Blessun Jehóva hún auðgar
„Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki.“ — MATTEUS 19:23.
1, 2. Hvaða andstæður er hægt að sjá milli auðlegðar af ólíku tagi?
HVERNIG yrði þér við ef einhver tilkynnti þér: „Þú ert orðinn ríkur“? Margir myndu vart ráða sér af kæti ef það þýddi að þeir væru auðugir af fé, landi eða munaðareignum. En leiddu hugann að því að vera auðugur frá þessum sjónarhóli: „Blessun Jehóva — það er hún sem auðgar og hann lætur enga kvöl fylgja henni.“ — Orðskviðirnir 10:22, NW.
2 Guð blessaði trúfesti hinna fornu ættfeðra og Ísraelsþjóðarinnar með velsæld. (1. Mósebók 13:2; 5. Mósebók 28:11, 12; Jobsbók 42:10-12) Salómon konungur var einn þeirra sem hlaut slíka blessun. Hann eignaðist gríðarleg auðæfi. Þó lærði hann af reynslunni að líf, sem snýst eingöngu um efnislegan auð, „var hégómi og eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 2:4-11; 1. Konungabók 3:11-13; 9:14, 28; 10:10) Þegar því Salómon skrifaði: „Blessun Jehóva — það er hún sem auðgar,“ hafði hann ekki efnislegan auð í huga. Hann var að segja þann sannleika að sá sem nýtur blessunar Guðs er óendanlega auðugri en sá sem ekki þjónar honum. Hvernig víkur því við?
3. Á hvaða vegu ert þú í sannleika auðugur ef þú nýtur blessunar Guðs?
3 Ef þú ert kristinn maður getur þú notið velþóknunar Jehóva núna og hlotið frá honum blessun svo sem guðlega visku. Þú getur eignast aðild að söfnuði kristinna manna líkum hamingjuríkri fjölskyldu sem hefur áhuga á þér, fólk sem treystir hvert öðru. Lög Guðs vernda þig fyrir fjölmörgum sjúkdómum og hættum. Þú hefur líka ástæðu til að vonast eftir vernd Guðs í gegnum ‚þrenginguna miklu‘ sem þetta illa heimskerfi á í vændum — og síðan endalausu lífi í jarðneskri paradís sem á eftir kemur. Njótir þú slíkrar blessunar og eigir þú slíkar framtíðarhorfur getur þú í sannleika sagt: „Ég er ríkur!“ — Matteus 24:21, 22.
4. Hvernig getur þú stofnað andlegri auðlegð þinni í hættu? (Opinberunarbókin 3:17, 18)
4 Önnur auðæfi — peningar eða efnislegur auður — geta samt sem áður stofnað í hættu þeim „auði“ þínum sem felst í blessun Jehóva. Fá okkar myndu að vísu viðurkenna fúslega að þau væru í þeirri hættu að láta fégirnd leiða sig á villigötur — óháð því hvort við byggjum við efnalegt öryggi eða hefðum litlu úr að spila. Við skulum samt muna eftir þessari aðvörun: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:10) Þetta var ritað á þeim tíma þegar allir kristnir menn voru smurðir anda Guðs til tákns um að þeir gætu orðið himneskir stjórnendur með Kristi. Líklega höfðu margir hitt í eigin persónu postula og aðra sem höfðu gengið með Jesú. Ef peningar gátu látið suma þeirra ‚villast,‘ hversu miklu meiri er þá hættan sem við erum í! — 2. Korintubréf 5:5; Rómverjabréfið 8:17, 23.
Ríki maðurinn og úlfaldinn
5. Hvernig leit Jesús á auðæfi?
5 Jesús vakti oft máls á þeirri hættu sem mönnum stafaði af fé og auði, því að sú hætta blasti við öllum, jafnt auðugum sem fátækum. (Matteus 6:24-32; Lúkas 6:24; 12:15-21) Við hvetjum þig til að gera sjálfsrannsókn með því að hugleiða það sem Jesús sagði við eitt tækifæri, eins og frá því er skýrt í Matteusi 19:16-24; Markúsi 10:17-30 og Lúkasi 18:18-30. Væri ekki ráð að staldra við eitt augnablik og lesa eina þessara frásagna eða allar?
6, 7. (a) Hvaða samtal átti sér stað milli Jesú og ungs manns? (b) Hvaða ráð gaf Jesús að þeim loknum?
6 Ungur höfðingi kom til Jesú og spurði: „Hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús vakti athygli hans á lögmálinu og benti þannig á að Jehóva hefði ekki látið vanta að segja mönnum hvað nauðsynlegt væri. Maðurinn svaraði að hann hefði haldið boð Guðs „frá æsku.“ Það var eins og hann stæði við dyr lífsins en skynjaði að hann vantaði enn þá eitthvað. Kannski hélt hann að einhver góðverk, einhver hetjudáð væri síðasta skrefið inn um dyrnar til eilífs lífs. Svar Jesú felur margt í sér: „Sel allt, sem þú átt, og skipt meðal fátækra, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér.“ Hvað gerðist? „En er hann heyrði þetta, varð hann hryggur við, enda auðugur mjög.“ Síðan fór hann. — Lúkas 18:18, 21-23; Markús 10:22.
7 Eftir þetta sagði Jesús: „Hve torvelt er þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ (Lúkas 18:24, 25) Áttu þessi heilræði erindi aðeins til þessa ríka höfðingja? Eiga þau líka við þig, hvort sem þú ert auðugur eða fátækur? Við skulum athuga það nánar.
8. (a) Við hvað má líkja þessum unga höfðingja? (b) Hvað var að hjá honum og hvers vegna ættum við að láta okkur það varða?
8 Það kann að hjálpa þér að skilja aðstöðu unga höfðingjans ef þú hugsar þér nútímahliðstæðu — hreinlífan, ungan kristinn mann með góða biblíuþekkingu, gott siðferði, kominn úr auðugri fjölskyldu. Þú gætir öfundað slíkan mann. En Jesús fann að eitt veigamikið atriði vantaði hjá þessum unga Gyðingi: Auður hans eða eignir voru honum of mikilvægar. Því gaf Jesús þau ráð sem raun ber vitni. Þú sérð því hvers vegna þessi frásögn Biblíunnar á erindi til okkar allra, bæði efnaðra og fátækra. Peningar og eignir gætu farið að skipta okkur of miklu máli, hvort heldur við eigum þá eða hreinlega langar til að eignast þá.
9. Hvernig vitum við að Jesús var ekki að fordæma auðlegð sem slíka?
9 Jesús var ekki að segja að efnaður maður gæti ekki þjónað Guði. Margir hafa gert það. Þessi ungi Gyðingur hafði gert það — að vissu marki. Þá er að nefna tollheimtumanninn Sakkeus sem var „auðugur.“ (Lúkas 19:2-10) Sumir smurðra kristinna manna á fyrstu öld voru í góðum efnum og var það því sérstök áskorun fyrir þá að vera „örlátir, fúsir að miðla öðrum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:17, 18; Jakobsbréfið 1:9, 10) Og til eru efnaðir kristnir menn nú á dögum. Þeir hafa oft gefið örlátlega til stuðnings starfi Guðsríkis, opnað heimili sín til að halda mætti þar samkomur og notað bifreiðar sínar í þjónustunni. Hvers vegna sagði Jesús þá það sem hann gerði um ríka manninn og úlfaldann? Hvað getum við lært af því?
10. Hvað getum við ályktað af heilræðum Jesú við þetta tækifæri?
10 Eins og þú gerir þér ljóst er það eitt að byrja að þjóna Guði en annað að reynast trúfastur allt til enda. (Matteus 24:13; Filippíbréfið 3:12-14) Jesús kann að hafa haft það í huga þegar hann sagði: „Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ (Markús 10:25) Úlfaldi gæti aldrei troðið sér í gegnum örsmátt nálarauga svo að Jesús var augljóslega að nota ýkjur sem ekki bar að taka bókstaflega. Þessi líking sýnir þó hversu erfitt það er fyrir ríkan mann að gera ákveðinn hlut. Hvað? Ekki aðeins að byrja að þjóna Guði heldur „að komast inn í Guðs ríki,“ að hljóta í raun eilíft líf. Hvernig sem þú stendur fjárhagslega geta ráð Jesú verið hjálpleg hugsun þinni, andlegum framförum og því að þú hljótir eilíft líf.
Hvers vegna er það svona erfitt fyrir hina ríku?
11. Hvaða áhrif hafði prédikun Jesú á jafnt fátæka sem auðuga?
11 Með prédikun Jesú og postulanna var ‚fátækum flutt fagnaðarerindi.‘ (Matteus 11:5) Þeim var þó ekki mismunað á kostnað hinna ríku. Samt sem áður virðast fleiri af hinum efnaminni hafa gert sér grein fyrir andlegri þörf sinni og tekið við boðskap vonarinnar. (Matteus 5:3, 6; 9:35, 36) Hinir efnameiri Gyðingar voru yfirleitt ánægðari með ástand mála. (Samanber Lúkas 6:20, 24, 25.) Þó voru til undantekningar þá og þær eru líka til núna. Sumt mjög efnað fólk tekur við boðskap Biblíunnar og þjónar Guði. Það getur átt stórkostlega framtíð í vændum. Svo var um Pál sem lét ekki stöðu sína í lífinu hindra sig. (Filippíbréfið 3:4-8) Samt sem áður sagði Jesús að það yrði erfiðara fyrir hina ríku.
„Tál auðæfanna“
12, 13. (a) Hvaða líkingu notaði Jesús í sambandi við áhyggjur? (b) Hvers vegna blasir önnur hindrun við þeim sem efnaðir eru?
12 Í dæmisögu sinni um sæðið sem féll í mismunandi jörð sagði Jesús að ‚sumt hafi fallið meðal þyrna, og þyrnarnir vaxið og kæft það.‘ Hann útskýrði þetta nánar: „Það er sáð var meðal þyrna, merkir þann, sem heyrir orðið, en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið, svo það ber engan ávöxt.“ (Matteus 13:7, 22) Nánast allir menn finna fyrir ‚áhyggjum heimsins‘ að einhverju marki. Auðséð er hvers vegna það er svo um mann sem býr við örbirgð, er atvinnulaus eða fatlaður. Sá sem býr við efnalegt öryggi hefur ekki sömu áhyggjumálin, en þó getur hann verið mjög áhyggjufullur út af áhrifum verðbólgu, skattabreytingum eða hættunni á þjófnaði. Jafnt auðugir sem fátækir geta því haft sínar áhyggjur. — Matteus 6:19-21.
13 Jesús sýndi fram á að „tál auðæfanna“ myndi verða sumum fjötur um fót. Velgengni í fjármálum getur hertekið manninn algerlega. Milljónamæringurinn Aristoteles Onassis sagði einu sinni: „Þegar vissu stigi er náð hætta peningarnir að skipta máli. Það sem þá skiptir máli er velgengni. Skynsamlegast væri fyrir mig að hætta núna. En ég get það ekki. Ég verð að halda áfram að setja markið hærra og hærra einungis af því það er spennandi.“ Kristnum manni gæti líka þótt spennandi að klífa virðingarstigann. Hann gæti látið tælast til að stækka og efla fyrirtæki sitt og viðskiptasambönd löngu eftir að hann hefur náð því sem hann hefði fyrr á ævinni talið „nóg.“ Í stað þess að minnka við sig vinnu (eða draga sig í hlé), til að geta orðið þjónn orðsins í fullu starfi, ‚rífur hann hlöður sínar [eða íbúðarhús] og reisir aðrar stærri.‘ (Sjá Lúkas 12:15-21.) Gæti það komið fyrir þig? Heldur þú að Guð myndi dæma nokkurn í þeirri aðstöðu svo að hann þjónaði honum af allri sálu? — Matteus 22:37.
14. Hvernig má lýsa því með hvaða hætti auður gæti verið kristnum manni hindrun? (Orðskviðirnir 28:20)
14 Auður (eða sú ástríða að eignast hann) getur á ýmsa aðra vegu hindrað kristinn mann í að „öðlast eilíft líf.“ Einn er sá að fégirnd getur komið honum til að taka upp veraldlegar aðferðir, svo sem að telja rangt fram til skatts eða beita öðrum óheiðarlegum en algengum brögðum. Ef hann ræður til sín í vinnu kristna bræður sína, sem eru heiðarlegir og iðjusamir, gæti hann sett eigin ávinning ofar andlegu hugarfari þeirra. Til dæmis gæti hann, í því skyni að festa þá í starfi, hvatt þá til að temja sér dýrari lífshætti (eða jafnvel að stofna til skulda til að eignast einhvern munað). Og úr því að hann er yfirmaður þeirra gæti það samband að einhverju marki haft áhrif innan safnaðarins.
15. Hvernig kunna sumir hinna frumkristnu að hafa fundið fyrir skaðlegum áhrifum auðæfa? (Sálmur 73:3-8, 12, 27, 28)
15 Vera má að sumir auðugir kristnir menn hafi á fyrstu öld orðið ‚táli auðæfanna‘ að bráð. Jakob talaði um ‚þau bágindi sem myndu koma yfir auðmennina.‘ Þeir áttu dýr föt, höfðu rakað að sér gulli og silfri með því að undirborga starfsmönnum sínum og fitað sig í óhófi. (Jakobsbréfið 5:1-5) Svipað er ástatt nú á dögum. Auður og efni leyfa oft manni að temja sér matar- og drykkjarvenjur sem geta verið skaðlegar heilsu hans. Þau geta líka stuðlað að stöðugum ferðalögum sem gera hann viðskila við heimasöfnuð sinn. Með þessu er ekki verið að segja að falleg og vönduð föt, skartgripir, matur og ferðalög séu í sjálfu sér skaðleg. Hins vegar var ‚auðmönnunum,‘ sem Jakob skrifaði um, ekkert gagn af slíku. Óandlegt hugarfar þeirra og staða frammi fyrir Guði var þeim tilefni til að ‚gráta og kveina‘ yfir þeim bágindum sem yfir þá myndu koma.
16. Hvers vegna gaf Jesús svona afdráttarlausar leiðbeiningar í sambandi við auðæfi og hvers ættir þú að spyrja þig?
16 Jesús vissi um þær þjáningar og hindranir í vegi andlegs hugarfars sem hinir auðugu eiga oft við að glíma. Hann vissi líka að verðmæti geta grotnað niður bókstaflega eða orðið verðlaus sem aldrei mun koma fyrir kristinn auð. (Orðskviðirnir 11:28; Markús 10:29, 30) Jesús var því að gefa okkur öllum þarfa áminningu þegar hann sagði: „Hve torvelt er þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki.“ (Lúkas 18:24) Aðvörun hans getur orðið okkur að gagni jafnvel þótt við búum við mjög takmörkuð efni. Hvernig þá? Með því að kæfa sérhverja löngun í auð og efni sem við kunnum að bera í brjósti. Kristnir menn trúa að Jesús hafi talað sannleika. Við trúum og lifum eftir því sem Jesús sagði um föður sinn, um endalok þessa heimskerfis og um það að rækta kærleika. Jesús sagði líka: „Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ (Matteus 19:24) Trúir þú því í reynd? Bera verk þín, lífshættir og viðhorf vitni um að svo sé?
Haltu áfram að vera ríkur — Guði að skapi
17. Hvernig leggja margir kristnir menn grundvöll að því að Jehóva geti auðgað þá?
17 Hvert sem litið er í heiminum er augljóst að yfirgnæfandi meirihluti þjóna Guðs tekur til sín heilræði svo sem þau er standa í Matteusi 19:16-24. Fjöldi kristinna ungmenna einsetur sér að jafnskjótt og þau ljúki eðlilegu, almennu námi ætli þau að leggja fyrir sig þjónustu í fullu starfi. Húsmæður, sem gætu unnið utan heimilis til að auka tekjur fjölskyldunnar, verja þess í stað auknum tíma til kristinna athafna, og gera þar með bæði sjálfar sig og aðra auðugari andlega. Jafnvel karlmenn, sem bera þá biblíulega ábyrgð að sjá fyrir fjölskyldu sinni, finna leiðir til að eiga aukinn þátt í þjónustunni.
18, 19. Hvaða skref hafa sumir stigið sem hafa leitað blessunar Jehóva?
18 Hálffertugur öldungur viðurkennir: „Það að vera þjónn orðsins í fullu starfi voru alltaf bara orð sem hrutu af vörum mér.“ Árstekjur hans numu meira en einni milljón króna auk þess sem hann hafði kostnaðarreikning er vinnuveitandi greiddi og afnot af bifreið í eigu fyrirtækis. Árið 1983 var hann beðinn að flytja á móti ræðu sem hét: „Að setja sér viðeigandi markmið og ná þeim.“ Hann viðurkennir: „Þegar ég las yfir efnið fór ég hjá mér og skammaðist mín svo að samviskan var hreinlega að drepa mig.“ Áður en að mótinu kom ræddu þau hjónin málið saman. Bráðlega fékk hann sér vinnu hluta úr degi og gekk í lið með konu sinni sem brautryðjandi. Þau eru enn brautryðjendur og njóta margra andlegra blessana.
19 Aðrir hafa flust frá svæðum þar sem nóg er af öllu í efnislegu tilliti til staða þar sem þeir geta aukið andlegt starf sitt. Kanadísk hjón skrifuðu um brautryðjandastarf sitt í landi í rómönsku Ameríku: „Enda þótt hér sé mikil fátækt meðal bræðranna búa þeir yfir stórkostlegri kostgæfni gagnvart sannleikanum. Þeir eru kannski fátækir á veraldlega vísu en andlega eru þeir milljónamæringar. Við höfum 38 boðbera og þar af eru 10 reglulegir brautryðjendur. Halda þarf tvískiptar samkomur því að aðsóknin er svo mikil — að meðatali frá 110 til 140. Tveir öldungar og þrír safnaðarþjónar verða að annast allar þessar samkomur. Við erum að læra upp á nýtt af okkar lítillátu bræðrum hér hvað það þýðir í raun að láta Jehóva ganga fyrir í lífi okkar. Þeir sýna okkur að hægt er að þjóna Jehóva af allri sálu óháð kringumstæðum.“
20. Hvernig ættum við innst inni að hugsa um efnislegan auð?
20 Slíkir kristnir menn hafa enga gilda ástæðu til að öfunda þá sem auðugir eru, hvort heldur utan eða innan safnaðarins, eða vera uppteknir af efnislegum metnaðarmálum. Þeir gera sér ljóst að einhverra peninga er þörf til að lifa eðlilegu lífi, en þeim er líka ljóst að Jesús sagði sannleikann — hinir efnuðu standa andspænis fjölmörgum hindrunum, áskorunum og hættum. (Prédikarinn 5:3; 7:12) Ein þeirra er að „hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:17.
21. Hvert er hlutskipti þeirra sem sækjast eftir andlegum auði?
21 Því miður tók ungi höfðinginn, sem talaði við Jesú, ekki þeirri áskorun sem við honum blasti. Aðrir honum líkir hafa þjónað Guði um tíma en síðar mátt þola sársauka og andlegt þrot tengd auði sínum. Ólíkar þeim eru þær milljónir drottinhollra kristinna manna sem halda áfram að sýna fram á að ‚það er blessun Jehóva sem auðgar og að hann lætur enga kvöl fylgja henni.‘ (Orðskviðirnir 10:22) Líf þeirra hefur gildi; þeir hafa verðug markmið og finna að þeir áorka einhverju. Hin góðu verk þeirra munu vara að eilífu og veita þeim innilega gleði bæði nú og í framtíðinni. Við skulum öll kappkosta að vera auðug á þennan veg. — Filippíbréfið 4:1; 1. Þessaloníkubréf 2:19, 20.
Til íhugunar
◻ Hvers konar auð er átt við í Orðskviðunum 10:22?
◻ Hvað átti Jesús við með orðum sínum um ríka manninn og úlfaldann?
◻ Hvers vegna er lífið oft erfitt þeim sem auðugir eru?
◻ Hvernig getum við kappkostað að vera rík Guði að skapi?
[Rammi]
Auður og fjölskylda
ÞEGAR hugsanleg áhrif auðæfa eru hugleidd má ekki gleyma fjölskyldunni. Íhugaðu þetta:
Frá Kanada berst þessi umsögn sálfræðinga sem hafa rannsakað börn hinna stórríku: „Þau eru leið á lífinu. Þau hafa engin önnur markmið en að þóknast sjáfum sér og þola ekki einu sinni smæstu vonbrigði. Þau þekkja fáar geðshræringar af nokkru tagi. Þau sækjast helst eftir því að kaupa hluti, ferðast og leita að einhverju nýju sem þeim þykir spennandi.“
Dagblaðið The New York Times sagði um fyrrverandi milljónamæring: „Eftir því sem velgengni hans í viðskiptum jókst og hann auðgaðist sá hann fjölskyldu sína breytast. ‚Kona mín og dætur fóru að meta fólk eftir peningunum sem það átti, og ef ég gaf annarri dótturinni 300.000 dollara (12 milljónir króna) hús varð ég að gefa hinni 300.000 dollara í reiðufé.‘“ Eftir að hafa fengið hjartaáfall „auk þess að sjá hvað auðurinn hafði gert fyrir konu hans og börn“ breytti hann um lífsstíl.
Arnold Hottinger segir um land í Miðausturlöndum sem er auðugt af olíu: ‚Auður sem sjúklegt ástand er líka kunnuglegt þeim mörgu erlendu læknum sem koma hingað til að þéna vel. Þeir segja að hvergi séu geðvefrænir kvillar jafnalgengir og hér — kvillar sem valda raunverulegum þjáningum en eiga sér ekki neinar sýnilegar, líkamlegar orsakir. Þeir segja að þar sé ungt fólk sem ber öll merki þess að vera aldrað, og aldrað fólk sem hegðar sér eins og unglingar.‘