Njóttu góðs af daglegum biblíulestri
„Sæll er sá maður sem . . . hefur yndi af lögmáli Jehóva og les lögmál hans lágum rómi dag og nótt.“ — SÁLMUR 1:1, 2, NW.
1. (a) Hvaða áberandi áletrun stendur á einni hlið prentsmiðjubyggingar við aðalstöðvar Varðturnsfélagsins? (b) Hvaða gagn höfum við af því að taka þessa hvatningu til okkar?
„LESTU ORÐ GUÐS, HEILAGA BIBLÍU, DAGLEGA.“ Þessi orð standa með stórum stöfum utan á byggingu í Brooklyn í New York þar sem Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn prentar biblíur og biblíurit. Þessi áminning er ekki einungis ætluð fólki í heiminum sem sér hana. Vottum Jehóva er ljóst að þeir þurfa líka að taka hana til sín. Þeir sem lesa Biblíuna reglulega og fara eftir henni njóta góðs af fræðslu hennar, umvöndun, leiðréttingu og menntun í réttlæti. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
2. Hvernig lagði bróðir Russell áherslu á biblíulestur?
2 Vottar Jehóva meta biblíunámsrit sín mikils, þeirra á meðal Varðturninn, og nota þau reglulega. En þeir vita að ekkert þeirra kemur í stað Biblíunnar sjálfrar. Charles Taze Russell, fyrsti forseti Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, skrifaði lesendum Varðturnsins árið 1909: „Gleymið aldrei að Biblían er mælikvarði okkar, og þó að hjálpargögnin, sem við höfum, séu Guðs gjöf eru þau ‚hjálpargögn‘ en koma ekki í stað Biblíunnar.“
3. (a) Hvaða áhrif hefur „orð Guðs“ á þá sem lesa og heyra það? (b) Hve oft lásu og numu Berojumenn Ritninguna?
3 Hin innblásna ritning býr yfir dýpt og krafti sem engin önnur bók. „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebreabréfið 4:12) Lærisveinninn Lúkas hrósaði Berojumönnum hlýlega og kallaði þá ‚veglynda.‘ Bæði tóku þeir fúslega við orðinu, sem Páll postuli og Sílas félagi hans prédikuðu, og „rannsökuðu daglega ritningarnar“ til að ganga úr skugga um að það sem verið var að kenna þeim hefði biblíulegan grundvöll. — Postulasagan 17:11.
Daglegur biblíulestur
4. Hvað gefur Biblían til kynna um það hve oft við ættum að lesa hana?
4 Biblían nefnir ekki sérstaklega hve oft við ættum að lesa hana. Þar finnum við hins vegar ráðleggingu Jehóva til Jósúa um að lesa eða ‚hugleiða lögmálsbókina dag og nótt‘ svo að hann mætti breyta viturlega og ljúka giftusamlega því verkefni sem Jehóva hafði falið honum. (Jósúabók 1:8) Hún segir okkur að konungar Ísraels til forna hafi átt að lesa Ritninguna „alla ævidaga sína.“ (5. Mósebók 17:19) Hún segir enn fremur: „Sæll er sá maður sem ekki hefur farið að ráði óguðlegra . . . heldur hefur yndi af lögmáli Jehóva og les lögmál hans lágum rómi dag og nótt.“ (Sálmur 1:1, 2, NW) Og guðspjallið, sem Matteus ritaði, segir okkur að þegar Jesús Kristur hafnaði freistingum Satans hafi hann vitnað í hinar innblásnu Hebresku ritningar og sagt: „Ritað er: ‚Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af . . . munni [Jehóva].‘“ (Matteus 4:4) Hve oft þurfum við að neyta líkamlegrar fæðu? Daglega! Neysla andlegrar fæðu er enn mikilvægari því að hún hefur áhrif á eilífar lífshorfur okkar. — 5. Mósebók 8:3; Jóhannes 17:3.
5. Hvernig getur daglegur biblíulestur hjálpað okkur að ‚hegða okkur eins og Jehóva er samboðið‘ þegar trú okkar er reynd?
5 Öll þurfum við að sækja daglegan styrk í orð Guðs. Dag hvern — heima, í vinnunni, í skólanum, á götunum, í verslunum og í boðunarstarfinu — reynir á trú okkar. Hvernig tökum við því? Koma fyrirmæli og meginreglur Biblíunnar tafarlaust upp í hugann? Biblían hvetur menn til að treysta ekki á sjálfa sig heldur segir í viðvörunartón: „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.“ (1. Korintubréf 10:12) Daglegur biblíulestur hjálpar okkur að ‚hegða okkur eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt,‘ í stað þess að leyfa heiminum að þröngva okkur í sitt mót. — Kólossubréfið 1:9, 10; Rómverjabréfið 12:2.
Lestu Biblíuna aftur og aftur
6. Af hverju er gagnlegt að lesa Biblíuna aftur og aftur?
6 Biblíulestur er mjög ólíkur skáldsögulestri. Skáldsögur eru flestar ætlaðar fyrir einn lestur; þegar lesandinn þekkir söguþráðinn og sögulokin er enginn tilgangur í að lesa bókina aftur. En Biblían er ólík, því að við höfum mikið gagn af því að að lesa hana aftur, óháð því hef oft við höfum lesið hana áður. (Orðskviðirnir 9:9) Glöggskyggn maður sér stöðugt nýja fleti á Ritningunni. Það sem hann hefur séð, heyrt og kynnst af eigin raun á nýliðnum mánuðum eykur gildi spádómanna um hina síðustu daga fyrir hann. (Daníel 12:4) Aukin lífsreynsla og færni í að takast á við vandamál fær skarpskyggnan lesanda Biblíunnar til að meta meir ráðleggingar sem hann las áður lauslega. (Orðskviðirnir 4:18) Ef hann veikist alvarlega öðlast fyrirheit Biblíunnar um að sársauki hverfi og að allir verði hraustir dýpri merkingu fyrir hann en nokkru sinni fyrr. Þegar nánir vinir og ættingjar deyja verður upprisuloforðið enn dýrmætara.
7. Hvað getur hjálpað okkur þegar við tökumst á hendur nýja ábyrgð í lífinu og hvers vegna?
7 Þú hefur kannski lesið Biblíuna og farið eftir ráðum hennar um árabil. En nú ertu kannski að takast á hendur nýja ábyrgð í lífinu. Áformarðu að giftast? Ertu að eignast barn? Hefur þér verið trúað fyrir ábyrgð í söfnuðinum sem öldungur eða safnaðarþjónn? Ertu orðinn boðberi í fullu starfi með þeim auknu tækifærum til að prédika og kenna sem því fylgja? Þá væri mjög gagnlegt fyrir þig að lesa alla Biblíuna aftur með þessa nýju ábyrgð í huga. — Efesusbréfið 5:24, 25; 6:4; 2. Tímóteusarbréf 4:1, 2.
8. Hvernig geta breyttar aðstæður útheimt að við lærum meira um það sem við héldum okkur kunna vel?
8 Þú hefur kannski sýnt ávexti andans með ágætum fram til þessa. (Galatabréfið 5:22, 23) En breyttar aðstæður útheimta kannski að þú lærir miklu meira um þessa guðlegu eiginleika. (Samanber Hebreabréfið 5:8.) Fyrrverandi farandumsjónarmaður, sem þurfti að hætta sérþjónustu sinni til að annast aldraða foreldra sína, sagði: „Ég hélt að ég stæði mig nokkuð vel í því að sýna ávexti andans. En núna finnst mér ég vera að byrja aftur frá grunni.“ Eins getur álagið samfara því að annast maka sinn, sem á við erfið tilfinningaleg eða líkamleg veikindi að stríða, af og til valdið viðbrögðum sem letja okkur. Reglulegur biblíulestur er mikil hughreysting og hjálp.
Hvenær lesa mætti Biblíuna
9. (a) Hvað getur hjálpað mjög uppteknum manni að finna tíma til daglegs biblíulestrar? (b) Af hverju er sérstaklega mikilvægt fyrir öldunga að lesa orð Guðs?
9 Það er vitanlega ekki auðvelt fyrir upptekinn mann að finna sér tíma til að gera eitthvað aukalega að staðaldri. En við getum lært af fordæmi Jehóva. Biblían upplýsir að hann geri hlutina á ‚ákveðnum tíma.‘ (1. Mósebók 21:2; 2. Mósebók 9:5; Lúkas 21:24, NW; Galatabréfið 4:4) Ef við gerum okkur ljóst hve mikilvægt það er að lesa orð Guðs reglulega getur það hjálpað okkur að velja ákveðinn tíma til þess á daglegri stundaskrá okkar. (Efesusbréfið 5:15-17) Öldungar þurfa sérstaklega að taka sér tíma til reglulegs biblíulestrar þannig að ráðin, sem þeir gefa, séu ótvírætt byggð á meginreglum Biblíunnar og hugarfar þeirra endurspegli ‚spekina sem að ofan er.‘ — Jakobsbréfið 3:17; Títusarbréfið 1:9.
10. Hvenær finna þeir sem lesa Biblíuna daglega sér tíma til þess?
10 Margir, sem fylgja fastri biblíulestraráætlun, lesa snemma morguns áður en þeir hefja dagleg störf. Öðrum þykir annar tími hentugri. Þeir sem þurfa að aka langa leið til vinnu, eða vegna vinnu sinnar geta notað tímann vel með því að hlusta á biblíulestur af segulböndum og sumir vottar gera það við heimilisstörfin.
11. Hvernig er hægt að finna sér tíma til að daglegs biblíulestrar jafnvel þótt tími sé mjög knappur?
11 Aðalatriðið er ekki hve langur tími er notaður til biblíulestrar hverju sinni heldur að lesturinn sé reglulegur. Sumir nota kannski klukkustund eða meira til lestrar hverju sinni og nota tímann þá einnig til nánari athugana og sökkva sér niður í efnið. En leyfir stundaskrá þín að þú gerir það reglulega? Í stað þess að láta marga daga líða án þess að líta í Biblíuna, væri þá ekki betra að lesa í kannski 15 mínútur eða þó ekki væri nema fimm? Einsettu þér að lesa daglega í Biblíunni. Auðgaðu síðan lesturinn með rækilegra grúski þegar þú getur.
Mismunandi aðferðir við biblíulestur
12. Hvaða biblíulestraráætlun þurfa nýir Betelfjölskyldumeðlimir og Gíleaðnemendur að fylgja?
12 Hægt er að lesa Biblíuna á marga vegu. Það er gagnlegt að lesa hana frá upphafi til enda. Allir meðlimir Betelfjölskyldunnar í aðalstöðvum Félagsins eða einhverju af útibúum þess í heiminum eiga að lesa alla Biblíuna fyrsta árið sem þeir þjóna á Betel. (Það samsvarar að jafnaði þrem til fimm köflum, eða fjórum til fimm blaðsíðum á dag.) Nemendur í Biblíuskólanum Gíleað, sem Varðturnsfélagið starfrækir, verða líka að lesa Biblíuna spjaldanna á milli áður en þeir útskrifast. Vonast er til að það hjálpi þeim að temja sér daglegan biblíulestur.
13. Hvaða markmið eru nýskírðir vottar hvattir til að setja sér?
13 Það er gagnlegt fyrir nýskírða votta að setja sér það markmið að lesa alla Biblíuna. Árið 1975, þegar ungur Frakki var að búa sig undir skírn, spurði öldungur hann hvort hann hefði reglulega biblíulestraráætlun. Upp frá því hefur hann lesið alla Biblíuna á hverju ári og les yfirleitt á morgnana áður en hann fer til vinnu. Um árangurinn segir hann: „Ég hef kynnst Jehóva miklu betur. Ég get séð hvernig allt sem hann gerir er tengt tilgangi hans og hvernig hann bregst við þegar hindranir verða á veginum. Ég sé að Jehóva er jafnframt réttlátur og góður í öllum verkum sínum.“
14. (a) Hvað er nauðsynlegt til að koma biblíulestri í gang og halda honum áfram? (b) Hvað getur hjálpað okkur að fá yfirlit yfir hverja biblíubók áður en við lesum hana?
14 Hefur þú lesið alla Biblíuna? Ef ekki er gott að byrja núna. Gerðu þér áætlun og fylgdu henni síðan. Ákveddu hve margar blaðsíður eða hve marga kafla þú ætlar að lesa daglega, eða einfaldlega hve langan tíma þú ætlar að nota til þess og hvenær. Það ljúka ekki allir lestri Biblíunnar á einu ári, en það sem skiptir máli er að lesa orð Guðs reglulega, helst daglega ef hægt er. Þegar þú lest gegnum Biblíuna uppgötvarðu kannski að vissar handbækur eru gagnlegar til að veita þér almenna yfirsýn yfir efnið. Ef þú getur lesið Innsýn í Ritninguna þér að gagni, þá ættirðu að fara yfir hið stutta yfirlit hennar um aðalatriði viðkomandi biblíubókar.a Taktu sérstaklega eftir feitletruðu fyrirsögnunum í yfirlitinu. Þú gætir líka notað þér áþekkt en ítarlegra yfirlit í bókinni „Öll ritning er innblásin af Guði og nytsöm.“b
15. (a) Hvaða tillögur koma fram á blaðsíðu 16 og 17 um áhrifaríkan biblíulestur? (b) Hverju ættum við að gefa gaum í stað þess að einblína á að komast yfir ákveðinn blaðsíðufjölda?
15 Það er gagnlegt að lesa Biblíuna samfellt frá upphafi til enda en lesturinn má ekki verða bara trúarsiður. Lestu ekki vissan blaðsíðufjölda á dag bara til að geta sagt að þú lesir alla Biblíuna á einu ári. Eins og sýnt er í rammanum „Tillögur um áhrifaríkan biblíulestur“ (á blaðsíðu 16 og 17) er hægt að lesa Biblíuna og njóta hennar á marga vegu. Hvaða aðferð sem þú notar skaltu fullvissa þig um að þú sért að næra bæði hugann og hjartað.
Skildu það sem þú lest
16. Af hverju er mikilvægt að taka sér tíma til að hugleiða það sem maður les?
16 Þegar Jesús var að kenna lærisveinum sínum lagði hann áherslu á að þeir þyrftu að skilja það sem hann sagði. Huglægur skilningur einn og sér nægði ekki heldur var mikilvægt að ‚skilja með hjartanu‘ þannig að þeir færu eftir því. (Matteus 13:14, 15, 19, 23) Það sem skiptir máli hjá Guði er hinn innri maður og það er það sem hjartað táknar. (1. Samúelsbók 16:7; Orðskviðirnir 4:23) Auk þess að fullvissa okkur um að við skiljum hvað ritningargreinarnar segja þurfum við að hugleiða þær, ígrunda hvernig þær eiga við í lífi okkar. — Sálmur 48:10; 1. Tímóteusarbréf 4:15.
17. Á hvaða nótum getum við hugleitt það sem við lesum í Ritningunni?
17 Leitastu við að koma auga á hvaða meginreglur liggi að baki frásögum Biblíunnar þannig að þú getir farið eftir þeim við þær aðstæður sem þú stendur frammi fyrir. (Samanber Matteus 9:13; 19:3-6.) Þegar þú lest um og hugleiðir undursamlega eiginleika Jehóva, notaðu þá tækifærið til að styrkja einkasamband þitt við hann, til að byggja upp með þér djúpa guðrækni. Þegar þú lest yfirlýsingar um tilgang Jehóva, hugleiddu þá hvað þú getir gert til að vinna í samræmi við þær. Þegar þú lest beinar ráðleggingar skaltu ekki segja við sjálfan þig: ‚Ég veit þetta,‘ heldur spyrja þig: ‚Geri ég þetta?‘ Ef svo er skaltu spyrja þig: ‚Á hvaða hátt get ég tekið „enn meiri framförum“ í því?‘ (1. Þessaloníkubréf 4:1) Þegar þú lærir um kröfur Guðs, taktu þá líka eftir raunsönnum dæmum Biblíunnar um fólk sem lifði samkvæmt þessum kröfum og um fólk sem gerði það ekki. Hugleiddu hvers vegna þetta fólk gerði það sem það gerði og hver málalokin urðu. (Rómverjabréfið 15:4; 1. Korintubréf 10:11) Þegar þú lest um ævi Jesú Krists skaltu muna að það er hann sem Jehóva hefur trúað fyrir konungdómi yfir allri jörðinni, og notaðu tækifærið til að efla þrá þína eftir nýjum heimi Guðs. Brjóttu líka til mergjar hvernig þú getir líkt betur eftir syni Guðs. — 1. Pétursbréf 2:21.
18. Hvernig getum við fundið jafnvægi milli þess að lesa Biblíuna og námsefni frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni?‘
18 Biblíulestur ætti auðvitað ekki að koma í staðinn fyrir hið frábæra námsefni sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur séð okkur fyrir. Það er líka hluti af ráðstöfun Jehóva — og mjög verðmætt. (Matteus 24:45-47) Gættu þess að reglulegur lestur orðs Guðs sé stór þáttur í lífi þínu. „LESTU ORÐ GUÐS, HEILAGA BIBLÍU, DAGLEGA“ sé þess nokkur kostur.
[Neðanmáls]
a Útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc. (Bókin er ekki fáanleg á íslensku).
b Útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc. (Bókin er ekki fáanleg á íslensku).
Hverju svarar þú?
◻ Af hverju er gagnlegt að lesa daglega í Biblíunni?
◻ Af hverju þurfum við að lesa Biblíuna aftur og aftur?
◻ Hvenær finnur þú þér hentugan tíma til daglegs biblíulestrar?
◻ Hvernig geturðu gert lesturinn fjölbreyttan þegar þú lest Biblíuna aftur og aftur?
◻ Hvers vegna er mjög þýðingarmikið að hugleiða það sem við lesum?
[Rammi á blaðsíðu 16, 17]
Tillögur um áhrifaríkan biblíulestur
(1) Margir lesa bækur Biblíunnar í sömu röð og þær koma fyrir, frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar. Þú gætir líka lesið þær í þeirri röð sem þær voru skrifaðar í upphafi. Hafðu í huga að Biblían er safn 66 innblásinna bóka, hún er bókasafn frá Guði. Fyrir fjölbreytni sakir gætirðu lesið sumar af bókunum sem eru sagnarit, síðan sumar sem eru aðallega spádómsrit og loks sumar sem eru heilræðabréf, í stað þess að lesa þær bara í hlaupandi blaðsíðuröð. Fylgstu með því hvað þú hefur lesið og gættu þess að lesa Biblíuna alla.
(2) Eftir að þú hefur lesið hluta Biblíunnar, spyrðu þig þá hvað hann opinberi um Jehóva, tilgang hans og aðferðir; hvaða áhrif það ætti að hafa á líf þitt og hvernig þú gætir notað það til að hjálpa einhverjum öðrum.
(3) Hafðu hliðsjón af töflunni „Helstu atburðir jarðneskrar ævi Jesú“ („Main Events of Jesus’ Earthly Life“) í Innsýn í Ritningarnar (sjá einnig „Öll ritning er innblásin af Guði og nytsöm“) og lestu samsvarandi frásögur í hinum guðspjöllunum, hverju á fætur öðru. Bættu síðan við köflum úr bókinni Mesta mikilmenni sem lifað hefur.
(4) Þegar þú lest frásöguna af ævi og þjónustu Páls í Postulasögunni, lestu þá líka innblásin bréf hans sem tengjast henni. Þegar til dæmis er minnst á hinar ýmsu borgir eða svæði, þar sem Páll prédikaði, staldraðu þá við og lestu bréfin sem hann skrifaði kristnum bræðrum sínum á þessum slóðum. Það er líka hjálplegt að rekja ferðir hans á korti svo sem kortinu á aftari kápusíðu Nýheimsþýðingarinnar eða í viðauka íslensku Biblíunnar frá 1981.
(5) Um leið og þú lest 2. Mósebók til 5. Mósebókar skaltu lesa Hebreabréfið til að fá skýringu á mörgum af hinum spádómlegu fyrirmyndum. Undir flettiorðinu „Lögmál“ („Law“) í Innsýn í Ritningarnar skaltu skoða töfluna „Nokkur meginatriði lagasáttmálans“ („Some Features of the Law Covenant“).
(6) Þegar þú lest spámannaritin, taktu þér þá tíma til að rifja upp skylt sögulegt efni í Biblíunni. Þegar þú lest til dæmis Jesajabók, rifjaðu þá upp það sem sagt er annars staðar um konungana Ússía, Jótam, Akas og Hiskía sem nefndir eru í Jesaja 1:1. (2. Konungabók 15.-20. kafli; 2. Kroníkubók 26.-32. kafli) Eða þegar þú lest Haggaí og Sakaría, taktu þér þá tíma til að rifja upp efni Esrabókar.
(7) Veldu þér biblíubók, lestu hluta hennar (til dæmis einn kafla), rannsakaðu efnið nánar og notaðu til þess Efnisskrá Varðturnsfélagsins eða Varðturnsbókasafnið á geisladiski. Notaðu efnið, til dæmis í ræðu eða í boðunarstarfinu. Lestu síðan næsta hluta.
(8) Ef til er skýringarrit frá Varðturnsfélaginu við ákveðna biblíubók að hluta eða í heild skaltu fletta oft upp í því meðan þú ert að lesa samsvarandi hluta Biblíunnar. (Sjá til dæmis umfjöllun um Ljóðaljóðin í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. desember 1957, bls. 720-34; um Esekíelsbók í bókinni „Þjóðirnar skulu vita að ég er Jehóva — hvernig?“; um Daníelsbók í bókinni „Verði vilji þinn á jörðu“ eða Hin komandi heimsstjórn okkar — Guðsríki; um Haggaí og Sakaría í bókinni Paradís endurreist handa mannkyninu — með guðræði!; um Opinberunarbókina í Opinberunarbókin — hið mikla hámark hennar er í nánd.
(9) Flettu upp sumum af millivísununum þegar þú lest. Taktu eftir þeim 320 klausum úr Hebresku ritningunum sem kristnu Grísku ritningarnar vitna beint í, og þeim hundruðum annarra ritningargreina sem vitnað er óbeint í ásamt heimfærslu. Millivísanir benda á uppfyllingu spádóma, sem Biblían greinir frá, á æviatriði og landfræðilegar upplýsingar, og á hliðstæðar hugmyndir sem geta varpað ljósi á orð og lýsingar sem þér þykja torskildar.
(10) Notaðu tilvísanaútgáfu Nýheimsþýðingarinnar ef þú getur til að skoða neðanmálsathugasemdir og viðauka sem tengjast lesefninu. Þær sýna forsendurnar fyrir þýðingunni og gefa dæmi um hvernig þýða má mikilvæg orð og orðasambönd á annan veg. Þú gætir líka skoðað orðalag annarra biblíuþýðinga til samanburðar.
(11) Skrifaðu stutt ágrip og lýstu meginhugmynd hvers kafla eftir að þú hefur lesið hann. Notaðu það til upprifunar og hugleiðingar síðar.
(12) Merktu við valda texta sem þú vilt sérstaklega muna eftir eða skrifaðu þá á spjöld og stilltu upp þar sem þú sérð þau daglega. Leggðu þá á minnið, hugleiddu þá, notaðu þá. Reyndu ekki að leggja of marga texta á minnið í einu, kannski bara einn eða tvo í viku; veldu síðan fleiri næst þegar þú lest Biblíuna.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Lestu Biblíuna eða hlustarðu á biblíulestur af segulböndum daglega?