Tala þeir í raun og veru við hina dánu?
KNATTSPYRNULIÐ í Brasilíu leita stundum hjálpar andamiðla. Tilgangurinn er sá að fá góð ráð, þar eð þau óttast að mótherjar þeirra kunni að sigra. Að sögn dagblaðs „hefur tækifærið að eiga beinar samræður við hið yfirnáttúrlega í leit að lausn á alls kyns vandamálum, afarsterk áhrif á milljónir manna.“ Sums staðar í heiminum hafa hátt settir stjórnmálamenn, listamenn og kaupsýslumenn fyrir sið að leita ráða hjá öndunum. Margir reyna að komast í samband við hina dánu, sem taldir eru vita meira en hinir lifandi, í von um að geta fengið lækningu eða leyst fjárhagsörðugleika sína.
En er það rétt að reyna að tala við hina dánu? Er í raun einhver möguleiki á að gera það? Er einhver áhætta því samfara? Þér kann að koma á óvart hvað Biblían segir um það.
Þegar Sál fór til andamiðils
Íhugaðu frásögu Biblíunnar af eftirfarandi atviki: Sál, konungur í Forn-Ísrael, óttaðist óvini sína, Filista, og leitaði uppi andamiðil í Endór. Hann bað miðilinn, sem var kona, að hafa samband við hinn látna spámann Samúel. Þegar hann heyrði hana lýsa gömlum manni hjúpuðum skikkju, taldi hann víst að þar væri kominn Samúel. Og hver var boðskapur hans? Ísrael myndi falla í hendur Filista og næsta dag myndu Sál og synir hans vera hjá „Samúel.“ Það gaf til kynna að þeir myndu falla í bardaganum við Filista. (1. Samúelsbók 28:4-19) Urðu málalokin þau?
Ekki alveg. Sál særðist alvarlega í bardaga við Filista en féll fyrir eigin hendi. (1. Samúelsbók 31:1-4) Og ekki féllu allir synir Sáls með honum, eins og spáð hafði verið, heldur lifði Ísbóset föður sinn.
En var það rétt af Sál að leita til andamiðils? Nei, það var það ekki. Ritningin segir okkur: „Þannig lét Sál líf sitt sakir ótrúmennsku sinnar . . . og einnig sakir þess, að hann hafði gengið til frétta við vofu [andamiðil, NW].“ (1. Kroníkubók 10:13) Getum við dregið einhvern lærdóm af þessu? Já. Sál dó fyrir það að leita til andamiðils og biðja hann að ganga til frétta við framliðna. Hvers vegna? Vegna þess að með því óhlýðnaðist hann ótvíræðu lagaboði Guðs: „Eigi skal nokkur finnast hjá þér . . . sá er leiti frétta af framliðnum. Því að hver sá, er slíkt gjörir, er [Jehóva] andstyggilegur.“ (5. Mósebók 18:10-12) Hvers vegna er sá andstyggilegur í augum Guðs sem leitar frétta af framliðnum? Áður en við svörum þeirri spurningu skulum við spyrja:
Er það hægt?
Ef hægt á að vera að tala við hina dánu verða þeir að vera lifandi. Þeir verða að hafa ódauðlega sál. Þó segir Biblían: „Þá myndaði [Jehóva] Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ (1. Mósebók 2:7) Maðurinn sjálfur er því sál. Hann hefur ekki ódauðlega sál sem lifir áfram eftir líkamsdauðann. Ritningin segir jafnvel: „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ (Esekíel 18:4) Orð Guðs segir enn fremur: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt . . . í dánarheimum [sameiginlegri gröf mannkynsins] . . . er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ — Prédikarinn 9:5, 10.
Úr því að hinir dánu eru sér einskis meðvitandi fer því víðs fjarri að þeir séu upplýstari en hinir lifandi. Það er engin leið að tala við þá. Það að fara eftir lagaboði Guðs gegn því að leita frétta af hinum dánu er okkur því vernd gegn blekkingu. Þó geta borist ýmis boð úr andaheiminum eins og Sál konungur fékk að reyna.
Hvaðan eru þau komin?
Svo eitt sé nefnt eru svik og blekkingar algengar meðal þeirra sem þykjast ná sambandi við hina dánu. Uppsláttarritið The World Book Encyclopedia segir okkur: „Sýnt hefur verið fram á að andamiðlar beita brögðum á miðilsfundum til að telja fólki trú um að andar geti haft samband við hina lifandi. Vísindamenn bjóða fram skýringar á flestu því sem gerist á miðilsfundum. Til dæmis eru sumir andamiðlar búktalarar. Sumir hafa aðstoðarmenn og ýmiss konar búnað til að beita brögðum. Aðrir beita dáleiðslu. Margir, sem sækja miðilsfundi, hafa sterka löngun til að ná sambandi við látna ástvini. Þessi löngun getur komið þeim til að trúa að sérhver boðskapur, sem andamiðillinn flytur, komi frá andaheiminum.“
En ættum við að hugsa einungis eftir þessum nótum? Nei, því að höldum við bann Guðs gegn því að leita frétta af framliðnum er það okkur vernd á langtum mikilvægari veg. Ýmis boð berast frá andaheiminum, en þau eiga upptök sín hjá voldugum andaverum sem hafa það að markmiði að blekkja mannkynið. Biblían kallar þær „andaverur vonskunnar“ — Satan djöfulinn og óhlýðna engla sem nefndir eru illir andar. (Efesusbréfið 6:12) Þegar Sál konungur fór á fund andamiðilsins í Endór var það illur andi sem birtist í gervi hins látna spámanns Samúels.
Eins og kom fram í því tilviki hafa illu andarnir engan jákvæðan boðskap að færa og sú hjálp, sem menn hyggja að þeir veiti, er skammlíf. Þeir eru lygarar eins og höfðingi þeirra, djöfullinn. (Markús 3:22; Jóhannes 8:44) Sir Arthur Conan Doyle, sem lagði fyrir sig rannsóknir á dulrænum fyrirbærum, skrifaði: „Því miður verðum við að takast á við afdráttarlausa og kaldrifjaða lygi illra eða hrekkvísra vitsmunavera. Ég hygg að sérhver sá, sem hefur kannað málið, hafi séð dæmi um vísvitandi blekkingar sem stundum er ruglað saman við góð og sönn skilaboð.“ (The New Revelation, bls. 72) Að sjálfsögðu vilt þú ekki láta blekkja þig.
Sagan segir okkur frá þrælasölu og þjáningum sem henni voru samfara. Dytti nokkrum í hug að þiggja slíkar þjáningar og auðmýkingu af fúsum og frjálsum vilja? Auðvitað ekki. Hví skyldum við þá leyfa illum öndum að gera okkur að þrælum sínum? Bæði ljúga þeir að fólki, ræna það frelsi sínu og geta jafnvel komið því til að fremja ofbeldisverk og morð. Sem dæmi má nefna 29 ára gamlan Brasilíumann, José frá Pernambuco, sem sagði að ‚andi hefði komið í sig og neytt sig til að drepa ársgamla dóttur sína.‘ Afskipti af illum öndum geta haft slíka þrælkun í för með sér. Þeir sem eru núna þrælar illra anda ættu að vilja verða frjálsir undan oki þeirra, rétt eins og þrælar fortíðarinnar þráðu frelsi. Ein leið til að öðlast þetta frelsi er sú að leita ekki til andamiðla og reyna ekki að tala við hina dánu.
Er einhver þörf á að tala við hina dánu?
Nei, svo er ekki því að við eigum kost á hjálp. Eins og börn, sem treysta föður sínum, getum við óhindrað beðið okkar himneska föður um hjálp og hann fagnar því að leggja hjartahreinum lið. (Lúkas 11:9-13) Jesaja, spámaður Guðs, skrifaði: „Ef þeir segja við yður: Leitið frétta hjá þjónustuöndum og spásagnaröndum, sem hvískra og umla — á ekki fólk að leita frétta hjá Guði sínum? á að leita til hinna dauðu vegna hinna lifandi? ‚Leitið til kenningarinnar og vitnisburðarins!‘“ — Jesaja 8:19, 20, Ísl. bi. 1912.
Já, við höfum öruggan grundvöll til að treysta Jehóva Guði ef við gerum vilja hans og neitum að eiga nokkuð saman við illa anda að sælda. Kristni lærisveinninn Jakob skrifaði: „Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.“ (Jakobsbréið 4:7) Eftir að hafa numið Biblíuna með vottum Jehóva sagði maður sem hafði stundað spíritisma í 28 ár: „Óttastu aldrei hvað djöfullinn kunni að gera þeim sem snúa baki við spíritisma. Treystu heldur Jehóva Guði.“
Ef við fyllum hugann af sannleikanum í orði Guðs og breytum eftir honum getum við ‚klæðst andlegu alvæpni Guðs til að við getum staðist vélabrögð djöfulsins‘ og komist hjá því að verða þrælar illra andavera. (Efesusbréfið 6:11) Reglulegt bænasamband við Jehóva mun einnig vera okkur öflug vernd gegn ásókn illra anda. — Orðskviðirnir 18:10.
Það er mjög hughreystandi að þekkja sannleikann um ástand hinna dánu. Dauðinn er eins og djúpur svefn. (Jóhannes 11:11) Og Jesús Kristur gaf tryggingu fyrir því að dánir myndu fá upprisu. — Jóhannes 5:28, 29.
Maður, sem verið hafði spíritisti, lærði ásamt konu sinni og börnum frá Ritningunni að engin þörf sé á því að reyna að tala við hina dánu eða einhverja sem koma fram í þeirra gervi. Eins og þessi fjölskylda og fjölmargar aðrar í öllum heimshlutum getur þú líka notið andlegs frelsis. (Jóhannes 8:32) Lærðu sannleikann um hina dánu og um tilgang Guðs með mannkynið. Þá getur þú hlakkað til hinnar nýju skipanar Jehóva þar sem þú getur talað við upprisna ástvini og lifað eilíflega við friðsæl skilyrði. — Jesaja 25:8.
[Mynd á blaðsíðu 4]
Hver var það í raun sem talaði þegar Sál konungur vildi ná sambandi við hinn látna spámann Samúel?