Hyggja andans er líf
„Hyggja andans [er] líf og friður.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 8:6.
1, 2. Hvernig notar Biblían „holdið“ og „andann“ sem andstæður?
ÞAÐ er hægara sagt en gert að halda sér siðferðilega hreinum frammi fyrir Guði í siðspilltu þjóðfélagi sem leggur mest upp úr því að fullnægja löngunum holdsins. En Ritningin notar „holdið“ og „andann“ sem andstæður og dregur skýra markalínu milli hinna hrikalegu afleiðinga, sem það hefur að láta syndugt hold stjórna sér, og blessunarinnar sem fylgir því að lúta áhrifum heilags anda Guðs.
2 Jesús Kristur sagði til dæmis: „Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert. Orðin, sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf.“ (Jóhannes 6:63) Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Galatíu: „Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið.“ (Galatabréfið 5:17) En hann bætti svo við: „Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.“ — Galatabréfið 6:8.
3. Hvað þarf til að slíta sig úr fjötrum rangra langana og tilhneiginga?
3 Starfskraftur Jehóva, heilagur andi, getur upprætt óhreinar, ‚holdlegar girndir‘ og skaðlega yfirdrottnun hins synduga holds. (1. Pétursbréf 2:11) Hjálp andans er nauðsynleg til að slíta sig úr fjötrum rangra tilhneiginga því að Páll skrifaði: „Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður.“ (Rómverjabréfið 8:6) Hvað er hyggja andans?
„Hyggja andans“
4. Hvað er átt við með ‚hyggju andans‘?
4 Páll notaði grískt orð sem merkir „hugsunarháttur, hugarhneigð, . . . markmið, þrá, kapp,“ þegar hann talaði um ‚hyggju andans.‘ Skyld sögn merkir „að hugsa, vera (svo eða svo) sinnaður.“ Með hyggju andans er átt við það að láta starfskraft Jehóva stjórna sér, ráða yfir sér eða knýja sig. Það lýsir þeim vilja að láta hugsun sína, tilhneigingar og þrár stjórnast að öllu leyti af heilögum anda Guðs.
5. Að hvaða marki eigum við að lúta áhrifum heilags anda?
5 Páll lagði áherslu á hve mjög við ættum að leggja okkur fram um að lúta áhrifum heilags anda er hann talaði um að vera ‚þjónar (bókstaflega þrælar) andans.‘ (Rómverjabréfið 7:6) Kristnir menn trúa á lausnarfórn Jesú og eru þar af leiðandi frelsaðir undan yfirráðum syndarinnar. Þeir eru ‚dánir‘ sem þrælar hennar. (Rómverjabréfið 6:2, 11) En þótt þeir séu táknrænt dánir með þessum hætti eru þeir lifandi að líkamanum til og eru nú frjálsir til að fylgja Kristi sem „þjónar réttlætisins.“ — Rómverjabréfið 6:18-20.
Áhrifamikil umskipti
6. Hvaða umskipti verða hjá þeim sem gerast „þjónar réttlætisins“?
6 Það eru mjög áhrifamikil umskipti þegar ‚þjónn syndarinnar‘ verður ‚þjónn réttlætisins‘ og tekur að þjóna Guði. Páll sagði við menn sem höfðu tekið slíkri breytingu: „Þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.“ — Rómverjabréfið 6:17, 18; 1. Korintubréf 6:11.
7. Af hverju er mikilvægt að hafa sömu skoðanir og Jehóva?
7 Fyrsta skrefið í átt að slíkri undrabreytingu er að fræðast um skoðun Jehóva á málunum. Sálmaritarinn Davíð sárbændi Guð endur fyrir löngu: „Vísa mér vegu þína, [Jehóva], . . . Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér.“ (Sálmur 25:4, 5) Jehóva getur svarað bænum nútímaþjóna sinna, líkt og hann bænheyrði Davíð. Sannleikur Guðs og vegir hans eru hreinir og heilagir, og það er mikil hjálp í því að hugleiða þá ef það freistar okkar að svala óhreinum löngunum holdsins.
Orð Guðs gegnir mikilvægu hluverki
8. Af hverju er biblíunám afar mikilvægt?
8 Orð Guðs, Biblían, er til orðin vegna áhrifa anda hans. Biblíulestur og biblíunám — helst daglega — er því mikilvæg leið til að láta andann starfa í okkur. (1. Korintubréf 2:10, 11; Efesusbréfið 5:18) Við eigum auðveldara með að standast atlögur að andlegu hugarfari okkar ef við fyllum hugann og hjartað af sannleika og meginreglum Biblíunnar. Þegar siðlausar freistingar berja dyra getur andi Guðs minnt okkur á varnaðarorð Biblíunnar og leiðbeinandi meginreglur, sem geta styrkt þann ásetning að hegða okkur í samræmi við vilja hans. (Sálmur 119:1, 2, 99; Jóhannes 14:26) Þá látum við ekki tælast út á ranga braut. — 2. Korintubréf 11:3.
9. Hvernig styrkir biblíunám ásetning okkar að varðveita sambandið við Jehóva?
9 Þegar við nemum Biblíuna með hjálp góðra námsrita hefur andi Guðs áhrif á hugann og hjartað, og það eykur og eflir virðingu okkar fyrir lögum hans. En við þurfum að vera einlæg og ástundunarsöm við námið. Þá verður sambandið við Guð það mikilvægasta í lífinu. Við förum þá ekki að hugsa um það, þegar freistingar ber að garði, hve skemmtilegt það væri að syndga heldur er okkur annt um að vera ráðvönd gagnvart Jehóva. Ef okkur er annt um samband okkar við hann berjumst við gegn hverri þeirri tilhneigingu sem kynni að skemma það eða eyðileggja.
„Hve mjög elska ég lögmál þitt“
10. Af hverju er nauðsynlegt að hlýða lögum Jehóva til að hyggja að andanum?
10 Þekking á orði Guðs ein sér er ekki nóg til að hyggja að andanum. Salómon konungur bjó yfir mjög góðri þekkingu á lögum Jehóva en hann lifði ekki eftir þeim á efri æviárum sínum. (1. Konungabók 4:29, 30; 11:1-6) Ef við erum andlega sinnuð gerum við okkur grein fyrir því að við þurfum bæði að þekkja innihald Biblíunnar og hlýða lögum Guðs af heilu hjarta. Til þess þurfum við að kynna okkur staðla Jehóva samviskusamlega og leggja okkur einlæglega fram um að fara eftir þeim. Sálmaritarinn hugsaði þannig og söng: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ (Sálmur 119:97) Ef við látum okkur einlæglega umhugað um að fylgja lögum Guðs langar okkur til að sýna af okkur þá eiginleika sem eru honum að skapi. (Efesusbréfið 5:1, 2) Þá löðumst við ekki hjálparvana að syndinni, heldur sýnum ávöxt andans og okkur langar til að þóknast Jehóva svo að við forðumst hin illu ‚verk holdsins.‘ — Galatabréfið 5:16, 19-23; Sálmur 15:1, 2.
11. Útskýrðu hvernig lög Jehóva, sem banna saurlifnað, eru okkur til verndar.
11 Hvernig getum við þroskað með okkur djúpa virðingu fyrir lögum Jehóva? Meðal annars með því að ígrunda gildi þeirra. Lítum til dæmis á lögin sem takmarka kynlíf við hjónabandið og banna hórdóm og saurlifnað. (Hebreabréfið 13:4) Förum við á mis við eitthvað gott ef við hlýðum þessum lögum? Ætli kærleiksríkur faðir á himnum myndi setja lög sem neituðu okkur um eitthvað gott? Auðvitað ekki. Líttu bara á hvernig fer fyrir mörgum sem lifa ekki í samræmi við siðferðisreglur Jehóva. Óvelkomin þungun leiðir oft af sér fóstureyðingu eða kannski ótímabært og vansælt hjónaband. Margar mæður, og stundum feður, þurfa að ala upp barn einsömul. Og saurlifnaður gerir fólk berskjalda fyrir samræðissjúkdómum. (1. Korintubréf 6:18) Siðferðisbrot getur haft mjög alvarleg áhrif á sálarlíf þess sem þjónar Jehóva. Andvaka reynir hann að bæla niður nagandi sektarkenndina. (Sálmur 32:3, 4; 51:5) Er ekki augljóst að lög Jehóva, sem banna saurlifnað, eru sett okkur til verndar? Jú, það er mikil blessun að lifa siðferðilega hreinu lífi.
Biddu Jehóva um hjálp
12, 13. Af hverju er viðeigandi að biðja þegar syndugar langanir herja á okkur?
12 Hyggja andans kallar á innilegar bænir til Guðs. Það er viðeigandi að biðja um anda hans sér til hjálpar því að Jesús sagði: „Fyrst þér . . . hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann. “ (Lúkas 11:13) Við getum tjáð Jehóva í bæn hversu háð við erum hjálp anda hans til að standast veikleika okkar. (Rómverjabréfið 8:26, 27) Ef við gerum okkur grein fyrir því að syndugar langanir eða viðhorf eru farin að hafa áhrif á okkur, eða ef trúbróðir eða trúsystir vekur athygli okkar á því, þá er viturlegt að ræða vandamálið sérstaklega í bænum okkar og biðja Guð um hjálp til að sigrast á þessum tilhneigingum.
13 Jehóva getur hjálpað okkur að einbeita okkur að því sem er rétt, hreint, dyggðugt og lofsvert. Og það á vel við að biðja einlæglega til hans þannig að „friður Guðs“ geti varðveitt hjörtu okkar og hugsanir. (Filippíbréfið 4:6-8) Við skulum því biðja Jehóva um hjálp til að „stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.“ (1. Tímóteusarbréf 6:11-14) Með hjálp föðurins á himnum getum við forðast það að áhyggjur og freistingar yfirbugi okkur og notið þess friðar sem hann veitir.
Hryggjum ekki andann
14. Hvernig stuðlar andi Guðs að hreinleika?
14 Páll ráðleggur okkur að ‚slökkva ekki andann‘ og þroskaðir þjónar Jehóva geta tekið það til sín. (1. Þessaloníkubréf 5:19) Andi Guðs er ‚andi heilagleikans‘ þannig að hann er hreinn og helgur. (Rómverjabréfið 1:4) Hann stuðlar að heilagleika og hreinleika í fari okkar þegar hann orkar á okkur. Hann hjálpar okkur að lifa hreinu lífi og vera Guði hlýðin. (1. Pétursbréf 1:2) Allar óhreinar athafnir eru lítilsvirðing við andann og geta haft skelfilegar afleiðingar. Hvernig þá?
15, 16. (a) Hvernig gætum við hryggt anda Guðs? (b) Hvernig getum við forðast að hryggja anda Jehóva?
15 Páll skrifaði: „Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins.“ (Efesusbréfið 4:30) Ritningin kallar anda Jehóva innsigli eða „pant“ eilífa lífsins sem trúfastir smurðir kristnir menn eiga í vændum, og þar er um að ræða ódauðleika á himnum. (2. Korintubréf 1:22; 1. Korintubréf 15:50-57; Opinberunarbókin 2:10) Andi Guðs getur leiðbeint hinum smurðu og félögum þeirra, sem hafa jarðneska von, svo að þeir séu trúfastir og forðist verk syndarinnar.
16 Postulinn varaði við tilhneigingum í þá átt að fara með ósanndi, stela, hegða sér svívirðilega og svo framvegis. Ef við leyfum okkur að færast í þá áttina göngum við í berhögg við innblásin ráð Guðs í Biblíunni. (Efesusbréfið 4:17-29; 5:1-5) Þá værum við að hryggja anda Guðs, að minnsta kosti að einhverju marki, og það viljum við allra síst. Ef við færum að sniðganga þau ráð sem við fáum í innblásnu orði Jehóva, þá gæti það verið upphaf viðhorfa eða eðlisfars sem gæti endað með því að við syndguðum af ásettu ráði og misstum velþóknun Guðs. (Hebreabréfið 6:4-6) Þó að við séum ekki byrjuð að iðka synd enn þá gætum við stefnt í þá áttina. Við værum að hryggja andann með því að ganga stöðugt í berhögg við handleiðslu hans. Og við værum jafnframt að streitast á móti og hryggja Jehóva sem er gjafari heilags anda. Við elskum Guð og viljum ekki að það gerist. Við skulum biðja Jehóva að hjálpa okkur svo að við hryggjum ekki anda hans heldur getum heiðrað heilagt nafn hans með því að hyggja að andanum.
Höldum áfram að hyggja að andanum
17. Nefndu dæmi um andleg markmið sem við getum sett okkur. Af hverju er viturlegt að vinna að slíkum markmiðum?
17 Að setja sér andleg markmið og vinna að því að ná þeim er góð leið til að hyggja að andanum. Markmiðin geta verið misjöfn eftir efnum og aðstæðum — að bæta námsvenjurnar, taka meiri þátt í boðunarstarfinu eða að sækjast eftir ákveðnum sérréttindum, svo sem brautryðjandastarfi, Betelstarfi eða trúboðsstarfi. Að vera upptekin af andlegum viðfangsefnum er góð hjálp til að láta ekki undan mannlegum veikleikum eða efnishyggju og óbiblíulegum löngunum sem eru svo algengar í þessu heimskerfi. Það er tvímælalaust skynsamlegt því að Jesús hvatti: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“ — Matteus 6:19-21.
18. Af hverju er mikilvægt að hyggja að andanum núna á síðustu dögum?
18 Það er mjög skynsamlegt núna á „síðustu dögum“ að hyggja að andanum og bæla niður holdlegar langanir því að „heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Unglings- og ungdómsárin eru oft erfið og það er gott leiðarljós á því æviskeiði að stefna að því að þjóna Guði í fullu starfi. Kristin ungmenni hafa þá skýr markmið og vita hverju þau vilja áorka í þjónustu Jehóva ef þrýst er á þau að gera eitthvað rangt. Andlegur maður veit að það er óskynsamlegt og jafnvel heimskulegt að fórna andlegu markmiðunum fyrir efnislega hluti eða nautnir sem syndin gefur fyrirheit um. Móse var andlega sinnaður og „kaus fremur illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni.“ (Hebreabréfið 11:24, 25) Hvort sem við erum ung eða gömul veljum við eins og hann ef við hyggjum að andanum en ekki hinu fallna holdi.
19. Hvernig er það okkur til gagns að hyggja að andanum?
19 „Hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði“ en „hyggja andans líf og friður.“ (Rómverjabréfið 8:6, 7) Ef við hyggjum að andanum njótum við friðar og hann er dýrmætur. Hann verndar hugann og hjartað svo sem best má vera fyrir áhrifum syndarinnar sem í okkur býr, og auðveldar okkur að standast freistinguna að gera það sem rangt er. Og við fáum hjálp Guðs í hinni langvinnu baráttu holdsins og andans.
20. Af hverju getum við treyst að það sé hægt að sigra í baráttunni milli holdsins og andans?
20 Með því að halda áfram að hyggja að andanum varðveitum við mikilvæg tengsl við Jehóva sem er bæði uppspretta lífsins og heilags anda. (Sálmur 36:10; 51:13) Satan djöfullinn og útsendarar hans beita öllum ráðum til að spilla sambandi okkar við Jehóva Guð. Þeir reyna að ná tökum á huga okkar, vitandi að ef við látum undan leiðir það smám saman til fjandskapar við Guð og dauða. En við getum sigrað í baráttu holdsins og andans. Páll postuli þekkti það af eigin raun. „Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?“ spurði hann fyrst en benti svo á björgunarmöguleikann og sagði: „Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.“ (Rómverjabréfið 7:21-25) Við getum líka þakkað Guði sem hefur fyrir milligöngu Krists gert okkur kleift að takast á við mannlega veikleika og til að hyggja að andanum með hina yndislegu von um eilíft líf að leiðarljósi. — Rómverjabréfið 6:23.
Manstu?
• Hvað merkir það að hyggja að andanum?
• Hvernig getum við látið anda Jehóva hafa áhrif á okkur?
• Skýrðu hvers vegna biblíunám, hlýðni við lög Jehóva og bæn til hans sé nauðsynlegt í baráttunni við syndina.
• Hvernig geta andleg markmið haldið okkur á braut lífsins?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Biblíunám er hjálp til að standast atlögur að andlegu hugarfari.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Það er rétt og viðeigandi að biðja um hjálp Jehóva til að sigrast á syndsamlegum löngunum.
[Myndir á blaðsíðu 17]
Andleg markmið geta hjálpað okkur að hyggja að andanum.