4. hluti
Guð upplýsir okkur um tilgang sinn
1, 2. Hvernig vitum við að Guð veitir þeim svör sem spyrja í einlægni?
KÆRLEIKSRÍKUR Guð opinberar vissulega tilgang sinn einlægum mönnum sem leita Guðs. Hann veitir fróðleiksfúsum mönnum svör við spurningum eins og hvers vegna hann hafi leyft þjáningar.
2 Biblían segir: „Ef þú leitar [Guðs], mun hann gefa þér kost á að finna sig.“ „En sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti.“ „[Jehóva] Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ — 1. Kroníkubók 28:9; Daníel 2:28; Amos 3:7.
Hvar eru svörin?
3. Hvar getum við fundið út hvers vegna Guð leyfir þjáningar?
3 Svörin við spurningum eins og hvers vegna Guð leyfir þjáningar og hvað hann muni gera í því máli er að finna í þeirri bók sem hann innblés okkur til gagns. Sú bók er orð hans, Heilög ritning. „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
4, 5. Hvað gerir Biblíuna að einstakri bók?
4 Biblían er sannarlega einstök bók. Hún inniheldur nákvæmustu frásögnina af sögu mannkynsins og nær jafnvel aftur fyrir sköpun mannsins. Hún er líka nútímaleg af því að spádómar hennar koma inn á atburði okkar daga og einnig náinnar framtíðar.
5 Engin önnur bók hefur svo margt sér til stuðnings hvað varðar sögulega nákvæmni. Til dæmis eru til aðeins fáein handrit af fornklassískum bókmenntum. En af Biblíunni eru til mörg handrit, sum alveg heil en önnur slitrótt: um 6000 af Hebresku ritningunum (hinum 39 bókum „Gamlatestamentisins“) og um 13.000 af kristnu Grísku ritningunum (hinum 27 bókum „Nýjatestamentisins“).
6. Hvers vegna getum við verið viss um að Biblían sé í grundvallaratriðum eins núna og þegar Guð innblés hana?
6 Alvaldur Guð, sem innblés Biblíuna, hefur séð til þess að texti hennar hafi varðveist óbrenglaður í þessum handritaafritum. Biblían, sem við höfum núna, er þess vegna nær algerlega sú sama og upphaflegu innblásnu ritin. Annað atriði, sem hjálpar okkur að sjá þetta, er að sum afrit kristnu Grísku ritninganna eru innan við hundrað árum yngri en frumritin. Þau fáu handritaafrit, sem enn eru til af verkum veraldlegra rithöfunda til forna, eru flest skrifuð þó nokkrum öldum eftir dauða höfundanna.
Gjöf Guðs
7. Hversu útbreidd er Biblían?
7 Biblían er útbreiddasta bók mannkynssögunnar. Prentaðir hafa verið um þrír milljarðar eintaka. Engin önnur bók kemst nálægt þeirri tölu. Og Biblían í heild eða hlutar hennar hafa verið þýddir á um 2000 tungumál. Áætlað er að um 98 af hundraði jarðarbúa gætu haft aðgang að Biblíunni.
8-10. Nefndu einhverjar ástæður fyrir því að Biblían sé þess virði að við rannsökum hana.
8 Vissulega er sú bók, sem segist vera frá Guði og hefur allan innri og ytri vitnisburð þess að vera trúverðug, þess verð að við rannsökum hana.a Hún útskýrir tilgang lífsins, hvað heimsástandið þýðir og hvað framtíðin ber í skauti sér. Engin önnur bók getur gert það.
9 Já, í Biblíunni kemur Guð boðum sínum til mannanna. Hann stjórnaði ritun hennar með starfskrafti sínum eða anda, en skrásetninguna sjálfa önnuðust um 40 manns. Þannig talar Guð til okkar gegnum orð sitt, Heilaga ritningu. Páll postuli ritaði: „Þegar þér veittuð viðtöku því orði Guðs, sem vér boðuðum, þá tókuð þér ekki við því sem manna orði, heldur sem Guðs orði, — eins og það í sannleika er.“ — 1. Þessaloníkubréf 2:13.
10 Abraham Lincoln, sextándi forseti Bandaríkjanna, kallaði Biblíuna „bestu gjöfina sem Guð hefur nokkru sinni gefið manninum . . . Án hennar gætum við ekki greint rétt frá röngu.“ Nú, hvað segir þá þessi frábæra gjöf um það hvers vegna þjáningar hófust, hvers vegna Guð leyfði þær og hvað hann muni gera í málinu?
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar um trúverðugleika Biblíunnar er að finna í bókinni Er Biblían í raun og veru orð Guðs?, gefin út 1969 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Biblían, innblásin af Guði, inniheldur boðskap hans til mannanna.