Jehóva er sanngjarn!
„Viskan að ofan er . . . sanngjörn.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 3:17, NW.
1. Hvernig hafa sumir lýst Guði sem ósanngjörnum og hvað finnst þér um slíkt viðhorf til Guðs?
HVERS konar Guð tilbiður þú? Skynjar þú hann sem strangan, skapstirðan Guð með ósveigjanlega réttvísi? Mótmælandinn og siðbótarmaðurinn Jóhannes Kalvín hlýtur að hafa skynjað Guð þannig. Kalvín fullyrti að Guð hefði „eilífa og óbreytanlega áætlun“ með hvern einstakling, og ákvæði hverjum og einum fyrirfram hvort hann lifði að eilífu í hamingju eða hlyti eilífa kvöl í vítiseldi. Hugsaðu þér: Ef þetta væri rétt gætir þú aldrei, sama hvað þú reyndir, haggað óbreytanlegum langtímatilgangi Guðs með þig og framtíð þína. Myndir þú laðast að svona ósanngjörnum Guði? — Samanber Jakobsbréfið 4:8.
2, 3. (a) Hvernig mætti lýsa ósanngirni mannlegra stofnana og samtaka? (b) Hvernig opinberar sýn Esekíels aðlögunarhæfni Guðs?
2 Það er mikill léttir að vita að Guð Biblíunnar er alveg sérstaklega sanngjarn! Það er ekki Guð heldur menn sem hafa sökum ófullkomleika síns tilhneigingu til að vera stífir og ósveigjanlegir. Stofnanir manna geta verið jafn-þunglamalegar og járnbrautarlest með þungan farm. Löng flutningalest, sem nálgast hindrun á brautinni, getur ekki vikið út af sporinu og það er litlu auðveldara að stöðva hana. Slíkur getur skriðþungi lestar verið að hún renni langt á annan kílómetra eftir að hemlar eru settir á uns hún stöðvast! Risaolíuskip getur þurft eina átta kílómetra til að stöðvast eftir að slegið er af vélunum. Jafnvel þótt sett sé í bakgír getur það klofið sjóinn áfram eina þrjá kílómetra! En lítum nú á annað farartæki sem er margfalt ógurlegra en þessi tvö, það er að segja farartæki sem táknar skipulag Guðs.
3 Fyrir liðlega 2600 árum lét Jehóva spámanninn Esekíel sjá sýn sem lýsti himnesku skipulagi andavera hans. Esekíel sá ógurlega stóran stríðsvagn, „farartæki“ Jehóva sjálfs sem hann hefur alltaf fulla stjórn á. Áhugavert var hvernig það hreyfðist úr stað. Risastór hjólin voru fjórhliða og alsett augum, þannig að þau höfðu fulla yfirsýn og gátu breytt tafarlaust um stefnu, án þess að nema fyrst staðar eða beygja. Og þetta risafarartæki var ekki þunglamalegt eins og risaolíuskip eða flutningalest. Það gat farið með eldingarhraða og jafnvel tekið vinkilbeygjur! (Esekíel 1:1, 14-28) Jehóva er jafnólíkur þeim Guði, sem Kalvín prédikaði, og stríðsvagn hans er ólíkur klunnalegum farartækjum manna. Hann getur aðlagað sig aðstæðum fullkomlega. Þegar við skiljum þennan þátt í persónuleika Jehóva ætti það að hjálpa okkur að vera sveigjanleg og forðast ósanngirni.
Jehóva — enginn í alheiminum er sveigjanlegri en hann
4. (a) Á hvaða hátt opinberar nafn Jehóva að hann sé sveigjanlegur Guð? (b) Nefndu suma af þeim titlum sem notaðir eru um Jehóva Guð og hvers vegna þeir eru viðeigandi.
4 Nafn Jehóva gefur meira að segja í skyn aðlögunarhæfni hans. „Jehóva“ merkir bókstaflega „hann lætur verða.“ Það þýðir greinilega að Jehóva lætur sjálfan sig uppfylla öll fyrirheit sín. Þegar Móse spurði Guð nafns gerði Jehóva ítarlega grein fyrir merkingu þess og sagði: „Ég mun reynast vera það sem ég mun reynast vera.“ (2. Mósebók 3:14, NW) Þýðing Rotherhams orðar það hnitmiðað á þennan hátt: „Ég verð hvað sem mér þóknast.“ Jehóva reynist vera eða kýs að verða hvaðeina sem þarf til að uppfylla réttlátan tilgang sinn og fyrirheit. Hann ber þannig tilkomumikla titla svo sem skapari, faðir, alvaldur Drottinn, hirðir, Jehóva allsherjar, hann sem heyrir bænir, dómari, mikli fræðari og lausnari. Hann hefur gert sig að öllu þessu og fleiru til að fullna kærleiksríkan tilgang sinn. — Jesaja 8:13; 30:20, NW; 40:28; 41:14, NW; Sálmur 23:1; 65:3; 73:28, NW; 89:27; Dómarabókin 11:27; sjá einnig New World Translation, viðauka 1J.
5. Af hverju ættum við ekki að álykta sem svo að aðlögunarhæfni Jehóva merki að eðli hans eða staðlar breytist?
5 Merkir þetta þá að eðli Guðs eða staðlar breytist? Nei, eins og Jakobsbréfið 1:17 orðar það, „hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.“ Er mótsögn í því? Alls ekki. Hvaða kærleiksríkt foreldri gegnir til dæmis ekki mismunandi hlutverkum til góðs fyrir börn sín? Á einum og sama degi getur foreldri verið leiðbeinandi, matreiðslumaður, ræstingamaður, kennari, uppalandi, vinur, viðgerðarmaður, hjúkrunarfræðingur — listinn er endalaus. Foreldri breytir ekki um persónuleika þegar það tekur á sig þessi hlutverk; það aðlagar sig einfaldlega þörfum augnabliksins. Eins er það með Jehóva, en í miklu stórkostlegri mæli. Því eru engin takmörk sett hvað hann getur látið sig verða til gagns fyrir sköpunarverur sínar. Dýptin í visku hans er sannarlega gífurleg! — Rómverjabréfið 11:33.
Sanngirni einkennir visku Guðs
6. Hvað merkir gríska orðið bókstaflega sem Jakob notaði til að lýsa visku Guðs og hvað gefur það í skyn?
6 Lærisveinninn Jakob notaði athyglisvert orð til að lýsa visku þessa frábærlega sveigjanlega Guðs. Hann skrifaði: „Viskan að ofan er . . . sanngjörn.“ (Jakobsbréfið 3:17, NW) Gríska orðið epieikesʹ, sem er notað hér, er vandþýtt. Þýðendur hafa notað orð svo sem „blíð,“ „vægin,“ „umburðarlynd“ og „tillitssöm.“ Nýheimsþýðingin þýðir það „sanngjörn“ með neðanmálsathugasemd þar sem kemur fram að það merki bókstaflega „eftirgefanleg.“a Orðið gefur líka í skyn þá hugmynd að heimta ekki að bókstaf laganna sé fylgt til hins ýtrasta og vera ekki óþarflega strangur eða hörkulegur. Fræðimaðurinn William Barclay segir í New Testament Words: „Grundvöllurinn og kjarninn í epieikeia er sá að það á upptök sín hjá Guði. Hvar værum við stödd ef Guð stæði fastur á rétti sínum, ef Guð færi aðeins með okkur í samræmi við strangasta bókstaf laganna? Guð er frábærasta dæmið um þann sem er epieikēs og kemur fram við aðra með epieikeia.“
7. Hvernig sýndi Jehóva sanngirni í Edengarðinum?
7 Íhugum tímann þegar mannkynið gerði uppreisn gegn drottinvaldi Jehóva. Það hefði verið svo auðvelt fyrir Guð að lífláta þessa þrjá vanþakklátu uppreisnarseggi — Adam, Evu og Satan! Hann hefði sparað sér margar sorgir með því. Og hver hefði getað véfengt rétt hans til að framfylgja svona strangri réttvísi? En Jehóva lætur himneskt skipulag sitt, sem líkist stríðsvagni, aldrei festast í einhverri, stífri og ósveigjanlegri réttvísi. Þessi stríðsvagn ók því ekki miskunnarlaust yfir mannkynið og tróð niður alla möguleika þess á hamingjuríkri framtíð. Þvert á móti stýrði Jehóva stríðsvagni sínum með eldingarhraða. Strax eftir uppreisnina opinberaði Jehóva Guð langtímatilgang sem bauð öllum afkomendum Adams miskunn og von. — 1. Mósebók 3:15.
8. (a) Hvernig er misskilin sanngirni kristna heimsins gerólík ósvikinni sanngirni Jehóva? (b) Af hverju getum við sagt að sanngirni Jehóva gefi ekki í skyn að hann geti slakað á meginreglum sínum?
8 Sanngirni Jehóva gefur þó ekki í skyn að hann geti slakað á meginreglum sínum. Kirkjur kristna heimsins halda kannski nú orðið að þær séu sanngjarnar þegar þær látast ekki sjá siðleysi. Þannig vilja þær vinna sér hylli vegvilltra sóknarbarna sinna. (Samanber 2. Tímóteusarbréf 4:3.) Jehóva brýtur aldrei lög sín og slakar aldrei á meginreglum sínum. Hann sýnir sig öllu heldur fúsan til að vera sveigjanlegur, lagar sig að aðstæðum, þannig að hægt sé að beita þessum meginreglum bæði með réttvísi og miskunn. Hann gætir þess alltaf að fara milliveginn milli réttvísi sinnar og máttar annars vegar, og kærleika síns og sanngjarnrar visku hins vegar. Við skulum virða fyrir okkur hvernig Jehóva sýnir sanngirni sína með þrennum hætti.
„Fús til að fyrirgefa“
9, 10. (a) Hvernig er ‚fúsleiki til að fyrirgefa‘ tengdur sanngirni? (b) Hvernig naut Davíð góðs af fúsleika Jehóva til að fyrirgefa og hvers vegna?
9 Davíð skrifaði: „Þú, [Jehóva], ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.“ (Sálmur 86:5) Þegar Hebresku ritningarnar voru þýddar á grísku var orðið, sem þýðir „fús til að fyrirgefa,“ þýtt epieikesʹ eða „sanngjarn.“ Að vera fús til að fyrirgefa og sýna miskunn er kannski mikilvægasta leiðin til að sýna sanngirni.
10 Davíð skildi mætavel hve sanngjarn Jehóva er að þessu leyti. Þegar hann framdi hjúskaparbrot með Batsebu og bjó svo um hnútana að maður hennar yrði drepinn, áttu bæði hann og Batseba dauðarefsingu yfir höfði sér. (5. Mósebók 22:22; 2. Samúelsbók 11:2-27) Ef ósveigjanlegir, mennskir dómarar hefðu dæmt í málinu hefðu þau kannski bæði verið tekin af lífi. En Jehóva sýndi sanngirni (epieikesʹ) sem, eins og Vine’s Expository Dictionary of Biblical Words útskýrir, „tjáir þá tillitssemi að horfa ‚með mannúð og sanngirni á málsatvik.‘“ Staðreyndirnar, sem höfðu áhrif á miskunnsama ákvörðun Jehóva, hafa líklega verið meðal annars einlæg iðrun syndaranna og sú miskunn sem Davíð hafði sjálfur sýnt öðrum áður. (1. Samúelsbók 24:4-6; 25:32-35; 26:7-11; Matteus 5:7; Jakobsbréfið 2:13) En í samræmi við lýsingu Jehóva á sjálfum sér í 2. Mósebók 34:4-7 var sanngjarnt að Jehóva leiðrétti Davíð. Hann sendi spámanninn Natan til Davíðs með alvarleg skilaboð og minnti Davíð á þá staðreynd að hann hefði fyrirlitið orð Jehóva. Davíð iðraðist og dó því ekki fyrir synd sína. — 2. Samúelsbók 12:1-14.
11. Hvernig sýndi Jehóva fúsleika sinn til að fyrirgefa í sambandi við Manasse?
11 Manasse Júdakonungur er enn eftirtektarverðara dæmi í þessu sambandi, því ólíkt Davíð var hann mjög óguðlegur um langt skeið. Manasse stuðlaði að viðurstyggilegum trúarathöfnum í landinu, meðal annars mannafórnum. Hann kann líka að hafa verið ábyrgur fyrir því að hinn trúfasti spámaður Jesaja var ‚sagaður sundur.‘ (Hebreabréfið 11:37) Til að refsa Manasse leyfði Jehóva að hann væri fluttur sem fangi til Babýlonar. En Manasse iðraðist í fangelsinu og sárbændi um miskunn. Vegna þessarar einlægu iðrunar var Jehóva „fús til að fyrirgefa“ — jafnvel í þessu grófa tilviki. — 2. Kroníkubók 33:9-13.
Breytt um stefnu þegar aðstæður breytast
12, 13. (a) Hvaða breyttar aðstæður komu Jehóva til að breyta um stefnu gagnvart Níníve? (b) Hvernig reyndist sanngirni Jónasar minni en sanngirni Jehóva Guðs?
12 Sanngirni Jehóva sýnir sig líka í fúsleika hans til að breyta fyrirhugaðri stefnu þegar aðstæður breytast. Til dæmis var innblásinn boðskapur Jónasar sáraeinfaldur er hann gekk um götur Níníve til forna: Hinni voldugu borg yrði eytt eftir 40 daga. En aðstæður breyttust — stórkostlega! Nínívebúar iðruðust. — Jónasarbók, 3. kafli.
13 Það er fróðlegt að bera saman viðbrögð Jehóva og Jónasar við þessum breyttu aðstæðum. Segja má að Jehóva hafi látið himneskan stríðsvagn sinn breyta um stefnu. Í þessu tilviki lagaði hann sig að aðstæðum og ‚lét sig‘ fyrirgefa syndir í stað þess að vera „stríðshetja.“ (2. Mósebók 15:3) Jónas var hins vegar ósveigjanlegri. Í stað þess að vera samstíga stríðsvagni Jehóva líktist hann meira flutningalestinni eða risaolíuskipinu sem minnst var á áður. Hann hafði boðað dóm og dóminum skyldi fullnægt! Kannski fannst honum að breytt stefna yrði honum til minnkunar í augum Nínívebúa. En með þolinmæði kenndi Jehóva þrjóskum spámanni sínum eftirminnilega lexíu í sanngirni og miskunn. — Jónasarbók, 4. kafli.
14. Af hverju breytti Jehóva um stefnu í sambandi við spámanninn Esekíel?
14 Jehóva hefur breytt um stefnu við önnur tækifæri — jafnvel í tiltölulega smávægilegum málum. Til dæmis fól hann Esekíel, spámanni sínum, einu sinni að leika spádómlegan sjónleik og gaf honum meðal annars fyrirmæli um að hann skyldi nota mannasaur sem eldsneyti til að elda mat sinn við. En þá var spámanninum nóg boðið og hann hrópaði: „Æ, [Jehóva] Guð!“ og sárbændi Guð um að fá að nota eitthvað annað sem væri honum ekki jafn-ógeðfellt. Jehóva vísaði ekki tilfinningum spámannsins á bug sem fráleitum heldur leyfði honum að nota nautgripatað sem er algengt eldsneyti víða um lönd enn þann dag í dag. — Esekíel 4:12-15.
15. (a) Hvaða dæmi sýna að Jehóva hefur verið fús til að hlusta á menn og bregðast jákvætt við óskum þeirra? (b) Hvaða lexíu gætum við lært af því?
15 Finnst okkur ekki aðlaðandi það lítillæti sem einkennir Guð okkar, Jehóva? (Sálmur 18:36) Hann er óendanlega æðri en við, en þó hlustar hann þolinmóður á ófullkomna menn og breytir stundum jafnvel um stefnu í samræmi við það. Hann leyfði Abraham að biðja í löngu máli fyrir því að Sódómu og Gómorru yrði ekki eytt. (1. Mósebók 18:23-33) Og hann leyfði Móse að andmæla uppástungu sinni um að eyða hinum uppreisnargjörnu Ísraelsmönnum og mynda í staðinn volduga þjóð af Móse. (2. Mósebók 32:7-14; 5. Mósebók 9:14, 19; samanber Amos 7:1-6.) Með því gaf hann mennskum þjónum sínum fullkomið fordæmi en þeir ættu að vera jafnfúsir til að hlusta á aðra þegar það er sanngjarnt og gerlegt. — Samanber Jakobsbréfið 1:19.
Valdi beitt af sanngirni
16. Hvernig er Jehóva ólíkur mörgum mönnum í því hvernig hann beitir valdi sínu?
16 Hefur þú nokkurn tíma veitt því eftirtekt að oft virðist grynnka á sanngirni manna um leið og þeir fá aukið vald? Jehóva, sem fer með æðstu valdastöðu í alheiminum, er aftur á móti besta dæmið um sanngirni. Hann beitir valdi sínu alltaf með sanngirni. Ólíkt mörgum mönnum er Jehóva ekki óöruggur um vald sitt, og því finnst honum hann ekki tilneyddur að gæta þess með tortryggni — rétt eins og hann væri að ógna eigin valdi með því að veita öðrum eitthvert vald. Meðan enn var aðeins ein önnur vera í alheiminum veitti Jehóva henni víðtækt vald. Hann gerði Orðið að ‚verkstýru‘ sinni og síðan skapaði hann alla hluti fyrir atbeina þessa elskaða sonar. (Orðskviðirnir 8:22, 29-31; Jóhannes 1:1-3, 14; Kólossubréfið 1:15-17) Síðar veitti hann honum „allt vald . . . á himni og jörðu.“ — Matteus 28:18; Jóhannes 5:22.
17, 18. (a) Af hverju sendi Jehóva engla til Sódómu og Gómorru? (b) Hvers vegna bað Jehóva englana um tillögur um hvernig ætti að ginna Akab?
17 Á svipaðan hátt treystir Jehóva mörgum sköpunarverum sínum fyrir verkum sem hann gæti sjálfur gert betur. Þegar hann til dæmis sagði Abraham: „Ég ætla . . . að stíga niður þangað [til Sódómu og Gómorru] til þess að sjá, hvort þeir hafa fullkomlega aðhafst það, sem hrópað er um,“ átti hann ekki við að hann myndi fara þangað í eigin persónu. Þess í stað kaus Jehóva að veita öðrum það vald og sendi engla til að afla slíkra upplýsinga fyrir sig. Hann gaf þeim vald til að stýra þessari upplýsingaöflun og skýra sér síðan frá. — 1. Mósebók 18:1-3, 20-22.
18 Við annað tækifæri, þegar Jehóva ákvað að fullnægja dómi á hinum illa konungi Akab, bauð hann samankomnum englum á himnum að koma með tillögur um hvernig ætti að „ginna“ þennan fráhvarfskonung út í bardaga sem myndi binda enda á líf hans. Varla þurfti Jehóva, uppspretta allrar visku, hjálp til að finna bestu aðferðina! Samt veitti hann englunum þá virðingu og sérréttindi að stinga upp á lausnum, og vald til að framfylgja þeirri sem hann kaus. — 1. Konungabók 22:19-22.
19. (a) Af hverju setur Jehóva tiltölulega fá lög? (b) Hvernig sýnir Jehóva sig sanngjarnan í því sem hann ætlast til af okkur?
19 Jehóva notar ekki vald sitt til að stjórna lífi annarra meir en þörf krefur. Þar sýnir hann líka óviðjafnanlega sanngirni. Hann gætir þess vandlega að setja ekki fleiri lög en þarf og bannar þjónum sínum að ‚fara lengra en ritað er‘ með því að bæta við íþyngjandi lögum frá eigin brjósti. (1. Korintubréf 4:6; Postulasagan 15:28; samanber Matteus 23:4.) Hann krefst aldrei blindrar hlýðni af sköpunarverum sínum heldur gefur yfirleitt nægar upplýsingar til að leiðbeina þeim, og gefur þeim kost á að velja með því að láta þær vita um kosti þess að hlýða og afleiðingar þess að óhlýðnast. (5. Mósebók 30:19, 20) Í stað þess að þvinga fólk með því að vekja með því sektarkennd, smánarkennd eða ótta, leitast hann við að ná til hjartans; hann vill að fólk þjóni honum vegna ósvikins kærleika en ekki af nauðung. (2. Korintubréf 9:7) Öll slík þjónusta af allri sálu gleður hjarta Guðs, þannig að hann er ekki ‚ósanngjarn.‘ — 1. Pétursbréf 2:18; Orðskviðirnir 27:11; samanber Míka 6:8.
20. Hvaða áhrif hefur sanngirni Jehóva á þig?
20 Er það ekki eftirtektarvert að Jehóva Guð, sem er voldugri en nokkur sköpunarvera, skuli aldrei beita þessu valdi með ósanngirni, aldrei beita því til að kúga eða hræða aðra? En menn, sem eru svo smáir í samanburði við hann, hafa getið sér orð fyrir að drottna yfir öðrum. (Prédikarinn 8:9) Ljóst er að sanngirni er dýrmætur eiginleiki sem fær okkur til að elska Jehóva enn heitar. Það getur síðan verið okkur hvöt til að rækta þennan eiginleika með sjálfum okkur. Hvernig getum við gert það? Greinin á eftir fjallar um það.
[Neðanmáls]
a Árið 1769 skilgreindi orðabókarhöfundurinn John Parkhurst orðið sem „eftirgefanlegur, með eftirgefanlegt lunderni, blíður, mildur, þolinmóður.“ Aðrir fræðimenn hafa líka nefnt „eftirgefanlegur“ sem skilgreiningu.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig leggur nafn Jehóva og sýnin af himneskum stríðsvagni hans áherslu á aðlögunarhæfni hans?
◻ Hvað er sanngirni og af hverju er hún eitt af einkennum visku Guðs?
◻ Á hvaða vegu hefur Jehóva sýnt að hann sé „fús til að fyrirgefa“?
◻ Hvers vegna hefur Jehóva kosið að breyta fyrirhugaðri stefnu í vissum tilvikum?
◻ Hvernig sýnir Jehóva sanngirni í meðferð valds síns?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Af hverju fyrirgaf Jehóva hinum óguðlega Manasse konungi?