Hver er Jehóva?
Svar Biblíunnar
Biblían sýnir að Jehóva er hinn sanni Guð og skapari allra hluta. (Opinberunarbókin 4:11) Spámennirnir Abraham og Móse tilbáðu hann og það gerði Jesús líka. (1. Mósebók 24:27; 2. Mósebók 15:1, 2; Jóhannes 20:17) Hann er Guð „yfir allri jörðinni“ en ekki aðeins einni þjóð. – Sálmur 47:3.
Jehóva er nafn Guðs eins og kemur fram í Biblíunni. (2. Mósebók 3:15; Sálmur 83:19) Nafnið er dregið af hebresku sagnorði sem merkir „að verða“ og margir fræðimenn telja að nafnið merki „hann lætur verða“. Þessi skýring kemur vel heim og saman við það að Jehóva er skapari og lætur tilgang sinn ná fram að ganga. (Jesaja 55:10, 11) Biblían hjálpar okkur líka að kynnast persónunni að baki nafninu, sérstaklega aðaleiginleika hans sem er kærleikur. – 2. Mósebók 34:5-7; Lúkas 6:35; 1. Jóhannesarbréf 4:8.
Jehóva er þýðing á nafni Guðs á hebresku, skrifað יהוה (JHVH). Á mörgum tungumálum er það þekkt sem tetragrammaton sem kalla mætti „fjórstafanafnið“ á íslensku. Þessir fjórir stafir eru þýddir með nafninu Jehóva. Það er ekki vitað með vissu hvernig nafnið var borið fram á hebresku en framburðarmyndin „Jehóva“ á sér hins vegar langa sögu og viðurkennda hliðstæðu í mörgum tungumálum. Í íslenskum biblíum má finna nafnið, stafað Jehova, í Steinsbiblíu frá 1728 og í neðanmálsgrein í biblíum frá 19. öld, stafað Jehóva. Heimilisútgáfa íslensku Biblíunnar frá 1908 notar framburðarmyndina „Jahve.“
Hvers vegna er ekki vitað hvernig nafn Guðs var borið fram á fornhebresku?
Fornhebreska var skrifuð með samhljóðum, án sérhljóða. Hebreskumælandi lesandi bætti einfaldlega við sérhljóðum í upplestri. En eftir að ritun Hebresku ritninganna (Gamla testamentisins) lauk varð sú hjátrú til meðal Gyðinga að það væri rangt að segja nafn Guðs upphátt. Þegar þeir lásu biblíuvers sem innihélt nafn Guðs, notuðu þeir staðgengla eins og „Drottinn“ eða „Guð“. Þegar aldir liðu breiddist þessi hjátrú út og að lokum gleymdist hvernig nafn Guðs hafði verið borið fram.a
Sumir telja að nafn Guðs hafi verið borið fram „Jahve“ en ýmsar aðrar hugmyndir hafa einnig verið settar fram. Meðal Dauðahafshandritanna eru kaflar úr 3. Mósebók á grísku þar sem nafnið er umritað Jao. Grískir ritarar lögðu til að bera nafnið fram Jae, Jabe og Jaúe en við vitum ekki hvernig þjónar Guðs forðum daga báru nafn hans fram á hebresku.b
Ranghugmyndir um nafn Guðs í Biblíunni
Ranghugmynd: Þegar nafnið Jehóva er notað í biblíuþýðingum er um að ræða innskot.
Staðreynd: Nafn Guðs á hebresku er að finna sem fjórstafanafnið um 7.000 sinnum í Biblíunni.c Í flestum biblíuþýðingum hafa þýðendur farið að eigin geðþótta og fjarlægt nafn Guðs og sett í staðinn titla eins „Drottinn“.
Ranghugmynd: Alvaldur Guð þarf ekki eiginnafn.
Staðreynd: Guð innblés riturum Biblíunnar að skrá nafn sitt mörg þúsund sinnum og hann biður tilbiðjendur sína um að nota það. (Jesaja 42:8; Jóel 2:32; Malakí 3:16; Rómverjabréfið 10:13) Guð fordæmdi meira að segja falsspámenn sem reyndu að fá fólk til að gleyma nafni hans. – Jeremía 23:27.
Ranghugmynd: Fjarlægja ætti nafn Guðs úr Biblíunni og fylgja þar með erfðavenju Gyðinga.
Staðreynd: Það er rétt að sumir fræðimenn Gyðinga vildu ekki taka sér nafn Guðs í munn. En þeir létu það ekki hverfa úr handritum Biblíunnar. Hvað sem því líður vill Guð ekki að við fylgjum erfðavenjum manna sem brjóta í bága við lög hans. – Matteus 15:1-3.
Ranghugmynd: Þar sem ekki er vitað með vissu hvernig nafn Guðs er borið fram á hebresku ætti ekki að nota það í Biblíunni.
Staðreynd: Með þessari fullyrðingu er gert ráð fyrir að Guð vilji að allir beri fram nafn sitt nákvæmlega eins, óháð tungumáli þeirra. En Biblían sýnir að tilbiðjendur Guðs sem töluðu mismunandi tungumál til forna báru fram eiginnöfn á mismunandi hátt.
Tökum Jósúa sem dæmi en hann var dómari í Ísrael. Hebreskumælandi kristnir menn á fyrstu öld notuðu framburðarmyndina Jehoshúa þegar þeir sögðu nafn hans en þeir sem töluðu grísku báru það fram Jesús. Grísk þýðing á hebreska nafninu Jósúa var skráð í Biblíuna en það sýnir að kristnir menn tóku þá skynsamlegu stefnu að nota þá mynd nafnsins sem var algeng á þeirra máli. – Postulasagan 7:45; Hebreabréfið 4:8.
Hið sama á við þegar nafn Guðs er þýtt. Það skiptir miklu meira máli að nafnið skipi réttan sess í Biblíunni en hvernig það er borið fram.
a New Catholic Encyclopedia, 2. útgáfa, 14. bindi, bls. 883-884, segir: „Einhvern tíma eftir útlegðina fóru menn að bera sérstaka lotningu fyrir nafnmyndinni Jahve og úr varð sú venja að fella nafnið niður og nota í staðin orðin ADONAI eða ELOHIM.“
b Nánari upplýsingar er að finna í Handbók biblíunemandans, 1. kafla, „Nafn Guðs í Gamla testamentinu“.
c Sjá Theological Lexicon of the Old Testament, 2. bindi, bls. 523-524.