Þróunarkenningin leidd fyrir rétt
Yfirlýstir þróunarsinnar krefjast nú með háreysti að uppruni lífsins sé rannsakaður frá grunni.
ÍMYNDAÐU þér að þú sért dómari í sakamáli. Sakborningurinn lýsir yfir sakleysi sínu og vitni ganga fram til að vitna um það. En þegar þú hlýðir á framburð þeirra kemstu að raun um að vitnin eru öll í mótsögn hvert við annað. Síðan, þegar vitni ákærða eru kölluð aftur í vitnastúkuna breytist framburður þeirra. Myndir þú sem dómari taka mikið mark á framburði þeirra? Hefðir þú tilhneigingu til að sýkna sakborninginn? Trúlega ekki, því að sérhvert ósamræmi í framburði dregur úr trúverðugleika hins ákærða.
Þannig er ástatt með þróunarkenninguna. Heill herskari vitna hefur komið fram og sagt ólíkar sögur af uppruna lífsins í því skyni að verja þróunarkenninguna. En stæðist framburður þeirra fyrir rétti? Eru stuðningsmenn kenningarinnar á einu máli?
Vitnisburður stangast á
Hvernig kviknaði lífið? Ætli nokkur önnur spurning hafi ýtt undir jafnmiklar getgátur og kveikt jafnmiklar deilur? En það er ekki bara deilt um þróun eða sköpun heldur eru það að stórum hluta þróunarfræðingarnir sjálfir sem takast á. Deilt er ákaft um nálega alla þætti þróunarkenningarinnar — hvernig þróunin á að hafa átt sér stað, hvar hún hófst, hver eða hvað kom henni af stað og hve langan tíma hún tók.
Um langt árabil fullyrtu þróunarfræðingar að lífið hafi byrjað í volgum polli lífrænnar „súpu.“ Nú telja sumir að líf hafi getað kviknað í froðu á hafinu. Neðansjávarhverir eru enn ein tillaga að upphafsstað lífsins. Sumir gefa sér að lifandi verur hafi borist til jarðar með loftsteinum. Eða þá, segja sumir, að smástirni hafi rekist á jörðina, breytt loftslaginu og kveikt líf um leið. „Ef stórt smástirni úr járni rækist á jörðina gerðist áreiðanlega ýmislegt athyglisvert,“ segir rannsóknarmaður.
Þær aðstæður, sem lífið kviknaði við, hafa einnig verið teknar til endurskoðunar. „Lífið kviknaði ekki við róleg og mild skilyrði, eins og einu sinni var haldið,“ segir tímaritið Time, „heldur undir fjandsamlegum himni reikistjörnu þar sem eldgos eyddu og halastjörnur og smástirni ógnuðu.“ Nú segja sumir vísindamenn að til þess að líf hafi getað þróast mitt í slíkum glundroða hljóti allt ferlið að hafa átt sér stað innan þrengri tímamarka en áður var haldið.
Vísindamenn hafa líka ólíkar skoðanir á því hvaða hlutverki Guð — „ef hann er til“ — gegndi í uppruna lífsins. Sumir segja að lífið hafi þróast án afskipa skapara en aðrir slá því fram að Guð hafi komið ferlinu af stað og síðan látið þróunina taka við.
Hvernig þróaðist lífið eftir að það kviknaði? Jafnvel þar stangast framburður á. Árið 1958, öld eftir að bókin Uppruni tegundanna kom út, sagði þróunarfræðingurinn Sir Julian Huxley: „Hin mikla uppgötvun Darwins, hið algilda náttúruvalslögmál, er algerlega og endanlega staðfest sem hinn eini orsakavaldur stórra þróunarbreytinga.“ En 24 árum síðar skrifaði þróunarfræðingurinn Michael Ruse: „Þeim líffræðingum fjölgar . . . sem halda því fram að sérhver þróunarkenning byggð á lögmálum Darwins — einkanlega hver sú kenning sem gengur út frá náttúruvali sem hinum eina lykli þróunarbreytinga — sé villandi og ófullkomin.“
Enda þótt tímaritið Time segi að „margar óhagganlegar staðreyndir“ styðji þróunarkenninguna, viðurkennir það þó að þróun sé flókin saga og „mjög götótt, og ekki vanti ósamhljóða kenningar um það hvernig eigi að fylla í eyðurnar.“ Sumir eindregnustu þróunarsinnarnir eru alls ekki þeirrar skoðunar að málið sé upplýst, heldur krefjast nú með háreysti að uppruni lífsins sé rannsakaður frá grunni.
Rökin fyrir þróunarkenningunni — einkum rökin fyrir upphafi lífsins eins og þróunarkenningin gerir ráð fyrir að hann hafi verið — eru því ekki byggð á samhljóða vitnisburði. Vísindamaðurinn T. H. Janabi bendir á að talsmenn þróunarkenningarinnar hafi „með árunum mótað og lagt á hilluna margar rangar kenningar og að fram til þessa hafi vísindamenn ekki getað komið sér saman um nokkra eina kenningu.“
Það er athyglisvert að Charles Darwin bjóst við slíkum átökum. Í inngangsorðum Uppruna tegundanna skrifaði hann: „Mér er það vel ljóst að tæplega er nokkurt einstakt atriði, sem um er rætt í þessu bindi, þar sem ekki er hægt að tilfæra staðreyndir til sönnunar er virðast oft leiða til fullkomlega gagnstæðrar niðurstöðu við þá sem ég hef komist að.“
Slíkur mótsagnakenndur framburður vekur vissulega efasemdir um trúverðugleika þróunarkenningarinnar.
Er þróunarkenningin hinn vitlegi kostur?
Bókin Milestones of History bendir á að allt frá því að þróunarkenningin kom fram hafi hún „höfðað til margra vegna þess að hún virtist hreinlega vísindalegri en kenningin um beina sköpun.“
Kreddukenndar fullyrðingar sumra þróunarfræðinga geta auk þess hrætt kjarkinn úr mönnum. Til dæmis heldur vísindamaðurinn H. S. Shelton því fram að hugmyndin um beina sköpun sé „of bjánaleg til að íhuga hana í alvöru.“ Líffræðingurinn Richard Dawkins segir umbúðalaust: „Ef einhver segist ekki trúa á þróun er hann annaðhvort fáfróður, heimskur eða geðveikur.“ Prófessor René Dubos tekur í sama streng: „Flestir upplýstir menn viðurkenna nú sem staðreynd að allt í alheiminum — frá himintunglunum til mannanna — hafi þróast og haldi áfram að þróast.“
Eftir þessum orðum að dæma mætti ætla að allir menn með einhvern greindarvott í kollinum fallist fúslega á þróunarkenninguna. Þegar alls er gætt ætti það að bera vott um að maður sé ‚upplýstur‘ frekar en ‚heimskur.‘ Engu að síður aðhyllast margir hámenntaðir menn og konur ekki þróunarkenninguna. „Ég fann marga vísindamenn sem efast innst inni,“ skrifar Francis Hitching í bók sinni The Neck of the Giraffe, „og fáeina sem sögðu jafnvel að þróunarkenning Darwins hafi alls ekki reynst vera vísindakenning.“
Chandra Wickramasinghe, mjög virtur breskur vísindamaður, tekur svipaða afstöðu. „Það eru engin haldgóð rök fyrir nokkrum af grundvallarreglum þróunarkenningar Darwins,“ segir hann. „Hún var þjóðfélagsafl sem tók völdin í heiminum árið 1860, og ég tel að það hafi verið vísindunum til bölvunar æ síðan.“
T. H. Janabi rannsakaði röksemdir þróunarfræðinga. „Ég komst að raun um að staðan er gerólík því sem okkur er talin trú um,“ segir hann. „Vitnisburðurinn er of fátæklegur og of slitróttur til að styðja jafnflókna kenningu og kenninguna um uppruna lífsins.“
Það ætti því ekki að vísa þeim sem andmæla þróunarkenningunni á bug sem ‚fáfróðum, heimskum eða geðveikum.‘ Meira að segja George Gaylord Simpson, sem er gallharður þróunarsinni, varð að viðurkenna um skoðanir þeirra sem véfengja þróunarkenninguna: „Það væru vissulega mistök að vísa þessum skoðunum einfaldlega á bug með góðlátlegu brosi eða gera gys að þeim. Talsmenn þeirra voru (og eru) færir og skarpir rannsóknarmenn.“
Trúaratriði
Sumir halda að það sé byggt á staðreyndum að aðhyllast þróunarkenninguna en hins vegar sé það hreint trúaratriði að aðhyllast sköpun. Vissulega er það rétt að enginn maður hefur séð Guð. (Jóhannes 1:18; samanber 2. Korintubréf 5:7.) En þar stendur þróunarkenningin ekkert betur að vígi því að hún byggist á atburðum sem enginn maður hefur séð eða líkt eftir.
Vísindamenn hafa til dæmis aldrei orðið vitni að stökkbreytingum — jafnvel hagstæðum — sem skapa nýjar lífsmyndir, en eru þó vissir um að það sé einmitt þannig sem nýjar tegundir urðu til. Þeir hafa ekki orðið vitni að sjálfkviknun lífs en halda þó fram að það sé þannig sem lífið varð til.
Slíkur skortur á sönnunum fær T. H. Janabi til að kalla þróunarkenninguna „hreint ‚trúaratriði.‘“ Eðlisfræðingurinn Fred Hoyle kallar hana „Darwinsguðspjallið.“ Evan Shute læknir gengur skrefi lengra. „Mig grunar að það séu færri ráðgátur sem sköpunarsinninn þarf að eyða með útskýringum en sannfærður þróunarsinni,“ segir hann.
Aðrir sérfræðingar samsinna honum. Stjarnfræðingurinn Robert Jastrow viðurkennir: „Þegar ég ígrunda eðli mannsins, virðist mér tilurð þessarar stórkostlegu veru úr efnasamböndum uppleystum í volgum vatnspolli jafnmikið kraftaverk og frásögn Biblíunnar af uppruna hans.“
Hvers vegna hafna þá margir enn þeirri hugmynd að lífið hafi verið skapað?
[Mynd á blaðsíðu 3]
Kreddukenndar fullyrðingar sumra geta hrætt kjarkinn úr mönnum.