Hafðu óhagganlega trú á ríki Guðs
„Trúin er fullvissa um það sem menn vona.“ – HEBR. 11:1.
1, 2. Hvað styrkir þá sannfæringu okkar að ríki Guðs sjái til þess að fyrirætlun hans með mannkynið nái fram að ganga? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
VIÐ sem erum vottar Jehóva segjum oft að ríki Guðs sé eina lausnin á öllum okkar vandamálum, og við erum óþreytandi að benda fólki á þennan mikilvæga sannleika. Vonin um að ríki Guðs hrindi vilja hans í framkvæmd er líka mjög uppörvandi fyrir okkur. En hversu sannfærð erum við um að ríki Guðs sé raunverulegt og nái markmiði sínu? Hvaða forsendur höfum við fyrir því að hafa óhagganlega trú á ríki Guðs? – Hebr. 11:1.
2 Alvaldur Guð setti Messíasarríkið á laggirnar til að hrinda vilja sínum með sköpunarverkið í framkvæmd. Ríkið stendur á óhagganlegum grunni – algildum rétti Jehóva til að stjórna. Mikilvægir þættir þessa ríkis hafa verið lögfestir með sáttmálum eða lögformlegum samningum þar sem Guð eða sonur hans, Jesús Kristur, eru annar aðilinn. Þetta á til dæmis við um konunginn, meðstjórnendur hans og yfirráðasvæðið. Það er gott að kynna sér þessa sáttmála vel. Þá skiljum við betur hve öruggt það er að vilji Jehóva nái fram að ganga og hve stöðugt þetta fyrirkomulag hans er. – Lestu Efesusbréfið 2:12.
3. Hvað er kannað í þessari grein og þeirri næstu?
3 Í Biblíunni er sagt frá sex mikilvægum sáttmálum sem tengjast Messíasarríkinu í höndum Jesú Krists. Þetta eru (1) Abrahamssáttmálinn, (2) lagasáttmálinn, (3) Davíðssáttmálinn, (4) sáttmálinn um prest að hætti Melkísedeks, (5) nýi sáttmálinn og (6) sáttmálinn um ríkið. Við skulum kanna hvernig allir þessir sáttmálar tengjast ríki Guðs og stuðla að því að vilji hans með jörðina og mannkynið nái fram að ganga. – Sjá yfirlitið „Hvernig lætur Jehóva vilja sinn ná fram að ganga?“
LOFORÐ SEM LEIÐIR Í LJÓS HVERNIG FYRIRÆTLUN GUÐS NÆR FRAM AÐ GANGA
4. Hvaða þrjár tilskipanir gaf Jehóva út sem vörðuðu mennina eins og sjá má af 1. Mósebók?
4 Eftir að hafa búið jörðina undir ábúð mannsins gaf Jehóva út þrjár tilskipanir sem vörðuðu mennina: Hann ætlaði að skapa mennina eftir sinni mynd, mennirnir áttu að gera alla jörðina að paradís og fylla hana réttlátum afkomendum sínum, og mönnunum var bannað að borða ávöxtinn af skilningstré góðs og ills. (1. Mós. 1:26, 28; 2:16, 17) Þetta nægði. Eftir að maðurinn var skapaður þurfti hann ekki annað en að fylgja hinum tveim tilskipununum til að fyrirætlun Guðs næði fram að ganga. Hvers vegna þurfti Guð þá að gera sáttmála?
5, 6. (a) Hvernig reyndi Satan að hindra að fyrirætlun Guðs næði fram að ganga? (b) Hvernig brást Jehóva við uppreisn Satans í Eden?
5 Satan kom af stað uppreisn gegn Guði í þeim illa tilgangi að hindra að fyrirætlun hans næði fram að ganga. Hann beindi spjótum sínum að þeirri tilskipun sem hann gat helst gert tortryggilega, þeirri sem útheimti hlýðni af hálfu mannsins. Hann freistaði Evu, fyrstu konunnar, til að óhlýðnast banninu við því að borða ávöxtinn af skilningstré góðs og ills. (1. Mós. 3:1-5; Opinb. 12:9) Þar með véfengdi hann rétt Guðs til að ráða yfir sköpunarverki sínu. Síðar fullyrti Satan að menn þjónuðu Guði aðeins af eigingjörnum hvötum. – Job. 1:9-11; 2:4, 5.
6 Hvernig brást Jehóva við uppreisn Satans í Eden? Hann hefði vissulega getað kveðið uppreisnina niður með því að útrýma uppreisnarseggjunum. Það hefði hins vegar haft í för með sér að yfirlýst fyrirætlun Jehóva um að fylla jörðina hlýðnum afkomendum Adams og Evu næði ekki fram að ganga. Í stað þess að taka uppreisnarseggina af lífi þegar í stað sýndi skaparinn þá visku að bera fram stórmerkilegan spádóm – loforðið í Eden – til að tryggja að orð hans rættust í smáatriðum. – Lestu 1. Mósebók 3:15.
7. Hvað upplýsir loforðið í Eden um höggorminn og niðja hans?
7 Með loforðinu í Eden felldi Jehóva dóm yfir höggorminum og niðjum hans, það er að segja Satan djöflinum og öllum sem myndu taka afstöðu með honum í deilunni um rétt Jehóva til að fara með völdin. Hinn sanni Guð gaf niðja himneskrar konu sinnar umboð til að útrýma Satan. Loforðið í Eden felur í sér að frumkvöðli uppreisnarinnar verði rutt úr vegi og afleiðingar hennar gerðar að engu. Þar kemur einnig fram hvernig þetta verði gert.
8. Hvað vitum við um konuna og niðja hennar?
8 Hver myndi niðji konunnar vera? Hann á að merja höfuð höggormsins, það er að segja að gera andaveruna Satan djöfulinn að engu, þannig að hann hlýtur að vera andavera. (Hebr. 2:14) Konan, sem fæðir niðjann, þarf þar af leiðandi einnig að vera andlegs eðlis. Niðjum höggormsins fjölgaði hratt en eftir að Jehóva gaf loforðið í Eden var það leyndardómur í næstum 4.000 ár hver væri niðji konunnar. Á þessu tímabili gerði Jehóva nokkra sáttmála sem draga fram hver niðjinn er. Þeir fullvissa þjóna Jehóva um að fyrir atbeina niðjans eigi hann eftir að bæta allt það tjón sem Satan hefur valdið mannkyni.
SÁTTMÁLI BENDIR Á NIÐJANN
9. Hvað er Abrahamssáttmálinn og hvenær tók hann gildi?
9 Um 2.000 árum eftir að Jehóva felldi dóm yfir Satan sagði hann ættföðurnum Abraham að yfirgefa heimili sitt í borginni Úr í Mesópótamíu og fara til Kanaanslands. (Post. 7:2, 3) Jehóva sagði við hann: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera. Ég mun leiða blessun yfir þá sem blessa þig og bölvun yfir þann sem formælir þér. Allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér blessun hljóta.“ (1. Mós. 12:1-3) Þetta er fyrsta skráða heimildin um sáttmálann sem Jehóva gerði við Abraham. Við köllum hann Abrahamssáttmálann. Við vitum ekki hvenær Jehóva gerði þennan sáttmála við Abraham. Hann tók hins vegar gildi árið 1943 f.Kr. þegar Abraham, þá 75 ára gamall, yfirgaf Harran og fór yfir ána Efrat.
10. (a) Hvernig sýndi Abraham óhagganlega trú á loforð Guðs? (b) Hvað upplýsti Jehóva smám saman varðandi niðja konunnar?
10 Jehóva ítrekaði loforð sitt við Abraham nokkrum sinnum og gaf honum nánari upplýsingar. (1. Mós. 13:15-17; 17:1-8, 16) Abraham sýndi að hann treysti loforðum Guðs í hvívetna þegar hann var fús til að fórna einkasyni sínum. Jehóva ítrekaði þá sáttmálann enn frekar með því að gefa skilyrðislaust loforð. (Lestu 1. Mósebók 22:15-18; Hebreabréfið 11:17, 18.) Eftir að sáttmálinn við Abraham tók gildi veitti Jehóva smám saman mikilvægar upplýsingar um niðja konunnar. Niðjarnir skyldu koma af Abraham, þeir yrðu margir, myndu fara með konungsvald, útrýma öllum óvinum og verða mörgum til blessunar.
11, 12. Hvernig kemur fram í Biblíunni að Abrahamssáttmálinn eigi sér meiri uppfyllingu og hvað þýðir það fyrir okkur?
11 Abrahamssáttmálinn rættist bókstaflega á afkomendum Abrahams þegar þeir eignuðust fyrirheitna landið en í Biblíunni kemur fram að ákvæði sáttmálans rætast einnig í andlegum skilningi. (Gal. 4:22-25) Páll postuli bendir á að í meiri uppfyllingunni sé Kristur mikilvægasti niðji Abrahams og 144.000 andasmurðir kristnir menn séu líka niðjar hans. (Gal. 3:16, 29; Opinb. 5:9, 10; 14:1, 4) Konan, sem eignast þessa niðja, er himneskur hluti alheimssafnaðar Guðs. Hún er nefnd „Jerúsalem, sem er í hæðum,“ og er skipuð andaverum sem eru trúar Guði. (Gal. 4:26, 31) Eins og heitið var í sáttmálanum við Abraham myndu niðjar konunnar vera mannkyni til blessunar.
12 Abrahamssáttmálinn leggur lagalegan grundvöll að ríki Guðs og vísar á konunginn og meðstjórnendur hans. (Hebr. 6:13-18) Hve lengi verður sáttmálinn í gildi? Þetta er ,eilífur sáttmáli‘ að því er segir í 1. Mósebók 17:7. Hann verður í gildi uns ríki Messíasar eyðir óvinum Guðs og allar ættkvíslir jarðar hafa hlotið blessun. (1. Kor. 15:23-26) Sáttmálinn verður öllum mönnum, sem þá lifa, til eilífrar blessunar. Sáttmáli Jehóva við Abraham sýnir að hann er staðráðinn í að ,fylla jörðina‘ réttlátu fólki eins og hann ætlaði í upphafi. – 1. Mós. 1:28.
SÁTTMÁLI SEM TRYGGIR AÐ RÍKIÐ VERÐI VARANLEGT
13, 14. Hvaða trygging er fólgin í Davíðssáttmálanum?
13 Loforðið í Eden og sáttmálinn við Abraham staðfesta að drottinvald Jehóva er grundvallað á réttlátum lögum hans, og Messíasarríkið er birtingarmynd þess. (Sálm. 89:15) Er einhver hætta á að stjórn þessa ríkis spillist og það þurfi að víkja henni frá? Annar sáttmáli með lagagildi er trygging fyrir því að það gerist aldrei.
14 Lítum á það sem Jehóva lofaði Davíð Ísraelskonungi í Davíðssáttmálanum. (Lestu 2. Samúelsbók 7:12, 16.) Davíð var konungur í Jerúsalem þegar Jehóva gerði þennan sáttmála við hann, og sáttmálinn var loforð um að Messías yrði afkomandi hans. (Lúk. 1:30-33) Þar með gaf Jehóva nánari upplýsingar um ætt niðjans og staðfesti að erfingi Davíðs hefði „réttinn“ til að fara með völd í Messíasarríkinu. (Esek. 21:25-27, Biblían 1981) Konungdómur Davíðs mun „standa að eilífu“ fyrir atbeina Jesú. Niðji Davíðs á að „haldast við um aldur og ævi og hásæti hans sem sólin“. (Sálm. 89:35-38) Stjórn Messíasar spillist aldrei og það sem hún áorkar verður eilíft.
SÁTTMÁLI UM PREST
15-17. Hvaða annað verkefni átti niðjinn að hafa samkvæmt sáttamálanum um prest að hætti Melkísedeks, og hvers vegna?
15 Sáttmálarnir við Abraham og Davíð tryggja að niðji konunnar fari með konungdóm. Það hlutverk eitt og sér nægir þó ekki til að blessa allar þjóðir. Til að blessunin sé fullkomin þurfa mennirnir að losna við syndina og verða hluti af alheimsfjölskyldu Jehóva. Til að það geti orðið þarf niðjinn einnig að fara með prestsembætti. Þess vegna gerði skaparinn sáttmálann um prest að hætti Melkísedeks.
16 Jehóva opinberaði Davíð konungi að hann myndi gera tvíþættan sáttmála beint við Jesú. Jesús ætti að sitja honum „til hægri handar“ uns hann sigraði óvini sína. Hann ætti einnig að vera „prestur að eilífu að hætti Melkísedeks“. (Lestu Sálm 110:1, 2, 4.) Hvers vegna „að hætti Melkísedeks“? Vegna þess að löngu áður en nokkur afkomandi Abrahams settist að í fyrirheitna landinu var Melkísedek, konungur í Salem, einnig „prestur Guðs“. (Hebr. 7:1-3) Jehóva Guð skipaði hann prest. Hann er sá eini sem sagt er frá í Hebresku ritningunum að hafi verið bæði konungur og prestur. Og þar sem ekki er getið um forvera hans né arftaka er hægt að segja að hann sé „prestur um aldur“, það er að segja að eilífu.
17 Jehóva skipaði Jesú prest milliliðalaust með því að gera sáttmála við hann, og hann verður „prestur að eilífu að hætti Melkísedeks“. (Hebr. 5:4-6) Þessi sáttmáli sýnir svo ekki verður um villst að Jehóva hefur skuldbundið sig til að láta ríki Messíasar fullkomna vilja sinn með mennina og jörðina.
SÁTTMÁLAR LEGGJA LAGALEGAN GRUNN AÐ RÍKI GUÐS
18, 19. (a) Hvað leiða sáttmálarnir, sem við höfum rætt, í ljós varðandi ríki Guðs? (b) Hvaða spurningu er ósvarað enn?
18 Við höfum nú rætt um vissa sáttmála, kannað hvernig þeir tengjast ríki Messíasar og séð að það stendur á traustum grunni sem byggist á lagalega bindandi samningum. Loforðið í Eden skuldbindur Jehóva til að láta niðja konunnar fullkomna vilja sinn með jörðina og mannkynið. Hverjir yrðu þessir niðjar og hvaða hlutverk áttu þeir að hafa? Það kemur fram í sáttmálanum við Abraham.
19 Sáttmálinn við Davíð gefur nánari upplýsingar um ætt Messíasar og tryggir honum réttinn til að ríkja yfir jörðinni. Þannig er tryggt að það sem ríki hans áorkar verði eilíft. Sáttmálinn um prest að hætti Melkísedeks leggur grunninn að því að niðjinn gegni prestsembætti. Jesús fer þó ekki einn með það hlutverk að hjálpa mönnunum að verða fullkomnir. Það eru fleiri andasmurðir til að starfa sem konungar og prestar. Hvaðan áttu þeir að koma? Rætt er um það í næstu grein.