Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Ljóðaljóðanna
„EINS og lilja meðal þyrna, svo er vina mín meðal meyjanna.“ „Eins og apaldur meðal skógartrjánna, svo er unnusti minn meðal sveinanna.“ „Hver er sú sem horfir niður eins og morgunroðinn, fögur sem máninn, hrein sem sólin?“ (Ljóðaljóðin 2:2, 3; 6:10) Þetta eru háfleyg og skáldleg orð. Svo fögur eru Ljóðaljóðin en jafnframt merkingarþrungin að þau hafa verið kölluð fegurst allra ljóða.
Ljóðaljóðin segja frá ástum ungs fjárhirðis og sveitastúlkunnar Súlamít. Salómon Ísraelskonungur orti þau á fyrri hluta stjórnartíðar sinnar, sennilega um 1020 f.Kr. Meðal sögupersóna eru móðir og bræður stúlkunnar, „Jerúsalemdætur“ (hirðmeyjar) og „Síonardætur“ (konur í Jerúsalem). (Ljóðaljóðin 1:5; 3:11) Það er engan veginn auðvelt fyrir lesandann að greina á milli allra mælenda sem koma við sögu í Ljóðaljóðunum. Það er þó hægt með því að skoða vel hvað hver segir eða hvað sagt er við þá.
Ljóðaljóðin eru hluti af orði Guðs og þau flytja mikilvægan boðskap af tveim ástæðum. (Hebreabréfið 4:12) Annars vegar bregða þau upp skýrri mynd af því hvað er fólgið í sannri ást milli karls og konu. Í öðru lagi lýsa þau kærleikanum milli Jesú Krists og safnaðar andasmurðra kristinna manna. — 2. Korintubréf 11:2; Efesusbréfið 5:25-31.
„VEKIÐ EKKI ELSKUNA“
„Hann kyssi mig kossi munns síns, því að ást þín er betri en vín.“ (Ljóðaljóðin 1:2) Orðræða Ljóðaljóðanna hefst þegar óbreytt sveitastúlka er leidd í tjöld Salómons konungs og segir þessi orð. Hvernig stendur á veru hennar þar?
„Synir móður minnar reiddust mér, þeir settu mig til að gæta víngarða,“ segir hún. Bræðurnir reiðast vegna þess að fjárhirðirinn, sem hún ann, hefur boðið henni í gönguferð á fögrum vordegi. Til að hindra að hún geri það hafa þeir sett hana til að gæta víngarðanna fyrir „yrðlingunum, sem skemma víngarðana“. Það er þá sem hún kemst í námunda við búðir Salómons. Henni verður „gengið ofan í hnotgarðinn“ og vekur þá athygli fyrir fegurð sína. Í framhaldi af því er farið með hana inn í búðir konungs. — Ljóðaljóðin 1:6; 2:10-15; 6:11.
Stúlkan lýsir hve heitt hún þráir unnusta sinn, og hirðmeyjarnar segja henni þá að ‚reka för hjarðarinnar‘ og leita hans. En Salómon leyfir henni ekki að fara. Hann dáist að fegurð hennar og lofar að gefa henni „gullfestar . . . settar silfurhnöppum“. En stúlkan lætur sér fátt um finnast. Fjárhirðirinn kemur í búðir Salómons, finnur hana og segir fagnandi: „Hversu fögur ertu, vina mín, hversu fögur ertu!“ Stúlkan lætur hirðmeyjarnar vinna sér þess eið að ‚vekja ekki elskuna með henni fyrr en hún sjálf vill‘. — Ljóðaljóðin 1:8-11, 15; 2:7; 3:5.
Biblíuspurningar og svör:
1:2, 3 — Af hverju er minningin um ástarjátningar fjárhirðisins eins og vín og nafn hans eins og olía? Vín gleður hjarta mannsins og það er róandi að smyrja höfuðið með olíu. Minningin um nafn piltsins og ást hans styrkti stúlkuna og hughreysti hana. (Sálmur 23:5; 104:15) Sannkristnum mönnum, einkum hinum andasmurðu, finnst það sömuleiðis styrkjandi og hvetjandi að íhuga kærleikann sem Jesús Kristur hefur sýnt þeim.
1:5 — Hvers vegna líkir sveitastúlkan dökku hörundi sínu við „tjöld Kedars“? Dúkur ofinn úr geitahári var til margra hluta nytsamlegur. (4. Mósebók 31:20) Meðal annars voru ‚dúkar af geitahári‘ notaðir „til að tjalda með yfir búðina“ á dögum Móse. (2. Mósebók 26:7) Sennilega hafa tjöld Kedars verið ofin úr svörtu geitahári eins og algengt er hjá Bedúínum enn þann dag í dag.
1:15 — Hvað á fjárhirðirinn við þegar hann segir: „Augu þín eru dúfuaugu“? Hugsunin er sú að augu vinkonu hans séu mild og blíðleg eins og augu dúfunnar.
2:7; 3:5 — Hvers vegna særir stúlkan hirðmeyjarnar „við skógargeiturnar, eða við hindirnar í haganum“? Skógargeitur og hindir eru rómaðar fyrir fegurð og glæsileik. Súlamít lætur hirðmeyjarnar skuldbinda sig til að gera allt sem er göfugt og fagurt með því að reyna ekki að vekja ástina með henni.
Lærdómur:
1:2; 2:6. Þegar karl og kona eru að draga sig saman getur verið við hæfi að þau tjái hvort öðru ást sína með ýmsum hætti. Þau þurfa hins vegar að gæta þess að hrein væntumþykja búi að baki en ekki óhreinar ástríður sem gætu orðið kveikjan að kynferðislegu siðleysi. — Galatabréfið 5:19.
1:6; 2:10-15. Bræður Súlamítar leyfðu henni ekki að fara með ástvini sínum á fáfarinn stað upp til fjalla. Það var þó ekki af því að hún væri lauslát eða lifði ekki hreinu lífi heldur var það gert í varúðarskyni til að hún lenti ekki í aðstæðum sem gætu leitt hana í freistni. Fólk, sem fellir hugi saman, ætti ekki að vera einsamalt á fáförnum stöðum.
2:1-3, 8, 9. Þótt fögur væri var Súlamít hógvær og leit á sig sem ‚narsissu (ósköp venjulegt blóm) á Saronvöllum‘. Í augum fjárhirðisins var hún aftur á móti eins og „lilja meðal þyrna“ vegna þess hve fögur hún var og trú Jehóva. Og hvað um hann? Hann var myndarlegur maður og minnti hana á „skógargeit“. Hann hlýtur einnig að hafa verið andlega sinnaður og dyggur þjónn Jehóva. „Eins og apaldur meðal skógartrjánna, svo er unnusti minn meðal sveinanna,“ segir hún, en apaldur eða eplatré ber bæði ávöxt og veitir skjól. Er ekki skynsamlegt að leita sér að maka sem er bæði trúr Guði og sterkur í trúnni?
2:7; 3:5. Sveitastúlkan hreifst alls ekki af Salómon. Og hún lét hirðmeyjarnar vinna þess eið að vekja ekki ást hennar til nokkurs annars en fjárhirðisins. Það er hvorki rétt né gerlegt að renna ástarauga til hvers sem er. Einhleyp kristin manneskja, sem langar til að giftast, ætti aðeins að leita sér að maka meðal dyggra þjóna Jehóva. — 1. Korintubréf 7:39.
„HVAÐ VILJIÐ ÞÉR SJÁ Á SÚLAMÍT?“
Eitthvað „kemur úr heiðinni eins og reykjarsúlur“. (Ljóðaljóðin 3:6) Hvað sjá konurnar í Jerúsalem þegar þær ganga út? Salómon og þjónar hans eru á leið til borgarinnar og konungur hefur tekið Súlamít með sér.
Fjárhirðirinn eltir stúlkuna og finnur fljótlega leið til að hitta hana. Hann fullvissar hana um ást sína og hún segir honum að sig langi til að fara frá borginni: „Þar til kular af degi og skuggarnir flýja, vil ég ganga til myrruhólsins og til reykelsishæðarinnar.“ Hún segir: „Unnusti minn komi í garð sinn og neyti hinna dýru ávaxta hans.“ Hann svarar: „Ég kom í garð minn, systir mín, brúður.“ Konurnar í Jerúsalem segja þeim: „Etið, vinir, drekkið, gjörist ástdrukknir.“ — Ljóðaljóðin 4:6, 16; 5:1.
Eftir að Súlamít hefur sagt hirðmeyjunum draum, sem hana dreymdi, segist hún vera „sjúk af ást“. „Hvað hefir unnusti þinn fram yfir aðra unnusta?“ spyrja þær. „Unnusti minn er mjallahvítur og rauður, hann ber af tíu þúsundum,“ svarar hún. (Ljóðaljóðin 5:2-10) „Hvað viljið þér sjá á Súlamít?“ spyr hún auðmjúk í bragði eftir að Salómon hefur slegið henni gullhamra. (Ljóðaljóðin 6:4-13) Konungur lítur á þetta sem tækifæri til að vinna ást hennar og hleður á hana lofi. En stúlkan er trygg í ást sinni á fjárhirðinum og Salómon leyfir henni að síðustu að fara heim.
Biblíuspurningar og svör:
4:1; 6:5 — Af hverju er hári stúlkunnar líkt við „geitahjörð“? Samlíkingin bendir til þess að hár hennar hafi verið glansandi og þykkt eins og svart geitahár.
4:11— Hvað merkir það að ‚hunangsseimur drjúpi af vörum‘ Súlamítar og ‚hunang og mjólk sé undir tungu hennar‘? Hunang er bragðmeira og sætara beint úr hunangsseiminum (vaxkökunni) en hunang sem hefur komist í snertingu við loft. Þessi samlíking ásamt því að hunang og mjólk sé undir tungu stúlkunnar merkir að orðin af tungu hennar séu þægileg og góð.
5:12 — Hver er hugsunin í því að augu hans séu „eins og dúfur við vatnslæki, baðandi sig í mjólk“? Stúlkan er að tala um augu unnusta síns. Kannski er þetta skáldamál þar sem lithimnunni í miðri augnhvítunni er líkt við blágráar dúfur að baða sig í mjólk.
5:14, 15 — Hvers vegna er höndum og fótleggjum fjárhirðisins lýst með þessum hætti? Ljóst er að stúlkan líkir fingrum hans við gullkefli og nöglunum við krýsolítsteina. Fótleggirnir eru eins og „marmarasúlur“ vegna þess að þeir eru bæði sterkir og fallegir.
6:4 — Af hverju er stúlkunni líkt við Tirsa? Jósúa hernam þessa kanversku borg og eftir daga Salómons varð hún fyrsta höfuðborg Ísraelsríkisins (ættkvíslanna tíu). (Jósúabók 12:7, 24; 1. Konungabók 16:5, 6, 8, 15) „Borgin virðist hafa verið einstaklega fögur,“ segir heimildarrit, „og það kann að vera skýringin á því að hún er nefnd hér.“
6:13 — Hvað er „dansinn í tvíflokknum“? Versið má einnig þýða „dans í Mahanaím“. (Biblían 1859, neðanmáls) Borgin Mahanaím stóð austan við Jórdan nálægt Jabbokdal. (1. Mósebók 32:2, 22; 2. Samúelsbók 2:29) „Dansinn í tvíflokknum“ kann að hafa verið ákveðinn dans sem fylgdi hátíð þar í borg.
7:4 — Af hverju líkir Salómon hálsi Súlamítar við „fílabeinsturn“? Áður hafði verið sagt við stúlkuna: „Háls þinn er eins og Davíðsturn.“ (Ljóðaljóðin 4:4) Turn er hár og mjór og fílabein er slétt og mjúkt. Salómon er greinilega hrifinn af grönnum og mjúkum hálsi stúlkunnar.
Lærdómur:
4:1-7. Þótt Súlamít væri ófullkomin manneskja sýndi hún af sér heilsteypt siðferði með því að standast umleitanir Salómons. Siðferðisstyrkurinn undirstrikaði líkamlegu fegurðina. Þannig ættu allar kristnar konur að vera.
4:12. Súlamít er líkt við fagran garð sem er umluktur limgerði eða múr og ekki er hægt að komast inn í nema um læst hlið. Hún veitti engum ástúð sína nema tilvonandi eiginmanni. Hún er afbragðsfyrirmynd öllum ógiftum körlum og konum í kristna söfnuðinum.
„LOGI DROTTINS“
„Hver er sú, sem kemur þarna úr heiðinni og styðst við unnusta sinn?“ spyrja bræður Súlamítar þegar þeir sjá hana snúa heim. Einhvern tíma áður hafði einn þeirra sagt: „Ef hún er múrveggur, þá reisum við á honum silfurtind, en ef hún er hurð, þá lokum við henni með sedrusbjálka.“ Nú hefur Súlamít sýnt svart á hvítu að ást hennar er óhagganleg og hún segir: „Ég er múrveggur, og brjóst mín eru eins og turnar. Ég varð í augum hans eins og sú er fann hamingjuna.“ — Ljóðaljóðin 8:5, 9, 10.
Sönn ást er „logi Drottins“ af því að hún á upptök sín hjá Jehóva. Hann gaf okkur hæfileikann til að elska. Og þessi logi er óslökkvandi. Ljóðaljóðin lýsa á einstaklega fagran hátt ást karls og konu sem getur verið „sterk eins og dauðinn“. — Ljóðaljóðin 8:6, Biblíurit, ný þýðing 1996, neðanmáls.
Hið óviðjafnanlega ljóð Salómons varpar einnig ljósi á böndin sem tengja Jesú Krist og þá sem tilheyra himneskri „brúði“ hans. (Opinberunarbókin 21:2, 9) Ást Jesú á hinum andasmurðu er sterkari en ást getur nokkurn tíma verið milli karls og konu. Tryggð þeirra sem tilheyra brúði hans er óhagganleg. Jesús gaf líf sitt einnig fyrir „aðra sauði“. (Jóhannes 10:16) Allir sem tilbiðja Guð í sannleika geta því tekið sér órjúfanlega tryggð og ást Súlamítar til fyrirmyndar.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Hvað lærum við af Ljóðaljóðunum um þá mannkosti sem við ættum að leita að hjá tilvonandi maka?