2 Hvert ættum við að beina bænum okkar?
HEYRIR Guð allar bænir burtséð frá því að hverjum þeim er beint? Margir álíta að svo sé. Hugmyndin höfðar til margra sem eru hlynntir samtrúarlegum hreyfingum og vilja að öll trúarbrögð séu viðurkennd þótt þau séu ólík. Getur verið að þessi hugmynd sé röng?
Biblían kennir að oft beini fólk ekki bænum sínum í rétta átt. Á þeim tíma sem Biblían var skrifuð var algengt að fólk beindi bænum sínum að skurðgoðum. En Guð varaði aftur og aftur við því. Til dæmis segir í Sálmi 115:4–6 um skurðgoð: „Þau hafa eyru en heyra ekki.“ Þetta er mjög skýrt. Hvers vegna ættum við að biðja til guðs sem mun aldrei hlusta á okkur?
Frásaga í Biblíunni varpar ljósi á þetta. Hin sanni spámaður, Elía, skoraði á spámenn Baals að biðja til þeirra guðs og síðan myndi Elía biðja til síns Guðs. Elía sagði að hinn sanni Guð myndi svara en ekki falsguðinn. Spámenn Baals tóku áskoruninni og báðu heitt og lengi með hrópum og köllum, en til einskis. Frásagan segir: „Engin rödd heyrðist, ekkert svar, engin viðbrögð.“ (1. Konungabók 18:29) Hvernig gekk Elía?
Guð svaraði bæn Elía samstundis og sendi eld frá himni sem brenndi fórn hans upp til agna. Hver var munurinn? Mikilvæga vísbendingu er að finna í bæn Elía sem kemur fram í 1. Konungabók 18:36, 37. Bæn hans var mjög stutt – hún er aðeins 30 orð í upprunalega hebreska textanum. En í þessari stuttu bæn ávarpar Elía Guð samt þrisvar sinnum með eiginnafni hans, Jehóva.
Baal, sem merkir „eigandi“ eða „húsbóndi“, var guð Kanverja og það voru til margar útgáfur af honum. Jehóva er hins vegar einstakt nafn sem á aðeins við um eina persónu í alheiminum. Það er sá Guð sem sagði við þjóð sína: „Ég er Jehóva. Það er nafn mitt. Ég gef engum öðrum dýrð mína.“ – Jesaja 42:8, NW.
Voru bæði bæn Elía og bænir þessara spámanna Baals ásættanlegar? Tilbeiðslan á Baal hafði niðurlægjandi áhrif á fólk með trúarsiðum sem fólu í sér vændi og jafnvel mannafórnir. Tilbeiðslan á Jehóva göfgaði hins vegar fólk hans, Ísraelsmenn, og frelsaði þá undan slíkum niðurlægjandi siðum. Myndirðu gera ráð fyrir að bréf sem þú stílaðir á kæran vin bærist til einhvers sem héti öðru nafni, hefði mjög slæmt orðspor og væri á móti öllu sem vinur þinn trúir á? Að sjálfsögðu ekki!
Áskorun Elía til spámanna Baals leiddi í ljós að það er ekki sama hvert við beinum bænum okkar.
Ef þú biður til Jehóva biðurðu til skaparans, föður mannkynsins.a „Þú, Jehóva, faðir okkar,“ sagði Jesaja spámaður í bæn. (Jesaja 63:16, NW) Þetta er sá sem Jesús talaði um þegar hann sagði við fylgjendur sína: „Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“ (Jóhannes 20:17) Jehóva er faðir Jesú. Hann er sá Guð sem Jesús bað til og kenndi lærisveinum sínum að biðja til. – Matteus 6:9.
Kennir Biblían okkur að biðja til Jesú, Maríu, dýrlinga eða engla? Nei – aðeins til Jehóva. Skoðum tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er bænin þáttur í tilbeiðslunni og Biblían segir að við ættum að tilbiðja Jehóva einan. (2. Mósebók 20:5) Í öðru lagi segir Biblían að hann sé sá „sem heyrir bænir“. (Sálmur 65:3) Þótt Jehóva úthluti fúslega verkefnum til annarra þá hefur hann aldrei látið neinn annan fá þetta verkefni. Hann er sá Guð sem lofar að hlusta sjálfur á bænir okkar.
Ef þú vilt að Guð heyri bænir þínar skaltu muna eftir hvatningunni: „Allir sem ákalla nafn Jehóva bjargast.“ (Postulasagan 2:21) En hlustar Jehóva skilyrðislaust á allar bænir? Eða er eitthvað fleira sem við þurfum að vita ef við viljum að Jehóva hlusti á bænir okkar?
a Samkvæmt sumum trúarlegum erfðavenjum er rangt að segja eiginnafn Guðs upphátt, jafnvel í bæn. Þetta nafn birtist hins vegar um 7000 sinnum í Biblíunni á frummálum hennar, í mörgum tilfellum í bænum og sálmum trúfastra þjóna Jehóva.