Höfum rétt viðhorf til áfengis
TONY, sem minnst var á í fyrstu greininni, hefði getað lifað annars konar lífi — ef hann hefði bara tekið á áfengisvanda sínum. En þar sem hann virtist geta innbyrt mikið áfengi án þess að það sæist á honum hélt hann að hann hefði stjórn á lífi sínu. Af hverju lagði hann svona rangt mat á ástand sitt?
Dómgreind hans var skert vegna of mikillar áfengisneyslu. Hvort sem Tony áttaði sig á því eða ekki starfaði heilinn — líffærið sem fylgist með ástandi líkamans, hugans og tilfinninganna — ekki rétt þegar hann var undir áhrifum áfengis. Því meir sem hann drakk því síður var heili hans fær um að leggja rétt mat á ástand hans.
Önnur ástæða þess að Tony lagði rangt mat á ástand sitt var sterk löngun hans til að halda í drykkjuvenjur sínar. Allen, sem áður hefur verið minnst á, neitaði því í fyrstu að hann ætti við áfengisvanda að stríða. „Ég faldi drykkju mína,“ viðurkennir hann, „og kom með afsakanir og reyndi að gera lítið úr ofdrykkjunni. Ég hafði eitt markmið — að fá að halda áfram að drekka.“ Þótt aðrir hafi séð að áfengisneyslan var að taka völdin af Tony og Allen héldu þeir áfram að telja sjálfum sér trú um að allt væri eðlilegt. Þeir þurftu báðir að gera eitthvað í málinu til að ná tökum á drykkjunni. En hvað áttu þeir að gera?
Gerðu eitthvað í málinu!
Margir sem hafa hætt að misnota áfengi hafa tekið til sín hvatninguna í orðum Jesú: „Ef hægra auga þitt tælir þig til falls þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér að einn lima þinna glatist en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti.“ — Matteus 5:29.
Jesús var auðvitað ekki að hvetja til sjálfsmisþyrminga. Hann var á myndrænan hátt að leggja áherslu á að við þurfum að vera fús til að losa okkur við hvaðeina sem skaðar samband okkar við Guð. Að vísu getur það verið mjög sársaukafullt en það verndar okkur gegn hugsunum og aðstæðum sem gætu leitt til misnotkunar áfengis. Ef aðrir hafa lýst yfir áhyggjum vegna áfengisneyslu þinnar skaltu því grípa til aðgerða til að ná tökum á vandanum.a Ef það er augljóst að þú getur ekki haft stjórn á drykkjunni verðurðu að vera reiðubúinn til að hætta alveg að drekka áfengi. Þótt það geti verið erfitt er það ekki nærri því jafn slæmt og að eyðileggja líf sitt.
Áttu það til að drekka of mikið, jafnvel þótt þú sért ekki alkóhólisti? Hvað getur þá hjálpað þér að hafa rétt viðhorf til áfengis?
Hvað getur hjálpað þér?
1. Treystu á mátt bænarinnar. Biddu oft og innilega. Í Biblíunni fá allir sem vilja þóknast Jehóva Guði þetta ráð: „Gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Hvað geturðu beðið um til að öðlast slíkan hugarfrið?
Viðurkenndu auðmjúklega fyrir Guði að þú eigir við áfengisvanda að stríða og að þú berir ábyrgð á vandanum. Ef þú segir honum hvað þú ætlar að gera í málinu mun hann blessa viðleitni þína til að takast á við drykkjuna og forðast alvarlegri vandamál. „Sá sem dylur yfirsjónir sínar verður ekki lánsamur en sá sem játar þær og lætur af þeim hlýtur miskunn.“ (Orðskviðirnir 28:13) Jesús sagði líka að við gætum beðið Guð: „Eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá illu.“ (Matteus 6:13) En hvernig geturðu hegðað þér í samræmi við slíkar bænir og hvar geturðu fundið svör við því sem þú ert að biðja um?
2. Sæktu styrk í orð Guðs. „Orð Guðs er lifandi og kröftugt . . . það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebreabréfið 4:12) Mörgum fyrrverandi ofdrykkjumönnum hefur fundist mikil hjálp í því að lesa og hugleiða nokkur vers í Biblíunni á hverjum degi. Sálmaskáld, sem óttaðist Guð, orti: „Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra . . . heldur hefur yndi af leiðsögn Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt . . . Allt, sem hann gerir, lánast honum.“ — Sálmur 1:1-3.
Allen fór að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva og það gaf honum styrk til að sigrast á áfengisvanda sínum. Hann segir: „Ég er sannfærður um að ég væri ekki lengur á lífi ef ég hefði ekki kynnst Biblíunni og meginreglum hennar sem hjálpuðu mér að hætta að drekka.“
3. Temdu þér sjálfstjórn. Í Biblíunni er sagt frá fólki í kristna söfnuðinum sem hafði áður misnotað áfengi en síðan snúið við blaðinu með hjálp anda Guðs. (1. Korintubréf 6:9-11) Hvernig þá? Því tókst að hætta ofdrykkju og svalli með því að temja sér sjálfstjórn, eiginleika sem heilagur andi Guðs hjálpar okkur að rækta. „Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum.“ (Efesusbréfið 5:18; Galatabréfið 5:21-23) Jesús Kristur lofar okkur að ,faðirinn himneski gefi þeim heilagan anda sem biðja hann‘. Hann sagði þess vegna: „Biðjið og yður mun gefast.“ — Lúkas 11:9, 13.
Þeir sem vilja tilbiðja Jehóva á réttan hátt geta tamið sér sjálfstjórn með því að lesa og hugleiða Biblíuna og biðja til hans oft og innilega. Í stað þess að láta bugast skaltu hugsa um þetta loforð Biblíunnar: „Sá sem sáir í andann mun af andanum uppskera eilíft líf. Þreytumst ekki að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp.“ — Galatabréfið 6:8, 9.
4. Veldu heilnæman félagsskap. „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Segðu vinum þínum frá ákvörðun þinni um að þú ætlir að taka á drykkjuvandanum. Í orði Guðs segir samt að þegar þú hættir „ofdrykkju, óhófi [og] samdrykkjum“ eigi sumir af fyrrverandi félögum þínum eftir að furða sig á því að ,þú hlaupir ekki með þeim út í sama spillingardíki og þeir hallmæla þér‘. (1. Pétursbréf 4:3, 4) Þú þarft að vera reiðubúinn til að hætta að hafa samskipti við þá sem draga úr ásetningi þínum um að hafa stjórn á drykkjunni.
5. Settu þér skýr mörk. „Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Rómverjabréfið 12:2) Ef þú nýtir þér meginreglur Biblíunnar til að setja þér ákveðin mörk í stað þess að leyfa félögum þínum eða „háttsemi þessa heims“ að gera það geturðu notið þess að lifa í samræmi við vilja Guðs. En hvernig geturðu fundið út hvar þú átt að setja mörkin?
Um leið og áfengið er farið að hafa áhrif á dómgreindina og slæva rökhugsun þína ertu búinn að drekka of mikið. Ef þú ákveður að neyta áfengis máttu þess vegna ekki setja þér svo óljós mörk að þú sveiflist á milli þess að vera allsgáður og ölvaður. Láttu ekki afneitun grafa undan heiðarlegu mati þínu á drykkjuvenjum þínum. Settu þér skýr mörk sem skapa enga hættu og eru vel innan marka hóflegrar drykkju — marka sem halda þér frá því að leiðast út í óhóf.
6. Lærðu að segja nei. „Þegar þér talið sé já yðar já og nei sé nei.“ (Matteus 5:37) Lærðu að afþakka kurteislega þótt þér sé þráfaldlega boðið vín af örlátum gestgjafa. „Mál ykkar sé ætíð ljúflegt en salti kryddað til þess að þið vitið hvernig þið eigið að svara hverjum manni.“ — Kólossubréfið 4:6.
7. Biddu vini þína um aðstoð. Fáðu trausta vini til að hjálpa þér að standa við ásetning þinn og styrkja tengslin við Guð. „Betri eru tveir en einn því að þeir hafa betri laun fyrir strit sitt. Falli annar þeirra getur hinn reist félaga sinn á fætur.“ (Prédikarinn 4:9, 10; Jakobsbréfið 5:14, 16) Bandaríska áfengis- og vímuvarnarstofnunin gefur svipuð ráð: „Þegar þú ert að draga úr áfengisneyslunni geta sumir dagar verið erfiðari en aðrir. Biddu fjölskyldu og vini um stuðning til að hjálpa þér að ná markmiði þínu.“
8. Haltu fast við ákvörðun þína. „Verðið gerendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þið sjálf ykkur. En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því sem hann heyrir heldur framkvæmir það, verður sæll í verkum sínum.“ — Jakobsbréfið 1:22, 25.
Að losna undan fíkninni
Það verða ekki allir alkóhólistar þótt þeir drekki í óhófi. En sumir byrja að drekka svo mikið — eða svo oft — að þeir verða háðir áfengi. Þar sem áfengisfíkn felur í sér að fólk verður bæði líkamlega og hugarfarslega háð sterkum efnum er ekki víst að viljastyrkur og trúin ein dugi til að losna undan fíkninni. „Þegar ég hætti að neyta áfengis,“ segir Allen, „upplifði ég gríðarlegar líkamlegar kvalir. Þá áttaði ég mig á því að ég þurfti læknismeðferð til viðbótar við hjálpina sem ég fékk í gegnum trúna.“
Margir drykkjumenn þurfa á læknishjálp að halda svo að þeir geti byggt sig upp andlega til að losna úr fjötrum áfengis og halda sig frá því.b Sumir þurfa að leggjast inn á sjúkrahús til að takast á við skæð fráhvarfseinkenni og stundum eru gefin lyf til að draga úr lönguninni í vín og hjálpa viðkomandi að halda áfengisbindindið. Jesús, sonur Guðs, vann mörg kraftaverk en hann sagði: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru.“ — Markús 2:17.
Gagnið af því að fylgja leiðbeiningum Guðs
Skynsamleg ráð Biblíunnar um áfengisnotkun koma frá hinum sanna Guði sem vill okkur aðeins það besta — ekki bara núna heldur líka um ókomna framtíð. Það eru 24 ár frá því að Allen hætti að drekka. Hann segir: „Það var frábært að vita að ég gat breytt mér, að komast að því að Jehóva vildi hjálpa mér að leiðrétta líf mitt, að hann . . .“ Allen þagnar og reynir að halda aftur af tárunum þegar minningarnar hellast yfir hann, en heldur svo áfram „ . . . að vita að Jehóva skilur mann og þykir vænt um mann og veitir þá hjálp sem maður þarf — það hefur verið alveg ómetanlegt.“
Ef þú ert í fjötrum áfengismisnotkunar eða -fíknar skaltu því ekki vera fljótur að gefast upp á sjálfum þér eða halda að allt sé vonlaust. Allen og ótal aðrir hafa verið í þínum sporum og þeim hefur tekist annaðhvort að draga úr áfengisneyslunni eða hætta alveg að drekka. Þeir sjá ekki eftir því og það munt þú ekki heldur gera.
Hvort sem þú ákveður að drekka áfengi í hófi eða sleppa því alveg ættirðu að fylgja þessari kærleiksríku hvatningu Guðs: „Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ — Jesaja 48:18, Biblían 1981.
[Neðanmáls]
a Sjá rammann „Er áfengisneyslan að fara úr böndunum?“ á bls. 8.
b Ýmsar meðferðarstofnanir og sumir spítalar bjóða upp á áfengismeðferð. Varðturninn mælir ekki sérstaklega með einni meðferð umfram aðra. Hver og einn ætti að hugleiða vandlega hvers konar meðferð hann velur og ganga úr skugga um að hún stangist ekki á við meginreglur Biblíunnar.
[Rammi/mynd á bls. 8]
Er áfengisneyslan að fara úr böndunum?
Þú gætir spurt þig:
• Drekk ég meira en ég gerði?
• Drekk ég oftar en ég gerði?
• Er ég farinn að drekka sterkara áfengi?
• Drekk ég til að flýja álag eða vandamál?
• Hefur vinur eða einhver í fjölskyldunni sagst hafa áhyggjur af því hvað ég drekk mikið?
• Hefur áfengisdrykkja mín skapað vandamál á heimilinu, í vinnunni eða á ferðalögum?
• Er erfitt að vera án áfengis í viku?
• Finnst mér óþægilegt þegar aðrir sleppa því að drekka?
• Fel ég fyrir öðrum hve mikið ég drekk?
Ef þú svarar einni eða fleiri spurningum játandi gætirðu þurft að gera eitthvað til að hafa hemil á áfengisneyslunni.
[Rammi/mynd á bls. 9]
Taktu viturlegar ákvarðanir varðandi áfengi
Áður en þú drekkur áfengi skaltu hugleiða eftirfarandi:
• Er ráðlegt fyrir mig að drekka áfengi eða ætti ég að halda mig frá því?
Ráð: Sá sem getur ekki takmarkað hvað hann neytir mikils áfengis ætti að halda sig frá áfengi.
• Hve mikið ætti ég að drekka?
Ráð: Ákveddu hve mikið þú ætlar að drekka áður en áfengið byrjar að brengla dómgreindina.
• Hvenær ætla ég að drekka?
Ráð: Ekki áður en þú keyrir bíl eða gerir eitthvað sem krefst fyllstu árvekni; ekki áður en þú tekur þátt í trúarathöfnum; ekki ef þú ert barnshafandi; ekki með ákveðnum lyfjum.
• Hvar ætla ég að drekka?
Ráð: Í uppbyggilegum félagsskap; ekki í leyni til að fela drykkjuna fyrir öðrum; ekki fyrir framan fólk sem er á móti áfengi eða er viðkvæmt fyrir því.
• Með hverjum ætla ég að drekka?
Ráð: Með vinum og ættingjum sem hafa jákvæð áhrif á þig; ekki með fólki sem á við áfengisvandamál að stríða.
[Rammi/mynd á bls. 10]
Orð Guðs hjálpar fyrrverandi drykkjumanni
Supot í Taílandi var drykkjumaður. Til að byrja með drakk hann aðeins á kvöldin. Smám saman byrjaði hann að fá sér drykk á morgnana og síðan líka í hádeginu. Oft drakk hann til þess eins að verða drukkinn. En svo byrjaði hann að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva. Þegar Supot lærði að ofdrykkja væri Guði ekki velþóknanleg hætti hann að drekka. Að nokkrum tíma liðnum byrjaði hann þó aftur að drekka eins og áður. Það var mikið áfall fyrir fjölskylduna.
En Supot elskaði samt Jehóva og vildi þjóna honum á réttan hátt. Vinir Supots héldu áfram að hjálpa honum og hvöttu fjölskylduna til að vera meira með honum og gefast ekki upp á honum. Þegar hér var komið sögu voru það orðin í 1. Korintubréfi 6:10 sem hjálpuðu Supot að líta málin alvarlegum augum. Þar er hreinskilnislega sagt að ,vínsvallarar fái ekki að erfa Guðs ríki‘. Hann gerði sér grein fyrir því að hann þurfti að taka sig allan á til að sigrast á drykkjuvandanum.
Í þetta sinn var Supot ákveðinn í að hætta alveg að drekka. Heilagur andi Guðs, leiðbeiningar Biblíunnar og stuðningur fjölskyldunnar og safnaðarins hjálpuðu honum að lokum að eignast sterkt samband við Guð og sigrast á áfengisvandanum. Fjölskyldan gladdist mjög þegar hann lét skírast til tákns um vígslu sína við Guð. Supot nýtur þess núna að vera náinn vinur Guðs eins og hann hafði alltaf þráð og notar tíma sinn til að hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama.