Biblían — einstök bók
Hún hefur verið kölluð metsölubók heimsins og það með réttu. Biblían er mönnum kærari og meira lesin en nokkur önnur bók. Þegar þetta er skrifað er talið að henni hafi verið dreift (í heild eða að hluta) í fjórum milljörðum eintaka á meira en 2000 tungumálum.
En þótt útbreiðslan sé athyglisverð er sú staðhæfing Biblíunnar að Guð sé höfundur hennar miklu áhugaverðari. „Sérhver ritning er innblásin af Guði,“ skrifaði kristni postulinn Páll. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Hvað merkir það? Orðin „innblásin af Guði“ (á grísku þeoʹpneustos) merkja bókstaflega „Guð-andaður.“ Það er skylt gríska orðinu pneuʹma sem merkir „andi.“ Það er því staðhæft að heilagur andi Guðs hafi snortið mennska ritara, andað á þá ef svo má segja, þannig að ritverk þeirra gætu í sannleika kallast orð Guðs en ekki manna. Margir, sem hafa rannsakað Biblíuna, dást að heildarsamræmi hennar, vísindalegri nákvæmni, heiðarleika og hreinskilni ritaranna og síðast en ekki síst uppfylltum spádómum hennar — en allt þetta hefur sannfært milljónir íhugulla lesenda um að höfundur þessarar bókar sé ekki mennskur heldur manninum æðri.a
En hversu nákvæmlega stýrði Guð ritun Biblíunnar? Sumir segja að hann hafi lesið hana orðrétt fyrir. Aðrir segja að hann hafi einungis innblásið þær hugmyndir, sem koma fram í Biblíunni, ekki orðin. En innblástur getur ekki takmarkast við eina einstaka aðferð því að Guð talaði „með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna.“ (Hebreabréfið 1:1; samanber 1. Korintubréf 12:6.) Í greininni á eftir skoðum við hvernig Guð talaði til hér um bil 40 mennskra ritara sem færðu Biblíuna í letur.
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar er að finna á bls. 53-4 og 98-161 í bókinni Biblían — orð Guðs eða manna?, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.