Að vera dyggðugur í lastafullum heimi
„Gjörið allt án þess að mögla og hika, til þess að þér verðið óaðfinnanlegir og hreinir, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 2:14, 15.
1, 2. Hvers vegna krafðist Guð að Kanverjum væri útrýmt?
FYRIRMÆLI Jehóva gefa ekkert svigrúm til málamiðlunar. Ísraelsmenn voru í þann mund að ganga inn í fyrirheitna landið þegar spámaðurinn Móse sagði þeim: „Þú [skalt] gjöreyða þeim: Hetítum, Amorítum, Kanaanítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, eins og [Jehóva] Guð þinn hefir fyrir þig lagt.“ — 5. Mósebók 7:2; 20:17.
2 Jehóva er miskunnsamur Guð. Hvers vegna krafðist hann þess þá að íbúum Kanaanlands væri útrýmt? (2. Mósebók 34:6) Ein ástæðan var sú að ‚Kanverjar skyldu ekki kenna Ísrael að taka upp allar þær svívirðingar, er þeir höfðu í frammi haft guðum sínum til vegsemdar, þannig að Ísrael syndgaði gegn Jehóva Guði.‘ (5. Mósebók 20:18) Móse sagði einnig: „Það er vegna guðleysis þessara þjóða, að [Jehóva] stökkvir þeim á burt undan þér.“ (5. Mósebók 9:4) Kanverjar voru lastafullir með afbrigðum. Tilbeiðsla þeirra einkenndist af siðspillingu og skurðgoðadýrkun. (2. Mósebók 23:24; 34:12, 13; 4. Mósebók 33:52; 5. Mósebók 7:5) Sifjaspell, kynvilla og samfarir við skepnur voru ‚háttur Kanaanlands.‘ (3. Mósebók 18:3-25) Saklaus börn voru færð falsguðum að fórn með grimmilegum hætti. (5. Mósebók 18:9-12) Það er engin furða að Jehóva skyldi telja að tilvist þessara þjóða ein sér ógnaði líkamlegri, siðferðilegri og andlegri velferð fólks síns! — 2. Mósebók 34:14-16.
3. Hvaða afleiðingar hafði það að Ísraelsmenn skyldu ekki framfylgja fyrirskipunum Guðs til hlítar í sambandi við íbúa Kanaanlands?
3 Fyrirskipunum Guðs var ekki framfylgt fullkomlega. Afleiðingin var sú að margir íbúar Kanaanlands héldu lífi er Ísraelsmenn lögðu fyrirheitna landið undir sig. (Dómarabókin 1:19-21) Er tímar liðu tóku lævís áhrif Kanverja að gera vart við sig og því var hægt að segja: „Þeir [Ísraelsmenn] virtu að vettugi lög [Jehóva] og sáttmála, þann er hann hafði gjört við feður þeirra, og boðorð hans, þau er hann hafði fyrir þá lagt, og eltu fánýt goð og breyttu heimskulega að dæmi þjóðanna, er umhverfis þá voru, þótt [Jehóva] hefði bannað þeim að breyta eftir þeim.“ (2. Konungabók 17:15) Já, er árin liðu lögðu margir Ísraelsmenn stund á þá lesti sem komið höfðu Guði til að fyrirskipa að Kanverjum skyldi útrýmt — skurðgoðadýrkun, kynlífsöfgar og jafnvel barnafórnir! — Dómarabókin 10:6; 2. Konungabók 17:17; Jeremía 13:27.
4, 5. (a) Hvernig fór fyrir Ísrael og Júda? (b) Hvaða hvatningu er að finna í Filippíbréfinu 2:14, 15 og hvaða spurninga er spurt?
4 Spámaðurinn Hósea lýsti því yfir: „Heyrið orð [Jehóva], þér Ísraelsmenn! Því að [Jehóva] hefir mál að kæra gegn íbúum landsins, því að í landinu er engin trúfesti, né kærleikur, né þekking á Guði. Þeir sverja og ljúga, myrða og stela og hafa fram hjá. Þeir brjótast inn í hús, og hvert mannvígið tekur við af öðru. Fyrir því drúpir landið, og allt visnar sem í því er, jafnvel dýr merkurinnar og fuglar himinsins, og enda fiskarnir í sjónum eru hrifnir burt.“ (Hósea 4:1-3) Árið 740 f.o.t. unnu Assýringar hið spillta norðurríki, Ísrael. Rúmlega öld síðar lögðu Babýloníumenn undir sig hið ótrúa suðurríki, Júda.
5 Þessir atburðir sýna hve hættulegt það getur verið að leyfa löstum að ná tökum á sér. Guð fyrirlítur óréttlæti og umber það ekki meðal fólks síns. (1. Pétursbréf 1:14-16) Vissulega lifum við ‚hina yfirstandandi vondu öld‘ í heimi sem verður æ spilltari. (Galatabréfið 1:4; 2. Tímóteusarbréf 3:13) Samt hvetur orð Guðs alla kristna menn til að halda áfram að hegða sér þannig að þeir séu ‚óaðfinnanlegir og hreinir, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar er þeir skína hjá eins og ljós í heiminum.‘ (Filippíbréfið 2:14, 15) En hvernig getum við verið dyggðug í lastafullum heimi? Er það hreinlega hægt?
Lastafullur heimur Rómverja
6. Hvers vegna var ekki auðvelt fyrir kristna menn á fyrstu öld að vera dyggðugir?
6 Rómverskt þjóðfélag var svo lastafullt á öllum sviðum að það var ekki auðvelt fyrir kristna menn á fyrstu öld að vera dyggðugir. Rómverski heimspekingurinn Seneca sagði um samtíðarmenn sína: „Menn heyja mikla mannvonskukeppni. Syndarfíknin vex daglega og óttinn við hana dvínar.“ Hann líkti rómversku þjóðfélagi við „samfélag villidýra.“ Það vekur því ekki furðu að Rómverjar skuli hafa horft á grimmilega bardaga skylmingaþræla og klúrar sýningar í leikhúsinu sér til skemmtunar.
7. Hvernig lýsti Páll algengum löstum á fyrstu öld?
7 Páll postuli kann að hafa haft spillingu fólks á fyrstu öld í huga er hann sagði: „Guð [hefur] ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.“ (Rómverjabréfið 1:26, 27) Rómverskt þjóðfélag var staðráðið í að þjóna óhreinum girndum holdsins og sökk á bólakaf í spillingu og lesti.
8. Hvernig voru börn oft misnotuð í grísku og rómversku þjóðfélagi?
8 Ekki verður ráðið af sögunni hve útbreidd kynvilla var meðal Rómverja. Eflaust voru þeir þó undir áhrifum forvera sinna, Grikkja, en meðal þeirra var hún útbreidd. Venja var að fullorðnir karlmenn spilltu ungum drengjum. Þeir tóku þá undir „verndarvæng“ sinn sem kennarar og leiddu þá oft út í afbrigðilega kynhegðun. Eflaust hafa Satan og illir andar hans staðið að baki slíkum löstum og slíku kynferðisofbeldi gegn börnum. — Jóel 3:8; Júdasarbréfið 6, 7.
9, 10. (a) Hvernig fordæmdi 1. Korintubréf 6:9, 10 ýmiss konar lesti? (b) Hvað höfðu sumir í Korintusöfnuðinum gert áður fyrr og hvaða breyting átti sér stað hjá þeim?
9 Páll sagði kristnum mönnum í Korintu vegna innblásturs frá Guði: „Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa. Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.“ — 1. Korintubréf 6:9-11.
10 Innblásið bréf Páls fordæmdi þannig kynferðislegt siðleysi og sagði að „saurlífismenn“ myndu „ekki Guðs ríki erfa.“ En eftir að Páll hafði talið upp allmarga lesti sagði hann: „Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast.“ Með hjálp Guðs gátu syndarar orðið hreinir í augum hans.
11. Hvernig vegnaði kristnum mönnum á fyrstu öld í óguðlegu umhverfi samtíðarinnar?
11 Já, kristin dyggð dafnaði jafnvel í lastafullum heimi fyrstu aldar. Þeir sem trúðu ‚tóku háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins.‘ (Rómverjabréfið 12:2) Þeir ‚hættu hinni fyrri breytni‘ og ‚endurnýjuðust í anda og hugsun.‘ Þannig flúðu þeir lesti heimsins og ‚íklæddust hinum nýja manni sem skapaður var eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.‘ — Efesusbréfið 4:22-24.
Lastafullur heimur nútímans
12. Hvaða breyting er orðin á heiminum frá 1914?
12 Hvað um nútímann? Heimurinn er lastafyllri en nokkru sinni fyrr. Siðferði hefur hnignað um heim allan sérstaklega frá 1914. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Margir hafna hefðbundnum hugmyndum um dyggð, siðferði, sóma og siðprýði og eru orðnir eigingjarnir í hugsun og hafa „misst alla siðferðisvitund.“ (Efesusbréfið 4:19, NW) Tímaritið Newsweek sagði: „Við lifum tíma siðferðilegrar afstæðishyggju“ og bætti við að núverandi andrúmsloft í siðferðismálum hafi „breytt öllum hugmyndum um rétt og rangt í smekksatriði, tilfinningamál eða menningarlegt val.“
13. (a) Hvernig ýtir stór hluti af skemmtiefni nútímans undir lesti? (b) Hvaða slæm áhrif getur óviðeigandi skemmtun haft á fólk?
13 Úrkynjað skemmtiefni er algengt nú á dögum eins og á fyrstu öld. Stöðugur straumur skemmtiefnis með kynferðislegu ívafi streymir frá sjónvarpi, útvarpi, myndböndum og kvikmyndum. Spillingin er jafnvel komin inn á tölvunet. Klámefni á tölvunetum verður æ algengara og fólk á ýmsum aldri sækir í það. Hver eru áhrifin af öllu þessu? Dálkahöfundur dagblaðs segir: „Þegar blóðsúthellingar og limlestingar og sóðaklám gagnsýra alþýðumenningu okkar venjumst við blóðsúthellingum og limlestingum og sóðaklámi. Við sljóvgumst. Spilling verður sífellt bærilegri af því að það er æ minna sem gengur fram af okkur.“ — Samanber 1. Tímóteusarbréf 4:1, 2.
14, 15. Hvað ber þess vitni að siðferði hafi hrakað um heim allan?
14 Þessi frétt birtist í dagblaðinu The New York Times: „Það sem hefði talist hneykslanlegt fyrir 25 árum er nú orðið boðlegt líferni. Þeim sem kusu að búa saman í óvígðri sambúð frekar en giftast fjölgaði um 80 prósent [í Bandaríkjunum] frá 1980 til 1991.“ Þetta fyrirbæri er ekki bundið við Norður-Ameríku. Tímaritið Asiaweek segir: „Nú geisar menningarleg deila í löndum [Asíu]. Deiluefnið er frelsi í kynferðismálum andspænis hefðbundnum gildum og sífellt er þrýst fastar á um breytingar.“ Talnaskýrslur sýna að framhjáhald og kynlíf fyrir hjónaband nýtur vaxandi viðurkenningar víða um lönd.
15 Biblían sagði fyrir að Satan myndi færast í aukana á okkar dögum. (Opinberunarbókin 12:12) Það ætti því ekki að koma okkur á óvart að lestir skuli vera gríðarlega útbreiddir. Kynferðisleg misnotkun á börnum er til dæmis orðin eins og faraldur.a Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna segir að „kynferðisleg misnotkun barna í gróðaskyni sé að skemma börn í næstum öllum löndum heims.“ Árlega er að sögn „meira en ein milljón barna í heiminum neydd út í barnavændi, seld og keypt til kynferðislegra nota og notuð við framleiðslu barnakláms.“ Kynvilla er einnig algeng og stjórnmálamenn og trúarleiðtogar ganga jafnvel fram fyrir skjöldu og mæla með henni sem „annars konar lífsstíl.“
Að hafna löstum heimsins
16. Hvaða afstöðu taka vottar Jehóva í siðferðismálum?
16 Vottar Jehóva taka ekki undir með þeim sem aðhyllast undanlátssemi í kynferðismálum. Títusarbréfið 2:11, 12 segir: „Náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir oss að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum.“ Við byggjum upp með okkur ósvikið hatur, já, andstyggð á löstum svo sem kynlífi fyrir hjónaband, framhjáhaldi og kynvilluathöfnum.b (Rómverjabréfið 12:9; Efesusbréfið 5:3-5) Páll hvatti: „Hver sá, sem nefnir nafn [Jehóva], haldi sér frá ranglæti.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:19.
17. Hvernig líta sannkristnir menn á neyslu áfengis?
17 Sannkristnir menn hafna afstöðu heimsins til lasta sem kunna að virðast minni háttar. Margir hafa til dæmis lúmskt gaman að misnotkun áfengis. En fólk Jehóva fer eftir ráðleggingunum í Efesusbréfinu 5:18: „Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum.“ Ef kristinn maður kýs að drekka gerir hann það í hófi. — Orðskviðirnir 23:29-32.
18. Hvernig leiðbeina meginreglur Biblíunnar þjónum Jehóva um framkomu innan fjölskyldunnar?
18 Þjónar Jehóva hafna líka þeirri afstöðu sumra í heiminum að það sé boðleg hegðun að öskra og æpa að maka sínum og börnum eða úthúða þeim. Kristnir eiginmenn og eiginkonur eru staðráðin í því að vera dyggðug og fara sameiginlega eftir ráðum Páls: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ — Efesusbréfið 4:31, 32.
19. Hversu útbreiddir eru lestir í viðskiptalífinu?
19 Óheiðarleiki, svik, lygar, harðneskjulegir viðskiptahættir og þjófnaður er líka algengur nú á dögum. Í grein í viðskiptatímaritinu CFO segir: „Könnun, sem náði til 4000 starfsmanna, . . . leiddi í ljós að 31 af hundraði þátttakenda höfðu orðið vitni að ‚alvarlegu misferli‘ á liðnu ári.“ Misferlið fólst meðal annars í lygum, skjalafalsi, kynferðislegri áreitni og þjófnaði. Til að halda okkur siðferðilega hreinum í augum Jehóva verðum við að forðast slíkt hátterni og vera heiðarleg í fjármálum. — Míka 6:10, 11.
20. Af hverju mega kristnir menn ekki vera ‚fégjarnir‘?
20 Lítum á hvernig fór fyrir manni sem ímyndaði sér að hann myndi hafa meiri tíma til að þjóna Guði ef hann græddi vel í áhættuviðskiptum. Hann dró aðra inn í fjárfestingaráform með því að ýkja stórlega væntanlegan gróða þeirra. Þegar gróðinn gekk ekki eftir var honum svo mikið í mun að bæta upp hið stórfellda tap að hann stal peningum sem honum hafði verið treyst fyrir. Sökum þessa og iðrunarleysis síns var hann gerður rækur úr kristna söfnuðinum. Viðvörun Biblíunnar er í fullu gildi: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.
21. Hvaða háttalag er algengt meðal valdamanna í heiminum en hvernig eiga þeir sem fara með ábyrgð í kristna söfnuðinum að hegða sér?
21 Valda- og áhrifamenn heimsins eru oft dyggðalitlir og sýna fram á sannleiksgildi spakmælisins að ‚vald spilli.‘ (Prédikarinn 8:9) Í sumum löndum heims eru mútur og önnur spilling daglegt brauð meðal dómara, lögregluþjóna og stjórnmálamanna. En þeir sem fara með forystuna í kristna söfnuðinum verða að vera dyggðugir og mega ekki drottna yfir öðrum. (Lúkas 22:25, 26) Hvorki öldungar né safnaðarþjónar þjóna „sakir vansæmilegs ávinnings.“ Þeir verða að vera ónæmir fyrir öllum tilraunum annarra til að beita ábatavon í því skyni að rangsnúa dómgreind þeirra eða hafa áhrif á hana. — 1. Pétursbréf 5:2; 2. Mósebók 23:8; Orðskviðirnir 17:23; 1. Tímóteusarbréf 5:21.
22. Hvað er fjallað um í næstu grein?
22 Langflestum kristnum mönnum tekst að vera dyggðugir í þessum lastafulla heimi. En dyggð er meira en aðeins að forðast hið illa. Í næstu grein er fjallað um hvað raunverulega þurfi til að rækta með sér dyggð.
[Neðanmáls]
a Sjá greinasyrpuna „Protect Your Children!“ („Verndaðu börn þín!“) í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. október 1993.
b Þeir sem hafa tekið þátt í kynvilluathöfnum áður fyrr geta breytt hátterni sínu, alveg eins og sumir gerðu á fyrstu öld. (1. Korintubréf 6:11) Gagnlegar upplýsingar þar um birtust í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. mars 1995, bls. 21-3.
Til upprifjunar
◻ Hvers vegna fyrirskipaði Jehóva að Kanverjum skyldi útrýmt?
◻ Hvaða lestir voru algengir á fyrstu öld og hvernig vegnaði kristnum mönnum í slíku umhverfi?
◻ Hvað sýnir að siðferði hefur hrakað í heiminum frá 1914?
◻ Hvaða algenga lesti verður fólk Jehóva að forðast?
[Mynd á blaðsíðu 8]
Kristnir menn á fyrstu öld voru dyggðugir þótt þeir byggju í lastafullum heimi.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Spillingin er jafnvel komin inn á tölvunet þar sem bæði börn og fullorðnir hafa aðgang að klámi.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Kristnir menn verða að vera dyggðugir og mega ekki líkja eftir óheiðarleika annarra.