2. KAFLI
Grunnur að góðu hjónabandi
1, 2. (a) Hvernig lagði Jesús áherslu á nauðsyn góðs undirbúnings? (b) Á hvaða sviði er góður undirbúningur sérstaklega mikilvægur?
TIL að reisa hús þarf að undirbúa verkið vel. Áður en grunnurinn er steyptur þarf að finna lóð og gera teikningar. En það þarf meira til. Jesús sagði: „Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?“ — Lúkas 14:28.
2 Vönduð bygging verður ekki til af sjálfu sér. Hið sama er að segja um gott hjónaband. Marga langar til að giftast. En hversu margir staldra við og reikna kostnaðinn? Þótt Biblían fari fögrum orðum um hjónabandið bendir hún einnig á að því geti fylgt erfiðleikar. (Orðskviðirnir 18:22; 1. Korintubréf 7:28) Þeir sem eru í giftingarhugleiðingum verða því að vera raunsæir og sjá bæði kostina og gallana.
3. Hvernig getur Biblían hjálpað þeim sem eru í giftingarhugleiðingum og við hvaða þrem spurningum ætlum við að leita svara?
3 Biblían getur hjálpað okkur. Leiðbeiningar hennar eru innblásnar af Jehóva Guði sem er höfundur hjónabandsins. (Efesusbréfið 3:14, 15; 2. Tímóteusarbréf 3:16) Þótt Biblían sé ævaforn eru meginreglur hennar enn í fullu gildi og við getum notað þær til að fá svör við eftirfarandi spurningum: (1) Hvernig er hægt að vita hvort maður sé tilbúinn til að gifta sig? (2) Að hverju ætti að leita í fari tilvonandi maka? (3) Hvernig er hægt að tryggja að tilhugalífið sé heiðvirt í alla staði?
ERTU TILBÚINN TIL AÐ GIFTA ÞIG?
4. Hvað felst í því að viðhalda góðu hjónabandi og hvers vegna?
4 Það getur verið dýrt að reisa hús en það kostar líka sitt að halda því við. Hið sama gildir um hjónabandið. Það eitt að giftast er stórt skref en ekki má gleyma því að hjónabandinu þarf að halda við ár eftir ár. Hvað felst í því? Meðal annars að skuldbindast hvort öðru af heilum huga. Biblían lýsir hjónabandinu með eftirfarandi orðum: „Maður [yfirgefur] föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.“ (1. Mósebók 2:24) Jesús Kristur sagði að hórdómur, það er að segja kynlíf utan hjónabands, væri eina biblíulega forsendan fyrir skilnaði sem heimilaði fólki að giftast á ný. (Matteus 19:9) Hafðu þessar meginreglur Biblíunnar í huga ef þú ert í giftingarhugleiðingum. Ef þú ert ekki tilbúinn að skuldbinda þig ertu ekki tilbúinn til að gifta þig. — 5. Mósebók 23:21; Prédikarinn 5:4, 5.
5. Af hverju ættu þeir sem eru í giftingarhugleiðingum ekki að hræðast skuldbindingu heldur líta jákvætt á hana?
5 Margir eru hræddir við að binda sig. „Tilhugsunin um að vera bundin hvort öðru ævilangt var kæfandi, mér fannst ég vera innikróaður,“ játaði ungur maður. En ef þú elskar tilvonandi maka þinn er skuldbindingin ekki byrði heldur veitir hún þér öryggiskennd. Hún gerir það að verkum að hjón vilja standa saman í gegnum súrt og sætt og styðja hvort annað, hvað sem á dynur. Páll postuli sagði að sannur kærleikur ‚breiddi yfir allt‘ og ‚umbæri allt‘. (1. Korintubréf 13:4, 7) „Skuldbinding hjónabandsins veitir mér öryggi,“ segir kona nokkur. „Mér finnst styrkur í því að hafa heitið hvort öðru opinberlega að standa alltaf saman.“ — Prédikarinn 4:9-12.
6. Af hverju er skynsamlegt að flýta sér ekki um of að giftast?
6 Það þarf þroska til að standa við slíka skuldbindingu. Páll ráðleggur kristnum mönnum að gifta sig ekki fyrr en þeir eru komnir yfir ‚æskublómann‘, tímabilið þegar kynhvötin er sterk og getur skert dómgreindina. (1. Korintubréf 7:36, New World Translation of the Holy Scriptures) Fólk breytist hratt á æskuárunum. Margir sem gifta sig mjög ungir komast að raun um að þarfir og langanir þeirra og makans breytast innan nokkurra ára. Talnaskýrslur sýna að meiri líkur eru á því að unglingahjónabönd gangi illa og endi með skilnaði en hjónabönd þeirra sem bíða aðeins lengur. Flýttu þér ekki um of að giftast. Það getur verið verðmæt reynsla og mjög þroskandi að standa á eigin fótum í nokkur ár á meðan maður er enn ungur og ógiftur. Það getur einnig gert þig að betri maka og hjálpað þér að þekkja sjálfan þig betur sem er nauðsynlegt til að byggja upp gott hjónaband.
ÞEKKTU SJÁLFAN ÞIG
7. Af hverju ættu þeir sem eru í giftingarhugleiðingum að líta fyrst í eigin barm?
7 Finnst þér auðvelt að telja upp eiginleika sem þú leitar að í fari tilvonandi maka? Það finnst flestum. En hvað með sjálfan þig? Hvaða eiginleika hefur þú til að bera sem geta stuðlað að farsælu hjónabandi? Hvers konar eiginmaður eða eiginkona yrðir þú? Áttu til dæmis auðvelt með að viðurkenna mistök þín og taka leiðbeiningum eða ferðu alltaf í vörn? Ertu almennt jákvæð og glaðlynd manneskja eða liggur oft illa á þér og kvartar þú oft? (Orðskviðirnir 8:33; 15:15) Hafðu hugfast að persónuleiki þinn breytist ekki þótt þú giftir þig. Sá sem er stoltur, neikvæður eða ákaflega viðkvæmur þegar hann er einhleypur verður alveg eins eftir að hann giftir sig. Það er erfitt að sjá sjálfan sig með augum annarra og því gæti verið ráðlegt að spyrja foreldra eða góðan vin álits eða biðja um tillögur. Ef þú kemst að raun um að þú þarft að breyta einhverju skaltu vinna að því áður en þú ferð að hugsa um að gifta þig.
8-10. Hvaða leiðbeiningar Biblíunnar hjálpa fólki að búa sig undir hjónaband?
8 Biblían hvetur okkur til að láta heilagan anda Guðs hafa áhrif á okkur og kalla fram eiginleika eins og ‚kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og bindindi‘ eða sjálfstjórn. Hún segir okkur að „endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans“. (Galatabréfið 5:22, 23; Efesusbréfið 4:23, 24) Þegar einhleypt fólk fylgir þessum leiðbeiningum er eins og það sé að leggja peninga inn á banka — það á innistæðu sem kemur sér vel í framtíðinni þegar það giftir sig.
9 Konur gætu til dæmis lært að gefa meiri gaum að ‚hinum hulda manni hjartans‘ en ytra útliti. (1. Pétursbréf 3:3, 4) Hógværð og heilbrigt hugarfar hjálpa þeim að sýna visku sem er eins og ‚prýðileg kóróna‘ á höfði þeirra. (Orðskviðirnir 4:9; 31:10, 30; 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10) Karlmenn gætu tamið sér að sýna konum góðvild og virðingu. (1. Tímóteusarbréf 5:1, 2) Þeir þurfa að læra að taka ákvarðanir og axla ábyrgð en einnig að temja sér auðmýkt og hógværð. Stjórnsemi veldur aðeins vandamálum í hjónabandi. — Orðskviðirnir 29:23; Míka 6:8; Efesusbréfið 5:28, 29.
10 Kristnir einstaklingar ættu að þroska með sér þessa eiginleika þótt það sé ekki auðvelt. Það gerir þá að betri maka.
AÐ HVERJU ÆTTIRÐU AÐ LEITA?
11, 12. Hvernig geta tveir einstaklingar kannað hvort þeir eigi vel saman?
11 Víðast á Vesturlöndum er það venja að fólk velji sér sjálft maka. Hvað ættirðu að gera ef þú laðast að einhverjum af hinu kyninu? Í fyrsta lagi skaltu spyrja þig hvort þú viljir í raun og veru ganga í hjónaband. Það er rangt að leika sér að tilfinningum annarra með því að vekja falskar vonir. (Orðskviðirnir 13:12) Í öðru lagi skaltu spyrja þig hvort þú sért í aðstöðu til að giftast. Ef svarið við báðum spurningunum er jákvætt gætu næstu skref verið mjög breytileg eftir siðvenjum hvers þjóðfélags. Í sumum löndum gæti verið viðeigandi að fylgjast með hinum aðilanum um tíma og koma síðan að máli við hann og segja að þú hafir áhuga á að kynnast honum betur. Ef viðkomandi hefur ekki áhuga skaltu ekki ganga svo stíft á eftir honum að það veki andúð. Mundu að hinn aðilinn hefur líka rétt á að taka sína ákvörðun. En ef hann hefur áhuga gætuð þið ákveðið að hittast og gera eitthvað uppbyggilegt saman. Þetta gefur þér tækifæri til að kanna hvort það sé viturlegt fyrir ykkur að giftast.a Að hverju ættirðu að leita á þessu stigi?
12 Sjáðu fyrir þér tvö hljóðfæri, til dæmis píanó og gítar. Ef þau eru rétt stillt er hægt að leika á þau fallega tónlist hvort í sínu lagi. En hvað gerist ef spilað er samtímis á hljóðfærin? Þá verða þau að vera samstillt. Það er svipað með þig og tilvonandi maka þinn. Ef til vill hafið þið bæði lagt ykkur fram um að „stilla“ persónuleika ykkar. En spurningin er hvort þið séuð samstillt, það er að segja hvort þið eigið vel saman.
13. Af hverju er óviturlegt að stofna til náinna kynna við einhvern sem hefur ekki sömu trúarskoðanir og maður sjálfur?
13 Mikilvægt er að trúar- og lífsskoðanir ykkar fari saman. „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum,“ skrifaði Páll postuli. (2. Korintubréf 6:14; 1. Korintubréf 7:39) Ef maki þinn hefur ekki sömu trúarskoðanir og þú eru meiri líkur á missætti. Sameiginleg hollusta við Jehóva Guð er sterkasta einingarbandið. Jehóva vill að við séum ánægð og bindumst maka okkar eins nánum böndum og hægt er. Hann vill að hjón séu bundin honum og hvort öðru með þreföldum þræði kærleikans. — Prédikarinn 4:12.
14, 15. Eru sameiginlegar trúarskoðanir það eina sem stuðlar að einingu í hjónabandi? Skýrðu svarið.
14 Sameiginleg trú á Guð er sérstaklega mikilvæg til að viðhalda einingu í hjónabandinu en það þarf samt meira til. Ef þú og tilvonandi maki þinn viljið vera samstillt ættuð þið að hafa svipuð markmið. Hver eru markmið ykkar? Viljið þið til dæmis eignast börn? Hvað hefur forgang í lífi ykkar?b (Matteus 6:33) Í farsælu hjónabandi eru hjónin góðir vinir og njóta þess að vera hvort með öðru. (Orðskviðirnir 17:17) Til að svo sé verða þau að hafa sameiginleg áhugamál. Það er erfitt að viðhalda náinni vináttu, hvað þá hjónabandi, ef áhugamálin eru ólík. Þýðir það að þið eigið ekki að gifta ykkur ef annað ykkar hefur áhuga á einhverju sem höfðar ekki til hins, eins og til dæmis fjallgöngum? Nei, ekki endilega. Kannski eigið þið eitthvað annað sameiginlegt sem er mikilvægara. Þar að auki gætirðu glatt tilvonandi maka þinn með því að taka þátt í heilnæmri afþreyingu sem hann hefur gaman af. — Postulasagan 20:35.
15 Þó að það sé gott að hjón eigi margt sameiginlegt skiptir enn meira máli að þau geti lagað sig hvort að öðru. Í stað þess að spyrja hvort þið séuð sammála um allt gæti verið betra að spyrja hvernig þið bregðist við þegar þið eruð ósammála. Getið þið sýnt hvort öðru virðingu og sæmd og rætt málin á yfirvegaðan hátt? Eða leiðast umræðurnar oft út í rifrildi? (Efesusbréfið 4:29, 31) Ef þú ert í giftingarhugleiðingum skaltu vera á varðbergi gagnvart þeim sem eru stoltir og þrætugjarnir, vilja aldrei gefa eftir eða heimta alltaf að fá sínu framgengt.
KYNNIST VEL FYRIR FRAM
16, 17. Hverju geta einhleypir karlmenn og konur leitað að í fari tilvonandi maka?
16 Þeir sem fá ábyrgðarstörf innan kristna safnaðarins eru „fyrst reyndir“ til að sjá hvort þeir séu hæfir. (1. Tímóteusarbréf 3:10) Þú getur einnig fylgt þessari meginreglu. Einhleyp kona gæti til dæmis spurt sig: Hvaða orðstír hefur þessi maður? Hverjir eru vinir hans? Sýnir hann sjálfstjórn? Hvernig kemur hann fram við þá sem eldri eru? Hvernig er fjölskylda hans? Hvernig eru samskipti hans við fjölskylduna? Hvernig lítur hann á peninga? Hvernig fer hann með áfengi? Er hann skapstór eða jafnvel ofbeldishneigður? Hvaða ábyrgðarstörf hefur hann í söfnuðinum og hvernig sinnir hann þeim? Gæti ég borið djúpa virðingu fyrir honum? — 3. Mósebók 19:32; Orðskviðirnir 22:29; 31:23; Efesusbréfið 5:3-5, 33; 1. Tímóteusarbréf 5:8; 6:10; Títusarbréfið 2:6, 7.
17 Einhleypur karlmaður gæti spurt sig: Sýnir þessi kona að hún elskar og virðir Guð? Getur hún annast heimili? Hvers mun fjölskylda hennar ætlast til af okkur? Er hún skynsöm, iðin og sparsöm? Um hvað talar hún? Hefur hún einlægan áhuga á velferð annarra eða hugsar hún bara um sjálfa sig? Skiptir hún sér af því sem henni kemur ekki við? Er hún áreiðanleg? Er hún fús til að fylgja forystu eiginmanns eða er hún þrjósk eða jafnvel uppreisnargjörn? — Orðskviðirnir 31:10-31; Lúkas 6:45; Efesusbréfið 5:22, 23; 1. Tímóteusarbréf 5:13; 1. Pétursbréf 4:15.
18. Hvað ætti að hafa hugfast ef minniháttar veikleikar koma upp á yfirborðið í tilhugalífinu?
18 Mundu samt að við erum öll ófullkomnir afkomendur Adams en ekki draumadísir eða draumaprinsar úr ástarsögum. Allir hafa sína galla. Bæði þú og tilvonandi maki þinn þurfið að horfa fram hjá vissum göllum í fari hvort annars. (Rómverjabréfið 3:23; Jakobsbréfið 3:2) Ef þið uppgötvið að þið hafið ákveðinn veikleika býður það upp á tækifæri til að bæta sig. Segjum til dæmis að ykkur verði sundurorða í tilhugalífinu. Hafðu hugfast að þótt fólk elski og virði hvort annað getur það stundum verið ósammála. (Samanber 1. Mósebók 30:2; Postulasagan 15:39.) Kannski þýðir þetta bara að þið þurfið að hafa betri stjórn á skapsmunum ykkar og læra að leysa málin á friðsamlegri hátt. (Orðskviðirnir 25:28) Er tilvonandi maki þinn fús til að bæta sig? Hvað með þig? Gætuð þið reynt að vera ekki eins viðkvæm eða móðgunargjörn? (Prédikarinn 7:9) Ef þið lærið að leysa ágreiningsmál leggið þið grunn að heiðarlegum samræðum og skoðanaskiptum sem eru ómissandi ef þið ætlið að giftast. — Kólossubréfið 3:13.
19. Hvað er viturlegt að gera ef alvarleg vandamál koma upp í tilhugalífinu?
19 En hvað ættirðu að gera ef þú tekur eftir einhverju sem veldur þér miklum áhyggjum? Þá ættirðu að hugleiða málið vandlega. Lokaðu ekki augunum fyrir alvarlegum göllum, sama hversu ástfanginn þú ert eða hversu mikið þig langar til að giftast. (Orðskviðirnir 22:3; Prédikarinn 2:14) Ef þú hefur alvarlegar efasemdir um þann einstakling sem þú ert að kynnast væri viturlegt að bindast honum ekki heldur slíta sambandinu.
HEIÐVIRT TILHUGALÍF
20. Hvernig getur par í tilhugalífinu gætt velsæmis?
20 Hvernig getið þið tryggt að tilhugalífið sé heiðvirt í alla staði? Í fyrsta lagi skulið þið gæta þess að allt sem þið gerið sé innan velsæmismarka. Er talið viðeigandi í samfélaginu að ógift fólk haldist í hendur, kyssist eða faðmist? Jafnvel þótt slíkt sé ekki litið hornauga ætti það aðeins að eiga sér stað eftir að hjónaband hefur verið ákveðið. Gætið þess vandlega að ástleitni leiði ykkur ekki út í óhreina hegðun eða jafnvel saurlifnað. (Efesusbréfið 4:18, 19; samanber Ljóðaljóðin 1:2; 2:6; 8:5, 9, 10.) Þar sem hjartað er svikult væri viturlegt af ykkur að vera aldrei ein í íbúð, kyrrstæðum bíl eða á nokkrum öðrum stað sem gæfi tækifæri til rangrar breytni. (Jeremía 17:9) Ef þið haldið tilhugalífinu siðferðilega hreinu er það augljós sönnun þess að þið hafið sjálfstjórn og að óeigingjörn umhyggja fyrir tilvonandi maka er sterkari en eigin langanir. Hreint tilhugalíf gleður auk þess Jehóva Guð sem fyrirskipar þjónum sínum að halda sér frá óhreinleika og siðleysi. — Galatabréfið 5:19-21.
21. Um hvaða mál gæti þurft að ræða til að halda tilhugalífinu heiðvirðu?
21 Heiðvirt tilhugalíf felur einnig í sér heiðarleg tjáskipti. Þegar fer að nálgast brúðkaupið þarf að ræða ákveðin mál opinskátt. Hvar ætlið þið að búa? Ætlið þið bæði að vinna úti? Viljið þið eignast börn? Einnig er sanngjarnt að opinbera ýmis mál, ef til vill úr fortíðinni, sem gætu haft áhrif á hjónabandið. Það gætu til dæmis verið miklar skuldir, skuldbindingar eða heilsufarsleg mál eins og alvarlegir sjúkdómar eða kvillar. Margir sem eru HIV-smitaðir eru einkennalausir fyrst í stað. Því er ekkert athugavert við það þótt tilvonandi maki eða umhyggjusamir foreldrar biðji þann sem hefur lifað siðlausu lífi áður fyrr eða verið sprautufíkill að fara í alnæmispróf. Ef viðkomandi reynist smitaður ætti hann ekki að þrýsta á hinn aðilann að halda sambandinu áfram. Í rauninni ætti hver sá sem hefur verið í áhættuhópi að fara sjálfur í alnæmispróf áður en hann stofnar til náina kynna við einhvern af hinu kyninu.
EFTIR BRÚÐKAUPSDAGINN
22, 23. (a) Á hvaða hátt gæti undirbúningur fyrir brúðkaupið farið út í öfgar? (b) Af hverju ætti ekki að beina of mikilli athygli að brúkaupsdeginum?
22 Síðustu mánuðina fyrir brúðkaupið verðið þið sennilega önnum kafin við undirbúning. Þið getið dregið töluvert úr álaginu með því að gæta hófs. Þótt íburðamikið brúðkaup gleðji ættingjana og samfélagið gæti það verið mjög íþyngjandi fyrir brúðhjónin og fjölskyldur þeirra og jafnvel komið þeim í fjárkröggur. Það getur verið viðeigandi að fylgja ákveðnum siðum en ef farið er út í öfgar gæti það varpað skugga á tilefnið sjálft og rænt ykkur gleðinni sem brúðkaupið ætti að veita. Brúðguminn ber höfuðábyrgðina á því sem fram fer í brúðkaupsveislunni þótt vissulega þurfi hann að taka tillit til skoðana annarra. — Jóhannes 2:9.
23 Munið að brúðkaupið varir aðeins einn dag en hjónabandið ævilangt. Beinið ekki of mikilli athygli að brúkaupsdeginum. Leitið heldur leiðsagnar Jehóva Guðs og búið ykkur undir hjónabandið sjálft. Þannig leggið þið grunn að góðu hjónabandi.
a Þetta á við í löndum þar sem talið er viðeigandi að kristið fólk fari á stefnumót.
b Innan kristna safnaðarins má jafnvel finna einstaklinga sem eru ekki heilshugar í trúnni. Þeir þjóna ekki Guði af öllu hjarta heldur láta stjórnast af viðhorfum og hegðun heimsins. — Jóhannes 17:16; Jakobsbréfið 4:4.