Fyrri Samúelsbók
29 Filistear+ söfnuðu nú saman öllum hersveitum sínum við Afek en Ísraelsmenn höfðu slegið upp herbúðum við lindina í grennd við Jesreel.+ 2 Höfðingjar Filistea gengu fylktu liði með hundrað manna og þúsund manna flokka sína og Davíð og menn hans voru aftastir með Akís.+ 3 „Hvað eru þessir Hebrear að gera hér?“ spurðu höfðingjar Filistea. „Þetta er Davíð, þjónn Sáls Ísraelskonungs,“ svaraði Akís. „Hann hefur verið hjá mér í meira en ár+ og ég hef ekki haft neitt út á hann að setja frá því að hann flúði til mín og fram á þennan dag.“ 4 En höfðingjar Filistea reiddust honum og sögðu við hann: „Sendu manninn aftur heim,+ til staðarins sem þú úthlutaðir honum. Hann má ekki fara með okkur í stríðið því að hann gæti snúist gegn okkur í bardaganum.+ Er til nokkur betri leið fyrir hann til að koma sér í mjúkinn hjá herra sínum en að færa honum höfuð hermanna okkar? 5 Er þetta ekki Davíð sem sungið var um undir dansi:
‚Sál hefur fellt sínar þúsundir
og Davíð sínar tugþúsundir‘?“+
6 Akís+ kallaði þá Davíð til sín og sagði: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir ertu heiðarlegur maður. Ég er ánægður að þú komst með okkur í þennan hernaðarleiðangur+ því að frá því að þú komst til mín og fram á þennan dag hef ég ekki haft neitt út á þig að setja.+ En höfðingjarnir treysta þér ekki.+ 7 Farðu því aftur heim í friði og gerðu ekkert sem er höfðingjum Filistea á móti skapi.“ 8 „Hvað hef ég gert?“ spurði Davíð Akís. „Hvað hefurðu getað sett út á í fari þjóns þíns frá því að ég kom til þín og fram á þennan dag? Hvers vegna fæ ég ekki að koma með þér og berjast við óvini herra míns, konungsins?“ 9 Akís svaraði Davíð: „Í mínum augum hefurðu verið jafn góður og engill frá Guði.+ En höfðingjar Filistea segja: ‚Hann má ekki fara með okkur í stríðið.‘ 10 Farðu þess vegna snemma á fætur í fyrramálið ásamt þjónum herra þíns sem komu með þér og leggið af stað um leið og birtir af degi.“
11 Morguninn eftir fóru Davíð og menn hans snemma á fætur og sneru heim til lands Filistea, en Filistear héldu upp til Jesreel.+