„Vakið“
„Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ — MATTEUS 24:42.
1. Hvernig líta gamalreyndir þjónar Jehóva á áralanga þjónustu sína? Nefndu dæmi.
MARGIR gamalreyndir þjónar Jehóva kynntust sannleikanum á unga aldri. Þessir áköfu biblíunemendur afneituðu sjálfum sér og vígðu líf sitt Jehóva, líkt og kaupmaðurinn sem fann verðmæta perlu og seldi aleiguna til að kaupa hana. (Matteus 13:45, 46; Markús 8:34) Þeir þurftu að bíða lengur en þeir bjuggust við til að sjá tilgang Guðs með jörðina verða að veruleika. Hvað finnst þeim um það? Þeir sjá ekki eftir neinu! Þeir eru sama sinnis og bróðir A. H. Macmillan sem sagði eftir næstum 60 ára dygga þjónustu við Guð: „Ég er ákveðnari en nokkru sinni fyrr að halda áfram í trúnni. Hún hefur gert mér lífið þess virði að lifa því og hún hjálpar mér enn að horfast óttalaus í augu við framtíðina.“
2. (a) Hvaða tímabær ráð veitti Jesús fylgjendum sínum? (b) Hvaða spurningar er fjallað um í þessari grein?
2 Hvað með þig? Óháð aldri ættirðu að gefa gaum að orðum Jesú: „Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ (Matteus 24:42) Þessi einföldu orð segja djúpstæðan sannleika. Við vitum ekki hvaða dag Drottinn kemur til að fullnægja dómi yfir þessu illa heimskerfi og við þurfum ekki að vita það. En við verðum að lifa lífinu þannig að við þurfum ekki að sjá eftir neinu þegar Drottinn kemur. Hvaða fordæmi finnum við í Biblíunni sem hjálpa okkur að vaka? Hvernig sýndi Jesús fram á að það væri nauðsynlegt? Og hvað ber vitni um að við lifum á síðustu dögum þessa óguðlega heims?
Dæmi til viðvörunar
3. Að hvaða leyti svipar mörgum nú á tímum til fólksins á dögum Nóa?
3 Að mörgu leyti er fólk núna svipað fólkinu á dögum Nóa. Jörðin var full af ofbeldi á þeim tíma. Allar hugsanir manna voru „ekki annað en illska alla daga.“ (1. Mósebók 6:5) Flestir voru algerlega uppteknir af hinu daglega lífi. En áður en Jehóva lét flóðið mikla koma gaf hann fólki færi á að iðrast. Hann fól Nóa að prédika og Nói hlýddi og þjónaði sem ‚prédikari réttlætisins‘ í 40 til 50 ár eða lengur. (2. Pétursbréf 2:5) En fólkið sinnti ekki viðvörun Nóa. Það var ekki vakandi. Þess vegna lifði enginn af nema Nói og fjölskylda hans þegar Jehóva fullnægði dómi sínum. — Matteus 24:37-39.
4. Í hvaða skilningi má segja að þjónusta Nóa hafi verið árangursrík og hvers vegna má segja hið sama um boðunastarf þitt?
4 Var boðunarstarf Nóa árangursríkt? Dæmdu það ekki eftir því hve fáir tóku við boðskapnum. Prédikun Nóa gegndi hlutverki sínu óháð viðbrögðunum. Hvers vegna? Vegna þess að hún gaf fólki ágætis tækifæri til að velja hvort það vildi þjóna Jehóva eða ekki. Hvað um starfssvæði þitt? Boðunarstarf þitt er árangursríkt jafnvel þótt jákvæð viðbrögð séu lítil. Hvers vegna? Vegna þess að með prédikun þinni ertu að koma viðvörun Guðs á framfæri, og þú ert að vinna það verk sem Jesús fól fylgjendum sínum. — Matteus 24:14; 28:19, 20.
Að hunsa spámenn Guðs
5. (a) Hvernig var ástandið í Júda á dögum Habakkuks og hvernig brást fólk við spádómsboðskap hans? (b) Hvernig sýndu Júdamenn spámönnum Jehóva fjandskap?
5 Öldum eftir flóðið kom upp alvarlegt ástand í konungsríkinu Júda. Skurðgoðadýrkun, ranglæti, kúgun og jafnvel morð voru daglegt brauð. Jehóva vakti upp spámanninn Habakkuk til að vara fólk við og benda á ógæfu af hendi Kaldea eða Babýloníumanna ef það iðraðist ekki. (Habakkuk 1:5-7) En fólkið lét sér ekki segjast. Kannski hugsaði það sem svo að spámaðurinn Jesaja hefði spáð einhverju svipuðu fyrir rúmri öld og ekkert hefði gerst enn þá. (Jesaja 39:6, 7) Margir höfðingjar í Júda kærðu sig kollótta um boðskapinn og sýndu spámönnunum beinlínis fjandskap. Einu sinni reyndu þeir að drepa spámanninn Jeremía og hefði tekist það ef Ahíkam hefði ekki skorist í leikinn. Jójakím konungur reiddist spádómlegum boðskap Úría og lét taka hann af lífi. — Jeremía 26:21-24.
6. Hvernig styrkti Jehóva Habakkuk?
6 Boðskapur Habakkuks var ekki síður beinskeyttur, og hann var jafnóvinsæll og boðskapur Jeremía en honum var innblásið af Guði að boða 70 ára auðn Júda. (Jeremía 25:8-11) Við getum því skilið áhyggjur Habakkuks er hann hrópar: „Hversu lengi hefi ég kallað, [Jehóva], og þú heyrir ekki! Hversu lengi hefi ég hrópað til þín: ‚Ofríki!‘ og þú hjálpar ekki!“ (Habakkuk 1:2) Jehóva svaraði Habakkuk vinsamlega með trústyrkjandi orðum: „Enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ (Habakkuk 2:3) Jehóva hafði því ‚ákveðinn tíma‘ til að binda enda á kúgun og óréttlæti. Habakkuk átti ekki að missa kjarkinn eða hægja á sér þótt uppfylling spádómsins virtist dragast á langinn. Hann átti að ‚vænta hennar‘ og lifa hvern dag eins og mikið lægi á. Degi Jehóva myndi ekki seinka!
7. Hvers vegna átti Jerúsalem aðra eyðingu yfir höfði sér á fyrstu öld okkar tímatals?
7 Jerúsalem, höfuðborg Júda, var eytt um 20 árum eftir að Jehóva talaði við Habakkuk. Síðar var hún endurbyggð og margt af því, sem hafði hryggt Habakkuk svo mjög, var fært til betri vegar. En á fyrstu öld okkar tímatals átti borgin aftur eyðingu yfir höfði sér vegna ótrúmennsku íbúanna. Í miskunn sinni gerði Jehóva ráðstafanir til að hjartahreinir menn björguðust. Núna notaði hann engan minni spámann en Jesú Krist til að flytja boðskapinn. Árið 33 sagði Jesús fylgjendum sínum: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.“ — Lúkas 21:20, 21.
8. (a) Hvað kann að hafa gerst hjá sumum kristnum mönnum eftir dauða Jesú? (b) Hvernig rættust spádómsorð Jesú um Jerúsalem?
8 Árin liðu og sumir kristnir menn í Jerúsalem hafa kannski velt fyrir sér hvenær spádómur Jesú myndi rætast. Hugsaðu þér allar fórnirnar sem sumir þeirra hafa eflaust fært. Kannski höfðu þeir hafnað eftirsóknarverðum viðskiptatækifærum af því að þeir voru staðráðnir í að vaka. Þreyttust þeir með tímanum? Fannst þeim að þeir væru að sóa tímanum eða að spádómur Jesú ætti kannski við einhverja komandi kynslóð en ekki þeirra eigin? Spádómurinn tók að uppfyllast árið 66 þegar rómverskar hersveitir umkringdu Jerúsalem. Þeir sem voru vakandi þekktu táknið, flúðu borgina og komust undan eyðingu Jerúsalem.
Sýnt fram á nauðsyn þess að vaka
9, 10. (a) Endursegðu dæmisögu Jesú um þjónana sem biðu heimkomu húsbóndans úr brúðkaupi sínu. (b) Af hverju kann biðin eftir húsbóndanum að hafa verið erfið fyrir þjónana? (c) Hvers vegna var það þjónunum til góðs að vera þolinmóðir?
9 Til að leggja áherslu á að lærisveinarnir þyrftu að vaka líkti Jesús þeim við þjóna sem bíða þess að húsbóndinn komi heim úr brúðkaupi sínu. Þeir vita að hann kemur aftur á ákveðinni nóttu, en klukkan hvað? Á fyrstu næturvöku? Annarri? Þriðju? Þeir vita það ekki. Jesús sagði: „Komi hann [húsbóndinn] um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá.“ (Lúkas 12:35-38) Hugsaðu þér eftirvæntingu þjónanna. Hvert hljóð og hver flöktandi skuggi hefur aukið á eftirvæntinguna: ‚Skyldi húsbóndinn vera að koma núna?‘
10 Hvað nú ef húsbóndinn kæmi á annarri næturvöku, sem var á dögum Jesú frá klukkan níu að kvöldi til miðnættis? Myndu þá allir þjónar hans vera reiðubúnir að fagna honum — líka þeir sem höfðu unnið hörðum höndum frá því snemma morguns, eða yrðu einhverjir sofnaðir? Hvað nú ef húsbóndinn kæmi á þriðju næturvöku sem náði frá miðnætti til klukkan þrjú að nóttu? Væru sumir þjónanna orðnir kjarklitlir eða óánægðir yfir því að húsbóndanum virtist seinka?a Aðeins þeir þjónar, sem væru vakandi við komu hans, yrðu lýstir sælir. Orðskviðirnir 13:12 ættu svo sannarlega við þá: „Langdregin eftirvænting gjörir hjartað sjúkt, en uppfyllt ósk er lífstré.“
11. Hvernig getur bænin verið hjálp til að vaka?
11 Hvað gat hjálpað fylgjendum Jesú að halda vöku sinni þegar honum virtist seinka? Hann hafði sagt þrem af postulum sínum skömmu áður en hann var handtekinn í Getsemanegarðinum: „Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni.“ (Matteus 26:41) Pétur, sem var einn þeirra, gaf trúbræðrum sínum sams konar ráð mörgum árum síðar. Hann skrifaði: „Endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna.“ (1. Pétursbréf 4:7) Ljóst er að innileg bæn á að vera fastur liður í kristnum venjum okkar. Við þurfum að biðja Jehóva stöðugt um að hjálpa okkur að vaka. — Rómverjabréfið 12:12; 1. Þessaloníkubréf 5:17.
12. Hver er munurinn á getgátum og árvekni?
12 Taktu eftir að Pétur segir einnig að ‚endir allra hluta sé í nánd.‘ Hversu nærri? Það er engin leið fyrir menn að tímasetja dag og stund nákvæmlega. (Matteus 24:36) En það er munur á getgátum, sem Biblían hvetur ekki til, og eftirvæntingu eftir endalokunum sem Biblían hvetur til. (Samanber 2. Tímóteusarbréf 4:3, 4; Títusarbréfið 3:9.) Hvernig er hægt að halda eftirvæntingunni eftir endalokunum vakandi? Meðal annars með því að fylgjast vandlega með sönnunargögnunum fyrir því að endirinn sé nærri. Við skulum því rifja upp sex leiðir til að sanna að við lifum á síðustu dögum þessa óguðlega heims.
Sex sönnunarleiðir
13. Hvers vegna sannfærir spádómur Páls í 2. Tímóteusarbréfi 3. kafla þig um að við lifum á „síðustu dögum“?
13 Í fyrsta lagi sjáum við orð Páls postula um ‚síðustu daga‘ uppfyllast greinilega. Hann skrifaði: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum! En vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Sjáum við þennan spádóm uppfyllast á okkar dögum? Sá sem neitar því lokar augunum fyrir staðreyndum.b
14. Hvernig uppfyllast orð Opinberunarbókarinnar 12:9 um djöfulinn á okkar dögum og hvað verður bráðlega um hann?
14 Í öðru lagi sjáum við áhrifin af því að Satan og illum öndum hans var úthýst af himnum samkvæmt uppfyllingu Opinberunarbókarinnar 12:9. Þar stendur: „Drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.“ Þetta olli miklum hörmungum fyrir jörðina. Mannkynið hefur þjáðst mikið, einkum frá 1914. En spádómur Opinberunarbókarinnar bætir við að þegar djöflinum verði varpað niður til jarðar viti hann „að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:12) Á þessu tímabili heyr Satan stríð við smurða fylgjendur Krists. (Opinberunarbókin 12:17) Við höfum sannarlega séð afleiðingar þessa stríðs á okkar tímum.c En bráðlega verður Satan fjötraður í undirdjúpinu til að hann ‚leiði ekki framar þjóðirnar afvega.‘ — Opinberunarbókin 20:1-3.
15. Hvaða rök færir Opinberunarbókin 17:9-11 fyrir því að við lifum á endalokatímanum?
15 Í þriðja lagi lifum við á tímum áttunda og síðasta ‚konungsins‘ sem nefndur er í spádóminum í Opinberunarbókinni 17:9-11. Jóhannes postuli nefnir hér sjö konunga sem tákna sjö heimsveldi — Egyptaland, Assýríu, Babýlon, Medíu-Persíu, Grikkland, Róm og ensk-ameríska tvíveldið. Hann sér líka ‚áttunda konunginn sem er af þeim sjö.‘ Þessi áttundi konungur, sá síðasti sem Jóhannes sér í sýninni, táknar núna Sameinuðu þjóðirnar. Jóhannes segir að áttundi konungurinn fari „til glötunar“ og ekki eru nefndir fleiri jarðneskir konungar eftir hann.d
16. Hvernig má ráða af líkneskinu í draumi Nebúkadnesars að við lifum á síðustu dögum?
16 Í fjórða lagi lifum við þann tíma sem fætur líkneskisins í draumi Nebúkadnesars tákna. Spámaðurinn Daníel túlkaði þennan dularfulla draum þar sem fram kom risalíkneski í mannsmynd. (Daníel 2:36-43) Fjórir málmar líkneskisins tákna mismunandi heimsveldi, allt frá höfðinu (babýlonska heimsveldinu) og niður að fótum og tám (stjórnunum sem eru við völd núna). Öll heimsveldin, sem líkneskið táknar, eru komin fram. Við lifum nú það tímabil sem fætur líkneskisins tákna. Ekki er minnst á fleiri heimsveldi.e
17. Hvernig er boðun Guðsríkis enn ein sönnun þess að við lifum á endalokatímanum?
17 Í fimmta lagi sjáum við prédikað um allan heim sem Jesús sagði myndu eiga sér stað rétt fyrir endalok þessa heimskerfis. Hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Þessi spádómur er að uppfyllast núna sem aldrei fyrr. Enn eru að vísu til ósnortin svæði, og vera má að víðar dyr og verkmiklar eigi eftir að opnast á tilsettum tíma Jehóva. (1. Korintubréf 16:9) En Biblían segir ekki að Jehóva bíði uns vitnað hafi verið persónulega fyrir hverjum einasta jarðarbúa. Það á einfaldlega að prédika fagnaðarerindið að því marki sem Jehóva vill og síðan kemur endirinn. — Samanber Matteus 10:23.
18. Hvar verða sumir hinna smurðu greinilega þegar ‚þrengingin mikla‘ hefst og hvernig má sjá það?
18 Í sjötta lagi fer sönnum, smurðum lærisveinum Krists fækkandi, þó svo að sumir verði greinilega enn á jörðinni þegar þrengingin mikla hefst. Flestir af leifunum eru orðnir háaldraðir og þeim sem eru raunverulega andasmurðir hefur fækkað smátt og smátt með árunum. En Jesús sagði um þrenginguna miklu: „Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.“ (Matteus 24:21, 22) Sumir þessara „útvöldu“ verða greinilega enn á jörðinni þegar þrengingin mikla hefst.f
Hvað er framundan?
19, 20. Af hverju ríður meira á nú en nokkru sinni fyrr að vaka?
19 Hvað ber framtíðin í skauti sínu fyrir okkur? Það eru spennandi tímar framundan. Páll varaði við að ‚dagur Jehóva komi sem þjófur á nóttu.‘ Hann segir um menn sem virðast veraldarvanir: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá.“ Hann hvetur því lesendur sína: „Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.“ (1. Þessaloníkubréf 5:2, 3, 6) Þeir sem treysta að stofnanir manna komi á friði og öryggi loka augunum fyrir veruleikanum. Þeir eru steinsofandi!
20 Eyðing þessa heimskerfis skellur á öllum að óvörum. Höldum því eftirvætingunni eftir degi Jehóva vakandi. Guð sagði við Habakkuk um sýnina: „Hún mun ekki undan líða,“ henni seinkar ekki! Það hefur aldrei verið jafnáríðandi fyrir okkur að vaka.
[Neðanmáls]
a Húsbóndinn hafði ekki samið um neinn tíma við þjóna sína. Hann þurfti ekki að gera grein fyrir ferðum sínum og skuldaði þjónunum enga skýringu á því að honum virtist seinka.
b Ítarlega umfjöllun um þennan spádóm má finna í 11. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
c Ítarlegri upplýsingar má finna í bókinni Revelation — Its Grand Climax At Hand!, bls. 180-6, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
d Sjá Revelation — Its Grand Climax At Hand!, bls. 251-4.
e Sjá 4. kafla bókarinnar Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
f Í dæmisögunni um sauðina og hafrana kemur Mannssonurinn í dýrð sinni meðan þrengingin mikla stendur yfir og heldur dóm. Hann dæmir fólk eftir þeim stuðningi sem það hefur veitt smurðum bræðrum hans. Þessi viðmiðun væri út í hött ef allir smurðir bræður Krists væru löngu horfnir af jörðinni þegar kemur að dómi hans. — Matteus 25:31-46.
Manstu?
• Hvaða biblíuleg dæmi geta hjálpað okkur að vaka?
• Hvernig sýndi Jesús fram á nauðsyn þess að vaka?
• Hvernig má sanna eftir sex leiðum að við lifum á síðustu dögum?
[Myndir á blaðsíðu 24]
A. H. Macmillan þjónaði Jehóva trúfastur í nærri sex áratugi.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Jesús líkti lærisveinum sínum við þjóna sem vaka og bíða.