Göngum hugrakkir á vegum Jehóva
„Sæll er hver sá, er óttast [Jehóva], er gengur á hans vegum.“ — SÁLMUR 128:1.
1, 2. Hvaða hjálp er í frásögum Biblíunnar af orðum og athöfnum votta Jehóva til forna?
HEILAGT orð Jehóva er fullt af frásögum af prófraunum og gleði trygglyndra þjóna hans. Frásögurnar af Nóa, Abraham, Söru, Jósúa, Debóru, Barak, Davíð og fleirum eru ljóslifandi á síðum Biblíunnar. Allt var þetta raunverulegt fólk sem átti eitthvað sérstakt sameiginlegt. Það trúði á Guð og gekk hugrakkt á vegum hans.
2 Orð og athafnir votta Jehóva til forna geta verið okkur mikil uppörvun þegar við leggjum okkur fram um að ganga á vegum Guðs. Enn fremur verðum við hamingjusöm ef við sýnum Guði lotningu og höfum heilnæman ótta við að misþóknast honum. Einu gildir þótt við lendum í prófraunum í lífinu því að hinn innblásni sálmaritari söng: „Sæll er hver sá, er óttast [Jehóva], er gengur á hans vegum.“ — Sálmur 128:1.
Hvað er hugrekki?
3. Hvað er hugrekki?
3 Til að ganga á vegum Jehóva verðum við að vera hugrakkir. Ritningin fyrirskipar reyndar fólki Guðs að sýna þennan eiginleika. Til dæmis söng sálmaritarinn Davíð: „Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á [Jehóva].“ (Sálmur 31:25) Hugrekki er „hugar- eða siðferðisstyrkur til að áræða eitthvað, þrauka og standast hættur, ótta eða erfiðleika.“ (Webster’s Ninth New Collegiate Dictionary) Hugrakkur maður er viljasterkur, djarfur, kjarkmikill. Ljóst er af orðum Páls til samverkamanns síns, Tímóteusar, að Jehóva gefur þjónum sínum hugrekki: „Ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“ — 2. Tímóteusarbréf 1:7.
4. Nefndu eina leið til að byggja upp hugrekki.
4 Ein leið til að öðlast hugrekkið, sem Guð gefur, er að íhuga orð Jehóva, Biblíuna, í bænarhug. Margar frásögur Ritningarinnar geta aukið okkur hugrekki. Við skulum því fyrst sjá hvað við getum lært af frásögnum Hebresku ritninganna af fólki sem gekk hugrakkt á vegum Jehóva.
Hugrekki til að boða boðskap Guðs
5. Hvernig getur hugrekki Enoks verið nútímaþjónum Jehóva til gagns?
5 Hugrekki Enoks getur hjálpað nútímaþjónum Jehóva að boða boðskap Guðs með hugrekki. Áður en Enok fæddist „hófu menn að ákalla nafn [Jehóva].“ Sumir fræðimenn segja að menn hafi farið að ákalla nafn Jehóva „með lastmælgi.“ (1. Mósebók 4:25, 26; 5:3, 6) Nafn Guðs kann að hafa verið notað um menn eða jafnvel skurðgoð. Fölsk trúarbrögð stóðu því í blóma þegar Enok fæddist árið 3404 f.o.t. Reyndar virðist hann hafa verið eini maðurinn sem „gekk með Guði,“ það er að segja lagði sig fram við að lifa réttlátlega í samræmi við opinberaðan sannleika Jehóva. — 1. Mósebók 5:18, 24.
6. (a) Hvaða kröftugan boðskap boðaði Enok? (b) Hvaða trúartraust getum við haft?
6 Enok flutti boðskap Guðs með hugrekki, líklega með því að prédika. (Hebreabréfið 11:5; samanber 2. Pétursbréf 2:5.) „Sjá,“ sagði þessi einsamli vottur, „[Jehóva] er kominn með sínum þúsundum heilagra til að halda dóm yfir öllum og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk, sem þeir hafa drýgt, og um öll þau hörðu orð, sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum.“ (Júdasarbréfið 14, 15) Enok hafði hugrekki til að nota nafn Jehóva þegar hann flutti þennan boðskap sem fordæmdi hina óguðlegu. Og á sama hátt og Jehóva gaf Enok hugrekki til að boða þennan kröftuga boðskap, eins hefur hann gefið nútímavottum sínum kraft til að tala orð hans djarflega í þjónustunni, í skólanum og annars staðar. — Samanber Postulasöguna 4:29-31.
Hugrekki í prófraunum
7. Hvaða fordæmi um hugrekki er Nói okkur?
7 Fordæmi Nóa getur hjálpað okkur að vera hugrökk í því að vinna réttlætisverk þegar við eigum í prófraunum. Með trú og hugrekki fór hann eftir viðvörun Guðs um heimsflóð og „smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu.“ Með hlýðni sinni og réttlætisverkum fordæmdi Nói hinn vantrúaða heim fyrir öll hin illu verk hans og sannaði að hann verðskuldaði eyðingu. (Hebreabréfið 11:7; 1. Mósebók 6:13-22; 7:16) Það að hugleiða lífsstefnu Nóa hjálpar nútímaþjónum Guðs að hafa hugrekki til að vinna réttlætisverk svo sem þau að taka þátt í hinni kristnu þjónustu.
8. (a) Hverju stóð Nói frammi fyrir sem hugrakkur ‚prédikari réttlætisins‘? (b) Hvað gerir Jehóva fyrir okkur ef við erum hugrakkir prédikarar réttlætisins?
8 Ef við fylgjum réttlátri lífsstefnu en vitum ekki hvernig við eigum að takast á við vissa prófraun skulum við biðja um visku til þess. (Jakobsbréfið 1:5-8) Hollusta Nóa við Guð þegar á reyndi sýnir að það er hægt að mæta prófraunum með hugrekki og trúfesti. Hann stóðst álag frá illum heimi og holdguðum englum og kynblendingsafkvæmum þeirra. Já, Nói var hugrakkur ‚prédikari réttlætisins‘ í ‚fornum heimi‘ sem stefndi í tortímingu. (2. Pétursbréf 2:4, 5; 1. Mósebók 6:1-9) Þótt Nói talaði djarfmannlega er hann flutti þeim sem voru uppi fyrir flóðið viðvörun Guðs ‚vissu þeir ekki fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt.‘ (Matteus 24:36-39) En við skulum muna að þrátt fyrir ofsóknir og þrátt fyrir að flestir hafni biblíuboðskap okkar heldur Jehóva okkur uppi eins og hann hélt Nóa uppi, ef við sýnum sams konar trú og hugrekki sem prédikarar réttlætisins.
Hugrekki til að hlýða Guði
9, 10. Í hvaða tilliti sýndu Abraham, Sara og Ísak hugrakka hlýðni?
9 Abraham, ‚vinur Jehóva,‘ er gott fordæmi um að hlýða Guði með hugrekki. (Jakobsbréfið 2:23) Abraham þurfti trú og hugrekki til að hlýða Jehóva og yfirgefa Úr í Kaldeu, borg sem var full af efnislegum gæðum. Hann trúði því fyrirheiti Guðs að „allar ættkvíslir jarðarinnar“ skyldu hljóta blessun af honum og að afkvæmi hans yrði gefið land. (1. Mósebók 12:1-9; 15:18-21) Í trú „settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur“ og hlakkaði til „þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn“ — hins himneska ríkis Guðs þegar hann yrði reistur upp til lífs á jörðinni. — Hebreabréfið 11:8-16.
10 Eiginkona Abrahams, Sara, hafði þá trú og það hugrekki sem þurfti til að yfirgefa Úr, fylgja eiginmanni sínum til framandi lands og þola hverja þá erfiðleika sem myndu mæta þeim þar. Og henni var líka umbunuð hugrökk hlýðni sín við Guð! Þótt hún væri óbyrja fram undir nírætt og „komin yfir aldur“ öðlaðist hún ‚kraft til að eignast son því að hún treysti Guði sem fyrirheitið hafði gefið.‘ Í fyllingu tímans fæddi hún Ísak. (Hebreabréfið 11:11, 12, neðanmáls; 1. Mósebók 17:15-17; 18:11; 21:1-7) Mörgum árum síðar hlýddi Abraham Guði fullur hugrekkis og sama sem ‚fórnfærði Ísak.‘ Engill stöðvaði ættföðurinn og „má því svo að orði kveða“ að hann endurheimti hugrakkan og hlýðinn son sinn frá dauðum. Hann og Ísak voru þannig spádómlegar táknmyndir þess að Jehóva Guð myndi gefa son sinn, Jesú Krist, sem lausnargjald þannig að þeir sem iðkuðu trú á hann gætu hlotið eilíft líf. (Hebreabréfið 11:17-19; 1. Mósebók 22:1-19; Jóhannes 3:16) Vissulega ætti hugrökk hlýðni Abrahams, Söru og Ísaks að koma okkur til að hlýða Jehóva og gera alltaf vilja hans.
Hugrekki til að standa með fólki Guðs
11, 12. (a) Hvernig sýndi Móse hugrekki í sambandi við fólk Jehóva? (b) Hvaða spurningar mætti spyrja í ljósi hugrekkis Móse?
11 Móse tók hugrakkur afstöðu með kúguðu fólki Guðs. Á 16. öld f.o.t. sýndu foreldrar Móse líka hugrekki. Þeir óttuðust ekki skipun konungsins um að drepa nýfædd, hebresk sveinbörn heldur leyndu Móse og komu honum síðan fyrir í örk í sefinu við bakka Nílar. Dóttir Faraós fann hann þar og hann var alinn upp sem sonur hennar þótt hann fengi andlegt uppeldi á heimili foreldra sinna fyrst í stað. Sem einn af fjölskyldu Faraós var Móse „fræddur í allri speki Egypta“ og varð „máttugur í orðum sínum og verkum,“ framúrskarandi hæfur bæði andlega og líkamlega. — Postulasagan 7:20-22; 2. Mósebók 2:1-10; 6:20.
12 Þrátt fyrir þá efnislegu kosti sem fylgdu því að tilheyra konungsættinni kaus Móse hugrakkur að taka afstöðu með tilbiðjendum Jehóva sem þá voru í þrælkun Egypta. Móse drap Egypta til varnar Ísraelsmanni og flúði síðan til Midíanlands. (2. Mósebók 2:11-15) Um 40 árum síðar notaði Guð hann til að leiða Ísraelsmenn út úr ánauðinni. Móse „yfirgaf [þá] Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins“ sem hótaði honum dauða fyrir að koma fram sem fulltrúi Jehóva í þágu Ísraels. Móse framgekk eins og hann sæi „hinn ósýnilega,“ Jehóva Guð. (Hebreabréfið 11:23-29; 2. Mósebók 10:28) Hefur þú slíka trú og hugrekki að þú haldir þér fast við Jehóva og fólk hans þrátt fyrir erfiðleika og ofsóknir?
Hugrekki til að ‚fylgja Jehóva trúlega‘
13. Hvernig eru Jósúa og Kaleb fordæmi um hugrekki?
13 Jósúa og Kaleb voru hugrakkir og sýndu að við getum gengið á vegum Jehóva. Þeir ‚fylgdu Jehóva trúlega.‘ (4. Mósebók 32:11) Jósúa og Kaleb voru meðal mannanna 12 sem sendir voru til að njósna í fyrirheitna landinu. Tíu njósnarmenn óttuðust landsbúa og reyndu að letja Ísrael þess að fara inn í Kanaanland. En Jósúa og Kaleb sögðu hugrakkir: „Ef [Jehóva] hefir á oss velþóknun, þá mun hann flytja oss inn í þetta land og gefa oss það, landið, sem flýtur í mjólk og hunangi. Gjörið aðeins ekki uppreisn móti [Jehóva] og hræðist ekki landsfólkið, því að þeir eru brauð vort. Vikin er frá þeim vörn þeirra, en [Jehóva] er með oss! Hræðist þá eigi!“ (4. Mósebók 14:8, 9) En þessa kynslóð Ísraelsmanna skorti trú og hugrekki og hún komst aldrei inn í fyrirheitna landið. Jósúa og Kaleb komust hins vegar þangað inn ásamt nýrri kynslóð.
14, 15. (a) Hvað fengu Jósúa og Ísraelsmenn að reyna þegar Jósúa fór eftir orðunum í Jósúabók 1:7, 8? (b) Hvaða lexíu í hugrekki lærum við af Jósúa og Kaleb?
14 Guð sagði Jósúa: „Ver þú aðeins hughraustur og harla öruggur að gæta þess að breyta eftir öllu lögmálinu, því er Móse þjónn minn fyrir þig lagði. Vík eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri, til þess að þér lánist vel allt, sem þú tekur þér fyrir hendur. Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega.“ — Jósúabók 1:7, 8.
15 Jósúa hlýddi þessum orðum og Jeríkó og aðrar borgir féllu í hendur Ísraelsmönnum. Guð lét sólina meira að segja standa kyrra þannig að hún gæti skinið uns Ísrael hefði unnið sigur við Gíbeon. (Jósúabók 10:6-14) Þegar Ísraelsmönnum stafaði hætta af sameinuðum hersveitum óvinarins, sem voru „mannfjöldi svo mikill sem sandur á sjávarströnd,“ sýndi Jósúa hugrekki og enn gaf Guð Ísrael sigur. (Jósúabók 11:1-9) Þótt við séum ófullkomnir menn, líkt og Jósúa og Kaleb, getum við fylgt Jehóva trúlega og Guð getur gert okkur kleift að ganga hugrakkir á vegum hans.
Hugrekki til að treysta á Guð
16. Hvernig sýndu Debóra, Barak og Jael hugrekki?
16 Atburðir frá dómaratímanum í Ísrael sýna að Guð umbunar mönnum sem treysta hugrakkir á hann. (Rutarbók 1:1) Barak dómari og Debóra spákona treystu til dæmis hugrökk á Guð. Jabín konungur Kanverja hafði kúgað Ísrael í 20 ár þegar Jehóva lét Debóru hvetja Barak til að safna saman 10.000 manna liði á Taborfjalli. Hershöfðingi Jabíns, Sísera, flýtti sér í Kísondal þar sem hann var viss um að á jafnsléttu hefðu Ísraelsmenn ekki roð við her hans og hinum 900 stríðsvögnum hans sem voru með járnsveðjum á hjólunum. Þegar Ísraelsmenn gengu fylktu liði niður á dalsléttuna lét Guð til sín taka í þeirra þágu og skyndiflóð breytti stríðsvellinum í forað svo að vagnar Sísera sátu fastir. Menn Baraks höfðu yfirhöndina þannig að „allur her Sísera féll fyrir sverðseggjum.“ Sísera flúði í tjald Jaelar en meðan hann svaf þar hafði hún hugrekki til að drepa hann með því að reka tjaldhæl gegnum þunnvanga hans. Rétt eins og Debóra spáði féll ‚frægðin‘ af þessum sigri þannig konu í skaut. Vegna þess að Debóra, Barak og Jael treystu hugrökk á Jehóva „var . . . friður í landi í fjörutíu ár.“ — Dómarabókin 4:1-22; 5:31.
17. Hvaða fordæmi um hugrekki og traust á Jehóva gaf Gídeon dómari?
17 Gídeon dómari treysti hugrakkur á Jehóva Guð þegar Midíanítar og aðrir réðust inn í Ísrael. Þótt innrásarliðið hafi verið um 135.000 manns, langtum fjölmennara en hin 32.000 manna sveit Ísraels, hefðu Ísraelsmenn kannski haft tilhneigingu til að þakka sigurinn, sem Guð gaf þeim, sinni eigin hugprýði. Undir handleiðslu Jehóva fækkaði Gídeon því herliði sínu niður í þrjá 100 manna hópa. (Dómarabókin 7:1-7, 16; 8:10) Mennirnir 300 umkringdu herbúðir Midíaníta að næturlagi og voru allir með lúðra og vatnskrús með blysum í. Þegar merki var gefið blésu þeir í lúðrana, brutu krúsirnar, lyftu logandi blysunum á loft og hrópuðu: „Sverð [Jehóva] og Gídeons!“ (Dómarabókin 7:20) Skelfingu lostnir lögðu Midíanítar á flótta og voru yfirbugaðir. Slíkir atburðir ættu að sannfæra okkur um að Guð umbuni líka hugrekki og traust sem honum er sýnt nú á dögum.
Hugrekki til að heiðra Jehóva og efla hreina tilbeiðslu
18. Hvað var Davíð að gera með hugrekki þegar hann felldi risann Golíat?
18 Sumar frásögur Biblíunnar gefa okkur hugrekki til að heiðra Jehóva og efla hreina tilbeiðslu. Hinn ungi Davíð, sem bjargaði með áræðni sinni sauðum föður síns, sýndi hugrekki frammi fyrir Filistarisanum Golíat. „Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót,“ sagði Davíð, „en ég kem á móti þér í nafni [Jehóva] allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað. Í dag mun [Jehóva] gefa þig í mínar hendur, og ég mun leggja þig að velli og höggva af þér höfuðið, . . . svo að öll jörðin viðurkenni, að Guð er í Ísrael, og til þess að allur þessi mannsafnaður komist að raun um, að [Jehóva] veitir ekki sigur með sverði og spjóti, því að bardaginn er [Jehóva].“ (1. Samúelsbók 17:32-37, 45-47) Með hjálp Guðs heiðraði Davíð Jehóva með hugrekki, felldi risann Golíat og gegndi þannig mikilvægu hlutverki í að bægja frá þeirri ógn sem hreinni tilbeiðslu stafaði af Filistum.
19. Til hvaða verks þurfti Salómon hugrekki og hvernig getum við fylgt fordæmi hans nú á dögum?
19 Þegar Salómon, sonur Davíðs konungs, var í þann mund að byggja musteri Guðs hvatti aldurhniginn faðir hans hann: „Ver hughraustur og öruggur og kom þessu til framkvæmdar. Óttast ekki og lát eigi hugfallast, því að [Jehóva] Guð, Guð minn, mun vera með þér. Hann mun eigi sleppa af þér hendinni og eigi yfirgefa þig, uns lokið er öllum störfum til þjónustugjörðar í musteri [Jehóva].“ (1. Kroníkubók 28:20) Salómon gekk hugrakkur til verks og lauk byggingu musterisins. Þegar guðræðisleg byggingarframkvæmd er áskorun á okkur nú á tímum skulum við muna eftir orðum Davíðs: „Ver hughraustur og öruggur og kom þessu til framkvæmdar.“ Það er góð leið til að heiðra Jehóva og efla hreina tilbeiðslu!
20. Í hvaða tilliti sýndi Asa konungur hugrekki?
20 Löngun Asa konungs til að heiðra Guð og efla hreina tilbeiðslu kom honum til að losa Júda við skurðgoð og musterisvændismenn. Hann vék einnig ömmu sinni, sem var fallin frá trúnni, úr hárri stöðu sinni og brenndi ‚hræðilegt skurðgoð‘ hennar. (1. Konungabók 15:11-13) Já, Asa „herti . . . upp hugann og útrýmdi viðurstyggðunum úr öllu landi Júda og Benjamíns, svo og úr borgum þeim, er hann hafði unnið á Efraímfjöllum, en endurnýjaði altari [Jehóva], það er var frammi fyrir forsal [Jehóva].“ (2. Kroníkubók 15:8) Ert þú líka hugrakkur í því að hafna fráhvarfi og efla hreina tilbeiðslu? Notar þú eigur þínar til að styrkja hag Guðsríkis? Og leitast þú við að heiðra Jehóva með því að taka reglulega þátt í að boða fagnaðarerindið sem einn af vottum hans?
21. (a) Hvernig geta frásögur af ráðvöndum mönnum fyrir daga kristninnar hjálpað okkur? (b) Hvað er fjallað um í næstu grein?
21 Við erum sannarlega þakklát fyrir að Guð skuli hafa varðveitt frásögur Ritningarinnar um hugrakka, ráðvanda menn fyrir daga kristninnar. Hið góða fordæmi þeirra getur vissulega hjálpað okkur að veita Jehóva heilaga þjónustu með hugrekki, í guðsótta og lotningu. (Hebreabréfið 12:28) En kristnu Grísku ritningarnar innihalda líka dæmi um hugrekki frá Guði sem birtist í verki. Hvernig geta þessar frásögur hjálpað okkur að ganga hugrakkir á vegum Jehóva?
Hverju svarar þú?
◻ Hvað er hugrekki?
◻ Hvernig sýndu Enok og Nói hugrekki?
◻ Í hvaða tilliti sýndu Abraham, Sara og Ísak hugrekki?
◻ Hvaða hugrakkt fordæmi settu Móse, Jósúa og Kaleb?
◻ Hvernig sýndu aðrir að þeir höfðu hugrekki til að treysta á Guð?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Gídeon og fámenn sveit hans treysti á Jehóva með hugrekki.