Hvernig getur fórn Jesú verið „til lausnargjalds fyrir alla“?
Svar Biblíunnar
Guð leysir mannkynið undan synd og dauða með fórn Jesú. Biblían talar um úthellt blóð Jesú sem endurlausn, eða lausnargjald. (Efesusbréfið 1:7; 1. Pétursbréf 1:18, 19) Þess vegna sagði Jesús að hann hefði komið til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“. – Matteus 20:28.
Hvers vegna þurfti ‚lausnargjald fyrir alla‘?
Adam, fyrsti maðurinn, var skapaður fullkominn og var því syndlaus. Hann átti fyrir sér eilíft líf en glataði því þegar hann óhlýðnaðist Guði vísvitandi. (1. Mósebók 3:17-19) Þegar Adam eignaðist börn fengu þau syndina í arf. (Rómverjabréfið 5:12) Þannig seldi Adam sjálfan sig og afkomendur sína í ‚greipar syndar‘ og dauða. (Rómverjabréfið 7:14) Enginn afkomenda Adams gat keypt aftur það sem Adam glataði því þeir voru allir ófullkomnir. – Sálmur 49:8, 9.
Afkomendur Adams voru í vonlausri stöðu en Guð hafði samúð með þeim. (Jóhannes 3:16) Þar sem Guð er réttlátur gat hann þó ekki litið framhjá syndinni eða fyrirgefið hana án þess að byggja það á lögmætum grunni. (Sálmur 89:15; Rómverjabréfið 3:23-26) Vegna þess að Guð elskar mannkynið sá hann fyrir lagalegri leið til að geta fyrirgefið syndir fólks og gert þær að engu. (Rómverjabréfið 5:6-8) Lausnargjaldið er þessi leið.
Hvernig gagnast lausnargjaldið?
Orðið „lausnargjald“ felur í sér þrenns konar merkingu í Biblíunni:
Það er greiðsla. – 4. Mósebók 3:46, 47.
Það endurleysir eða bætir fyrir eitthvað. – 2. Mósebók 21:30.
Það jafngildir því sem greitt er fyrir.a
Skoðum nú hvernig þessar skýringar eiga við um lausnarfórn Jesú Krists.
Greiðsla. Í Biblíunni segir að kristnir menn séu „verði keyptir“. (1. Korintubréf 6:20; 7:23) Verðið var blóð Jesú sem hann notaði til að ‚kaupa Guði til handa menn af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð‘. – Opinberunarbókin 5:8, 9.
Endurlausn. Fórn Jesú ‚endurleysir‘, eða frelsar frá syndum. – 1. Korintubréf 1:30; Kólossubréfið 1:14; Hebreabréfið 9:15.
Jafngildi. Fórn Jesú samsvarar nákvæmlega því sem Adam glataði – einu fullkomnu mannslífi. (1. Korintubréf 15:21, 22, 45, 46) Í Biblíunni segir: „Allir urðu syndarar vegna óhlýðni eins manns [Adams]. Eins verða allir lýstir sýknir saka vegna hlýðni hins eina [Jesú Krists].“ (Rómverjabréfið 5:19) Það skýrir hvers vegna dauði eins manns getur greitt lausnargjald fyrir marga synduga menn. Fórn Jesú var „til lausnargjalds fyrir alla“ sem gera það sem þarf til að njóta gagns af henni. – 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6.
a Frummálsorðin, sem oft eru þýdd „lausnargjald“ í Biblíunni, gefa til kynna verðgildi eða verð sem greitt er. Aðalmerking hebresku sagnarinnar kafarʹ er til dæmis „að hylja“. Oftast er þá átt við að hylja eða fyrirgefa synd. (Sálmur 65:4) Nafnorðið kófer er af sama stofni og lýsir gjaldinu sem er greitt til að fá þessa fyrirgefningu eða lausn. (2. Mósebók 21:30) Gríska orðið lytron, sem er að jafnaði þýtt „lausnargjald“, má einnig þýða „endurlausn“. (Matteus 20:28) Grískir ritarar notuðu það um gjald til að kaupa lausa stríðsfanga eða leysa þræla úr haldi.