Frelsið sem Guð gefur veitir gleði
„Gleði [Jehóva] er hlífiskjöldur yðar.“ — NEHEMÍA 8:10.
1. Hvað er gleði og hvers vegna geta þeir sem eru vígðir Guði notið hennar?
JEHÓVA fyllir hjörtu þjóna sinna með gleði. Að þjónar hans skuli vera hamingjusamir og fullir fagnaðar kemur til af því að þeir eignast eða vænta þess sem gott er. Menn vígðir Guði geta fundið til slíkrar kenndar vegna þess að gleði er ávöxtur heilags anda hans eða starfskraftar. (Galatabréfið 5:22, 23) Við sem erum þjónar Jehóva og látum leiðast af anda hans getum því verið glaðir, jafnvel þótt erfiðar prófraunir steðji að.
2. Hvers vegna glöddust Gyðingar við sérstakt tækifæri á dögum Esra?
2 Við sérstakt tækifæri á fimmtu öld f.o.t. notuðu Gyðingar frelsið sem Guð gaf þeim til að halda gleðilega laufskálahátíð í Jerúsalem. Eftir að Esra og aðrir levítar höfðu lesið og skýrt lögmál Guðs fyrir þeim „fór allt fólkið til þess að eta og drekka og senda skammta og halda mikla gleðihátíð, því að þeir höfðu skilið þau orð, er menn höfðu kunngjört þeim.“ — Nehemía 8:5-12.
Gleði Jehóva er hlífiskjöldur okkar
3. Undir hvaða kringumstæðum getur ‚gleði Jehóva‘ verið hlífiskjöldur okkar?
3 Á þessari hátíð gerðu Gyðingar sér grein fyrir sannleiksgildi orðanna: „Gleði [Jehóva] er hlífiskjöldur yðar.“ (Nehemía 8:10) Þessi gleði er hlífiskjöldur okkar líka ef við erum staðfastir í frelsi okkar sem vígðir, skírðir vottar um Jehóva. Fáeinir okkar hafa hlotið smurningu heilags anda og verið ættleiddir sem himneskir samerfingjar Krists. (Rómverjabréfið 8:15-23) Yfirgnæfandi meirihluti okkar nú á tímum á fyrir sér líf í jarðneskri paradís. (Lúkas 23:43) Við ættum sannarlega að vera glöð.
4. Hvers vegna geta kristnir menn umborið þjáningar og ofsóknir?
4 Þótt framtíðarhorfur okkar séu dásamlegar er ekki auðvelt að þrauka gegnum þjáningar og ofsóknir. Við getum það eigi að síður vegna þess að Guð gefur okkur heilagan anda sinn. Með hann að bakhjarli höfum við þá gleði og sannfæringu að ekkert geti rænt okkur von okkar eða kærleika Guðs. Enn fremur getum við verið viss um að Jehóva muni vera hlífiskjöldur okkar svo lengi sem við elskum hann af öllu hjarta, sálu mætti og huga. — Lúkas 10:27.
5. Hvar getum við leitað að ástæðum til að gleðjast?
5 Þjónar Jehóva njóta ríkulegrar blessunar og hafa fjölmargar ástæður til að gleðjast. Sumar þeirra koma fram í bréfi Páls til Galatanna. Aðrar eru gefnar í skyn annars staðar í Ritningunni. Það léttir lund okkar að íhuga þessar gleðiríku blessanir.
Metum frelsið sem Guð gefur
6. Hvers vegna hvatti Páll kristna Galata til að standa stöðugir?
6 Sem kristnir menn njótum við þeirrar gleði og blessunar að standa velþóknanlegir frammi fyrir Guði. Þar eð Kristur frelsaði fylgjendur sína undan Móselögunum voru Galatar hvattir til að standa stöðugir og láta ekki hneppa sig í þetta „ánauðarok.“ Hvað um okkur? Ef við reyndum að vera lýstir réttlátir með því að halda lögmálið yrðum við viðskila við Krist. Með hjálp anda Guðs bíðum við hins vegar þeirrar réttlætingar sem kemur til af trú er starfar gegnum kærleika, ekki af líkamlegri umskurn eða öðrum verkum lögmálsins. — Galatabréfið 5:1-6.
7. Hvernig ættum við að líta á heilaga þjónustu við Jehóva?
7 Það er blessun að nota frelsið sem Guð gefur til að ‚þjóna Jehóva með gleði.‘ (Sálmur 100:2) Það eru sannarlega óviðjafnanleg sérréttindi að veita heilaga þjónustu ‚Jehóva Guði, hinum alvalda,‘ sjálfum ‚konungi aldanna‘! (Opinberunarbókin 15:3) Ef þér finnst þú stundum einskis nýtur getur verið hjálplegt að gera sér grein fyrir að Guð hefur dregið þig til sín fyrir milligöngu Jesú Krists og hefur veitt þér hlutdeild í „helgiþjónustu við fagnaðarerindi Guðs.“ (Rómverjabréfið 15:16, NW; Jóhannes 6:44; 14:6) Það er ærið tilefni til að vera glaður og Guði þakklátur.
8. Hvaða gleðiefni hafa þjónar Guðs í sambandi við Babýlon hina miklu?
8 Annað gleðiefni er frelsið sem Guð gefur okkur frá Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. (Opinberunarbókin 18:2, 4, 5) Þótt þessi trúarskækja sitji táknrænt „við vötnin mörgu,“ sem merkja ‚lýði og fólk, þjóðir og tungur,‘ situr hún ekki yfir eða fer með trúarleg áhrif og völd yfir þjónum Jehóva. (Opinberunarbókin 17:1, 15) Við gleðjumst í hinu dásamlega ljósi Guðs meðan stuðningsmenn Babýlonar hinnar miklu eru í andlegu myrkri. (1. Pétursbréf 2:9) Það getur verið erfitt að skilja sum af hinum djúpu sannindum Guðs, en bæn um visku og hjálp heilags anda auðveldar okkur að skilja sannindi Ritningarinnar og frelsar andlega þá sem búa að þeim skilningi. — 1. Korintubréf 2:10; Jóhannes 8:31, 32; Jakobsbréfið 1:5-8.
9. Hvað verðum við að gera til að njóta áfram frelsis undan trúarvillu?
9 Við njótum þeirrar blessunar að halda áfram að vera laus úr trúarlegri villu, en til að varðveita þetta frelsi verðum við að hafna fráhvarfi. Galatar höfðu hlaupið hið kristna skeið vel en sumir hindruðu þá í að hlýða sannleikanum. Illviljaðar fortölur slíkra manna voru ekki frá Guði og þeim bar að standa gegn. Rétt eins og lítið súrdeig sýrir allt deigið, eins geta falskennarar eða tilhneiging til fráhvarfs spillt heilum söfnuði. Páll óskaði þess að talsmenn umskurnarinnar létu ekki aðeins umskerast heldur létu gelda sig. Þetta eru hvöss orð, en við verðum að vera jafnákveðin í að hafna fráhvarfi afdráttarlaust ef við ætlum okkur að halda frelsinu sem Guð gefur okkur frá trúarlegri villu. — Galatabréfið 5:7-12.
Þjónum hver öðrum í kærleika
10. Hver er ábyrgð okkar sem hluti hins kristna bræðrafélags?
10 Frelsið sem Guð gefur hefur veitt okkur aðild að kærleiksríku bræðrafélagi, en við verðum að leggja okkar af mörkum í að sýna kærleika. Galatar áttu ekki að nota frelsið „til færis fyrir holdið“ eða sem afsökun fyrir kærleikslausri eigingirni. Þeir áttu að þræla hver fyrir annan, knúðir af kærleika. (3. Mósebók 19:18; Jóhannes 13:35) Við verðum líka að forðast það baktal og hatur sem getur orðið þess valdandi að við tortímumst hver fyrir öðrum. Að sjálfsögðu mun það ekki gerast ef við sýnum bróðurkærleika. — Galatabréfið 5:13-15.
11. Hvernig getum við verið öðrum til blessunar og hvernig geta þeir blessað okkur?
11 Með því að nota frelsið sem Guð gefur okkur í samræmi við leiðsögn anda Guðs sýnum við kærleika og verðum öðrum til blessunar. Það ætti að vera venja okkar að leyfa heilögum anda að stjórna okkur og leiða. Þá látum við ekki koma okkur til þess að fullnægja í kærleiksleysi okkar synduga holdi sem „girnist gegn andanum.“ Ef við látum anda Guðs leiða okkur gerum við það sem er kærleiksríkt, en ekki til að hlýða reglum sem okkur yrði ella refsað fyrir að brjóta. Til dæmis er það kærleikur — ekki aðeins lagaboð — sem kemur í veg fyrir að við rægjum aðra. (3. Mósebók 19:16) Kærleikur kemur okkur til að tala vinsamlega og vera vingjarnleg. Úr því að við berum ávöxt andans sem er kærleikur munu aðrir blessa okkur eða tala vel um okkur. (Orðskviðirnir 10:6) Einnig mun það vera þeim til blessunar að eiga félagsskap við okkur. — Galatabréfið 5:16-18.
Ólíkur ávöxtur
12. Nefndu sumar af þeim blessunum sem tengjast því að forðast hin syndsamlegu „holdsins verk.“
12 Margar blessanir tengdar frelsinu sem Guð gefur okkur koma til af því að við forðumst hin syndsamlegu „holdsins verk.“ Sem heild spara þjónar Guðs sér mikla angist vegna þess að þeir stunda ekki saurlifnað, óhreinleika og lauslæti. Með því að forðast skurðgoðadýrkun höfum við þá gleði sem kemur til af því að þóknast Jehóva í því sambandi. (1. Jóhannesarbréf 5:21) Þar eð við stundum ekki spíritisma erum við laus undan þrælkun illra anda. Fjandskapur, ósætti, afbrýði, reiðiköst, klofningur og öfund spillir ekki kristnu bræðralagi okkar. Og við glötum ekki gleði okkar vegna ölvunar og svalls. Páll aðvaraði að þeir sem stunduðu slíkt myndu ekki erfa Guðsríki, en úr því að við hlýðum orðum hans getum við haldið fast í hina gleðilegu von okkar um Guðsríki. — Galatabréfið 5:19-21.
13. Hvaða ávöxt framkallar heilagur andi Jehóva?
13 Frelsið sem Guð gefur veitir okkur gleði vegna þess að kristnir menn bera ávöxt anda Jehóva. Af orðum Páls við Galatana er auðséð að verk hins synduga holds eru eins og þyrnar í samanburði við hinn ágæta ávöxt sem er kærleikur, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trú, mildi og sjálfstjórn. Þessi ávöxtur á sér rætur í guðræknum hjörtum. Við erum staðráðin í að líferni okkar skuli ganga í berhögg við langanir hins synduga holds. Við óskum að andi Guðs leiði okkur og viljum lifa í samræmi við hann. Andinn gerir okkur hógvær og friðsöm, ekki ‚hégómagjörn svo að við áreitum hver annan og öfundum hver annan.‘ Engin furða er að það skuli vera ánægjulegt að hafa samneyti við þá sem bera ávöxt andans! — Galatabréfið 5:22-26.
Aðrar ástæður til gleði
14. Hvaða herklæði þurfum við að bera í baráttu okkar gegn illum öndum?
14 Hið andlega frelsi sem Guð gefur er tengt þeirri blessun að njóta verndar hans gegn Satan og illu öndunum. Til að vera sigursæl í baráttu okkar gegn illum andaverum verðum við að klæðast „alvæpni Guðs.“ Við þurfum belti sannleikans og brynju réttlætisins. Fætur okkar verða að vera skóaðir fagnaðarerindi friðarins. Við þurfum líka að hafa hinn stóra skjöld trúarinnar til að slökkva með brennandi skeyti hins vonda. Við verðum að bera hjálm hjálpræðisins og munda ‚sverð andans,‘ orð Guðs. Við skulum líka „biðja á hverri tíð í anda.“ (Efesusbréfið 6:11-18) Ef við klæðumst hinum andlegu herklæðum og höfnum áhrifum illra anda getum við verið óttalaus og glöð. — Samanber Postulasöguna 19:18-20.
15. Hvaða gleðiríkrar blessunar njótum við vegna þess að við hegðum okkur í samræmi við orð Guðs?
15 Við erum glöð vegna þess að hegðun okkar er í samræmi við orð Guðs og við erum laus við þá sektarkennd sem þjakar marga syndara. Við ‚temjum okkur að hafa jafnan hreina samvisku fyrir Guði og mönnum.‘ (Postulasagan 24:16) Þess vegna þurfum við ekki að óttast refsingu Guðs sem þrjóskir og iðrunarlausir syndarar eiga í vændum. (Matteus 12:22-32; Hebreabréfið 10:26-31) Með því að fara eftir heilræðum Orðskviðanna 3:21-26 kynnumst við af eigin raun sannleiksgildi orðanna: „Varðveit þú visku og gætni, lát þær eigi víkja frá augum þínum, þá munu þær verða líf sálu þinni og prýði fyrir háls þinn. Þá muntu ganga óhultur veg þinn og eigi drepa við fæti. Þegar þú leggst til hvíldar, þarft þú ekki að hræðast, og hvílist þú, mun svefninn verða vær. Þú þarft ekki að óttast skyndilega hræðslu, né eyðilegging hinna óguðlegu, þegar hún dynur yfir. Því að [Jehóva] mun vera athvarf þitt og varðveita fót þinn, að hann verði eigi fanginn.“
16. Hvernig er bænin okkur gleðiefni og hver er þáttur anda Jehóva í því sambandi?
16 Frelsið sem Guð hefur gefið okkur til að nálgast sig í bæn í þeirri vissu að hann heyri okkur er annað gleðiefni. Já, bænum okkar er svarað vegna þess að við berum lotningarfullan ótta af Jehóva. (Orðskviðirnir 1:7) Enn fremur er það að ‚biðja í heilögum anda‘ okkur hjálp til að varðveita okkur í kærleika Guðs. (Júdasarbréfið 20, 21) Það gerum við með því að sýna hjartalag sem er Jehóva þóknanlegt og með því að biðja undir áhrifum andans um hluti sem eru í samræmi við vilja hans og orð, en það sýnir okkur hvernig við eigum að biðja og hvað við eigum að biðja um. (1. Jóhannesarbréf 5:13-15) Ef við erum í miklum nauðum og vitum ekki hvað við eigum að biðja um, þá mun ‚andinn biðja fyrir okkur með andvörpum sem ekki verður orðum að komið.‘ (Rómverjabréfið 8:26, 27) Við skulum biðja um heilagan anda og leyfa honum að framkalla í okkur þá ávexti sína sem við þurfum sérstaklega til að standast ákveðna prófraun. (Lúkas 11:13) Við aukum einnig gleði okkar ef við nemum kostgæfilega og í bænarhug bæði hið innblásna orð og kristin rit sem gerð eru undir handleiðslu andans.
Blessuð með hjálp sem er alltaf innan seilingar
17. Hvernig sýnir reynsla Móse og orð Davíðs að Jehóva er með þjónum sínum?
17 Með því að nota rétt frelsið sem Guð gefur njótum við þeirrar gleði að vita að Jehóva er með okkur. Þegar erfiðar aðstæður urðu þess valdandi að Móse yfirgaf Egyptaland var hann vegna trúar „öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (Hebreabréfið 11:27) Móse gekk ekki einn; hann vissi að Jehóva var með honum. Synir Kóra tjáðu sömu vissu í söng: „Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins. Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins.“ (Sálmur 46:2-4) Ef þú hefur slíka trú á Guð mun hann aldrei yfirgefa þig. Davíð sagði: „Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur [Jehóva] mig að sér.“ (Sálmur 27:10) Það er mikil gleði samfara þeirri vissu að Guð láti sér svona annt um þjóna sína! — 1. Pétursbréf 5:6, 7.
18. Hvers vegna njóta þeir sem hafa gleði Jehóva frelsis undan þjakandi áhyggjum?
18 Þegar við höfum gleði Jehóva höfum við líka frelsi undan þjakandi áhyggjum. „Verið ekki hugsjúkir um neitt,“ sagði Páll postuli, „heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Friður Guðs er óviðjafnanleg stilling jafnvel við erfiðustu kringumstæður. Hann varðveitir hjartaró okkar — sem er okkur til góðs andlega, tilfinningalega og líkamlega. (Orðskviðirnir 14:30) Hann hjálpar okkur líka að halda jafnvægi því að við vitum að ekkert sem Guð leyfir getur verið okkur til varanlegs tjóns. (Matteus 10:28) Við njótum þessa friðar, sem kemur til af nánu sambandi okkar við Guð fyrir milligöngu Krists, vegna þess að við erum vígð Jehóva og lútum handleiðslu anda hans sem gefur af sér ávöxt í mynd gleði og friðar.
19. Hverju þurfum við að beina hjörtum okkar að til að varðveita gleði okkar?
19 Við getum varðveitt gleðina ef við beinum hjörtum okkar að frelsinu sem Guð gefur og voninni um Guðsríki. Til dæmis er stundum lítið hægt að gera til að bæta úr bágri heilsu, en við getum beðið um visku og kraft til að glíma við hana og getum leitað hughreystingar með því að hugsa um hið andlega heilbrigði sem við njótum núna og þá líkamlegu lækningu sem mun eiga sér stað þegar Guðsríki fer með völd. (Sálmur 41:2-4; Jesaja 33:24) Við getum þurft að líða skort nú á dögum en í paradísinni, sem er svo nærri, verður enginn skortur á lífsnauðsynjum. (Sálmur 72:14, 16; Jesaja 65:21-23) Já, himneskur faðir okkar heldur okkur uppi núna og mun að lokum gera gleði okkar fullkomna. — Sálmur 145:14-21.
Mettu að verðleikum frelsið sem Guð gefur þér
20. Hvernig ættum við að ganga fram fyrir Jehóva samkvæmt Sálmi 100:1-5?
20 Við sem erum þjónar Jehóva ættum svo sannarlega að meta mikils frelsið sem Guð gefur okkur og hefur veitt okkur gleði og ótal blessanir. Engin furða er að Sálmur 100:1-5 skuli hvetja okkur til að nálgast Guð „með fagnaðarsöng.“ Jehóva á okkur og annast okkur eins og ástríkur hirðir. Já, við erum „lýður hans og gæsluhjörð.“ Hinir stórfenglegu eiginleikar hans og sú staðreynd að hann er skaparinn er okkur sterk hvatning til að ganga inn í forgarða helgidóms hans með lofsöng og þakkargerð. Við erum knúin til að ‚vegsama nafn hans,‘ að tala vel um Jehóva Guð. Enn fremur getum við alltaf reitt okkur á elskuríka góðvild hans eða samkennd hans og umhyggju fyrir okkur. „Frá kyni til kyns“ er Jehóva trúfastur og óhagganlegur í kærleika sínum til þeirra sem gera vilja hans.
21. Hvaða hvatning var gefin í fyrsta tölublaði þessa tímarits og hvað ættum við að gera í sambandi við frelsið sem Guð gefur?
21 Við sem erum ófullkomnir menn getum ekki umflúið allar prófraunir nú á tímum. Með hjálp Guðs getum við hins vegar verið hugrakkir og glaðir vottar Jehóva. Í þessu sambandi er að finna eftirtektarverða klausu í fyrsta tölublaði þessa tímarits á ensku í júlí 1879: „Vertu hugrakkur . . . minn kristni bróðir eða systir sem leitast við að hlaupa mjóa veginn þreyttum fótum. Skeyttu ekki um þótt stígurinn sé ógreiðfær; hann er allur vígður og helgaður með blessuðum fótum Meistarans. Líttu á hvern þyrni sem blóm, hvern hvassan stein sem áfanga er hraðar þér í átt að markinu. . . . Einblíndu á sigurlaunin.“ Þær milljónir manna, sem nú þjóna Jehóva, einblína á sigurlaunin og þeir hafa margar ástæður til að vera hugrakkir og glaðir. Stattu, ásamt þeim, stöðugur í frelsinu sem Guð gefur. Farðu ekki á mis við tilganginn með því, og megi Jehóva alltaf vera hlífiskjöldur þinn.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig getur ‚gleði Jehóva‘ verið hlífiskjöldur okkar?
◻ Hvaða blessanir hefur frelsið, sem Jehóva gefur þjónum sínum, veitt þeim í trúarlegu tilliti?
◻ Hvers vegna eigum við að þræla hver fyrir annan í kærleika?
◻ Nefndu sumar blessanir frelsisins sem Guð gefur.
◻ Hvernig geta þjónar Guðs varðveitt gleði sína?
[Mynd á blaðsíðu 30]
„Líttu á hvern þyrni sem blóm, hvern hvassan stein sem áfanga er hraðar þér í átt að markinu.“