Bænum þurfa að fylgja verk
„[Jehóva] er fjarlægur óguðlegum, en bæn réttlátra heyrir hann.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 15:29.
1. Hvaða skilyrði þarf að fullnægja til að Guð svari bænum okkar?
ALLAR kröfur Jehóva eru viturlegar, réttlátar og kærleiksríkar. Þær eru aldrei íþyngjandi. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Þar með eru einnig taldar kröfur hans í sambandi við bænina, en ein er sú að við lifum í samræmi við bænir okkar. Hátterni okkar verður að vera þóknanlegt Jehóva Guði. Hvernig gætum við ella ætlast til að hann heyri bænir okkar og áköll með velþóknun?
2, 3. Hvers vegna svaraði Jehóva ekki bænum Ísraelsmanna, eins og sjá má af orðum Jesaja, Jeremía og Míka?
2 Stærstur hluti kristna heimsins lætur sér yfirsjást þennan þátt bænarinnar, alveg eins og trúvilltir Ísraelsmenn á dögum Jesaja. Þess vegna lét Jehóva spámann sinn segja: „Þótt þér biðjið mörgum bænum, þá heyri ég ekki. . . . Þvoið yður, hreinsið yður. Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt, lærið gott að gjöra!“ (Jesaja 1:15-17) Ef þessir Ísraelsmenn vildu njóta velvildar Guðs urðu þeir að hegða sér með þeim hætti sem var honum þóknanlegur. Sagt hefur verið: „Ef þú vilt að Guð hlusti á þig þegar þú biður, þá verður þú að hlusta á hann þegar hann talar.“
3 Jehóva taldi nauðsynlegt að minna þjóð sína Ísrael aftur og aftur á þessi sannindi. Því lesum við: „Sá sem snýr eyra sínu frá til þess að heyra ekki lögmálið, — jafnvel bæn hans er andstyggð“ Guði. „[Jehóva] er fjarlægur óguðlegum, en bæn réttlátra heyrir hann.“ (Orðskviðirnir 28:9; 15:29) Sökum þess hvernig komið var sagði Jeremía harmandi: „Þú [Jehóva] hefir hulið þig í skýi, svo að engin bæn kemst í gegn.“ (Harmljóðin 3:44) Sú aðvörun, sem Míka var blásið í brjóst að veita, rættist: „Þá munu þeir hrópa til [Jehóva], en hann mun ekki svara þeim, og hann mun byrgja auglit sitt fyrir þeim, þegar sá tími kemur, af því að þeir hafa ill verk í frammi haft.“ — Míka 3:4; Orðskviðirnir 1:28-32.
4. Hvað bendir til að jafnvel meðal þjóna Jehóva geri sumir sér ekki grein fyrir að þeir þurfi að lifa í samræmi við bænir sínar?
4 Það er því nauðsynlegt að lifa í samræmi við bænir okkar. Er ástæða til að ítreka það enn þann dag í dag? Já, svo sannarlega, ekki aðeins vegna þess ástands sem ríkir í kristna heiminum, heldur líka vegna þess hvernig komið er fyrir sumum af vígðum þjónum Jehóva. Ríflega 37.000 af meira en þrem milljónum boðbera fagnaðarerindisins árið 1986 var vikið úr söfnuðinum fyrir ókristilega hegðun. Það svarar til eins af hverjum 80. Trúlega hafa flestir þessara einstaklinga beðið af og til. En breyttu þeir í samræmi við bænir sínar? Hvergi nærri! Jafnvel sumir öldungar, sem hafa verið í fullri þjónustu á akrinum svo áratugum skiptir, hafa þurft að fá ögun með einum eða öðrum hætti. Það er hryggilegt! Svo sannarlega ætti ‚sá er hyggst standa að gæta vel að sé, að hann falli ekki,‘ að hann hegði sér ekki þannig að skapari hans geti ekki meðtekið bænir hans. — 1. Korintubréf 10:12.
Hvers vegna verk þurfa að fylgja bænum
5. Hvernig verðum við að sanna að bænir okkar séu einlægar til að Jehóva geti svarað þeim?
5 Til að Jehóva Guð heyri bænir okkar verðum við bæði að vera siðferðilega og andlega hrein, auk þess að sýna í verki að bænir okkar séu einlægar með því að vinna að því sem við biðjum um. Bænin ein sér getur ekki komið í stað heiðarlegrar viðleitni. Jehóva gerir ekki fyrir okkur það sem við getum gert sjálf með því að fylgja í einlægni ráðunum í orði hans og leiðsögn heilags anda. Við ættum að vera fús til að gera allt sem við getum í þessu efni, til að hann hafi grundvöll til að svara bænum okkar. Við ættum því ekki ‚að biðja um meira en við erum fús til að leggja á okkur,‘ eins og einhver komst að orði.
6. Af hvaða tveim ástæðum ættum við að biðja?
6 Einhver spyr kannski hvers vegna við þurfum að biðja ef við eigum svo að vinna að því sem við biðjum um. Fyrir því eru að minnsta kosti tvær góðar ástæður. Í fyrsta lagi viðurkennum við með bænum okkar að allt sem gott er kemur frá Guði. Hann er gjafari hverrar góðrar og fullkominnar gjafar — sólarljóssins, regnsins, frjósamra árstíða og margs annars! (Matteus 5:45; Postulasagan 14:16, 17; Jakobsbréfið 1:17) Í öðru lagi er það háð blessun Jehóva hvort viðleitni okkar ber árangur eða ekki. Við lesum í Sálmi 127:1: „Ef [Jehóva] byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef [Jehóva] verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis. “ Páll postuli kemur sömu hugmynd á framfæri í 1. Korintubréfi 3:6, 7: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn. Þannig er þá hvorki sá neitt, sem gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur.“
Dæmi úr fortíðinni
7, 8. (a) Hvaða atvik í lífi Jakobs sýnir að hann gerði sér grein fyrir að bæn þurfi að fylgja verk? (b) Hvaða fordæmi gaf Davíð konungur í þessu efni?
7 Ritningin greinir frá mörgum dæmum þess að trúfastir þjónar Jehóva hafi unnið að því sem þeir báðu um. Við skulum líta á fáein þeirra. Sökum þess að Jakob, sonarsonur Abrahams, náði til sín frumburðarréttinum bar Esaú, eldri bróðir hans, morðhug til hans. (1. Mósebók 27:41) Um 20 árum síðar, þegar Jakob var á heimleið frá Paddan-Aram til fæðingarlands síns ásamt stórri fjölskyldu og miklum búpeningi, frétti hann að Esaú væri lagður af stað til móts við hann. Jakob minntist fjandskapar Esaús og bað Jehóva ákaft um vernd gegn reiði bróður síns. En lét hann þar við sitja? Nei, hann sendi bróður sínum rausnarlega gjöf því að hann hugsaði sem svo: „Ég ætla að blíðka hann með gjöfinni, sem fer á undan mér.“ Sú varð líka raunin, því að bræðurnir féllu í faðma og kysstust þegar þeir hittust. — 1. Mósebók 32. og 33. kafli.
8 Davíð er okkur annað dæmi um það að vinna að því sem við biðjum um. Þegar Absalon, sonur hans, sölsaði undir sig hásætið gekk Akítófel, ráðgjafi Davíðs, í lið með Absalon. Davíð bað þess innilega að ráð Akítófels mættu misheppnast. En lét Davíð nægja að biðja um það? Nei, hann bauð trúum ráðgjafa sínum Húsaí að fara til Absalons til að hann gæti ónýtt ráð Akítófels. Bragð hans heppnaðist. Absalon fylgdi slæmum ráðum Húsaís og hafnaði ráðum Akítófels. — 2. Samúelsbók 15:31-37; 17:1-14; 18:6-8.
9. Hvernig sýndi Nehemía að hann gerði sér ljóst að bæn þyrfti að haldast í hendur við verk?
9 Fordæmi Nehemía getur einnig verið okkur til hvatningar og áminningar. Hann bar ábyrgð á stóru og erfiðu verkefni — að endurreisa múra Jerúsalem. En margir óvinir höfðu tekið höndum saman gegn honum. Nehemía bæði bað og vann eins og við lesum: „En vér gjörðum bæn vora til Guðs vors og setum vörð gegn þeim bæði dag og nótt af ótta fyrir þeim.“ Þaðan í frá stóð helmingur ungu mannanna vörð til að vernda hinn helminginn, þá sem unnu að múrhleðslunni. — Nehemía 4:9, 16.
Fordæmi Jesú
10, 11. Hvaða dæmi sýna að Jesús breytti í samræmi við bænir sínar?
10 Jesús Kristur gaf okkur gott fordæmi um að vinna að því sem við biðjum um. Hann kenndi okkur að biðja: „Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9) En Jesús gerði líka allt sem hann gat til að áheyrendur hans mættu helga nafn föður hans. Jesús lét sér ekki nægja að biðja: „Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!“ (Jóhannes 12:28) Hann gerði allt sem hann gat til að gera nafn föður síns dýrlegt og koma öðrum til að gera það líka. — Lúkas 5:23-26; 17:12-15; Jóhannes 17:4.
11 Jesús gerði sér grein fyrir hinni miklu andlegu þörf fólks og sagði lærisveinum sínum: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar [Jehóva Guð] að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Matteus 9:37, 38) Lét Jesús þar við sitja? Hvergi nærri! Strax eftir þetta sendi hann út tólf postula sína, tvo og tvo saman, til að prédika eða ‚skera upp.‘ Síðar sendi hann út 70 kristniboða í sama tilgangi. — Matteus 10:1-10; Lúkas 10:1-9.
Meginreglunni fylgt
12. Hvaða tengsl eru milli verka og þess að Guð gefi okkur daglegt brauð?
12 Greinilegt er að Jehóva Guð ætlast til þess að við séum sjálfum okkur samkvæm, að við breytum í samræmi við bænir okkar og sönnum þar með að við séum einlæg. Jesús sagði okkur að biðja: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ (Matteus 6:11) Það er því rétt af öllum fylgjendum hans að biðja Guð um það. En við ætlumst ekki til að himneskur faðir okkar svari þeirri bæn án þess að við gerum nokkuð til að afla okkur viðurværis. Þess vegna lesum við: „Sál letingjans girnist“ — og ef til vill biður hann — „og fær ekki.“ (Orðskviðirnir 13:4) Páll postuli lagði áherslu á sama atriði í 2. Þessaloníkubréfi 3:10. Hann sagði: „Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki mat að fá.“ Bænir okkar um daglegt brauð verða að vera samfara vilja til að vinna. Páll sagði að sá sem ‚vildi ekki vinna‘ ætti ekki heldur að fá mat. Sumir vilja vinna en eru atvinnulausir, veikir eða of gamlir til að stunda vinnu. Þeir vilja gjarnan vinna en geta það ekki. Þeir geta því með góðri samvisku beðið um daglegt brauð í von um að fá það.
13. Hvað verðum við að gera til að Jehóva svari bænum okkar um heilagan anda?
13 Jesús ráðlagði okkur líka að biðja himneskan föður sinn um heilagan anda. Hann fullvissaði okkur um að Guð væri enn fúsari til að gefa okkur heilagan anda en jarðneskir feður að gefa börnum sínum góðar gjafir. (Lúkas 11:13) En getum við ætlast til að Guð gefi okkur heilagan anda sinn fyrir eitthvert kraftaverk, án þess að við leggjum okkur nokkuð fram sjálf? Alls ekki! Við verðum að gera allt sem við getum til að fá heilagan anda. Auk þess að biðja um hann þurfum við að nærast af orði Guðs með því að nema það. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva Guð gefur ekki heilagan anda sinn nema í tengslum við orð sitt, og við getum ekki reiknað með að fá heilagan anda ef við virðum að vettugi hina jarðnesku miðlunarleið sem Jehóva notar nú á dögum, ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ sem hið stjórnandi ráð votta Jehóva er málsvari fyrir. Án hjálpar þessa ‚þjóns‘ er okkur annaðhvort ókleift að skilja til fullnustu það sem við lesum eða þá hvernig ber að heimfæra það. — Matteus 24:45-47.
14, 15. (a) Hvað verðum við sjálf að gera ef við viljum að Jehóva gefi okkur visku til svars við bænum okkar? (b) Hvernig sýnir fordæmi Salómons konungs fram á það?
14 Sú meginregla að verk þurfi að fylgja bænum á einnig við þessi orð lærisveinsins Jakobs, hálfbróður Jesú: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.“ (Jakobsbréfið 1:5; Matteus 13:55) En gefur Guð okkur þessa visku með einhverju kraftaverki? Nei, í fyrsta lagi verðum við að hafa rétt viðhorf eins og við lesum: „Hann . . . kennir hinum þjökuðu [auðmjúku, NW] veg sinn.“ (Sálmur 25:9) Og hvernig kennir Guð ‚hinum auðmjúku‘? Í gegnum orð sitt. Við verðum því að leggja okkur fram um að skilja það og heimfæra eins og skilja má af Orðskviðunum 2:1-6: „Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri . . . þá munt þú skilja, hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði. Því að [Jehóva] veitir speki.“
15 Þegar Salómon konungur bað um visku og Guð svaraði bæn hans með kraftaverki, átti þá sú meginregla að bænum þurfi að fylgja verk við í því tilfelli? Já, því að sem konungur Ísraels átti Salómon að gera sér afrit af lögmálinu, lesa í því daglega og fylgja í lífi sínu. Þegar Salómon breytti gegn fyrirmælum lögmálsins, svo sem með því að taka sér margar konur og eignast fjölmarga hesta, hættu verk hans að vera í samræmi við bænir hans. Af því leiddi að Salómon gerði fráhvarf frá trúnni og dó sem slíkur ‚heimskingi.‘ — Sálmur 14:1; 5. Mósebók 17:16-20; 1. Konungabók 10:26; 11:3, 4, 11.
16. Hvaða dæmi sýnir að bænir okkar um að yfirvinna veikleika holdsins verða að haldast í hendur við verk?
16 Sú meginregla að verk þurfi að fylgja bænum á líka við þegar við biðjum Guð um hjálp til að sigrast á rótgrónum, eigingjörnum ávana. Brautryðjandasystir játaði að hún hefði verið þræll framhaldsþátta í sjónvarpi sem hún horfði á frá klukkan ellefu að morgni til klukkan hálf fjögur dag hvern. Þegar fram kom í mótsræðu hve skaðlegt þetta siðlausa sjónvarpsefni væri lagði hún málið fyrir Jehóva í bæn. En það tók hana talsverðan tíma að sigrast á ávana sínum. Hvers vegna? Hún segir: ‚Ég bað Guð um að hjálpa mér að sigrast á þessum ávana og svo horfði ég á sjónvarpið eins og ég var vön. Því ákvað ég að vera úti í þjónustunni á akrinum allan daginn til að ég freistaðist ekki til þess. Að lokum náði ég þeim árangri að geta látið vera slökkt á sjónvarpstækinu allan daginn.“ Já, auk þess að biðja um hjálp til að sigrast á veikleika sínum varð hún að vinna að því.
Bæn og boðunarstarf
17-19. (a) Hvað sýnir að vottar Jehóva hafa breytt í samræmi við bænir sínar? (b) Hvaða annað dæmi undirstrikar það?
17 Hvergi birtist meginreglan um að verk þurfi að fylgja bæninni betur en í sambandi við prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki. Vottar Jehóva láta sér því ekki nægja að biðja um fleiri verkamenn til uppskerunnar; þeir leggja sig sjálfir fram í því starfi. Af því leiðir að þeir hafa séð stórkostlegan vöxt hvarvetna í heiminum. Lítum á aðeins eitt dæmi: Árið 1930 var aðeins einn vottur Jehóva sem prédikaði í Chíle. Núna er þessi eini vottur ekki orðinn aðeins að þúsund heldur að um 30.000. (Jesaja 60:22) Var það aðeins bæn sem gaf þann vöxt? Nei, það var líka unnið að honum. Árið 1986 vörðu vottar Jehóva í Chíle ríflega 6.492.000 klukkustundum til prédikunarstarfsins!
18 Hið sama er uppi á teningnum þegar prédikunarstarfið er bannað. Vottarnir láta sér ekki nægja að biðja um aukningu heldur starfa auk þess með leynd. Þrátt fyrir andstöðu af hálfu yfirvalda er því einnig aukning í þessum löndum. Í 33 löndum, þar sem stjórnvöld setja starfi votta Jehóva skorður, var varið árið 1986 yfir 32.600.000 klukkustundum til prédikunarstarfs og vöxturinn nam 4,6 af hundraði!
19 Að sjálfsögðu á sú meginregla að verk þurfi að fylgja bæn við okkur sem einstaklinga. Við gætum beðið Jehóva um að gefa okkur biblíunám en ekki gert allt sem við getum til að fá það. Sú var reynsla eins brautryðjanda. Umrædd systir hafði aðeins eitt biblíunám og bað um að fá fleiri. En lét hún þar við sitja? Nei, hún leit gagnrýnu auga á þjónustu sína og komst að raun um að þegar hún fór í endurheimsóknir vakti hún ekki máls á því að fólk gæti fengið hjálp við að nema Biblíuna. Hún tók sér tak í því efni og innan tíðar hafði hún fengið tvö biblíunám í viðbót.
20. Hvernig má draga saman í hnotskurn að bæn þarf að haldast í hendur við verk?
20 Nefna mætti mörg fleiri dæmi því til stuðnings að verk þurfi að fylgja bænum okkar. Til dæmis mætti nefna þau sem lúta að sambandi okkar innan fjölskyldunnar eða safnaðarins. En þau sem hér hafa verið tíunduð ættu að nægja til að gera hverjum manni fullljóst að bænir þurfa að haldast í hendur við verk. Það er fyllilega rökrétt því að við getum ekki ætlast til að Jehóva hlýði með velvild á bænir okkar ef við móðgum hann með hátterni okkar. Það segir sig líka sjálft að við verðum að gera allt sem við getum til að breyta í samræmi við bænir okkar, ef við ætlumst til að Jehóva geri fyrir okkur það sem við getum ekki gert sjálf. Meginreglur Jehóva eru sannarlega vitrar og réttvísar. Þær eru skynsamlegar og það er okkur til góðs að lifa eftir þeim.
Samantekt
◻ Hvaða kröfu í sambandi við bænina létu margir í Forn-Ísrael sér yfirsjást?
◻ Hvers vegna er það ekki ósanngjarnt af Guði að krefjast þess að við vinnum að því sem við biðjum um?
◻ Hvaða dæmi úr fortíðinni sýna að þjónar Jehóva unnu að því sem þeir báðu um?
◻ Hvað verðum við að gera til að Guð svari bænum okkar um heilagan anda og visku?
◻ Hvernig á sú meginregla að bænum verði að fylgja verk við um þjónustuna á akrinum?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Jesús hvatti lærisveina sína til að biðja um fleiri verkamenn til uppskerunnar, en hann sendi þá líka út til að prédika eða ‚skera upp.‘
[Mynd á blaðsíðu 16]
Biður þú um hjálp til að bæta sjónvarpsvenjur þínar? Fylgdu þá þeirri meginreglu að bænir kalli á verk með því að slökkva á sjónvarpstækinu.