Jehóva Guð sem hefur tilgang
„Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða, og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá.“ — JESAJA 14:24.
1, 2. Hvað segja margir um tilgang lífsins?
ALLS staðar spyrja menn: „Hver er tilgangur lífsins?“ Vestrænn stjórnmálaleiðtogi sagði: „Fleiri en nokkru sinni fyrr spyrja: ‚Hverjir erum við? Hver er tilgangurinn með lífi okkar?‘“ Þegar dagblað gerði skoðanakönnun meðal ungs fólks þar sem spurt var hver væri tilgangur lífsins voru dæmigerð svör á þessa lund: „Að gera það sem hjartað girnist.“ „Að njóta sérhvers augnabliks til hins ítrasta.“ „Að lifa lífinu.“ „Að eignast börn, vera hamingjusamur og deyja svo.“ Flestir álitu að þetta líf væri allt og sumt. Enginn talaði um nokkurn langtímatilgang með lífinu á jörðinni.
2 Fræðimaður í kenningum Konfúsíusar sagði: „Hina endanlegu þýðingu lífsins er að finna í okkar hversdagslegu, mannlegu tilveru.“ Samkvæmt því á fólk að halda áfram að fæðast, basla í 70 eða 80 ár og síðan deyja og vera ekki framar til um eilífð. Þróunarvísindamaður sagði: „Við þráum ef til vill ‚háleitara‘ svar — en ekkert slíkt er til.“ Í augum þessara þróunarsinna er lífið barátta fyrir tilverunni og öllu er lokið með dauðanum. Slík heimspeki endurspeglar vonleysi gagnvart lífinu.
3, 4. Hvaða áhrif hefur heimsástandið á viðhorf margra til lífsins?
3 Margir efast um að lífið hafi tilgang þegar þeir sjá að tilvera mannsins hefur verið full af svo mikilli eymd. Á okkar tímum, þegar maðurinn á að hafa náð hátindi afreka sinna á sviði vísinda og iðnaðar, er um milljarður manna í heiminum alvarlega sjúkur eða vannærður. Milljónir barna deyja ár hvert af slíkum orsökum. Þar að auki hafa fjórfalt fleiri dáið á 20. öldinni af völdum styrjalda en féllu í styrjöldum síðustu fjögur hundruð árin á undan samanlögð. Glæpir, ofbeldi, fíkniefnaneysla, sundrun fjölskyldunnar, alnæmi og aðrir samræðissjúkdómar — það sígur sífellt á ógæfuhliðina. Leiðtogar heimsins hafa ekki lausnir á þessum vandamálum.
4 Í ljósi þessara aðstæðna lét kona í ljós það sem margir trúa: „Það er enginn tilgangur með lífinu. Fyrst allt þetta illa er að gerast er lífið lítils virði.“ Aldraður maður sagði: „Lengstan hluta ævinnar hef ég verið að velta fyrir mér hvers vegna ég sé til. Ef það er einhver tilgangur með því er það hætt að skipta mig máli.“ Af því að fjöldi manna veit ekki hvers vegna Guð leyfir þjáningar veldur hið þjakandi heimsástand því að þeir hafa enga raunverulega framtíðarvon.
5. Hvers vegna auka trúarbrögð heims á ringulreiðina um tilgang lífsins?
5 Jafnvel trúarleiðtogar eru ósammála og óvissir um tilgang lífsins. Fyrrverandi prófastur við St. Páls dómkirkjuna í Lundúnum sagði: „Ég hef alla ævi streist við að finna tilgang með lífinu. . . . Það hefur ekki tekist.“ Margir prestar kenna að vísu að við dauðann fari hinir góðu til himna og hinir illu í logandi víti til eilífðar. En þetta sjónarmið lætur mannkynið eftir sem áður eiga sig í kvöl sinni á jörðinni. Og ef það var tilgangur Guðs að láta fólk búa á himnum, af hverju gerði hann það ekki bara að himneskum verum í upphafi, eins og englana, og hlífði mönnum þar með við öllum þessum þjáningum? Það er því algengt að menn séu ráðvilltir hver sé tilgangur lífsins á jörðinni eða neiti að trúa að það hafi einhvern tilgang.
Guð sem hefur tilgang
6, 7. Hvað segir Biblían okkur um drottinvald alheimsins?
6 Útbreiddasta bók mannkynssögunnar, Heilög biblía, segir okkur þó að Jehóva, drottinvaldur alheimsins, sé Guð sem hefur tilgang. Hún sýnir okkur að hann hefur langtímatilgang með mannkynið á jörðinni, raunar eilífan tilgang. Og þegar Jehóva ætlar sér eitthvað er öruggt að það gerist. Alveg eins og regnið fær fræ til að spíra, segir Guð, „eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ (Jesaja 55:10, 11) Hvaðeina sem Jehóva segist ætla að framkvæma „skal framgang fá.“ — Jesaja 14:24.
7 Við mennirnir getum treyst fullkomlega að hinn alvaldi haldi loforð sín því að Guð ‚lýgur ekki.‘ (Títusarbréfið 1:2; Hebreabréfið 6:18) Þegar hann segist ætla að gera eitthvað er orð hans trygging fyrir því að það verði. Það er sama sem gert. Hann lýsir yfir: „Ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki. Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið. Ég segi: Mín ráðsályktun stendur stöðug, og allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég. . . . Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma, það sem ég áset mér, það gjöri ég einnig.“ — Jesaja 46:9-11.
8. Geta þeir sem vilja í einlægni þekkja Guð fundið hann?
8 Enn fremur ‚vill Jehóva ekki að neinir glatist heldur að allir komist til iðrunar.‘ (2. Pétursbréf 3:9) Þar af leiðandi vill hann ekki að neinum sé ókunnugt um hann. Spámaður, sem hét Asarja, sagði: „Ef þér leitið [Guðs], mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður.“ (2. Kroníkubók 15:1, 2) Þess vegna geta þeir sem vilja í einlægni þekkja Guð og tilgang hans örugglega gert það ef þeir leggja sig fram um að leita hans.
9, 10. (a) Hvað hefur þeim sem vilja þekkja Guð verið látið í té? (b) Hvað gerir leit í orði Guðs okkur kleift að gera?
9 Hvar þá? Guð hefur gefið orð sitt, Biblíuna, öllum sem leita hans í sannleika. Með heilögum anda sínum, sama starfskraftinum og Guð notaði til að skapa alheiminn, stýrði hann trúföstum mönnum til að skrifa niður það sem við þurfum að vita um tilgang hans. Til dæmis sagði Pétur postuli um spádóma Biblíunnar: „Aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ (2. Pétursbréf 1:21) Páll postuli tók í svipaðan streng og lýsti yfir: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; 1. Þessaloníkubréf 2:13.
10 Taktu eftir að orð Guðs gerir okkur ekki vanbúin eða vanhæf heldur ‚albúin og hæf til sérhvers góðs verks.‘ Það gerir okkur kleift að vera viss um hver Guð sé, hver tilgangur hans sé og hvers hann krefjist af þjónum sínum. Þess er að vænta af bók sem Guð er höfundur að. Og hún er eina heimildarritið þar sem við getum leitað til að fá nákvæma þekkingu á Guði. (Orðskviðirnir 2:1-5; Jóhannes 17:3) Með því að gera það verðum við ekki „börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.“ (Efesusbréfið 4:13, 14) Sálmaritarinn lét rétt viðhorf í ljós: „Þitt [Guðs] orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ — Sálmur 119:105.
Opinberaður skref fyrir skref
11. Hvernig hefur Jehóva opinberað mannkyninu tilgang sinn?
11 Strax við upphaf hinnar mannlegu fjölskyldu opinberaði Jehóva tilgang sinn með jörðina og mennina á henni. (1. Mósebók 1:26-30) En þegar fyrstu foreldrar okkar höfnuðu drottinvaldi Guðs féll mannkynið niður í andlegt myrkur og dauða. (Rómverjabréfið 5:12) Engu að síður vissi Jehóva að þeir menn yrðu til sem vildu þjóna honum. Þess vegna hefur hann í aldanna rás opinberað trúföstum þjónum sínum tilgang sinn skref fyrir skref. Af þeim sem hann kom vilja sínum á framfæri við voru Enok (1. Mósebók 5:24; Júdasarbréfið 14, 15), Nói (1. Mósebók 6:9, 13), Abraham (1. Mósebók 12:1-3) og Móse (2. Mósebók 31:18; 34:27, 28). Amos, spámaður Guðs, skrifaði: „[Jehóva] Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ — Amos 3:7; Daníel 2:27, 28.
12. Hvernig varpaði Jesús skærara ljósi á tilgang Guðs?
12 Þegar sonur Guðs, Jesús Kristur, var á jörðinni um 4000 árum eftir uppreisnina í Eden opinberuðust mörg fleiri atriði um tilgang Jehóva, einkum um þann tilgang hans að koma á himnesku ríki til að stjórna jörðinni. (Daníel 2:44) Jesús gerði þetta ríki að einkunnarorðum prédikunar sinnar. (Matteus 4:17; 6:10) Hann og lærisveinar hans kenndu að undir stjórn Guðsríkis myndi upphaflegur tilgangur Guðs með jörðina og mannkynið rætast. Jörðinni yrði breytt í paradís byggðri fullkomnum mönnum sem lifðu að eilífu. (Sálmur 37:29; Matteus 5:5; Lúkas 23:43; 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:4) Með kraftaverkunum, sem Guð gerði Jesú og lærisveinum hans fært að vinna, sýndu þeir enn fremur fram á hvað myndi eiga sér stað í þessum nýja heimi. — Matteus 10:1, 8; 15:30, 31; Jóhannes 11:25-44.
13. Hvaða breytingar áttu sér stað á hvítasunnunni árið 33 viðvíkjandi samskiptum Guðs við mannkynið?
13 Á hvítasunnunni árið 33, 50 dögum eftir dauða Jesú, var anda Guðs úthellt yfir söfnuð fylgjenda Krists. Þessi söfnuður kom í stað hins ótrúa Ísraels sem sáttmálaþjóð Jehóva. (Matteus 21:43; 27:51; Postulasagan 2:1-4) Úthelling heilags anda við það tækifæri var tákn þess að þaðan í frá myndi Guð opinbera sannleikann um tilgang sinn fyrir milligöngu þessa nýja fulltrúa. (Efesusbréfið 3:10) Á fyrstu öld okkar tímatals var skipulagsleg uppbygging kristna safnaðarins fastmótuð. — 1. Korintubréf 12:27-31; Efesusbréfið 4:11, 12.
14. Hvernig geta þeir sem leita sannleikans þekkt hinn sannkristna söfnuð?
14 Nú á dögum geta þeir sem leita sannleikans þekkt hinn sannkristna söfnuð á því hvernig hann endurspeglar í öllu aðaleiginleika Guðs, kærleikanum. (1. Jóhannesarbréf 4:8, 16) Bróðurkærleikur er sannarlega einkenni sannrar kristni. Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.“ (Jóhannes 13:35; 15:12) Og Jesús minnti áheyrendur sína á: „Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.“ (Jóhannes 15:14) Sannir þjónar Guðs eru því þeir sem lifa eftir lögmáli kærleikans. Þeir tala ekki bara um það því að ‚trúin er dauð án verka.‘ — Jakobsbréfið 2:26.
Upplýsing
15. Hvað mega þjónar Guðs vera vissir um?
15 Jesús sagði fyrir að með tímanum yrði hinn sannkristni söfnuður upplýstur betur og betur um tilgang Guðs. Hann hét fylgjendum sínum: „Hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt.“ (Jóhannes 14:26) Jesús sagði einnig: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:20) Þannig vex upplýsing sannleikans um Guð og tilgang hans meðal þjóna hans. Já, „gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“ — Orðskviðirnir 4:18.
16. Hvað segir andleg upplýsing okkar um það hvar við stöndum gagnvart tilgangi Guðs?
16 Núna er þetta andlega ljós skærara en nokkru sinni fyrr því að nú er sá tími þegar margir af spádómum Biblíunnar eru að uppfyllast eða að nálgast uppfyllingu. Það sýnir okkur að við lifum á „síðustu dögum“ þessa illa heimskerfis. Þetta er tímabilið sem kallað er ‚endir veraldar‘ og í kjölfar þess kemur nýr heimur Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; Matteus 24:3-13) Eins og Daníel spáði á himneskt ríki Guðs bráðlega eftir að „knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [sem nú eru], en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44.
17, 18. Hvaða stórkostlegir spádómar eru að rætast núna?
17 Meðal spádómanna, sem eru að uppfyllast núna, er spádómurinn í 14. versi 24. kafla Matteusar. Þar sagði Jesús: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ Vottar Jehóva eru nú í milljónatali að prédika Guðsríki um alla jörðina. Og fólk gengur til liðs við þá í hundruðþúsundatali ár hvert. Það er í samræmi við spádóminn í Jesaja 2:2, 3 sem segir að „á hinum síðustu dögum“ þessa illa heims streymi fólk af mörgum þjóðum til hinnar sönnu tilbeiðslu á Jehóva og að ‚hann kenni þeim sína vegu og það gangi á hans stigum.‘
18 Þessir nýju streyma til tilbeiðslunnar á Jehóva „eins og ský“ samkvæmt spádóminum í Jesaja 60. kafla versi 8. Vers 22 bætir við: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“ Sá tími er kominn eins og auðsætt er. Og hinir nýju mega treysta að með félagsskap sínum við votta Jehóva hafi þeir komist í samband við hinn sannkristna söfnuð.
19. Hvers vegna segjum við að nýir, sem hafa félagsskap við votta Jehóva, séu að koma til hins sannkristna safnaðar?
19 Af hverju getum við fullyrt það með öryggi? Af því að þessir nýju hafa, ásamt þeim milljónum sem fyrir eru í skipulagi Jehóva, vígt Guði líf sitt og gera vilja hans. Það felur í sér að lifa í samræmi við lögmál kærleika Guðs. Ein sönnun þess er að þessir kristnu menn hafa ‚smíðað plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum og temja sér ekki hernað framar.‘ (Jesaja 2:4) Allir vottar Jehóva hafa gert þetta af því að þeir iðka kærleika. Það merkir að þeir geta aldrei tekið sér stríðsvopn í hönd hver gegn öðrum eða gegn nokkrum öðrum. Að þessu leyti eru þeir einstakir — ólíkir trúarbrögðum heimsins. (Jóhannes 13:34, 35; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12, 15) Þeir bendla sig ekki við sundrandi þjóðernishyggju af því að þeir mynda alheimsbræðrafélag sem er bundið saman af kærleika, ‚fullkomnu einingarbandi.‘ — Kólossubréfið 3:14, NW; Matteus 23:8; 1. Jóhannesarbréf 4:20, 21.
Flestir velja vanþekkingu
20, 21. Hvers vegna er yfirgnæfandi meirihluti mannkyns í andlegu myrkri? (2. Korintubréf 4:4; 1. Jóhannesarbréf 5:19)
20 Um leið og hið andlega ljós meðal þjóna Guðs verður skærara sökkva aðrir jarðarbúar niður í æ svartara andlegt myrkur. Þeir þekkja ekki Jehóva eða tilgang hans. Spámaður Guðs lýsti þessum tíma er hann sagði: „Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum.“ (Jesaja 60:2) Það kemur til af því að fólk sýnir hvorki einlægan áhuga á að læra um Guð né löngun til að reyna að þóknast honum. Jesús sagði: „Þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond. Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís.“ — Jóhannes 3:19, 20.
21 Slíkir einstaklingar hafa ekki einlægan áhuga á að kynna sér hver sé vilji Guðs. Þess í stað láta þeir líf sitt snúast um það að gera vilja sjálfra sín. Með því að skeyta ekki um vilja Guðs setja þeir sig í hættulega stöðu því að orð hans lýsir yfir: „Sá sem snýr eyra sínu frá til þess að heyra ekki lögmálið, — jafnvel bæn hans er andstyggð.“ (Orðskviðirnir 28:9) Þeir verða að taka afleiðingum þeirrar stefnu sem þeir hafa valið sér. Páll postuli skrifaði: „Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ — Galatabréfið 6:7.
22. Hvað er sá mikli fjöldi, sem vill þekkja Guð, að gera núna?
22 En það er líka mikill fjöldi sem vill þekkja vilja Guðs, sem leitar hans í einlægni og nálægir sig honum. „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður,“ segir Jakobsbréfið 4:8. Jesús sagði um slíka menn: „Sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð.“ (Jóhannes 3:21) Og það er tilgangur Guðs að veita þeim sem hafa komið til ljóssins stórkostlega framtíð! Næsta grein fjallar um þessar spennandi framtíðarhorfur.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað segja margir um tilgang lífsins?
◻ Hvernig opinberar Jehóva sjálfan sig sem Guð er hefur tilgang?
◻ Hvaða mikil upplýsing átti sér stað á fyrstu öldinni?
◻ Hvernig er hægt að þekkja hinn sannkristna söfnuð nú á dögum?