Vertu hreinn í huga og á líkama
„Bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:1.
1. Hvers vegna er hreinleiki í huga og á líkama nauðsynlegur að sögn Páls postula?
SÁ SEM vill þjóna hinum heilaga Guði Jehóva verður að vera bæði andlega og siðferðilega hreinn. Það felur auðvitað einnig í sér að vera hreinn í huga og á líkama. Þar eð núverandi heimskerfi er eins og það er verða þeir sem koma út úr því til að þjóna Jehóva að breyta bæði hugsunarhætti sínum og oft líka persónulegum venjum. Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Róm: „Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi. Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Rómverjabréfið 12:1, 2) Hvað felst í því að vera hreinn í huga og á líkama?
Hugarfarslegur hreinleiki
2. Hvernig gætu augu okkar og hjarta komið okkur til að fremja ósiðlegt athæfi, og hvernig getum við forðast það?
2 Jafnvel áður en lögmálið var gefið gaf hinn trúfasti Job til kynna að augu okkar og hjarta gætu gerst sek um siðleysi ef við hefðum ekki stjórn á þeim. Hann sagði: „Ég hafði gjört sáttmála við augu mín; hvernig hefði ég þá átt að líta til yngismeyjar? Hafi hjarta mitt látið ginnast vegna einhverrar konu, . . . slíkt væri óhæfa og glæpur, sem dómurum ber að hegna fyrir.“ (Jobsbók 31:1, 9-11) Ef við höfum reikul augu og hviklynt hjarta þurfum við að aga hugann, ‚taka við aganum sem veitir innsæi.‘ — Orðskviðirnir 1:3, NW.
3, 4. (a) Hvað sýnir það sem kom fyrir Davíð og Batsebu og hvað er nauðsynlegt til að breyta hugsunarhætti sínum? (b) Hvers vegna ættu kristnir öldungar að vera sérstaklega gætnir?
3 Augu Davíðs konungs komu honum til að fremja hjúskaparbrot með Batsebu. (2. Samúelsbók 11:2, 4) Þetta atvik sýnir að jafnvel menn, sem Jehóva notar með áberandi hætti, geta gerst sekir um synd ef þeir aga ekki hugi sína. Það getur kostað töluvert erfiði og strit að breyta hugsanavenjum okkar. Slík viðleitni ætti að haldast í hendur við ákafa bæn um hjálp Jehóva. Eftir að Davíð hafði iðrast syndar sinnar með Batsebu bað hann: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ — Sálmur 51:12.
4 Kristnir öldungar ættu að gæta þess sérstaklega að ala ekki með sér rangar hvatir sem gætu leitt þá út í alvarlega synd. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Páll postuli skrifaði Tímóteusi sem var kristinn öldungur: „Markmið þessarar hvatningar er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.“ (1. Tímóteusarbréf 1:5) Það væri vissulega hræsni af hálfu öldungs að gegna andlegum skyldustörfum sínum en jafnframt leyfa reikulum augum að vekja í hjartanu hugsanir um siðlausan verknað.
5. Hvað ættum við að forðast til að halda huganum hreinum?
5 Við öll, sem erum kristnir menn, ættum að gera okkar ýtrasta til að halda huganum hreinum. Til að gera það þurfum við að forðast hverjar þær kvikmyndir, sjónvarpsþætti eða lestrarefni sem gæti haft spillandi áhrif á hugi okkar. Hugarfarslegt hreinlæti innifelur meðvitaða viðleitni til að láta hugann dvelja við það sem er „satt, . . . göfugt . . . og hreint.“ Páll postuli bætir við: „Hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ — Filippíbréfið 4:8.
Líkamlegt hreinlæti
6. (a) Nefndu dæmi úr 3. Mósebók sem sýnir að góðs hreinlætis var krafist af Ísraelsmönnum, bæði sem einstaklingum og þjóð. (b) Hver var tilgangur slíkra laga?
6 Sagt hefur verið að „hreinlæti gangi guðrækni næst.“ Enda þótt sá sem er hreinn siðferðilega og líkamlega sé ekki sjálfkrafa guðrækinn verður guðrækinn maður að vera siðferðilega og líkamlega hreinn. Hjá því verður ekki komist. Móselögin gáfu nákvæm fyrirmæli um hreinsun húsa, sem sýkt voru, og um böð þegar um var að ræða óhreinleika af ýmsu tagi. (Sjá 3. Mósebók 14. og 15. kafla.) Krafist var af öllum Ísraelsmönnum að þeir væru heilagir. (3. Mósebók 19:2) Bókin Insight on the Scriptures segir: „Lögin sem Guð gaf Ísraelsmönnum um mataræði, hreinlæti og siðferði voru þeim stöðug áminning um að þeir væru aðgreindir sem heilög þjóð hans.“ — 1. bindi, bls. 1128.
7. Hvað má segja um votta Jehóva sem heild, en hverju hafa sumir farandhirðar skýrt frá?
7 Enda þótt vottar Jehóva í heild séu hreinir af hvers kyns saurgun babýlonskra falstrúarbragða og umberi ekki siðferðilegan óhreinleika sín á meðal gefa skýrslur farandumsjónarmanna til kynna að sumir vanræki líkamlegt hreinlæti og snyrtimennsku. Hvernig getum við tryggt að við séum hrein að þessu leyti einnig? Betelheimilin eru góð fyrirmynd öllum kristnum heimilum, en nafnið merkir „hús Guðs.“
8, 9. (a) Hvaða leiðbeiningar fá allir nýir meðlimir Betelfjölskyldunnar? (b) Hvaða meginreglur, sem fylgt er á Betelheimilum, ættu að gilda á sérhverju kristnu heimili?
8 Þegar einhver verður meðlimur Betelfjölskyldu í aðalstöðvum Varðturnsfélagsins eða einhverju af útibúum þess út um víða veröld, er honum fenginn í hendur bæklingur sem hið stjórnandi ráð hefur látið gera. Í ritinu er frá því greint hvers sé vænst af honum í sambandi við venjur í vinnu og einkalífi. Undir yfirskriftinni „Snyrtileg herbergi og hreinlæti“ segir: „Lífið á Betel krefst þess að hreinlæti, siðferði og andlegt ástand sé á háu stigi. Allir sem búa á Betel ættu að láta sér umhugað að halda sjálfum sér og herbergi sínu hreinu. Það stuðlar að góðu heilsufari. Það er engin ástæða fyrir nokkurn að vera óhreinn. Það er góður siður að baða sig daglega. . . . Nauðsynlegt er að þvo sér fyrir máltíðir og er ætlast til að allir geri það. Skola ætti handlaug og baðker í hvert sinn eftir notkun, af tillitssemi við herbergisfélaga og þann sem ræstir herbergið.“
9 Salernum á Betelheimilum er haldið tandurhreinum og þeim sem nota þau gert kleift að þvo sér um hendur strax eftir notkun. Ætlast er til að meðlimir fjölskyldunnar skilji við salernisskálina hreina eftir notkun og aðgæti að skolað hafi verið nægilega vel niður. Það ber vott um tillitssemi við næsta notanda eða þann sem ræstir. Ætti ekki að fylgja slíkum góðum, kærleiksríkum lífsreglum á sérhverju kristnu heimili?
10. (a) Hvers vegna er íburðarmikið baðhergi ekki nauðsynlegt til að halda sér og börnum sínum hreinum? (b) Hvaða lög í Ísrael stuðluðu að góðu heilsufari og hvaða lærdóm geta þjónar Jehóva nú á tímum dregið af þeim?
10 Að sjálfsögðu eru aðstæður breytilegar frá landi til lands. Sums staðar eru hvorki baðker né steypiböð í húsum. Yfirleitt geta þó kristnir karlar og konur fundið nóg af sápu og vatni til að halda líkama sínum hreinum og sjá um að börnin séu hrein.a Mörg heimili víða um heim eru ekki tengd skolplögn eða frárennsli. En hægt er að ganga hreinlega frá saur með því að grafa hann, líkt og krafist var af Ísraelsmönnum jafnvel í herbúðum. (5. Mósebók 23:12, 13) Lög Jehóva um herbúðalíf kváðu meira að segja á um tíð böð og fataþvott, skjóta greiningu og meðferð sjúkdóma, viðeigandi meðferð látinna og hreint neysluvatn og matvælabirgðir. Öll þessi lagaboð stuðluðu að heilbrigði þjóðarinnar. Ættu þjónar Jehóva nú á dögum að gera einhverjar minni hreinlætiskröfur til sjálfra sín? — Rómverjabréfið 15:4.
Snyrtileg heimili og bifreiðar
11. (a) Hvaða regla ætti að gilda jafnvel á fábrotnasta, kristnu heimili? (b) Hvaða samstarfs er krafist af öllum meðlimum Betelfjölskyldunnar?
11 Heimili okkar geta verið hrein og snyrtileg, jafnvel þótt þau séu fábrotin. Það útheimtir hins vegar gott skipulag innan vébanda fjölskyldunnar. Ef móðirin á að geta varið sem mestum tíma til andlegra hugðarefna, svo sem prédikunarstarfsins, þá ætti hún ekki að þurfa að eyða tíma í það dag hvern að taka til eftir aðra í fjölskyldunni sem skilja föt, bækur, pappíra, tímarit og annað slíkt eftir sig út um allt. Þótt systur ræsti herbergin á Betelheimilunum er til þess ætlast að sérhver fjölskyldumeðlimur skilji við herbergið sitt snyrtilegt að morgni með uppbúnu rúmi. Við kunnum öll að meta snyrtilega og hreina Ríkissali okkar og mótshallir. Megi heimili okkar einnig bera vitni um að við erum hluti af hreinni og heilagri þjóð Jehóva!
12, 13. (a) Hvaða leiðbeiningar eru gefnar um bifreiðar sem notaðar eru í þjónustu Jehóva, og hvers vegna þarf slíkt ekki að vera mjög tímafrekt? (b) Hvers vegna ber okkur að halda líkama okkar, heimilum og bifreiðum hreinum?
12 Margir þjónar Jehóva nú á dögum nota bifreiðar til þess að komast á samkomur og í starfssvæði sitt. Í sumum löndum er bifreið nánast ómissandi sem verkfæri í þjónustunni við Jehóva. Sem slíkri ætti að halda henni snyrtilegri og hreinni, alveg eins og heimilum okkar. Að sjálfsögðu geta kristnir menn ekki eytt miklum tíma í að dekra við bifreiðar sínar á þann hátt sem sumt fólk í heiminum gerir. En án þess að fara út í öfgar ættu þjónar Jehóva að gera sér far um að halda bifreiðum sínum þokkalega hreinum og snyrtilegum. Á bensínafgreiðslustöðvum er víða hægt að þvo bifreið ókeypis og fá aðgang að ryksugu, eða kaupa sér þvott fyrir hóflegt gjald. Það er ótrúlegt hvað tíu mínútna hreinsun og tiltekt inni í bifreiðinni getur breytt miklu. Öldungar og safnaðarþjónar ættu sérstaklega að gera sér far um að vera gott fordæmi í þessu efni, því að þeir nota bifreiðar sínar oft til að flytja boðberahópa út í þjónustuna á akrinum. Þegar vottur tekur með sér á samkomu einstakling, sem nýlega hefur sýnt áhuga, væri það vissulega ekki góður vitnisburður ef bifreiðin hans væri óhrein og ósnyrtileg.
13 Við sem tilheyrum hreinu skipulagi Jehóva getum heiðrað hann með viðleitni okkar í þá átt að halda okkur líkamlega hreinum og halda heimilum okkar og bifreiðum hreinum og snyrtilegum.
Hreinleiki þegar við færum andlegar fórnir
14. Hvaða lög giltu um trúarlegan hreinleika í Ísrael og hvað sýna þessi lög?
14 Í Ísrael var þess krafist að menn héldu sér trúarlega hreinum til guðsdýrkunar og lá dauðarefsing við ef því var ekki hlýtt. Jehóva sagði Móse og Aroni: „Þannig skuluð þér vara Ísraelsmenn við óhreinleika þeirra, að þeir deyi ekki í óhreinleika sínum, ef þeir saurga búð mína, sem er meðal þeirra.“ (3. Mósebók 15:31) Á friðþægingardeginum varð æðsti presturinn að lauga líkama sinn í vatni tvívegis. (3. Mósebók 16:4, 23, 24) Eirkerið í tjaldbúðinni, og síðar hið gríðarstóra eirhaf í musterinu, geymdi vatn til þvotta fyrir prestana áður en þeir báru Jehóva fórnir. (2. Mósebók 30:17-21; 2. Kroníkubók 4:6) Hvað um Ísraelsmenn almennt? Ef þeir af einhverri ástæðu urðu óhreinir trúarlega var þeim meinað að taka þátt í tilbeiðslunni þar til þeir höfðu fullnægt hreinsunarkröfunum. (3. Mósebók 19:11-22) Allt þetta undirstrikaði að þeir sem tilbáðu hinn heilaga Guð, Jehóva, urðu að vera líkamlega hreinir.
15. Hvers vegna er dýrafórna ekki lengur krafist en hvaða spurningum er varpað fram?
15 Þess er að vísu ekki krafist af þjónum Jehóva nú á dögum að þeir færi dýrafórnir í jarðnesku musteri. Fórninar undir lögmálinu voru látnar víkja þegar „líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll.“ (Hebreabréfið 10:8-10) Við ‚tilbiðjum föðurinn í anda og sannleika.‘ (Jóhannes 4:23, 24) En merkir það að við þurfum engar fórnir að færa okkar heilaga Guði, Jehóva? Og er þess eitthvað síður krafist af okkur en Ísraelsmönnum að halda okkur hreinum?
16. Hvernig hefur spádómurinn í Malakí 3:3, 4 ræst á smurðum kristnum mönnum frá 1918, og hvaða þókanlegar fórnir geta þeir fært Jehóva?
16 Spádómur Malakís sýnir að smurðir kristnir menn á jörðinni áttu á tímum endalokanna að hreinsast til musterisþjónustu. Sagan sýnir að þessi hreinsun hófst árið 1918. Frá 1919 hafa leifarnar verið „menn, er bera fram fórnir á þann hátt sem rétt er“ og fórnir þeirra „geðjast [Jehóva].“ (Malakí 3:3, 4) Þannig geta þeir ‚borið fram andlegar fórnir, Guði þóknanlegar fyrir Jesú Krist.‘ (1. Pétursbréf 2:5) Páll postuli skrifaði: „Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ — Hebreabréfið 13:15.
17. Hvers vegna verður ‚múgurinn mikli‘ að vera líkamlega, hugarfarslega, siðferðilega og andlega hreinn, þótt hann sé ekki hluti af hinu konunglega prestafélagi?
17 Enda þótt hinir ‚aðrir sauðir‘ séu ekki kallaðir til prestsþjónustu í musteri eins og hinar smurðu leifar ‚þjóna þeir Jehóva dag og nótt í musteri hans,‘ í jarðneskum forgörðum andlegs musteris hans. (Opinberunarbókin 7:9, 10, 15) Hafa ber í huga að Ísraelsmenn, sem ekki voru prestar, urðu að vera trúarlega hreinir til að mega taka þátt í tilbeiðslunni í tjaldbúðinni og síðar í musterinu. Á sama hátt verða hinir ‚aðrir sauðir‘ að vera hreinir, líkamlega, hugarfarslega, siðferðilega og andlega ef þeir vilja fá að þjóna í musterinu og taka ásamt leifunum þátt í að „bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð“ með því að „játa nafn hans.“
Hreinir og snyrtilegir fyrir þjónustu á akrinum og samkomur
18. Hvað ber okkur að hafa í huga varðandi hreinlæti, klæðnað og skófatnað þegar við tökum þátt í þjónustunni og sækjum samkomur?
18 Hvað merkir þetta í framkvæmd? Það merkir að það væri mjög óviðeigandi og bæri vott um virðingarleysi gagnvart Jehóva að vera fulltrúi hans í þjónustunni hús úr húsi, á götu úti eða inni á heimili einhvers ef við værum ekki líkamlega hrein og vel til fara. Við megum því ekki vera kærulaus um slík atriði heldur gefa þeim nákvæman gaum þannig að við hegðum okkur eins og sæmir þeim sem bera nafn Jehóva. Við þurfum ekki að klæðast dýrum fötum en þau ættu að vera hrein, smekkleg og látlaus. Skófatnaður okkar ætti að vera í góðu lagi og vel útlítandi. Eins ætti líkami okkar að vera hreinn á öllum samkomum, þar á meðal í safnaðarbóknáminu, og við ættum að vera snyrtilega og viðeigandi til fara.
19. Hvaða jákvæð áhrif hefur hreinlæti og snyrtimennska kristinna þjóna orðsins?
19 Hreinlæti okkar og snyrtimennska úti í boðunarstarfinu og á samkomum okkar er ein leið til að ‚prýða kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum.‘ (Títusarbréfið 2:10) Það í sjálfu sér er vitnisburður. Margir hafa veitt athygli hreinlæti okkar og snyrtimennsku og það hefur komið þeim til að hlusta á boðskapinn um hina dásamlegu fyrirætlun Jehóva um réttláta, nýja himna og hreinsaða, nýja jörð. — 2. Pétursbréf 3:13.
20. Hvaða annar ávöxtur fylgir því að vera hreinn í huga og á líkama?
20 Er hin nýja, hreina heimsskipan Jehóva nálgast þurfum við öll að líta í eigin barm til að kanna hvort við þurfum að breyta hugsun okkar eða venjum í einhverju. Páll skrifaði: „Ég tala á mannlegan hátt, sökum veikleika yðar. Því að eins og þér hafið boðið limi yðar óhreinleikanum og ranglætinu fyrir þjóna til ranglætis, svo skuluð þér nú bjóða limi yðar réttlætinu fyrir þjóna til helgunar.“ (Rómverjabréfið 6:19) Andlegur og líkamlegur hreinleiki gefur af sér góðan ávöxt núna, „ávöxt . . . til helgunar og eilíft líf að lokum.“ (Rómverjabréfið 6:22) Við skulum því vera hrein í huga og á líkama er við ‚bjóðum fram líkama okkar að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn.‘ — Rómverjabréfið 12:1.
[Neðanmáls]
a Hagnýtar tillögur um hreinlæti við erfiðar aðstæður er að finna í greininni „Meeting the Challenge of Cleanliness“ sem birtist í Vaknið! (enskri útgáfu) þann 22. september 1988, bls. 8-11.)
Upprifjun
◻ Hvernig gætu augu okkar og hjarta komið okkur til að gerast sek um lauslæti?
◻ Hvaða gagn höfðu Ísraelsmenn af því, bæði sem einstaklingar og þjóð, að hlýða lögum Jehóva um hreinlæti?
◻ Hvaða meginreglum er fylgt á Betelheimilum sem ætti að halda í heiðri á sérhverju kristnu heimili?
◻ Hvenær ber okkur sérstaklega að gæta að útliti okkar?
◻ Hvaða andlegar ástæður hafa þjónar Jehóva fyrir því að halda heimilum sínum og bifreiðum hreinum og snyrtilegum?
[Mynd á blaðsíðu 26]
„Lífið á Betel krefst þess að hreinlæti, siðferði og andlegt ástand sé á háu stigi.“
[Mynd á blaðsíðu 27]
Ætti húsmóðir að þurfa að eyða tíma í það á hverjum degi að taka til eftir tillitslausa fjölskyldumeðlimi?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Það er ótrúlegt hvað tíu mínútna hreingerning á bifreið innanverðri getur breytt miklu.