Líkjum eftir trú þeirra
Hann varði sanna tilbeiðslu
ELÍA stóð kyrr og fylgdist með mannfjöldanum sem silaðist þungum skrefum upp hlíðar Karmelfjalls. Þótt enn væri ekki bjart af degi mátti augljóslega sjá að fólkið bjó við fátækt og skort. Þriggja og hálfs árs þurrkatíð hafði markað sín spor.
Meðal mannfjöldans gengu 450 Baalsspámenn, sperrtir og hrokafullir. Ó, hvað þeir hötuðu þennan spámann Jehóva. Jesebel drottning hafði tekið marga þjóna Jehóva af lífi en þessi maður stóð enn þá einbeittur gegn Baalsdýrkun. En hversu lengi? Kannski héldu prestarnir að einn maður mætti sín lítils gegn þeim öllum. (1. Konungabók 18:3, 19, 20) Akab konungur var einnig mættur á staðinn í konungsvagni sínum. Og ekki bar hann hlýhug til Elía.
Þessi dagur átti eftir að verða engum öðrum líkur. Fram undan voru ein tilkomumestu átök milli góðs og ills í sögu mannkyns. Hvernig var spámanninum innanbrjósts þegar grá morgunskíman vék fyrir dagsbirtunni? Hann var ekki ónæmur fyrir ótta enda „maður sama eðlis og vér“. (Jakobsbréfið 5:17) En eitt er víst: Elía fann sárlega að hann var einn á báti, umkringdur trúlausu fólki, grimmum prestum og konungi sem hafði snúist gegn sannri tilbeiðslu. — 1. Konungabók 18:22.
En hvernig komust Ísraelsmenn í þessar nauðir? Og hvað getum við lært af þessari frásögu? Í Biblíunni erum við hvött til að virða fyrir okkur dygga þjóna Guðs og líkja eftir trú þeirra. (Hebreabréfið 13:7) Skoðum nú nánar frásögu Biblíunnar af Elía.
Langvinn átök ná hámarki
Stóran hluta ævinnar hafði Elía horft máttvana upp á hvernig tilbeiðslunni á Jehóva var ýtt til hliðar og hún fótum troðin. Í Ísrael höfðu staðið langvinn átök milli sannrar tilbeiðslu og falskrar, milli tilbeiðslunnar á Jehóva og þeirrar skurðgoðadýrkunar sem þjóðirnar umhverfis stunduðu. Og á dögum Elía höfðu þessi átök tekið á sig sérlega ljóta mynd.
Akab konungur hafði gengið að eiga Jesebel, dóttur konungsins í Sídón. Jesebel var staðráðin í því að útbreiða Baalsdýrkun í Ísrael og uppræta tilbeiðsluna á Jehóva. Akab varð strax fyrir sterkum áhrifum af henni. Hann reisti musteri og altari handa Baal og beitti sér fyrir því að þessi falsguð væri dýrkaður. Þannig misbauð hann Jehóva gróflega. — 1. Konungabók 16:30-33.a
Hvers vegna var Baalsdýrkun svona svívirðileg? Hún tældi marga Ísraelsmenn frá hinum sanna Guði og stuðlaði að mikilli siðspillingu og grimmd. Hún fólst meðal annars í musterisvændi karla og kvenna, kynsvalli og jafnvel barnafórnum. Jehóva brást við með því að senda Elía til Akabs og tilkynna honum að þurrkar myndu bresta á og standa þangað til spámaður Guðs lýsti yfir að þeim væri lokið. (1. Konungabók 17:1) Á fjórða ár leið þar til Elía gekk fram fyrir Akab og sagði honum að kalla fólkið og Baalsspámennina upp á Karmelfjall.
En hvaða þýðingu hafa þessi átök fyrir okkur nú á dögum? Sumir gætu hugsað sem svo að frásaga af Baalsdýrkun snerti okkur ekki þar sem við sjáum engin Baalsmusteri eða ölturu í kringum okkur. En þessi frásaga hefur ekki aðeins sögulegt gildi. (Rómverjabréfið 15:4) Orðið „baal“ þýðir „eigandi“ eða „húsbóndi“. Jehóva sagði þjóð sinni að hún ætti að velja hann sem „baal“ það er að segja sem húsbónda sinn eða ‚eiginmann‘. (Jesaja 54:5) Ertu ekki sammála því að enn þann dag í dag þjónar fólk ýmsum öðrum húsbændum en almáttugum Guði? Já, fólk velur sér húsbónda hvort sem það notar líf sitt til að þjóna peningum, starfsframa, afþreyingu, kynlífi eða einhverjum af þeim fjölmörgu guðum sem eru tilbeðnir í stað Jehóva. (Matteus 6:24; Rómverjabréfið 6:16) Í vissum skilningi eru helstu einkenni Baalsdýrkunar enn við lýði nú á dögum. Þessi átök forðum daga milli Jehóva og Baals geta hjálpað okkur að ákveða hverjum við viljum þjóna.
„Að haltra til beggja hliða“ — hvernig?
Af vindsorfnum tindi Karmelfjalls er stórfenglegt útsýni yfir Ísrael. Kísonlækur rennur við rætur fjallsins og stutt er út að Hafinu mikla (Miðjarðarhafi). Langt í norðri ber Líbanonsfjöll við sjóndeildarhring.b En þegar sólin hækkaði á lofti á þessum merkisdegi var útsýnið allt annað en fagurt. Skuggi dauðans grúfði yfir landinu sem Jehóva hafði gefið afkomendum Abrahams. Þetta land, sem áður hafði verið svo frjósamt, var núna skrælnað í miskunnarlausum sólarhitanum. Ísraelsmenn gátu engu um kennt nema eigin heimsku. Þegar mannfjöldinn þyrptist saman gekk Elía fram fyrir hópinn og sagði: „Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða? Sé Drottinn hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum.“ — 1. Konungabók 18:21.
Hvað átti Elía við þegar hann talaði um að „haltra til beggja hliða“? Fólkið gerði sér augljóslega ekki grein fyrir því að það þurfti að velja á milli þess að tilbiðja Jehóva eða Baal. Það hélt að það gæti gert hvort tveggja — friðað Baal með viðurstyggilegum trúarsiðum en jafnframt beðið um hjálp Jehóva Guðs. Kannski héldu Ísraelsmenn að Baal myndi blessa uppskeru þeirra og búpening en Jehóva „allsherjar“ vernda þá í stríði. (1. Samúelsbók 17:45) Þeir höfðu gleymt mikilvægum grundvallarsannindum, sannindum sem margir átta sig ekki á enn þann dag í dag: Jehóva deilir ekki tilbeiðslunni á sér með öðrum guðum. Hann krefst óskiptrar hollustu og á hana skilið. Það er ekki aðeins óviðunandi að blanda tilbeiðslunni á honum saman við annars konar tilbeiðslu heldur er það hrein móðgun við hann. — 2. Mósebók 20:5.
Ísraelsmenn höltruðu til beggja hliða eins og maður sem reynir að feta tvær leiðir samtímis. Margir nú á dögum gera sömu mistök. Þeir leyfa öðrum „baölum“ að taka völdin í lífi sínu og ýta tilbeiðslunni á Jehóva til hliðar. Skýr og áríðandi fyrirmæli Elía um að hætta að haltra til beggja hliða geta hjálpað okkur að endurskoða tilbeiðslu okkar og áherslur í lífinu.
Prófið mikla
Elía lagði nú til að látið yrði reyna á það hver væri hinn sanni Guð. Tillaga hans var sáraeinföld. Prestar Baals áttu að reisa altari, leggja á það fórn og biðja síðan guð sinn að kveikja í henni. Elía myndi síðan gera hið sama. Hann sagði: „Sá guð, sem svarar með eldi, er hinn sanni Guð.“ Elía vissi vel hver væri hinn sanni Guð. Svo sterk var trú hans að hann hikaði ekki við að leyfa Baalsspámönnunum að vera á undan. Hann gaf andstæðingum sínum það forskot að leyfa þeim að velja sér naut til að fórna og vera fyrri til að ákalla guð sinn.c — 1. Konungabók 18:24, 25.
Tími kraftaverkanna er liðinn. En Jehóva hefur ekki breyst. Við getum borið sama traust til hans og Elía gerði. Tökum dæmi. Þegar fólk er ósammála því sem Biblían kennir þurfum við ekki að vera smeyk við að leyfa þeim að tjá skoðun sína. Við getum, líkt og Elía, treyst því að Guð skeri úr um málið. Við gerum það með því að treysta ekki á sjálf okkur heldur á innblásið orð hans sem er skrifað „til leiðréttingar“. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
Spámenn Baals höfðu til fórnina og fóru að ákalla guð sinn. „Baal, svara þú oss!“ hrópuðu þeir í sífellu. Mínútur liðu og síðan klukkustundir. „En þar var steinhljóð og ekkert svar,“ segir í Biblíunni. Um hádegisbil tók Elía að gera gys að þeim og sagði hæðnislega að Baal hlyti að vera of upptekinn til að svara þeim, að hann hafi þurft að bregða sér afsíðis eða að hann hefði fengið sér blund og einhver þyrfti að vekja hann. „Kallið hárri röddu,“ sagði Elía við svikahrappana. Hann sá mætavel að Baalsdýrkunin var ekkert annað en fáránleg blekking og hann vildi að fólk Guðs sæi í gegnum svikin. — 1. Konungabók 18:26, 27.
Þá rann æði á presta Baals. „Þeir kölluðu hárri röddu og ristu á sig skinnsprettur að sínum sið með sverðum og spjótum, uns þeim blæddi.“ En allt kom fyrir ekki. „Þar var steinhljóð og ekkert svar og engin áheyrn.“ (1. Konungabók 18:28, 29) Baal var auðvitað ekki til. Hann var uppfinning Satans, til að lokka fólk frá Jehóva. Nú á dögum er það sömuleiðis ávísun á vonbrigði eða jafnvel skömm að velja sér annan húsbónda en Jehóva. — Sálmur 25:3; 115:4-8.
Svarið
Það var langt liðið á daginn þegar kom að Elía. Hann reisti að nýju altari Jehóva sem hafði verið rifið niður, eflaust af óvinum sannrar tilbeiðslu. Hann notaði til þess 12 steina. Kannski minnti það marga úr tíuættkvíslaríkinu á að lögmálið var gefið öllum ættkvíslunum 12 og var enn í gildi. Síðan lagði hann fórnina á altarið og lét hella yfir hana vatni sem hafði ef til vill verið sótt í Miðjarðarhafið þar nærri. Hann lét meira að segja grafa skurð í kringum altarið og fylla hann vatni. Hann hafði gefið spámönnum Baals forskot en nú hagaði hann málum þannig að allt var Jehóva í óhag — slíkt var traust hans á Jehóva Guði sínum. — 1. Konungabók 18:30-35.
Þegar allt var tilbúið fór Elía með bæn. Bænin var einföld en innihaldsrík og sýndi greinilega hvað skipti Elía mestu máli. Fyrst og fremst vildi hann að allir vissu að Jehóva væri „Guð í Ísrael“ en ekki þessi Baal. Í öðru lagi vildi hann að öllum væri ljóst að hann væri aðeins þjónn Jehóva og að Jehóva ætti að fá allan heiðurinn. Að lokum sýndi hann að honum var enn annt um samlanda sína því að hann vildi gjarnan að Jehóva ‚sneri aftur hjörtum þeirra‘. (1. Konungabók 18:36, 37) Elía þótti innilega vænt um þá þrátt fyrir allar hörmungarnar sem þeir höfðu kallað yfir sig með trúleysi sínu. Getum við líka sýnt í bænum okkar að okkur er umhugað um nafn Guðs? Getum við sýnt sömu auðmýkt og Elía og sömu umhyggju fyrir þeim sem eru hjálparþurfi?
Áður en Elía fór með bænina velti fólkið kannski fyrir sér hvort Jehóva myndi reynast vera innantóm lygi eins og Baal. En eftir bænina var enginn tími til að efast. Í frásögunni segir: „Þá féll eldur Drottins niður og eyddi brennifórninni, viðnum, steinunum og grassverðinum, og vatnið í skurðinum þurrkaði hann einnig upp.“ (1. Konungabók 18:38) Hvílíkt svar! Og hver voru viðbrögð fólksins?
„Drottinn er hinn sanni Guð, Drottinn er hinn sanni Guð!“ hrópuðu allir. (1. Konungabók 18:39) Loks rann sannleikurinn upp fyrir þeim. En þeir höfðu ekki enn sýnt trú í verki. Það er í rauninni ekkert sérstakt að viðurkenna að Jehóva sé hinn sanni Guð eftir að hafa séð eld falla frá himnum ofan sem svar við bæn. Því fór Elía fram á að þeir gerðu meira. Hann bað þá um að gera það sem þeir hefðu átt að gera mörgum árum áður — að hlýða lögmáli Jehóva. Í lögmáli Guðs stóð að taka ætti falsspámenn og skurðgoðadýrkendur af lífi. (5. Mósebók 13:5-9) Prestar Baals voru svarnir óvinir Jehóva Guðs og unnu vísvitandi gegn vilja hans. Verðskulduðu þeir miskunn? Hvaða miskunn höfðu þeir sýnt öllum þeim saklausu börnum sem brennd voru lifandi sem fórn fyrir Baal? (Orðskviðirnir 21:13; Jeremía 19:5) Nei, þessir menn áttu enga miskunn skilið. Elía skipaði því fyrir að þeir skyldu teknir af lífi og það var gert. — 1. Konungabók 18:40.
Ýmsir gagnrýnendur lýsa vanþóknun sinni á því hvernig prófinu á Karmelfjalli lyktaði. Sumir hafa ef til vill áhyggjur af því að trúarofstækismenn noti þessa frásögu til að réttlæta ofbeldisverk í nafni trúar. Og því miður er grunnt á slíku ofstæki hjá allt of mörgum. En Elía var enginn ofstækismaður. Hann fullnægði einfaldlega réttlátum dómi Jehóva. Auk þess vita sannkristnir menn að þeir mega ekki taka hina óguðlegu af lífi eins og Elía gerði. Eftir komu Messíasar verða allir lærisveinar hans að fylgja þeim mælikvarða sem hann setti þegar hann sagði við Pétur: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ (Matteus 26:52) Í framtíðinni mun Jehóva láta son sinn fullnægja réttlætinu.
Það er skylda sannkristins manns að lifa í trú. (Jóhannes 3:16) Ein leið til að gera það er að taka sér til fyrirmyndar trúfasta menn eins og Elía. Hann tilbað engan nema Jehóva og hvatti aðra til að gera slíkt hið sama. Hann sýndi það hugrekki að afhjúpa falstrú sem Satan notaði til að lokka fólk frá Jehóva. Hann reiddi sig ekki á eigin hæfni og vilja heldur treysti að Jehóva myndi útkljá málið. Já, Elía varði sanna tilbeiðslu. Líkjum öll eftir trú hans.
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar um samskipti Elía við Akab er að finna í greininni „Do You Have Faith Like Elijah’s?“ sem birtist í Varðturninum (á ensku) 1. apríl 1992.
b Karmelfjall er yfirleitt grænt og gróskumikið. Vindar bera rakt loft frá hafinu upp fjallshlíðarnar og þess vegna eru þar tíðar rigningar og mikil dögg. Þar sem Baal var talinn veita regn var þetta greinilega mikilvægur tilbeiðslustaður fyrir Baalsdýrkendur. Nú var Karmelfjall þurrt og skrælnað og því kjörinn staður til að afhjúpa Baalsdýrkunina.
c Athygli vekur að Elía sagði við þá: „Leggið eigi eld að“ fórninni. Sumir fræðimenn segja að skurðgoðadýrkendur hafi stundum notað ölturu með leynilegu holrúmi svo að eldurinn liti út fyrir að kvikna með yfirnáttúrulegum hætti.
[Innskot á blaðsíðu 20]
Það er ávísun á vonbrigði að velja sér annan húsbónda en Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Jehóva er hinn sanni Guð!