Þjónað með varðmanninum
„Æ, [Jehóva], á ég að standa allan daginn á sjónarhól og vera á varðbergi nótt eftir nótt?“ — JESAJA 21:8.
1. Að hvaða stórfenglegu fyrirheiti er Jehóva sjálfur vottur?
JEHÓVA er Guð sem hefur tilgang. Uppreisnarengillinn, sem varð Satan djöfullinn, getur ekki ónýtt stórfenglegan tilgang Guðs að helga nafn sitt, koma á dýrlegri stjórn sinni og gera jörðina að paradís. (Matteus 6:9, 10) Mannkynið hlýtur ríkulega blessun undir þessari stjórn. Guð „mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ Sameinað mannkyn mun njóta hamingju, friðar og farsældar um alla eilífð. (Jesaja 25:8; 65:17-25) Jehóva er sjálfur vottur að þessum stórfenglegu fyrirheitum.
2. Hvaða mennska votta hefur Jehóva vakið upp?
2 En hinn mikli skapari á sér einnig mennska votta. ‚Fjöldi votta‘ á forkristnum tíma, allt frá Abel, þreytti þolgóður skeiðið, oft gegn ofurefli. Hið frábæra fordæmi þeirra er kristnum mönnum nú á tímum til hvatningar. Kristur Jesús er besta dæmið um hugrakkan vott. (Hebreabréfið 11:1–12:2) Rifjaðu til dæmis upp fyrir þér lokavitnisburð hans fyrir Pontíusi Pílatusi. Hann sagði: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) Allt frá árinu 33 til ársins 2000 hafa dyggir kristnir menn fylgt fordæmi Jesú og boðað hugrakkir „stórmerki Guðs.“ — Postulasagan 2:11.
Babýlonsk sértrúarstefna
3. Hvernig hefur Satan barist gegn vitnisburðinum um Jehóva og vilja hans?
3 Um árþúsundir hefur óvinurinn mikli, Satan djöfullinn, reynt að gera vitnisburð votta Guðs tortryggilegan. Hann er „lyginnar faðir“ og ‚drekinn mikli, hinn gamli höggormur‘ sem „afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ Hann hefur barist miskunnarlaust gegn þeim sem „varðveita boð Guðs,“ einkum núna á síðustu dögum. — Jóhannes 8:44; Opinberunarbókin 12:9, 17.
4. Hvernig varð Babýlon hin mikla til?
4 Eftir Nóaflóðið fyrir um 4000 árum vakti Satan upp Nimrod, ‚mikinn veiðimann í andstöðu við Jehóva.‘ (1. Mósebók 10:9, 10, NW) Babýlon (Babel) var helsta borg Nimrods og varð að miðstöð trúarbragða sem illir andar innblésu. Þegar Jehóva ruglaði tungumál turnbyggjendanna í Babel dreifðist fólkið út um jörðina og tók trú sína með sér. Þannig varð til heimsveldi falskra trúarbragða með rætur í Babýlon, en Opinberunarbókin nefnir þetta falstrúarveldi Babýlon hina miklu. Bókin boðar endalok þessa forna trúarkerfis. — Opinberunarbókin 17:5; 18:21.
Vottaþjóð
5. Hvaða þjóð stofnaði Jehóva til að vera vottur sinn og hvers vegna leyfði hann að hún færi í útlegð?
5 Um 500 árum eftir daga Nimrods gerði Jehóva afkomendur hins trúfasta Abrahams að þjóðinni Ísrael sem átti að vera vottar hans á jörðinni. (Jesaja 43:10, 12) Margt manna af þeirri þjóð þjónaði Jehóva dyggilega. En falstrú grannþjóðanna spillti Ísrael í aldanna rás svo að sáttmálaþjóð Jehóva sneri baki við honum og tók að dýrka falsguði. Það var þess vegna sem her Babýlonar, undir forystu Nebúkadnesars konungs, eyddi Jerúsalem og musteri hennar árið 607 f.o.t. og flutti flesta Gyðingana í útlegð til Babýlonar.
6. Hvaða gleðitíðindi flutti spádómlegur varðmaður Jehóva og hvenær urðu þau að veruleika?
6 Þetta var mikill sigur fyrir falstrúarbrögðin! En yfirráð Babýlonar voru skammvinn. Um 200 árum áður hafði Jehóva fyrirskipað: „Far þú og nem staðar á sjónarhólnum og seg, hvað þú sér.“ Hvaða tíðindi flutti varðmaðurinn? „Fallin, fallin er Babýlon, og allar goðalíkneskjur hennar liggja sundur brotnar á jörðinni.“ (Jesaja 21:6, 9) Og spádómurinn rættist árið 539 f.o.t. Hin volduga Babýlon féll og sáttmálaþjóð Guðs gat skömmu síðar snúið heim á ný.
7. (a) Hvað lærðu Gyðingar af ögun Jehóva? (b) Í hvaða gildrum festust Gyðingar eftir útlegðina og með hvaða afleiðingum?
7 Hinir heimkomnu Gyðingar höfðu lært sína lexíu og forðuðust skurðgoðadýrkun og andatrúariðkanir. En með tímanum gengu þeir í aðrar gildrur. Sumir létu gríska heimspeki villa sér sýn. Sumir fóru að leggja meiri áherslu á erfikenningar manna en orð Guðs. Og sumir létu tælast af þjóðernishyggju. (Markús 7:13; Postulasagan 5:37) Um þær mundir sem Jesús fæddist hafði þjóðin enn á ný snúið baki við hreinni tilbeiðslu. Einstaka Gyðingar tóku við fagnaðarerindinu, sem Jesús boðaði, en þjóðin í heild hafnaði honum og var þar af leiðandi hafnað af Guði. (Jóhannes 1:9-12; Postulasagan 2:36) Ísrael var ekki lengur vottur Guðs og árið 70 var Jerúsalem jöfnuð við jörðu á nýjan leik ásamt musterinu, nú af rómverska hernum. — Matteus 21:43.
8. Hver varð vottur Jehóva og hvers vegna var viðvörun Páls til hans tímabær?
8 En hinn kristni „Ísrael Guðs“ var fæddur og var núna vottur Guðs frammi fyrir þjóðunum. (Galatabréfið 6:16) Satan lagði fljótt á ráðin að spilla þessari nýju, andlegu þjóð. Undir lok fyrstu aldar var sértrúaráhrifa farið að gæta í söfnuðunum. (Opinberunarbókin 2:6, 14, 20) Viðvörun Páls var tímabær: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.“ — Kólossubréfið 2:8.
9. Hvaða þróun var undanfari kristna heimsins eins og Páll hafði varað við?
9 En trú margra, sem kölluðu sig kristna, mengaðist smám saman af grískri heimspeki, babýlonskum trúarhugmyndum og síðar af mannlegri „visku“ á borð við þróunarkenninguna og æðri biblíugagnrýni. Svo fór sem Páll hafði spáð: „Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni. Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ (Postulasagan 20:29, 30) Með þessu fráhvarfi varð kristni heimurinn til.
10. Hvaða framvinda sýndi að það höfðu ekki allir gefist upp fyrir spilltri tilbeiðslu kristna heimsins?
10 Þeir sem héldu sig í alvöru að hreinni tilbeiðslu urðu að ‚berjast fyrir þeirri trú sem heilögum hafði í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld.‘ (Júdasarbréfið 3) Átti vitnisburðurinn um hreina tilbeiðslu og um Jehóva að hætta með öllu? Nei, er dró nær því að uppreisnarseggnum Satan og öllum verkum hans yrði eytt kom í ljós að ekki höfðu allir gefist upp fyrir fráhvarfstilbeiðslunni sem stunduð er í kristna heiminum. Síðla á 19. öld tóku einlægir biblíunemendur að koma saman í Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Þessi hópur varð síðar kjarni nútímavotta Guðs. Þessir kristnu menn bentu á biblíuleg rök fyrir því að endalok núverandi heimskerfis væru í nánd. Fyrri heimsstyrjöldin markaði upphaf þessara „endaloka“ sem hófust árið 1914 í samræmi við spádóma Biblíunnar. (Matteus 24:3, 7) Það eru sterk rök fyrir því að Satan og djöflasveitum hans hafi verið úthýst af himnum eftir það ár. Hinir miklu erfiðleikar 20. aldarinnar eru ótvíræð sönnun fyrir starfsemi Satans og fyrir einstæðri uppfyllingu táknsins um að Jesús er nærverandi sem konungur ríkisins á himnum. — Matteus 24. og 25. kafli; Markús 13. kafli; Lúkas 21. kafli; Opinberunarbókin 12:10, 12.
11. Hvað reyndi Satan að gera en hvernig mistókst það?
11 Í júní árið 1918 gerði Satan örvæntingarfulla tilraun til að afmá þessa biblíunemendur sem voru þá farnir að prédika í nokkrum löndum. Hann reyndi jafnframt að eyðileggja hið lögskráða félag þeirra, Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn. Forystumenn Félagsins voru hnepptir í fangelsi, ranglega sakaðir um uppreisnaráróður eins og Jesús á fyrstu öldinni. (Lúkas 23:2) En árið 1919 var yfirmönnum Félagsins sleppt úr haldi svo að þeir gátu haldið starfi sínu áfram. Síðar voru þeir lýstir saklausir af öllum ákærum.
„Á sjónarhólnum“
12. Hverjir eru varðmannshópur Jehóva núna og hvernig líta þeir á hlutverk sitt?
12 Er ‚leið að endalokunum‘ hafði Jehóva því á nýjan leik varðmann á vettvangi til að vara fólk við atburðum sem tengdust því að tilgangur hans kæmi fram. (Daníel 12:4; 2. Tímóteusarbréf 3:1) Fram á þennan dag hefur varðmannshópurinn — smurðir kristnir menn, Ísrael Guðs — breytt í samræmi við lýsingu Jesaja á hinum spádómlega varðmanni sem ‚lagði hlustirnar við og kallaði: „Æ, [Jehóva], á ég að standa allan daginn á sjónarhól og vera á varðbergi nótt eftir nótt?“‘ (Jesaja 21:7, 8) Þessi varðmaður hefur tekið hlutverk sitt alvarlega.
13. (a) Hvað hefur varðmaður Jehóva boðað? (b) Hvernig er hægt að segja að Babýlon hin mikla sé fallin?
13 Hvað sá varðmaðurinn? Á nýjan leik tilkynnti varðmaðurinn sem var hópur votta Guðs: „Fallin, fallin er Babýlon, og allar goðalíkneskjur hennar liggja sundur brotnar á jörðinni.“ (Jesaja 21:9) Í þetta sinn, eftir fyrri heimsstyrjöldina, var það Babýlon hin mikla, heimsveldi falskra trúarbragða, sem steypt var úr valdastóli sínum. (Jeremía 50:1-3; Opinberunarbókin 14:8) Það er engin furða. Stríðið mikla, eins og það var kallað á þeim tíma, hófst í kristna heiminum þar sem prestar beggja vegna víglínunnar jusu olíu á stríðseldinn með því að hvetja allt efnilegt ungt fólk til að flykkjast í skotgrafirnar. Hvílík smán! Babýlon hinni miklu tókst ekki að hindra að Biblíunemendurnir, eins og vottar Jehóva voru kallaðir á þeim tíma, losnuðu úr fjötrum athafnaleysis árið 1919 og legðu upp í boðunarherferð um heim allan sem er enn í fullum gangi. (Matteus 24:14) Þetta var merki þess að Babýlon hin mikla væri fallin, alveg eins og lausn Ísraelsmanna á sjöttu öld f.o.t. var merki þess að Babýlon fortíðar væri fallin.
14. Hvaða tímarit hefur varðmannshópur Jehóva notað mikið og hvernig hefur Jehóva blessað notkun þess?
14 Varðmannshópurinn hefur alltaf unnið verk sitt með kostgæfni og brennandi löngun til að gera rétt. Í júlí árið 1879 hófu Biblíunemendurnir útgáfu þessa tímarits sem hét þá Varðturn Síonar og boðberi nærveru Krists. Á forsíðu hvers tölublaðs frá 1879 til 15. desember 1938 stóðu orðin: „‚Vökumaður, hvað líður nóttinni?‘ — Jesaja 21:11.“a Varðturninn hefur staðið trúfastur vörð í 120 ár og fylgst með heimsatburðunum og spádómlegri merkingu þeirra. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Varðmannshópur Guðs og félagar hans, hinir ‚aðrir sauðir,‘ hafa notað þetta tímarit til að boða mannkyni af miklum krafti að drottinvald Jehóva verði bráðum réttlætt fyrir atbeina ríkis Krists. (Jóhannes 10:16) Hefur Jehóva blessað þennan vitnisburð? Já, þegar Varðturninn hóf göngu sína árið 1879 var upplagið 6000 eintök. Núna er það orðið meira en 22.000.000 eintaka á 132 tungumálum. Þar af birtist sama efni samtíms á 121 tungumáli. Það er sannarlega við hæfi að útbreiddasta trúartímarit jarðar skuli vera tímaritið sem miklar nafn hins sanna Guðs, Jehóva!
Áframhaldandi hreinsun
15. Hvaða hreinsun hófst fyrir 1914?
15 Á um 40 ára tímabili áður en Kristur tók völd á himnum árið 1914 höfðu Biblíunemendurnir losnað úr fjötrum margra óbiblíulegra kenninga kristna heimsins, svo sem um ungbarnaskírn, ódauðleika sálarinnar, hreinsunareld, helvíti og þrenningu. En það þurfti lengri tíma til að losna við allar rangar hugmyndir. Nefnum dæmi. Margir Biblíunemendur á þriðja áratug aldarinnar gengu með brjóstnál sem á var mynd af krossi og kórónu, og þeir héldu jól og aðrar heiðnar hátíðir. En til að tilbeiðslan væri hrein þurftu þeir að losa sig við allt sem bar keim af skurðgoðadýrkun. Orð Guðs, Heilög Biblía, varð að vera eini grundvöllur kristinnar trúar og lífernis. (Jesaja 8:19, 20; Rómverjabréfið 15:4) Það er rangt að bæta nokkru við orð Guðs eða fjarlægja nokkuð úr því. — 5. Mósebók 4:2; Opinberunarbókin 22:18, 19.
16, 17. (a) Hvaða ranga hugmynd aðhylltist varðmannshópurinn í nokkra áratugi? (b) Hver er rétta skýringin á ‚altarinu‘ og ‚merkissteininum‘ í „Egyptalandi“?
16 Lítum á dæmi til að árétta mikilvægi þessarar meginreglu. C. T. Russell gaf út bók árið 1886 sem kölluð var The Divine Plan of the Ages (Aldaáætlun Guðs). Í henni var skýringamynd sem tengdi tímaskeið mannkynsins við píramídann mikla í Egyptalandi. Álitið var að þetta minnismerki Keops faraós væri merkissteinninn sem nefndur er í Jesaja 19:19, 20: „Á þeim degi mun vera altari handa [Jehóva] í miðju Egyptalandi og merkissteinn handa [Jehóva] við landamærin. Það skal vera til merkis og vitnisburðar um [Jehóva] allsherjar í Egyptalandi.“ Hvaða samband gat verið milli píramídans og Biblíunnar? Meðal annars var álitið að lengdin á sumum göngum píramídans mikla gæfi til kynna hvenær ‚þrengingin mikla,‘ samkvæmt þáverandi skilningi á Matteusi 24:21, hæfist. Sumir biblíunemendur sökktu sér niður í alls konar mælingar á píramídanum til að finna út hvenær þeir færu til himna og annað í þeim dúr!
17 Þessi svokallaða Biblía í steini var í hávegum höfð í nokkra áratugi, uns Varðturninn 15. nóvember og 1. desember 1928 sýndi fram á að Jehóva þyrfti ekki að staðfesta vitnisburð Biblíunnar með steinminnismerki reistu af heiðnum faraóum með táknum stjörnuspáfræði og illra anda. Nú var ljóst að skilja átti spádóm Jesaja í andlegu samhengi. Í Opinberunarbókinni 11:8 er „Egyptaland“ tákn um heim Satans. ‚Altarið handa Jehóva‘ minnir okkur á hinar Guði þóknanlegu fórnir sem smurðir kristnir menn færa meðan þeir búa eins og útlendingar í þessum heimi. (Rómverjabréfið 12:1; Hebreabréfið 13:15, 16) ‚Merkissteinninn við landamæri Egyptalands‘ vísar til safnaðar smurðra kristinna manna sem er „stólpi og grundvöllur sannleikans,“ og hann er til vitnis í „Egyptalandi,“ það er að segja heiminum sem þeir eru í þann mund að yfirgefa. — 1. Tímóteusarbréf 3:15.
18. (a) Hvernig hefur Jehóva haldið áfram að skýra sannleikann fyrir einlægum biblíunemendum? (b) Hvaða afstaða er viturleg ef einhver af hinum smurðu eða hinum öðrum sauðum á erfitt með að skilja einhverja biblíuskýringu?
18 Með árunum heldur Jehóva áfram að skýra sannleikann fyrir okkur, þar á meðal spádómsorð sitt. (Orðskviðirnir 4:18) Á síðustu árum höfum við verið hvött til að dýpka skilning okkar, meðal annars á kynslóðinni sem ekki mun líða undir lok uns endirinn kemur, á dæmisögunni um sauðina og hafrana, á viðurstyggð eyðingarinnar og tímanum þegar hún stendur á helgum stað, á nýja sáttmálanum, ummynduninni og musterissýn Esekíelsbókar. Það getur stundum verið erfitt að skilja nýjar skýringar en ástæðurnar fyrir þeim skýrast þegar þar að kemur. Ef kristinn maður skilur ekki til fullnustu nýja skýringu á einhverjum ritningarstað, þá ætti hann auðmjúkur að enduróma orð spámannsins Míka: „Ég vil . . . bíða eftir Guði hjálpræðis míns!“ — Míka 7:7.
19. Hvernig hafa hinar smurðu leifar og félagar þeirra verið hugaðir eins og ljón núna á síðustu dögum?
19 Þú manst að varðmaðurinn „kallaði: ‚Æ, [Jehóva], á ég að standa allan daginn á sjónarhól og vera á varðbergi nótt eftir nótt?‘“ (Jesaja 21:8) Nýheimsþýðingin segir að hann hafi ‚kallað eins og ljón.‘ Hugrakkar eins og ljón hafa hinar smurðu leifar afhjúpað falstrúarbrögðin og vísað fólki á leiðina til frelsis. (Opinberunarbókin 18:2-5) Þær eru ‚trúr og hygginn þjónn‘ sem hefur látið í té „mat á réttum tíma“ með því að gefa út biblíur, tímarit og önnur rit á fjölda tungumála. (Matteus 24:45) Þær hafa haft forystu um að safna saman ‚miklum múgi af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum‘ sem hefur líka hreinsað sig í lausnarblóði Jesú og og reynst hugaður sem ljón í þjónustunni sem hann veitir Guði „dag og nótt.“ (Opinberunarbókin 7:9, 14, 15) Hvaða árangri náði hinn litli hópur smurðra votta sem eftir er og félagar hans, múgurinn mikli, á síðasta ári? Næsta grein skýrir frá því.
[Neðanmáls]
a Hinn 1. janúar 1939 breyttist textinn í: „‚Þeir skulu vita að ég er Jehóva.‘ — Esekíel 35:15.“
Manstu?
• Hvaða votta hefur Jehóva vakið upp í aldanna rás?
• Hver er uppruni Babýlonar hinnar miklu?
• Hvers vegna leyfði Jehóva að Jerúsalem, höfuðborg vottaþjóðar sinnar, væri eytt árið 607 f.o.t. og árið 70?
• Hvaða hugarfar hefur varðmannshópur Jehóva og félagar hans sýnt?
[Mynd á blaðsíðu 7]
‚Ég stend allan daginn á sjónarhól.‘
[Myndir á blaðsíðu 10]
Varðmannshópur Jehóva tekur hlutverk sitt alvarlega.