Stuðlum að góðum samskiptum með því að vera mild í tali
„Mál ykkar sé ætíð ljúflegt.“ — KÓL. 4:6.
1, 2. Hvað hlaust af því að bróðir var mildur í viðmóti?
„ÉG HITTI mann í boðunarstarfinu hús úr húsi. Hann varð svo reiður að varirnar titruðu og allur líkaminn skalf,“ segir bróðir nokkur. „Ég hélt ró minni og reyndi að rökræða við hann út frá Biblíunni en hann varð bara reiðari. Kona hans og börn tóku undir með honum og skömmuðu mig og ég skildi að nú var kominn tími til að fara. Ég fullvissaði þau um að ég hefði komið með friði og vildi fara með friði. Ég sýndi þeim Galatabréfið 5:22 og 23 þar sem minnst er á kærleika, hógværð, sjálfsaga og frið. Síðan fór ég.
2 Seinna var ég að fara í hús hinum megin við götuna og sá þá að fjölskyldan sat á tröppunum framan við húsið sitt. Þau báðu mig að koma. ,Hvað nú?‘ hugsaði ég. Maðurinn hélt á könnu af köldu vatni og bauð mér að drekka. Hann baðst afsökunar á ókurteisinni og hrósaði mér fyrir sterka trú. Við skildum í góðu.“
3. Af hverju megum við ekki láta reita okkur til reiði?
3 Í öllu álaginu, sem er í heiminum nú á tímum, verður ekki hjá því komist að hitta reitt fólk, meðal annars í boðunarstarfinu. Þegar það gerist er afar mikilvægt að sýna „hógværð og virðingu“. (1. Pét. 3:15, 16) Ef bróðirinn, sem minnst var á, hefði reiðst vegna bræði og ókurteisi húsráðanda hefði viðmót mannsins að öllum líkindum ekki breyst eins og það gerði. Hann hefði jafnvel getað reiðst enn meira. Vegna þess að bróðirinn hafði stjórn á sér og var vinsamlegur í viðmóti fór þetta vel að lokum.
Hvernig getum við verið mild í tali?
4. Af hverju er mikilvægt að vera mildur í tali?
4 Hvort sem við eigum í samskiptum við fólk innan eða utan safnaðarins eða jafnvel við fjölskyldu okkar er afar mikilvægt að fara eftir ráðum Páls postula: „Mál ykkar sé ætíð ljúflegt en salti kryddað.“ (Kól. 4:6) Smekkleg og viðeigandi orð eru grunnurinn að góðum samskipum og friði.
5. Hvað ætti að forðast til að viðhalda góðum samskiptum? Skýrðu svarið.
5 Góð samskipti þýða ekki að við segjum allt sem okkur finnst eða við hugsum þá stundina, sérstaklega ef við erum í uppnámi. Í Biblíunni kemur fram að stjórnlaus reiði sé ekki styrkleika- heldur veikleikamerki. (Lestu Orðskviðina 25:28; 29:11.) Móse var „hógværari en nokkur annar á jörðinni“ á sínum tíma. Hann missti eitt sinn stjórn á skapi sínu vegna uppreisnargirni Ísraelsmanna og gaf ekki Guði dýrðina. Móse sagði opinskátt hvernig honum var innanbrjósts en Jehóva var ekki ánægður. Móse fékk ekki að leiða Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið eftir að hafa verið leiðtogi þeirra í 40 ár. — 4. Mós. 12:3; 20:10, 12; Sálm. 106:32.
6. Hvað þýðir það að hafa taumhald á tungu sinni?
6 Í Biblíunni er mælt með að við höfum taumhald á tungu okkar og sýnum góða dómgreind þegar við tölum. „Málæðinu fylgja yfirsjónir en sá breytir hyggilega sem hefur taumhald á tungu sinni.“ (Orðskv. 10:19; 17:27) Þetta þýðir ekki að maður eigi aldrei að tjá hug sinn. Það þýðir að ,mál okkar sé ljúflegt‘ og að við notum tunguna til að byggja upp fremur en að brjóta niður. — Lestu Orðskviðina 12:18; 18:21.
„Að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma“
7. Hvað ættum við ekki að tjá og af hverju?
7 Við þurfum að hafa taumhald á tungunni og vera mild í tali í söfnuðinum og á heimilinu rétt eins og þegar við ræðum við vinnufélaga eða ókunnugt fólk í boðunarstarfinu. Ef við gefum reiðinni útrás án tillits til afleiðinganna getur það komið illa niður á andlegri, tilfinningarlegri og líkamlegri heilsu okkar og annarra. (Orðskv. 18:6, 7) Við þurfum að hafa stjórn á neikvæðum tilfinningum sem eru afleiðingar þess að við erum ófullkomin. Það er rangt að lastmæla, spotta og sýna fyrirlitningu, reiði og heift. (Kól. 3:8; Jak. 1:20) Þetta getur spillt dýrmætu sambandi okkar við annað fólk og Jehóva. Jesús sagði: „Hver sem reiðist bróður sínum skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann hefur unnið til eldsvítis.“ — Matt. 5:22.
8. Hvenær eigum við að tjá tilfinningar okkar og á hvaða hátt?
8 Sum mál eru samt þess eðlis að það getur verið gott að ræða þau. Ef trúsystkini hefur sagt eitthvað eða gert sem angrar þig svo mikið að þú getur ekki bara leitt það hjá þér skaltu ekki láta neikvæðar tilfinningar grafa um sig. (Orðskv. 19:11) Ef einhver reitir þig til reiði skaltu ná stjórn á tilfinningum þínum og reyna síðan að leysa málið. Páll skrifaði: „Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar.“ Ef málið heldur áfram að angra þig skaltu taka á því við gott tækifæri og gera það með vinsemd. (Lestu Efesusbréfið 4:26, 27, 31, 32.) Ræddu málið við trúsystkini þitt, opinskátt en vinsamlega, með það fyrir augum að sættast. — 3. Mós. 19:17; Matt. 18:15.
9. Af hverju ættum við að ná stjórn á eigin tilfinningum áður en við ræðum málið?
9 Auðvitað þarftu gæta þess að velja réttu stundina. Það hefur sinn tíma „að þegja . . . og að tala“. (Préd. 3:1, 7) Og „hjarta hins réttláta íhugar hverju svara skuli“. (Orðskv. 15:28) Þetta getur þýtt að við þurfum að bíða með að ræða málið. Ef við tökum málið fyrir meðan við erum enn í miklu uppnámi getur það gert illt verra, en það er ekki heldur skynsamlegt að láta það bíða lengi.
Góðvild í verki stuðlar að góðum samskiptum
10. Hvernig getur góðvild í verki stuðlað að góðum samskiptum?
10 Mildileg orð og góð tjáskipti hjálpa okkur að viðhalda friðsamlegum samskiptum. Ef við gerum það sem í okkar valdi stendur til að bæta samband okkar við aðra getur það meira að segja auðveldað okkur að eiga tjáskipti við þá. Ef við leggjum okkur einlæglega fram um að gera öðrum gott — leitum færis að hjálpa, sýnum gestrisni eða gefum gjöf af hreinu tilefni — getur það leitt til betri samskipta. Það getur jafnvel safnað „glóðum elds á höfuð“ annarrar manneskju og laðað fram góða eiginleika hennar. Það auðveldar okkur að ræða málin opinskátt. — Rómv. 12:20, 21.
11. Hvað gerði Jakob til að bæta samband sitt við Esaú og með hvaða árangri?
11 Þetta skildi ættfaðirinn Jakob. Tvíburabróðir hans Esaú, reiddist svo að Jakob flúði vegna þess að hann óttaðist að Esaú myndi drepa hann. Mörgum árum síðar sneri Jakob aftur. Esaú kom ásamt 400 mönnum til að hitta hann. Jakob bað Jehóva um hjálp. Síðan sendi hann Esaú heilmikið af búpeningi. Þessi rausnarlega gjöf hafði tilætluð áhrif. Þegar þeir hittust hafði viðhorf Esaú breyst og hann hljóp til Jakobs og faðmaði hann. — 1. Mós. 27:41-44; 32:6, 11, 13-15; 33:4, 10.
Uppörvum aðra með vinsamlegum orðum
12. Af hverju ættum við að uppörva trúsystkini okkar með vinsamlegum orðum?
12 Kristnir menn þjóna Guði en ekki mönnum. En eðlilega viljum við samt að öðrum líki við okkur. Við getum létt byrðar trúsystkina okkar með vinsamlegum orðum. Harkaleg gagnrýni getur hins vegar íþyngt þeim og orðið til þess að þau velta fyrir sér hvort þau hafi misst velþóknun Jehóva. Við skulum því einlæglega uppörva aðra með því „sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra“. — Ef. 4:29.
13. Hvað þurfa öldungar að hafa hugfast (a) þegar þeir gefa góð ráð? (b) þegar þeir skrifa bréf?
13 Öldungar ættu öðrum fremur að vera mildir og hlýlegir í framkomu við trúsystkini sín. (1. Þess. 2:7, 8) Þegar þeir þurfa að gefa góð ráð er markmið þeirra að gera það með ,hógværð‘, jafnvel þegar þeir leiðbeina þeim sem „skipast í móti“. (2. Tím. 2:24, 25) Öldungar ættu einnig að vera vinsamlegir þegar þeir skrifa bréf til öldungaráðs annars safnaðar eða til deildarskrifstofunnar. Þeir ættu að vera hlýlegir og háttvísir í samræmi við Matteus 7:12.
Verum mild í tali innan fjölskyldunnar
14. Hvað ráðleggur Páll eiginmönnum og af hverju?
14 Orð okkar, svipbrigði og líkamstjáning hefur meiri áhrif á aðra en marga grunar. Sumir karlar gera sér til dæmis ekki grein fyrir því hversu mikil áhrif orð þeirra hafa á konur. Ein systir sagði: „Ég verð hrædd þegar maðurinn minn hækkar róminn reiðilega við mig.“ Hranaleg orð geta haft meiri áhrif á konu en karlmann og hún man þau kannski lengur, sérstaklega ef hún elskar viðmælandann og vill virða hann. (Lúk. 2:19) Páll gaf eiginmönnum eftirfarandi ráð: „Elskið eiginkonur ykkar og verið ekki beiskir við þær.“ — Kól. 3:19.
15. Lýstu með dæmi af hverju eiginmaður þarf að sýna eiginkonu sinni nærgætni.
15 Reyndur giftur bróðir lýsti því með dæmi af hverju eiginmaður ætti að sýna eiginkonunni nærgætni „sem hinum veikari“. „Þegar maður handleikur dýrmætan og viðkvæman vasa má ekki taka of fast á honum því þá getur hann brotnað. Jafnvel þó að gert sé við hann getur verið að sprungan sjáist,“ sagði hann. „Ef eiginmaður talar hranalega til eiginkonu sinnar getur hann sært hana. Það getur valdið varanlegum bresti í sambandi þeirra.“ — Lestu 1. Pétursbréf 3:7.
16. Hvernig getur eiginkona haft uppbyggileg áhrif á fjölskyldu sína?
16 Orð annarra geta einnig verið hvetjandi eða letjandi fyrir karlmenn, þar á meðal orð eiginkvenna. Eiginmaður, sem á ,hyggna konu‘, getur treyst henni og hún tekur tillit til tilfinninga hans rétt eins og hún vill að hann sé tillitsamur við hana. (Orðskv. 19:14; 31:11) Eiginkona getur haft veruleg áhrif innan fjölskyldunnar til góðs eða ills. „Viska kvennanna reisir húsið en fíflska þeirra rífur það niður með berum höndum.“ — Orðskv. 14:1.
17. (a) Hvernig eiga börn að ávarpa foreldra sína? (b) Hvernig ættu hinir eldri að tala við börnin og af hverju?
17 Foreldrar og börn ættu líka að tala mildilega hvert við annað. (Matt. 15:4) Ef við erum hugulsöm þegar við ræðum við börnin getum við forðast að ,reita þau til reiði‘. (Kól. 3:21; Ef. 6:4) Jafnvel þó að þurfi að aga börnin eiga foreldrar og öldungar að tala við þau með virðingu. Þannig auðvelda hinir eldri börnunum að bæta sig og viðhalda sambandinu við Guð. Það er mun betra en að senda þau skilaboð að við höfum gefist upp á þeim sem gæti orðið til þess að þau gæfust upp á sjálfum sér. Börnin muna kannski ekki eftir öllum leiðbeiningum sem þau hafa fengið en þau eiga eftir að muna hvernig var talað við þau.
Vinsamleg orð sögð af heilu hjarta
18. Hvernig getum við losað okkur við skaðlegar hugsanir og tilfinningar?
18 Að hafa stjórn á skapi sínu er ekki bara spurning um að virðast rólegur á yfirborðinu. Málið snýst ekki bara um að bæla niður sterkar tilfinningar. Ef við reynum að vera róleg á meðan reiðin kraumar undir yfirborðinu skapar það spennu innra með okkur. Það mætti líkja því við að stíga samtímis á bremsuna og bensíngjöfina í bíl. Bíllinn yrði fyrir auknu álagi og gæti skemmst. Ekki byrgja inni reiði og láta hana síðan brjótast út. Biddu Jehóva að hjálpa þér að losna við skaðlegar tilfinningar. Láttu anda Jehóva breyta hugarfari þínu og hjarta í samræmi við vilja hans. — Rómv. 12:2; Ef. 4:23, 24.
19. Hvaða geturðu gert til að forðast illdeilur?
19 Gerðu það sem þú getur til að hafa stjórn á skapi þínu. Ef þú lendir í aðstæðum þar sem þú finnur að spenna og reiði er farin að byggjast upp innra með þér gæti verið skynsamlegt að yfirgefa svæðið. Þannig færðu tíma til að ná stjórn á tilfinningum þínum. (Orðskv. 17:14) Ef viðmælandi þinn reiðist skaltu enn fremur leggja áherslu á að vera mildur í tali. Hafðu hugfast að „mildilegt svar stöðvar bræði en fúkyrði vekja reiði“. (Orðskv. 15:1) Ef þú ert særandi eða með skæting bætir það olíu á eldinn jafnvel þó það sé sagt með mildri röddu. (Orðskv. 26:21) Þegar reynir á sjálfstjórn þína skaltu vera „seinn til að tala [og] seinn til reiði.“ Biddu um anda Jehóva til að hjálpa þér að vera vinsamlegur en ekki hið gagnstæða. — Jak. 1:19.
Fyrirgefum af heilum hug
20, 21. Hvað getur hjálpað okkur að fyrirgefa öðrum og af hverju verðum við að gera það?
20 Því miður hefur ekkert okkar fullkomna stjórn á tungu sinni. (Jak. 3:2) Þrátt fyrir að reyna sitt besta eiga trúsystkini okkar og fjölskyldumeðlimir til að missa eitthvað út úr sér sem særir tilfinningar okkar. Í stað þess að móðgast þegar í stað skaltu halda ró þinni og íhuga hver gæti verið ástæðan fyrir orðum þeirra. (Lestu Prédikarann 7:8, 9.) Voru þau undir álagi eða hrædd, leið þeim illa eða voru þau að glíma við annars konar innri eða ytri erfiðleika?
21 Slíkt er ekki afsökun fyrir því að missa stjórn á skapinu. En ef við komum auga á svona atriði getur það hjálpað okkur að skilja af hverju fólk segir eða gerir eitthvað sem það hefði betur látið ógert og það getur hjálpað okkur að fyrirgefa. Öll höfum við sagt eða gert ýmislegt sem hefur sært aðra og við vonum að þeir fyrirgefi okkur fúslega. (Préd. 7:21, 22) Að sögn Jesú verðum við að fyrirgefa öðrum ef við viljum að Guð fyrirgefi okkur. (Matt. 6:14, 15; 18:21, 22, 35) Við ættum því að vera fljót að biðjast afsökunar og fyrirgefa. Þannig varðveitum við kærleikann en hann „bindur allt saman“, bæði í fjölskyldunni og í söfnuðinum. — Kól. 3:14.
22. Hvers vegna er vel þess virði að leggja okkur fram um að vera mild í tali?
22 Líklega verður meiri áskorun að halda gleði okkar og einingu eftir því sem nær dregur endalokum þessa reiða heims. Ef við lifum samkvæmt meginreglunum í orði Guðs hjálpar það okkur að beita tungunni til góðs en ekki ills. Við njótum enn meiri friðar innan safnaðarins og fjölskyldunnar og fordæmi okkar verður góður vitnisburður um Jehóva, hinn ,sæla Guð‘. — 1. Tím. 1:11, Biblían 1912.
Hvert er svarið?
• Hvers vegna er mikilvægt að velja réttu stundina til að ræða ágreining?
• Af hverju ættu allir innan fjölskyldunnar að tala vinsamlega hver við annan?
• Hvernig getum við forðast að segja eitthvað særandi?
• Hvað getur hjálpað okkur að fyrirgefa?
[Myndir á bls. 21]
Gefðu þér tíma til að ná stjórn á tilfinningum þínum og finndu svo gott tækifæri til að ræða málin.
[Mynd á bls. 23]
Eiginmaður ætti alltaf vera vinsamlegur þegar hann talar við eiginkonu sína.