmingu og hann uppfylltist á Edóm fortíðarinnar. — Opinberunarbókin 18:4-8, 19-21.
5. Hvers konar uppfyllingu hefur Jesaja 35. kafli fengið á okkar dögum?
5 Hvað um 35. kafla Jesajabókar og áherslu hans á gleði? Hann hefur líka uppfyllst á okkar dögum. Hvernig þá? Með endurheimt andlegs Ísraels úr eins konar útlegð. Við skulum athuga atburði úr guðræðissögu nútímans sem gerst hafa á æviskeiði margra núlifandi manna.
6. Af hverju er hægt að segja að leifar hins andlega Ísraels hafi lent í ánauð?
6 Um skamman tíma í fyrri heimsstyrjöldinni höfðu leifar hins andlega Ísraels ekki haldið sér algerlega hreinum og voru ekki fullkomlega samstíga vilja Guðs. Sumir voru flekkaðir af kenningavillum sem komu þeim til að láta undan og taka ekki eindregna afstöðu með Jehóva þegar þrýst var á um stuðning við hinar stríðandi þjóðir. Á styrjaldarárunum urðu þeir fyrir alls konar ofsóknum og biblíurit þeirra voru jafnvel bönnuð víða. Loks voru sumir forystubræður dæmdir og fangelsaðir fyrir rangar sakir. Þegar litið er um öxl er ekki vandséð að í vissum skilningi voru þjónar Guðs ekki frjálsir heldur í nokkurs konar ánauð. (Samanber Jóhannes 8:31, 32.) Andleg sjón þeirra var verulega óskýr. (Efesusbréfið 1:16-18) Þeir voru næsta mállausir hvað það varðaði að lofa Guð, þannig að þeir báru ekki andlegan ávöxt. (Jesaja 32:3, 4; Rómverjabréfið 14:11; Filippíbréfið 2:11) Sérðu hliðstæðuna við stöðu Gyðinga til forna í ánauðinni í Babýlon?
7, 8. Hvers konar endurreisn fengu leifar nútímans?
7 En ætlaði Guð að láta nútímaþjóna sína eiga sig þannig á sig komna? Nei, hann var staðráðinn í að endurreisa þá í samræmi við það sem spáð var fyrir munn Jesaja. Spádómurinn í 35. kafla Jesajabókar á sér því greinilega uppfyllingu á okkar tímum með því að leifar hins andlega Ísraels voru reistar við til heilsu og hagsældar í andlegri paradís. Í Hebreabréfinu 12:12 heimfærði Páll Jesaja 35:3 í táknrænum skilningi sem staðfestir að við getum heimfært þennan hluta spádóms Jesaja andlega.
8 Eftir stríðið var eins og smurðar leifar hins andlega Ísraels kæmu úr ánauð. Jehóva Guð notaði Jesú Krist, hinn meiri Kýrus, til að frelsa þá. Þannig gátu leifarnar snúið sér að endurreisnarstarfi, sambærilegu við starf Gyðinga til forna er sneru heim í land sitt til að endurbyggja hið bókstaflega musteri í Jerúsalem. Þessir andlegu Ísraelsmenn nútímans gátu enn fremur hafist handa við að rækta og byggja upp gróðursæla, andlega paradís, táknrænan Edengarð.
9. Hvernig hefur eitthvað líkt því sem Jesaja 35:1, 2, 5-7 lýsti þróast á okkar tímum ?
9 Lítum aftur á Jesaja 35. kafla með þetta í huga, og skoðum fyrst vers 1 og 2. Það sem virtist vera eins og þurrt land blómgaðist svo sannarlega og varð jafnfrjósamt og Saronvellir til forna. Lítum líka á vers 5 til 7. Skilningsaugu þessara andlegu Ísraelsmanna opnuðust, en sumir þeirra eru enn á lífi og virkir í þjónustu Jehóva. Þeir sáu nú betur þýðingu þess sem hafði gerst árið 1914 og þar á eftir. Það hefur líka haft áhrif á okkur öll sem mynda ‚múginn mikla‘ er þjónar með leifunum. — Opinberunarbókin 7:9.
Ert þú hluti af uppfyllingunni?
10, 11. (a) Hvernig tengist þú uppfyllingu Jesaja 35:5-7? (b) Hvað finnst þér um þessar breytingar?
10 Taktu sjálfan þig sem dæmi. Lastu Biblíuna að staðaldri áður en þú fórst að hafa félagsskap við votta Jehóva? Hafirðu gert það, hve mikið skildir þú? Núna veistu til dæmis sannleikann um ástand hinna dánu. Sennilega gætirðu bent áhugasömum á viðeigandi ritningargreinar í 2. kafla 1. Mósebókar, 9. kafla Prédikarans og 18. kafla Esekíelsbókar, auk margra annarra. Já, þú skilur líklega hvað Biblían kennir um fjölmörg viðfangsefni. Með öðrum orðum, þú skilur Biblíuna og getur útskýrt stóran hluta hennar fyrir öðrum eins og þú hefur vafalaust gert.
11 En við ættum öll að spyrja okkur: ‚Hvernig lærði ég allt sem ég veit um sannleika Biblíunnar? Hafði ég fundið alla áðurnefnda ritningarstaði áður en ég fór að nema með fólki Jehóva? Hafði ég skilið þá og komist að réttri niðurstöðu um þýðingu þeirra?‘ Hreinskilið svar við þessum spurningum er sennilega nei. Taktu það ekki illa upp þótt sagt sé að þú hafir eiginlega verið blindur á þessar ritningargreinar og merkingu þeirra. En er það ekki rétt? Þær stóðu í Biblíunni en annaðhvort sástu þær ekki eða skildir ekki þýðingu þeirra. Hvernig opnuðust þá augu þín andlega? Það var með því sem Jehóva hefur gert til að uppfylla Jesaja 35:5 á hinum smurðu leifum. Þú hefur síðan fengið augu þín opnuð. Þú ert ekki lengur í andlegu myrkri. Þú sérð. — Samanber Opinberunarbókina 3:17, 18.
12. (a) Af hverju getum við sagt að nú sé ekki tími kraftaverkalækninga? (b) Hvernig er bróðir F. W. Franz dæmi um það með hvaða hætti Jesaja 35:5 uppfyllist á okkar tímum?
12 Glöggir menn, sem hafa kynnt sér Biblíuna og viðskipti Guðs við mannkynið í aldanna rás, vita að núna er ekki tími bókstaflegra lækningakraftaverka. (1. Korintubréf 13:8-10) Við reiknum því ekki með að Jesús Kristur opni augu blindra til að sanna að hann sé Messías, spámaður Guðs. (Jóhannes 9:1-7, 30-33) Hann opnar ekki heldur eyru allra hinna daufu. Þegar Frederick W. Franz, sem var einn hinna smurðu og forseti Varðturnsfélagsins, nálgaðist tírætt var hann næstum blindur og þurfti að nota heyrnartæki. Um árabil gat hann ekki lesið sjálfur, en hverjum hefði dottið í hug að líta á hann sem blindan eða daufan í skilningi Jesaja 35:5? Hann hafði mjög skarpa andlega sjón sem var mikil blessun fyrir fólk Guðs um heim allan.
13. Hvaða umskipti eða endurreisn fengu nútímaþjónar Guðs að reyna?
13 Og hvað um tunguna? Smurðir þjónar Guðs voru kannski þögulir eða mállausir meðan þeir voru í andlegri ánauð. En þegar Guð sneri við högum þeirra tóku tungur þeirra að hrópa af gleði yfir því sem þeir vissu um stofnsett ríki Guðs og fyrirheit hans um framtíðina. Þeir hafa kannski líka átt þátt í að losa um tunguhaft þitt. Hve mikið talaðir þú við aðra um sannleika Biblíunnar hér áður fyrr? Kannski hugsaðirðu með þér þegar þú varst að nema: ‚Ég hef gaman af náminu en ég fer aldrei út að tala við ókunnuga.‘ En er það ekki staðreynd að „tunga hins mállausa“ ‚fagnar núna lofsyngjandi‘? — Jesaja 35:6.
14, 15. Hvernig hafa margir gengið ‚brautina helgu‘ á okkar tímum?
14 Gyðingar til forna, sem höfðu verið frelsaðir úr Babýlon, áttu langa ferð fyrir höndum heim í land sitt. Hverju samsvarar það á okkar tímum? Líttu á Jesaja 35:8: „Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga.“
15 Frá því að hinar smurðu leifar voru leystar úr andlegri ánauð hafa þær, nú í félagi við milljónir annarra sauða, farið úr Babýlon hinni miklu út á táknræna braut, hreina, helga braut sem liggur til andlegrar paradísar. Við gerum allt sem við getum til að vera hæfir til að vera áfram á þessari helgu braut. Líttu á sjálfan þig. Er ekki siðferði þitt og lífsreglur miklu betra núna en þegar þú varst í heiminum? Leggurðu þig ekki meira fram við að laga hugsun þína og hegðun að stöðlum Guðs? — Rómverjabréfið 8:12, 13; Efesusbréfið 4:22-24.
16. Hvers getum við notið er við göngum brautina helgu?
16 Og þegar þú heldur áfram ferð þinni eftir þessari helgu braut ertu í stórum dráttum laus við áhyggjur af dýrslegum mönnum. Í heiminum þarftu vissulega að vera á verði til að ágjarnt eða fjandsamlegt fólk gleypi þig ekki með húð og hári í táknrænum skilningi. Óhemjumargir eru gráðugir og grimmir í samskiptum við aðra. Hversu ólíkt er það ekki meðal fólks Guðs! Þú ert í vernduðu umhverfi. Trúbræður þínir og systur eru auðvitað ekki fullkomin; stundum gerir eitthvert þeirra mistök eða móðgar þig. En þú veist að þau eru ekki af ásettu ráði að reyna að valda þér tjóni eða rífa þig í sig. (Sálmur 57:5; Esekíel 22:25; Lúkas 20:45-47; Postulasagan 20:29; 2. Korintubréf 11:19, 20; Galatabréfið 5:15) Þau hafa áhuga á þér, þau hafa hjálpað þér og þau vilja þjóna með þér.
17, 18. Í hvaða skilningi er til paradís núna og hvaða áhrif hefur það á okkur?
17 Við getum því skoðað Jesaja 35. kafla og haft í huga núverandi uppfyllingu versanna 1 til 8. Er ekki ljóst að við höfum nú þegar fundið það sem er réttilega kallað andleg paradís? Hún er að vísu ekki fullkomin — ekki enn þá. En hún er paradís engu að síður, því að eins og vers 2 nefnir, sjáum við þar nú þegar „vegsemd [Jehóva] og prýði Guðs vors.“ Og hver eru áhrifin? Vers 10 segir: „Hinir endurkeyptu [Jehóva] skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.“ Við erum komin út úr fölskum trúarbrögðum og sönn tilbeiðsla okkar samhliða velþóknun Guðs er sannarlega gleðigjafi.
18 Og gleði okkar af völdum sannrar guðsdýrkunar fer vaxandi, er það ekki? Við sjáum nýja taka breytingum og ná fótfestu í sannleika Biblíunnar. Við sjáum börn vaxa úr grasi og taka andlegum framförum í söfnuðinum. Nýir skírast, meðal annars fólk sem við þekkjum. Er það ekki gleðiefni, ríkulegt gleðiefni nú á dögum? Jú, það er mikil gleði að sjá aðra sameinast okkur í andlegu frelsi okkar og paradís.
Önnur uppfylling framundan!
19. Hvaða von og eftirvæntingu fyllir 35. kafli Jesaja okkur?
19 Við höfum skoðað Jesaja 35. kafla með tilliti til fyrstu uppfyllingar spádómsins er Gyðingar sneru heim, og einnig andlegrar uppfyllingar sem á sér stað nú á dögum. En það er ekki allt og sumt. Það er miklu meira í vændum. Það tengist því að Biblían fullvissar okkur um að bókstafleg paradís verði endurreist á jörðinni í framtíðinni. — Sálmur 37:10, 11; Opinberunarbókin 21:4, 5.
20, 21. Hvers vegna er rökrétt og biblíulegt að álíta að Jesaja 35. kafli eigi eftir að uppfyllast enn einu sinni?
20 Jehóva væri ekki sjálfum sér samkvæmur að gefa svona lifandi lýsingar á paradís en takmarka uppfyllinguna við andlega paradís. Þar með er auðvitað ekki verið að segja að andlega uppfyllingin sé ekki þýðingarmikil. Jafnvel þótt komið væri á bókstaflegri paradís væri hún til lítils ef við værum í fögru umhverfi meðal friðsamra dýra en værum umkringd andlega spilltum mönnum sem hegðuðu sér eins og óargadýr. (Samanber Títusarbréfið 1:12.) Já, hið andlega verður að ganga fyrir því að það er mikilvægast.
21 En hin komandi paradís takmarkast ekki við hið andlega sem við njótum núna og munum njóta í enn ríkari mæli í framtíðinni. Við höfum fullt tilefni til að búast við bókstaflegri uppfyllingu spádóma svo sem Jesaja 35. kafla. Af hverju? Nú, við lesum í 65. kafla að Jesaja hafi spáð ‚nýjum himni og nýrri jörð.‘ Pétur postuli notaði þessi orð er hann lýsti því sem kemur á eftir degi Jehóva. (Jesaja 65:17; 2. Pétursbréf 3:10-13) Pétur gaf í skyn að þær aðstæður, sem Jesaja lýsti, myndu verða til í raun og veru þegar ‚ný jörð‘ verður að veruleika. Þar má nefna lýsingar sem þú kannast kannski við — að byggja hús og búa í þeim, planta víngarða og eta ávöxtu þeirra, njóta handaverka sinna um langan aldur, sjá úlfinn og lambið búa saman og sjá engan skaða gerðan um víða veröld. Með öðrum orðum, langlífi, örugg heimili, gnóttir matar, ánægjuleg störf og friður milli manna og dýra.
22, 23. Hvaða tilefni verður til að gleðjast er Jesaja 35. kafli uppfyllist í framtíðinni?
22 Fyllist þú ekki gleði yfir þessum framtíðarhorfum? Þú ættir að gera það því að Guð skapaði okkur til að lifa við slíkar aðstæður. (1. Mósebók 2:7-9) Hvað þýðir það þá í sambandi við spádóminn í Jesaja 35. kafla sem við erum að fjalla um? Það þýðir að við höfum enn ríkara tilefni til að gleðjast og fagna. Hin bókstaflega eyðimörk og þurra landið munu blómgast og auka gleði okkar. Þá mun bláeygt fólk og brúneygt eða fólk með einhvern annan fallegan augnlit, sem er blint núna, geta séð á ný. Heyrnarlausir trúbræður okkar og systur, og einnig þeir sem bara heyra illa, munu geta heyrt skýrt og greinilega. Hvílík gleði fyrir þau að geta notað þennan hæfileika til að heyra orð Guðs lesið og útskýrt, og til að hlusta á þytinn í laufi trjánna, barnshlátur og fuglasöng!
23 Það hefur einnig í för með sér að haltir, meðal annarra þeir sem þjást af liðagigt, geta hreyft sig sársaukalaust. Hvílíkur léttir! Þá munu bókstaflegar vatnslindir spretta upp og streyma um eyðimerkurnar. Við munum bæði sjá ólgandi vatnið og heyra lækjarniðinn. Við getum gengið þar um og snert grængresið og sefið. Paradís verður sannarlega endurreist. Hversu gaman verður ekki að geta umgengist ljón eða önnur slík dýr óttalaust? Það þarf ekki einu sinni að lýsa því nánar vegna þess að við höfum öll notið þess að láta okkur dreyma um slíkt.
24. Hvers vegna getur þú tekið undir orðin í Jesaja 35:10?
24 Jesaja fullvissar okkur: „Hinir endurkeyptu [Jehóva] skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim.“ Við höfum því sannarlega ástæðu til að gleðjast og fagna — yfir því sem Jehóva er nú þegar að gera fyrir fólk sitt í andlegri paradís okkar, og yfir því sem við getum vænst í hinni bókstaflegu paradís sem er svo nálæg. Jesaja skrifar um þá sem eru glaðir — um okkur: „Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.“ — Jesaja 35:10.
Tókstu eftir?
◻ Hvernig hefur 35. kafli Jesajabókar uppfyllst öðru sinni?
◻ Hvað samsvarar í andlegum skilningi þeim undraverðu breytingum sem Jesaja sagði fyrir?
◻ Hvernig hefur þú átt hlutdeild í uppfyllingu þessa spádóms?
◻ Af hverju getum við sagt að Jesaja 35. kafli fylli okkur von um framtíðina?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Raymond Street fangelsið í Brooklyn í New York þar sem sjö forystubræður voru í haldi í júní 1918.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Þótt bróðir Franz væri næstum blindur á efri æviárum hafði hann skarpa andlega sjón.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Andlegur vöxtur og framför eru gleðiefni.