Þekktu óvin þinn
„Ekki er okkur ókunnugt um vélráð [Satans].“ – 2. KOR. 2:11.
1. Hvað upplýsti Jehóva í Eden um óvin okkar?
ADAM vissi eflaust að höggormar geta ekki talað. Hann hefur því kannski grunað að andavera hafi talað við Evu fyrir milligöngu höggormsins. (1. Mós. 3:1-6) Adam og Eva vissu nánast ekkert um þessa andaveru. Þrátt fyrir það ákvað Adam vitandi vits að snúa baki við ástríkum föður sínum á himnum og ganga til liðs við þennan ókunnuga anda í uppreisn hans. (1. Tím. 2:14) Jehóva byrjaði þegar í stað að gefa upplýsingar um þennan óvin sem hafði spillt Adam og Evu, og hann lofaði að honum yrði að lokum útrýmt. En Jehóva varaði líka við því að þeir sem elskuðu hann yrðu fyrir andstöðu um tíma af hendi andverunnar sem talaði fyrir milligöngu höggormsins. – 1. Mós. 3:15.
2, 3. Hver er líklega ástæðan fyrir því að lítið var sagt um Satan áður en Messías kom?
2 Í visku sinni hefur Jehóva aldrei sagt okkur hvað engillinn heitir sem gerði uppreisn gegn honum.a Jehóva upplýsti ekki einu sinni viðurnefni óvinarins fyrr en um 2.500 árum eftir uppreisnina. (Job. 1:6) Nafnið Satan, sem merkir „andstæðingur“, er reyndar aðeins nefnt í þrem bókum Hebresku ritninganna, það er í 1. Kroníkubók, Jobsbók og Sakaría. Hvers vegna var lítið talað um óvin okkar áður en Messías kom?
3 Jehóva virðist ekki hafa viljað vekja óþarfa athygli á Satan með því að ræða um hann og athafnir hans í löngu máli í Hebresku ritningunum. Jehóva innblés þennan hluta Biblíunnar fyrst og fremst til að benda á Messías og leiða þjóna sína til hans. (Lúk. 24:44; Gal. 3:24) Þegar því marki var náð og Messías var kominn lét Jehóva hann og lærisveina hans koma á framfæri flestu sem við vitum um Satan og englana sem gengu í lið með honum.b Það er eðlilegt því að það eru Jesús og andasmurðir meðstjórnendur hans sem Jehóva fær það hlutverk að tortíma Satan og þeim sem fylgja honum. – Rómv. 16:20; Opinb. 17:14; 20:10.
4. Hvers vegna þurfum við ekki að hræðast djöfulinn?
4 Pétur postuli líkir Satan djöflinum við öskrandi ljón og Jóhannes kallar hann höggorm og dreka. (1. Pét. 5:8; Opinb. 12:9) En það er ástæðulaust að hræðast hann – hann hefur ekki nema takmarkað vald. (Lestu Jakobsbréfið 4:7.) Jehóva, Jesús og trúir englar styðja við bakið á okkur. Við getum staðið gegn óvini okkar með þeirra hjálp. Við þurfum samt að vita svörin við þrem mikilvægum spurningum: Hve víðtæk áhrif hefur Satan? Hvernig reynir hann að hafa áhrif á fólk? Og hvaða takmörk eru honum sett? Um leið og við ræðum svörin við þessum spurningum skoðum við hvernig þau geta nýst okkur.
HVE VÍÐTÆK ÁHRIF HEFUR SATAN?
5, 6. Hvers vegna geta mennskar ríkisstjórnir ekki gert þær breytingar sem mannkynið þarfnast mest?
5 Töluverður fjöldi engla gekk í lið með Satan í uppreisn hans. Fyrir flóðið tældi hann að minnsta kosti suma þeirra til að eiga siðlaus mök við dætur mannanna. Í Biblíunni er þessum sannleika lýst á þann hátt að drekinn dragi þriðjung af stjörnum himins með sér í fallinu. (1. Mós. 6:1-4; Júd. 6; Opinb. 12:3, 4) Þegar þessir englar yfirgáfu fjölskyldu Guðs komust þeir undir áhrifavald Satans. En þessir uppreisnarenglar eru ekki bara hópur vandræðagemlinga. Satan hefur búið til eftirlíkingu af ríki Guðs með sjálfan sig sem konung. Hann hefur skipað illu öndunum niður í eins konar ríkisstjórnir, gefið þeim völd og látið þá stjórna heiminum. – Ef. 6:12.
6 Satan og andaverurnar, sem lúta stjórn hans, fara með yfirráð yfir öllum stjórnvöldum manna. Það kom greinilega í ljós þegar Satan sýndi Jesú „öll ríki veraldar“ og sagði: „Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess því að mér er það í hendur fengið og ég get gefið það hverjum sem ég vil.“ (Lúk. 4:5, 6) Þrátt fyrir ill áhrif Satans gera margar ríkisstjórnir ýmislegt gott fyrir þegna sína. Og einstakir valdhafar vilja margir hverjir vel. En engin mennsk ríkisstjórn og enginn einstakur valdhafi er fær um að gera þær breytingar sem mannkynið þarfnast mest. – Sálm. 146:3, 4; Opinb. 12:12.
7. Hvernig beitir Satan líka falstrúarbrögðum og viðskiptaheiminum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
7 Satan og illu andarnir nota ekki aðeins ríkisstjórnir heldur líka fölsk trúarbrögð og viðskiptaheiminn til að afvegaleiða „alla heimsbyggðina“. (Opinb. 12:9) Satan beitir falstrúarbrögðunum til að halda á lofti lygum um Jehóva. Hann virðist staðráðinn í að fá eins marga og hann getur til að gleyma nafni Guðs. (Jer. 23:26, 27) Afleiðingin er sú að margt einlægt fólk, sem heldur sig tilbiðja Guð, lætur blekkjast og tilbiður illa anda. (1. Kor. 10:20; 2. Kor. 11:13-15) Satan beitir líka viðskiptaheiminum til að ljúga að fólki. Reynt er að telja fólki trú um að besta leiðin til að höndla hamingjuna sé að sækjast eftir peningum og sanka að sér eignum. (Orðskv. 18:11) Þeir sem trúa þessari lygi eyða ævinni í að þjóna „mammón“ en ekki Guði. (Matt. 6:24) Með tíð og tíma getur ástin á efnislegum hlutum kæft hvern þann kærleiksneista sem þeir báru til Guðs. – Matt. 13:22; 1. Jóh. 2:15, 16.
8, 9. (a) Hvað tvennt lærum við af frásögunum af Adam, Evu og englunum sem gerðu uppreisn? (b) Af hverju er gott fyrir okkur að vita hve víðtæk áhrif Satan hefur?
8 Við lærum að minnsta kosti tvennt af Adam og Evu og englunum sem gerðu uppreisn. Í fyrsta lagi er aðeins um tvo kosti að velja og við verðum að velja annan hvorn. Annaðhvort stöndum við með Jehóva eða Satan. (Matt. 7:13) Í öðru lagi er lítið á því að græða að taka afstöðu með Satan. Adam og Eva fengu tækifæri til að ákveða sjálf hvað væri gott og illt og illu andarnir fengu að hafa viss áhrif á stjórnvöld hér á jörð. (1. Mós. 3:22) En þeir sem velja að standa Satans megin fórna alltaf meiru en þeir fá. – Job. 21:7-17; Gal. 6:7, 8.
9 Af hverju er gott fyrir okkur að vita hve víðtæk áhrif Satan hefur? Það hjálpar okkur að sjá veraldleg yfirvöld í réttu ljósi og er okkur hvatning til að boða fagnaðarerindið. Við vitum að Jehóva vill að við virðum yfirvöld. (1. Pét. 2:17) Hann ætlast til að við hlýðum lögum yfirvalda svo framarlega sem þau stangast ekki á við mælikvarða hans. (Rómv. 13:1-4) En við vitum líka að við verðum að vera hlutlaus. Við megum aldrei taka afstöðu með ákveðnum stjórnmálaflokki eða leiðtoga. (Jóh. 17:15, 16; 18:36) Við vitum að Satan reynir að fela nafn Jehóva og koma óorði á hann og það er okkur sterk hvöt til að kenna fólki sannleikann um Jehóva. Við erum stolt að mega bera nafn hans og nota það, og við vitum að það er miklu meiri umbun fólgin í því að elska hann en að elska peninga eða efnislega hluti. – Jes. 43:10; 1. Tím. 6:6-10.
HVERNIG REYNIR SATAN AÐ HAFA ÁHRIF Á FÓLK?
10-12. (a) Hvaða tálbeitur kann Satan að hafa notað til að freista sumra af englunum? (b) Hvað lærum við af því að margir englar skyldu falla?
10 Satan beitir áhrifaríkum aðferðum til að hafa áhrif á fólk. Hann notar ýmist tálbeitur til að reyna að lokka það til að gera eins og hann vill eða reynir að þvinga það til þess.
11 Satan notaði áhrifaríka tálbeitu til að fá fjölda engla á sitt band. Hann hlýtur að hafa fylgst með þeim alllengi áður en hann lokkaði þá til að taka afstöðu með sér. Sumir af þessum englum bitu á agnið og höfðu kynmök við konur. Börnin þeirra urðu ofbeldisfullir risar sem kúguðu mennina. (1. Mós. 6:1-4) Kannski freistaði Satan þessara ótrúu engla ekki aðeins með siðlausu kynlífi heldur lofaði þeim líka að þeir fengju að ráða yfir mannkyninu. Ef til vill ætlaði hann að koma í veg fyrir að ,niðji konunnar‘ kæmi fram eins og Jehóva hafði lofað. (1. Mós. 3:15) Jehóva batt í það minnsta enda á allar slíkar ráðagerðir Satans og uppreisnarenglanna þegar hann lét flóðið verða.
12 Hvað getum við lært af þessu? Kynferðislegt siðleysi og sjálfselska eru stórhættulegar tálbeitur sem við megum ekki vanmeta. Englarnir, sem gengu í lið með Satan, höfðu verið óralengi með Guði á himnum. En þrátt fyrir þetta góða umhverfi leyfðu margir þeirra röngum löngunum að festa rætur í hjarta sér. Við höfum kannski þjónað áratugum saman með jarðneskum hluta alheimssafnaðar Guðs. Óhreinar langanir geta samt sem áður skotið rótum í þessu andlega hreina umhverfi. (1. Kor. 10:12) Það er ákaflega mikilvægt að fylgjast alltaf með hvað býr í hjarta okkar og ýta frá okkur siðlausum hugsunum og óheilbrigðu stolti. – Gal. 5:26; lestu Kólossubréfið 3:5.
13. Nefndu aðra áhrifaríka tálbeitu Satans. Hvernig getum við forðast hana?
13 Forvitni um hið yfirnáttúrlega er önnur tálbeita sem Satan notar. Hann ýtir undir áhuga á illum öndum bæði með hjálp falskra trúarbragða og skemmtanaiðnaðarins. Dulspeki er klædd í spennandi búning í kvikmyndum, tölvuleikjum og öðru afþreyingarefni. Hvernig getum við forðast þessa gildru? Við skulum ekki reikna með að söfnuður Guðs láti í té lista yfir viðeigandi og óviðeigandi afþreyingarefni. Við þurfum öll að þjálfa samviskuna svo að hún sé í samræmi við mælikvarða Guðs. (Hebr. 5:14) Við tökum skynsamlegar ákvarðanir ef við förum eftir innblásnum leiðbeiningum Páls og gætum þess að kærleikur okkar til Guðs sé hræsnislaus. (Rómv. 12:9) Það gæti verið gott að spyrja sig hvort afþreyingarefnið, sem maður velur, beri vott um vissa hræsni. Fer ég eftir því sem ég kenni öðrum? Hvað ætli biblíunemendum mínum eða fólkinu sem ég heimsæki fyndist um það sem ég geri mér til skemmtunar? Því betur sem orð okkar og verk fara saman því ólíklegra er að við göngum í gildrur Satans. – 1. Jóh. 3:18.
14. Hvernig getur Satan reynt að þvinga okkur en hvernig getum við staðist það?
14 Satan notar ekki aðeins tálbeitur heldur reynir hann líka að þvinga okkur til að vera Jehóva ótrú. Hann getur til dæmis fengið stjórnvöld til að banna boðunina. Hann getur fengið vinnufélaga eða skólafélaga til að hæðast að okkur fyrir að vilja fylgja siðferðisreglum Biblíunnar. (1. Pét. 4:4) Hann gæti líka komið ættingjum, sem vilja þó vel, til að letja okkur þess að sækja samkomur. (Matt. 10:36) Hvernig getum við verið staðföst? Í fyrsta lagi skulum við vera viðbúin beinum árásum af þessu tagi. Satan er í stríði við okkur. (Opinb. 2:10; 12:17) Í öðru lagi þurfum við að sjá heildarmyndina: Satan heldur því fram að við þjónum Jehóva aðeins þegar það er þægilegt fyrir okkur. Hann fullyrðir að við snúum baki við Guði ef á móti blæs. (Job. 1:9-11; 2:4, 5) Og við þurfum að reiða okkur á stuðning Jehóva til að standast álagið. Hann yfirgefur okkur aldrei – munum það. – Hebr. 13:5.
HVAÐA TAKMÖRK ERU SATAN SETT?
15. Getur Satan neytt okkur til að gera það sem við viljum ekki? Skýrðu svarið.
15 Satan getur ekki neytt fólk til að gera það sem það vill ekki. (Jak. 1:14) Margir hafa ekki hugmynd um að þeir eru leiksoppar Satans. Þegar fólk kynnist sannleikanum velur það hins vegar hverjum það vill þjóna. (Post. 3:17; 17:30) Ef við erum staðráðin í að gera vilja Guðs getur Satan með engu móti fengið okkur til að vera honum ótrú. – Job. 2:3; 27:5.
16, 17. (a) Hvaða önnur takmörk eru Satan og illu öndunum sett? (b) Af hverju þurfum við ekki að vera smeyk við að biðja upphátt til Jehóva?
16 Satan og illu öndunum eru fleiri takmörk sett. Til dæmis bendir ekkert til þess að þeir geti séð hvað býr í huga okkar og hjarta. Biblían talar aðeins um að Jehóva og Jesús geti það. (1. Sam. 16:7; Mark. 2:8) Er þá varhugarvert að biðja upphátt? Þurfum við að óttast að Satan eða illu andarnir heyri bænir okkar og noti gegn okkur það sem við segjum? Svarið er nei. Hvers vegna? Við erum ekki hrædd við að vinna góð verk í þjónustu Jehóva af því að Satan gæti séð til okkar. Við ættum ekki heldur að vera smeyk við að biðja upphátt bara af því að Satan gæti heyrt til okkar. Í Biblíunni er sagt frá mörgum dæmum þar sem þjónar Guðs báðu upphátt, og ekkert bendir til þess að þeir hafi óttast að Satan heyrði til þeirra. (1. Kon. 8:22, 23; Jóh. 11:41, 42; Post. 4:23, 24) Ef við gerum okkar besta til að tala og hegða okkur í samræmi við vilja Jehóva getum við treyst að hann leyfi ekki djöflinum að vinna okkur varanlegt mein. – Lestu Sálm 34:8.
17 Við þurfum að þekkja óvin okkar en við þurfum ekki að hræðast hann. Með stuðningi Jehóva geta jafnvel ófullkomnir menn sigrað Satan. (1. Jóh. 2:14) Hann flýr frá okkur ef við stöndum gegn honum. (Jak. 4:7; 1. Pét. 5:9) Unga fólkið virðist vera sérstakur skotspónn hans. Hvað getur það gert til að standa einbeitt gegn djöflinum? Þeirri spurningu er svarað í næstu grein.
a Í Biblíunni eru dæmi um að englar séu nefndir með nafni. (Dóm. 13:18; Dan. 8:16; Lúk. 1:19; Opinb. 12:7) Þar sem Jehóva hefur gefið hverri einustu stjörnu nafn (Sálm. 147:4) er rökrétt að ætla að allir englasynir hans eigi sér ákveðið nafn, þar á meðal engillinn sem varð Satan.
b Satan er aðeins nefndur 18 sinnum með því nafni í Hebresku ritningunum en rúmlega 30 sinnum í Grísku ritningunum.