Að kaupa upp tíma til náms og lestrar
„Kaupið upp hentugan tíma, því að dagarnir eru vondir.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:16, NW.
1. Af hverju er skynsamlegt að skipuleggja tímann og hvað má álykta um okkur af því hvernig við notum hann?
SAGT hefur verið að maður spari tíma með því að velja sér tíma. Tíminn nýtist yfirleitt vel ef maður skammtar sér ákveðinn tíma til að gera það sem gera þarf. Spekingurinn Salómon skrifaði: „Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1) Við höfum öll jafnmikinn tíma til umráða og það er undir okkur komið hvernig við notum hann. Yfirleitt má sjá hvað okkur er kærast með því að skoða hvað við látum ganga fyrir og hvað við gefum okkur tíma til að gera. — Matteus 6:21.
2. (a) Hvað sagði Jesús í fjallræðunni um andlega þörf okkar? (b) Hvers konar sjálfsrannsókn er við hæfi?
2 Við komumst ekki hjá því að taka okkur tíma til að borða og sofa af því að líkaminn heimtar það. En hvað um andlegu þarfirnar? Við vitum að það þarf að fullnægja þeim líka. Jesús sagði í fjallræðunni: „Sælir eru þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína.“ (Matteus 5:3, NW) Hinn „trúi og hyggni þjónn“ minnir okkur þess vegna á að við þurfum að taka okkur tíma til biblíulestrar og náms. (Matteus 24:45) Þú gerir þér kannski ljóst hve mikilvægt það er að lesa og nema Biblíuna en finnst þú ekki hafa tíma til þess. Við skulum athuga hvernig hægt er að skapa sér ráðrúm til að lesa orð Guðs, til einkanáms og til hugleiðingar.
Að finna sér tíma til biblíulestrar og náms
3, 4. (a) Hvaða ráð gaf Páll postuli um notkun tímans og hvað er fólgið í þeim? (b) Hvað átti Páll við þegar hann ráðlagði okkur að ‚kaupa upp hentugan tíma‘?
3 Með hliðsjón af tímunum, sem við lifum, þurfum við öll að gefa gaum að orðum Páls postula: „Hafið . . . nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, [„kaupið upp hentugan tíma,“ NW] því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji [Jehóva].“ (Efesusbréfið 5:15-17) Þessi ráðlegging snertir auðvitað öll svið lífs okkar sem kristinna manna. Þar á meðal þurfum við að finna okkur tíma til að biðja, nema, sækja samkomur og taka sem mestan þátt í því að boða ‚fagnaðarerindið um ríkið.‘ — Matteus 24:14; 28:19, 20.
4 Margir vottar Jehóva virðast eiga erfitt með að finna sér tíma til biblíulestrar og rækilegs náms. Við getum auðvitað ekki lengt daginn um klukkustund svo að Páll hlýtur að eiga við eitthvað annað. Gríska setningin, sem þýdd er „notið hverja stund“ eða „kaupið upp hentugan tíma,“ gefur til kynna þá hugsun að kaupa eitthvað á kostnað einhvers annars. W. E. Vine segir í orðabókinni Expository Dictionary að það merki að „nota sérhvert tækifæri sem best, að nýta sér það til fullnustu af því að það er ekki hægt að endurheimta glötuð tækifæri.“ Frá hverju er þá hægt að kaupa tíma til lestrar og biblíunáms?
Forgangsröðun er nauðsynleg
5. Af hverju ættum við að ‚meta þá hluti rétt sem máli skipta‘ og hvernig gerum við það?
5 Við höfum margar skyldur, bæði veraldlegar og andlegar. Vígðir þjónar Jehóva þurfa að vera „síauðugir í verki Drottins.“ (1. Korintubréf 15:58) Þess vegna hvatti Páll kristna menn í Filippí til að ‚meta þá hluti rétt sem máli skipta.‘ (Filippíbréfið 1:10) Þetta merkir að við þurfum að forgangsraða verkefnum. Hið andlega ætti alltaf að ganga fyrir hinu efnislega. (Matteus 6:31-33) En við þurfum þó að gæta jafnvægis í því hvernig við rækjum andlegar skyldur okkar. Hvernig skiptum við niður tímanum? Farandumsjónarmenn segja að kristnum mönnum hætti til að vanrækja tvennt mjög mikilvægt — einkanám og biblíulestur.
6. Hvað getum við þurft að gera til að kaupa tíma til náms frá vinnu og heimilisstörfum?
6 Eins og fram hefur komið þurfum við að kaupa upp tíma með því að ‚nýta hvert tækifæri til fullnustu.‘ Ef við erum slök við biblíulestur og nám væri ráðlegt fyrir okkur að skoða hvernig við verjum tímanum. Ef vinna þín er óhóflega krefjandi og tekur of mikið af tíma þínum og kröftum ættir þú að leggja það fyrir Jehóva í bæn. (Sálmur 55:23) Hugsanlegt er að við getum gert einhverjar breytingar og skapað okkur aukinn tíma til að sinna tilbeiðslunni á Jehóva, þar á meðal námi og biblíulestri. Sagt hefur verið, og það með réttu, að verki konunnar sé aldrei lokið. Kristnar systur þurfa því að forgangsraða hlutunum og taka frá ákveðinn tíma til biblíulestrar og rækilegs náms.
7, 8. (a) Frá hverju er oft hægt að taka tíma til lestrar og náms? (b) Hvert er markmið afþreyingar og hvernig getur það hjálpað okkur að forgangsraða verkefnum ef við munum eftir því?
7 Langflestir geta keypt tíma til náms frá öðru ónauðsynlegra. Við gætum spurt okkur: ‚Hve mikinn tíma nota ég til að lesa veraldleg tímarit og dagblöð, horfa á sjónvarp, hlusta á tónlist eða spila tölvuleiki? Nota ég meiri tíma við tölvuskjáinn en við biblíulestur?‘ Páll segir: „Verið . . . ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji [Jehóva].“ (Efesusbréfið 5:17) Óhófleg seta við sjónvarpið virðist vera helsta ástæðan fyrir því að margir vottar nota ekki nægan tíma til einkanáms og biblíulestrar. — Sálmur 101:3; 119:37, 47, 48.
8 Sumir segja kannski að þeir geti ekki setið öllum stundum við nám; þeir þarfnist líka afþreyingar. Það er auðvitað rétt, en það væri ágætt að kanna hve mikinn tíma við notum til afslöppunar og bera hann saman við tímann sem við notum raunverulega til náms og biblíulestrar. Niðurstaðan gæti komið á óvart. Afþreying og afslöppun er nauðsynleg en það þarf að halda henni í réttu hófi. Markmið hennar er að endurnæra til andlegra starfa. Maður getur verið úrvinda af því að sitja við sjónvarpið eða tölvuleiki en lestur og nám í orði Guðs hressir og endurnærir. — Sálmur 19:8, 9.
Hvernig sumir skapa sér svigrúm til náms
9. Af hverju er gott að fylgja ráðleggingum bæklingsins Rannsökum daglega ritningarnar 1999?
9 Í formálsorðum bæklingsins Rannsökum daglega ritningarnar 1999 segir: „Það er gagnlegast að taka þennan bækling fram á morgnana til að íhuga dagstextann og athugsemdirnar við hann. Þér mun finnast eins og Jehóva, ‚hann, sem kennir þér,‘ sé að vekja þig með fræðslu sinni. Spádómlega er talað um að Jesús Kristur hafi á hverjum morgni gagn af fræðslu Jehóva: ‚Hann [Jehóva] vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra.‘ Slík fræðsla veitti Jesú ‚lærisveina tungu‘ til þess að hann ‚hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum.‘ (Jes. 30:20; 50:4; Matt. 11: 28- 30) Ef þú ert vakinn á hverjum morgni með tímabærum leiðbeiningum frá orði Guðs hjálpar það þér ekki aðeins að fást við eigin vandamál heldur gefur þér einnig ‚lærisveina tungu‘ til að hjálpa öðrum.“a
10. Hvernig fara sumir að því að skapa sér rúm til biblíulestrar og náms og með hvaða árangri?
10 Margir kristnir menn fylgja þessu ráði og lesa dagstextann og skýringarnar eða lesa í Biblíunni og nema snemma morguns. Trúföst brautryðjandasystir í Frakklandi fer á fætur snemma á hverjum morgni og notar hálfa klukkustund til biblíulestrar. Hvernig hefur henni tekist að gera þetta um langt árabil? „Ég hef sterka löngun til þess og ég held mig við lestraráætlunina hvað sem á dynur,“ segir hún. Óháð því hvaða tíma dags við veljum er þýðingarmest að fylgja settri áætlun. René Mica hefur verið brautryðjandi í Evrópu og Norður-Afríku í meira en 40 ár. Hann segir: „Allt frá 1950 hef ég haft það markmið að lesa alla Biblíuna einu sinni á ári, og nú er ég búinn að gera það 49 sinnum. Mér finnst þetta mikilvægt til að halda nánu sambandi við skapara minn. Að hugleiða orð Guðs hjálpar mér að skilja réttvísi hans og aðra eiginleika, og það hefur styrkt mig ósegjanlega.“b
‚Skammtur á réttum tíma‘
11, 12. (a) Hvaða andlegan ‚skammt‘ hefur ‚hinn trúi þjónn‘ gefið? (b) Hvernig hefur ‚skammturinn‘ borist á réttum tíma?
11 Reglulegir matmálstímar stuðla að góðri líkamsheilsu og reglulegur biblíulestur og námsstundir stuðla að góðri andlegri heilsu. Við lesum orð Jesú í Lúkasarguðspjalli: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma?“ (Lúkas 12:42) Í meira en 120 ár hefur ‚skammturinn komið á réttum tíma‘ í Varðturninum og öðrum biblíutengdum ritum.
12 Tökum eftir orðunum „á réttum tíma.“ Jehóva, sem ‚kennir okkur,‘ hefur leiðbeint fólki sínu á réttum tíma um kenningar og breytni fyrir atbeina sonar síns og þjónshópsins. Það er rétt eins og við höfum sem hópur heyrt rödd kalla til okkar: ‚„Hér er vegurinn! Farið hann!“ ef við höfum vikið til hægri handar eða vinstri.‘ (Jesaja 30:20, 21) Og þegar þjónar Guðs lesa Biblíuna og biblíutengd rit gaumgæfilega hafa þeir oft á tilfinningunni að verið sé að tala beint til sín. Við fáum ráð og leiðbeiningar frá Guði á réttum tíma svo að við getum forðast freistingar og tekið viturlegar ákvarðanir.
Temdu þér góðar næringarvenjur
13. Nefndu dæmi um slæmar andlegar næringarvenjur.
13 Við þurfum að temja okkur góðar næringarvenjur til að ‚skammturinn‘ á réttum tíma gagnist okkur að fullu. Nauðsynlegt er að setja sér ákveðna stundaskrá fyrir biblíulestur og einkanám og fylgja henni. Temurðu þér góðar andlegar næringarvenjur og stundarðu reglulega djúptækt einkanám? Eða rennirðu bara lauslega yfir efnið, sem búið er að leggja mikla vinnu í handa okkur, borðarðu á hlaupum ef svo má að orði komast eða sleppirðu jafnvel heilu máltíðunum? Sumir hafa orðið veikburða í trúnni vegna þess að þeir hafa ekki vanið sig á að nærast vel og sumir hafa jafnvel fallið frá. — 1. Tímóteusarbréf 1:19; 4:15, 16.
14. Af hverju er gagnlegt að fara vandlega yfir efni sem kemur kunnuglega fyrir sjónir?
14 Sumum finnst þeir þekkja undirstöðukenningarnar nógu vel, það komi ekki fram nýtt efni í hverri grein og því sé kerfisbundið einkanám og samkomusókn óþörf. En Biblían bendir á að við þurfum að minna okkur á það sem við höfum áður lært. (Sálmur 119:95, 99; 2. Pétursbréf 3:1; Júdasarbréfið 5) Þjónshópurinn matbýr kjarngóða andlega fæðu á fjölbreytta vegu, ekki ósvipað og góður matreiðslumaður notar sömu hráefnin til að elda fjölbreytta og bragðgóða rétti. Jafnvel í greinum um efni, sem við höfum oft fjallað um áður, er hægt að sjá nýja fleti á ýmsu sem við viljum ekki fara á mis við. Sannleikurinn er sá að gagnið af lesefninu er að miklu leyti komið undir þeim tíma og þeim kröftum sem við leggjum í námið.
Andlegt gagn af lestri og námi
15. Hvernig getur biblíulestur og nám gert okkur að betri þjónum orðsins?
15 Gagnið af lestri og námi í Biblíunni er margvíslegt. Meðal annars er það okkur hjálp til að rísa undir einni helstu ábyrgð okkar sem er sú að ‚reynast hæf fyrir Guði sem verkamenn er ekki þurfa að skammast sín og fara rétt með orð sannleikans.‘ (2. Tímóteusarbréf 2:15) Því meira sem við lesum og nemum Biblíuna, þeim mun meira fyllum við hugann af hugsunum Guðs. Þá getum við, líkt og Páll, ‚lagt út af ritningunum og leitt mönnum fyrir sjónir‘ hin miklu sannindi um tilgang Jehóva. (Postulasagan 17:2, 3) Við verðum færari kennarar, og ræður okkar, ráðleggingar og samræður verða uppbyggilegri en ella. — Orðskviðirnir 1:5.
16. Hvaða gagn höfum við persónulega af því að lesa og nema orð Guðs?
16 Við lögum okkur betur að vegum Jehóva ef við notum tíma til að rannsaka orð hans. (Sálmur 25:4; 119:9, 10; Orðskviðirnir 6:20-23) Það styrkir andlega eiginleika svo sem auðmýkt, hollustu og hamingju. (5. Mósebók 17:19, 20; Opinberunarbókin 1:3) Þegar við förum eftir því sem við lærum af lestri og námi í Biblíunni streymir andi Guðs ríkulega til okkar og ávöxtur andans verður ríkulegri í öllu sem við gerum. — Galatabréfið 5:22, 23.
17. Hvaða áhrif hefur mikill og góður biblíulestur og nám á samband okkar við Jehóva?
17 Mikilvægast er að sá tími, sem við tökum frá öðru til þess að lesa orð Guðs og nema það, styrkir samband okkar við Guð til muna. Páll bað þess að trúbræður sínir mættu ‚fyllast þekkingu á vilja Jehóva með allri speki og skilningi andans, svo að þeir hegðuðu sér eins og Jehóva væri samboðið, honum til þóknunar á allan hátt.‘ (Kólossubréfið 1:9, 10) Til að ‚hegða okkur eins og Jehóva er samboðið‘ þurfum við líka að „fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans.“ Ljóst er að blessun og velþóknun Jehóva er að miklu leyti komin undir því að við stundum biblíulestur og biblíunám bæði vel og rækilega.
18. Hvaða blessun getum við uppskorið ef við förum eftir orðum Jesú í Jóhannesi 17:3?
18 „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Vottar Jehóva nota þennan ritningarstað hvað mest til að sýna öðrum fram á nauðsyn þess að nema orð Guðs. En það er ekki þýðingarminna fyrir hvert og eitt okkar að gera það líka. Vonin um eilíft líf er komin undir þekkingu á Jehóva og syni hans, Jesú Kristi. Og hugsaðu þér hvað það merkir. Það verður enginn endir á því sem við lærum um Jehóva — og við höfum alla eilífðina til þess. — Prédikarinn 3:11; Rómverjabréfið 11:33.
Upprifjun
• Hvað má álykta um okkur af því hvernig við notum tímann?
• Frá hverju er hægt að taka tíma til lestrar og biblíunáms?
• Af hverju ættum við að gefa gætur að andlegum næringarvenjum okkar?
• Hvaða gagn höfum við af því að lesa og nema Biblíuna?
[Neðanmáls]
a Gefinn út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Sjá greinina „When They Read It and How They Benefit“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. maí 1995, bls. 20-1.
[Myndir á blaðsíðu 30, 31]
Reglulegur biblíulestur og biblíunám gerir okkur fær um að ‚fara rétt með orð sannleikans.‘
[Myndir á blaðsíðu 32]
Rétt jafnvægi milli andlegra hugðarefna og annarra skilar ríkulegum arði.