Skilningur þinn á sálinni hefur áhrif á líf þitt
‚Maðurinn varð lifandi sál.‘ — 1. MÓSEBÓK 2:7.
1, 2. Hvað kenna flest trúarbrögð í sambandi við manninn og sálina?
NÁLEGA öll trúarbrögð kenna að maðurinn hafi ódauðlega sál. Kaþólska alfræðibókin New Catholic Encyclopedia segir að sálin sé „sköpuð af Guði og blásið í líkamann við getnað.“ Hún segir einnig að kenningin um ódauðlega sál sé „einn af hornsteinum“ kirkna kristna heimsins. Í The New Encyclopædia Britannica segir að „skilningur múslíma“ sé á þá lund „að sálin verði til samtímis líkamanum; eftir það lifi hún sjálfstæðu lífi og sameining hennar við líkamann sé einungis tímabundið ástand.“
2 Þessi trúfélög kenna að sálin yfirgefi líkamann á dauðastundinni og lifi síðan áfram að eilífu, annaðhvort í himneskri alsælu, í hreinsunareldi um einhvern tíma eða eilífri kvöl í logandi helvíti. Litið er á dauðann sem dyr eilífs lífs í andaheimi. Eins og rithöfundur sagði í bókinni We Believe in Immortality: „Ég lít á dauðann sem stórkostlegt ævintýri. Ég lít á dauðann sem guðlega hækkun í tign.“
3. Hvað kenna sum af trúarbrögðum Austurlanda?
3 Hindúar, búddhatrúarmenn og fleiri trúa á sálnaflakk. Það innifelur þá hugmynd að við dauðann endurholdgist sálin og fæðist sem annar maður eða önnur lífvera. Ef maðurinn var góður í lifanda lífi er sagt að sál hans endurfæðist sem maður í æðri stöðu. Ef hann var vondur maður fæðist hann sem maður í lægri stöðu eða jafnvel sem dýr eða skordýr.
4, 5. Hvers vegna er mikilvægt að vita sannleikann um sálina?
4 En hvað nú ef menn hafa ekki ódauðlega sál? Hvað nú ef dauðinn er ekki „guðleg hækkun í tign,“ ekki dyr eilífs lífs í andaheimi eða endurholdgunar allra sem deyja? Þá væri trúin á ódauðlega sál að leiða menn á villigötur. Bókin Official Catholic Teachings segir að kirkjan haldi fast fram kenningunni um ódauðlega sál vegna þess að „bænir hennar, útfararsiðir og trúarathafnir í þágu hinna dánu væru merkingarlausar eða óskiljanlegar“ ella. Skilningur okkar á sálinni hefur því áhrif á líf okkar, tilbeiðslu og eilífa framtíð. — Orðskviðirnir 14:12; Matteus 15:9.
5 Það er mikilvægt að vita sannleikann um þessa trúarskoðun. Jesús sagði: „Þeir, sem tilbiðja [Guð], eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:24) Sannleikann um mannssálina er að finna í orði Guðs, Biblíunni. Hin innblásna ritning hefur að geyma opinberun Guðs á tilgangi sínum, þannig að við megum treysta að hún segi okkur sannleikann. (1. Þessaloníkubréf 2:13; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Jesús sagði í bæn til Guðs: „Þitt orð er sannleikur.“ — Jóhannes 17:17.
Er maðurinn skapaður með ódauðlega sál?
6. Hvað segir frásaga 1. Mósebókar okkur greinilega um sköpun mannsins?
6 Fyrsta Mósebók 2:7 segir okkur: „Þá myndaði [Jehóva] Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ Frásagan segir ekki að Guð hafi gróðursett ódauðlega sál í manninn. Hún segir að Adam hafi ‚orðið lifandi sál‘ um leið og Guð blés lífskrafti í hann. Maðurinn er því sál. Hún er ekki eitthvað sem hann hefur.
7. Hver var tilgangurinn með tilkomu manna hér á jörð?
7 Guð skapaði Adam til að lifa á jörðinni, ekki á himnum. Jörðin átti ekki að vera einhver reynslustaður þar sem séð yrði hvort Adam væri hæfur til að lifa á himnum. Guð skapaði jörðina til að „hún væri byggileg“ og Adam var fyrsti, mennski ábúandi hennar. (Jesaja 45:18; 1. Korintubréf 15:45) Síðar, þegar Guð skapaði Evu sem eiginkonu Adams, var tilgangur Guðs sá að þau skyldu auka kyn sitt og fylla jörðina fólki og breyta henni í paradís er vera skyldi eilíft heimili mannkyns. — 1. Mósebók 1:26-31; Sálmur 37:29.
8. (a) Hvaða skilyrði var tilvera Adams háð? (b) Hvar hefði Adam haldið áfram að lifa ef hann hefði ekki syndgað?
8 Hvergi segir Biblían að einhver hluti Adams hafi verið ódauðlegur. Nei, tilvera hans var skilyrðum háð, þeim að hann hlýddi lögum Guðs. Hvernig færi ef hann bryti lög Guðs? Myndi hann hljóta eilíft líf í andaheimi? Alls ekki. Þess í stað myndi hann „vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:17) Hann myndi hverfa aftur þangað sem hann var upprunninn: „Mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa.“ (1. Mósebók 2:17; 3:19) Adam var ekki til áður en hann var skapaður og hann yrði ekki heldur til eftir að hann dæi. Hann átti aðeins um tvennt að velja: (1) að hlýða og lifa eða (2) að óhlýðnast og deyja. Ef Adam hefði ekki syndgað hefði hann lifað eilíflega á jörðinni. Hann hefði aldrei farið til himna.
9. Hvað kallar Biblían dauðann réttilega og hvers vegna?
9 Adam óhlýðnaðist og dó. (1. Mósebók 5:5) Dauðinn var refsing hans. Hann var ekki dyr ‚stórkostlegs ævintýris‘ heldur dyr tilveruleysis. Dauðinn er því ekki vinur heldur ‚óvinur‘ eins og Biblían kallar hann. (1. Korintubréf 15:26) Ef Adam hefði haft ódauðlega sál, sem hefði farið til himna ef hann hefði verið hlýðinn, þá hefði dauðinn verið blessun. En dauðinn var engin blessun, hann var bölvun. Og með synd Adams breiddist bölvun dauðans út til allra manna því að allir eru afkomendur hans. — Rómverjabréfið 5:12.
10. Hvaða alvarlegt vandamál kemur upp ef fullyrt er að Adam hafi haft ódauðlega sál?
10 Ef nú Adam var skapaður með ódauðlegri sál sem átti í vændum eilífa kvöl í vítiseldi ef hann syndgaði, hvers vegna var hann þá ekki varaður við því? Hvers vegna var honum einungis sagt að hann myndi deyja og verða aftur að moldu? Það hefði verið í hæsta máta ósanngjarnt að dæma Adam til eilífrar kvalar fyrir óhlýðni án þess að vara hann við því! En allir vegir Guðs eru „réttlæti.“ (5. Mósebók 32:4) Það þurfti ekki að vara Adam við vítiseldi þangað sem sálir óguðlegra færu því að slíkur vítiseldur var ekki til og engar ódauðlegar sálir heldur. (Jeremía 19:5; 32:35) Það er engin eilíf kvöl í dufti jarðar.
Þannig notar Biblían orðið „sál“
11. (a) Hvaða hebresk og grísk orð eru þýdd sem „sál“ í Biblíunni? (b) Hvernig þýðir King James biblían hebresku og grísku orðin fyrir „sál“?
11 Í Hebresku ritningunum er íslenska orðið „sál“ þýðing hebreska orðsins nefes sem kemur fyrir liðlega 750 sinnum. Það jafngildir orðinu psykhe sem kemur fyrir liðlega 100 sinnum í Grísku ritningunum. Nýheimsþýðing heilagrar ritningar er sjálfri sér samkvæm í því að þýða þessi orð alltaf sem „sál.“ Sumar biblíuþýðingar nota fjölmörg önnur orð. Nefna má sem dæmi að í hinni ensku King James Version er nefes þýtt sem matarlyst, skepna, líkami, andardráttur, sköpunarvera, lík, löngun, hjarta, líf, maður, hugur, persóna, sjálf, sál og hlutur. Og hún þýðir psykhe sem hjarta, líf, huga og sál.
12. Hvernig notar Biblían hebresku og grísku orðin fyrir „sál“?
12 Biblían kallar sjávardýrin nefes: „Sérhver lifandi sál sem er í vötnunum.“ (3. Mósebók 11:10, NW) Orðið getur átt við landdýr: „Jörðin leiði fram lifandi sálir eftir sinni tegund, fénað, skriðdýr og villidýr.“ (1. Mósebók 1:24, NW) Mörg hundruð sinnum er nefes notað um fólk. „Alls komu af lend Jakobs 70 sálir.“ (2. Mósebók 1:5; NW) Í 1. Pétursbréfi 3:20 er að finna dæmi þess að psykhe sé notað með þessum hætti. Þar er minnst á örk Nóa og sagt að „í henni frelsuðust fáeinar — það er átta — sálir í vatni.“
13. Á hvaða aðra vegu notar Biblían orðið „sál“?
13 Biblíana notar orðið „sál“ á marga aðra vegu. Fyrsta Mósebók 9:5 segir: „Blóð sálna ykkar mun ég krefjast.“ (NW) Hér er sálin sögð hafa blóð. Önnur Mósebók 12:16 segir: „Aðeins má tilreiða það sem hver sál þarf til matar.“ (NW) Í þessu tilviki er sálin sögð matast. Fimmta Mósebók 24:7 talar um að maður „ræni sál af bræðrum sínum.“ (NW) Auðvitað var það ekki ódauðleg sál sem var rænt. Sálmur 119:28 segir: „Sál mín er svefnvana af sorg.“ (NW) Sálin getur jafnvel orðið svefnvana. Biblían sýnir einnig að sálin er dauðleg. Hún deyr. „Sú sál skal upprætt úr þjóð sinni.“ (3. Mósebók 7:20, NW) „Hann má ekki koma nálægt nokkurri sál sem er dáin.“ (4. Mósebók 6:6, NW) „Sálir okkar skulu deyja.“ (Jósúa 2:14, NW) „Sérhverri sál, sem hlýðir ekki á þennan spámann, skal gereytt.“ (Postulasagan 3:23; NW) „Sérhver lifandi sál dó.“ — Opinberunarbókin 16:3.
14. Hvað sýnir Biblían greinilega um eðli sálarinnar?
14 Notkun Biblíunnar á orðunum nefes og pyskhe sýnir greinilega að sálin er persóna eða, þegar um dýr er að ræða, skepnan sjálf. Hún er ekki einhver ódauðlegur hluti einstaklingsins. Meira að segja er orðið nefes notað um Guð sjálfan: „Sál hans hatar hvern þann sem elskar ofbeldi.“ — Sálmur 11:5, NW.
Margir fræðimenn eru sammála
15. Hvað segja allmörg fræðirit um kenninguna um ódauðlega sál?
15 Margir fræðimenn eru sammála um að Biblían tali ekki um ódauðlega sál. The Concise Jewish Encyclopedia segir: „Biblían heldur ekki fram kenningu um ódauðleika sálarinnar og kenningin kemur heldur ekki skýrt fram í hinum eldri rabbínaritum.“ The Jewish Encyclopedia segir: „Sú trú að sálin lifi áfram eftir að líkaminn leysist upp eru heimspekilegar eða guðfræðilegar vangaveltur en ekki einfaldur trúarskilningur, og er því hvergi kennd skýrum stöfum í Heilagri ritningu.“ The Interpreter’s Dictionary of the Bible bendir á: „Nefes . . . heldur ekki áfram sjálfstæðri tilveru óháð líkamanum heldur deyr með honum. . . . Enginn ritningartexti í Biblíunni gefur okkur heimild til að tala um að ‚sálin‘ aðgreinist frá líkamanum á dauðastundinni.“
16. Hvað segja sum heimildarrit um sálina?
16 Enn fremur segir í Expository Dictionary of Bible Words: „Orðið ‚sál‘ í Gamlatestamentinu vísar því ekki til einhvers óefniskennds hluta mannsins er lifir áfram eftir dauðann. Nefes merkir í reynd lífið eins og persónubundnar verur einar upplifa það. . . . Grunnmerking psykhe byggist meira á samsvarandi orði í Gamlatestamentinu en merkingu orðsins í grískri menningu.“ Og The Eerdmann’s Bible Dictionary segir að í Biblíunni merki orðið sál „ekki hluta mannverunnar heldur persónuna alla. . . . Í þessum skilningi hafa menn ekki sálir — þeir eru sálir.“ — Leturbreyting okkar.
17. Hvað viðurkenna tvö kaþólsk fræðirit um ‚sálina‘?
17 Jafnvel New Catholic Encyclopedia viðurkennir: „Orð Biblíunnar fyrir sál merkja venjulega persónuna alla.“ Hún bætir við: „Það er engin tvískipting líkama og sálar í Gamlatestamentinu. . . . Þótt orðið nefes sé þýtt með orðinu sál merkir það aldrei sál er sé aðgreind frá líkamanum eða persónunni. . . . Orðið psykhe í Nýjatestamentinu svarar til nefes. . . . Sú hugmynd að sálin lifi eftir dauðann kemur ekki skýrt fram í Biblíunni.“ Og George Auzou, sem er kaþólskur prófessor í biblíulegum fræðum í Frakklandi, segir í bók sinni La Parole de Dieu (Orð Guðs): „Hugtakið ‚sál‘ í merkingunni hreinn andlegur, óefnislegur veruleiki aðskilinn frá ‚líkamanum‘ . . . finnst ekki í Biblíunni.
18. (a) Hvað segir alfræðibók ein um notkun orðsins „sál“ í Biblíunni? (b) Hvaðan fengu guðfræðingar þá hugmynd að eitthvað lifði af líkamsdauðann?
18 Því segir í The Encyclopedia Americana: „Í Gamlatestamentinu er manninum lýst sem einni heild, ekki sameiningu sálar og líkama. Þótt hebreska orðið nefes sé oft þýtt sem ‚sál‘ væri rangt að lesa gríska merkingu út úr því. . . . Nefes er aldrei lýst sem það starfi óháð líkamanum. Í Nýjatestamentinu er gríska orðið psykhe oft þýtt ‚sál‘ en sem fyrr ber ekki sjálfkrafa að skilja það svo að það hafi sömu merkingu og það hafði í hugum grískra heimspekinga. . . . Biblían lýsir ekki nákvæmlega hvernig maðurinn lifir eftir dauðann.“ Ritið bætir við: „Guðfræðingar hafa þurft að grípa til heimspekilegra umræðna til að geta lýst áframhaldandi tilveru einstaklingsins eftir dauðann.“
Ekki byggt á Biblíunni heldur heimspeki
19. Hver eru tengsl grískrar heimspeki og trúarinnar á ódauðlega sál?
19 Það er rétt að guðfræðingar tóku upp hugmyndir heiðinna heimspekinga til að geta sett fram kenninguna um ódauðlega sál. Hið franska Dictionnaire Encyclopédique de la Bible (Biblíuorðabók með alfræðilegu ívafi) segir: „Hugmyndin um ódauðleika er afsprengi grískra hugmynda.“ The Jewish Encyclopedia staðfestir það: „Gyðingar kynntust trúnni á ódauðleika sálarinnar í gegnum grískar hugmyndir, einkum heimspeki Platons, helsta formælanda hennar.“ Platon, sem var uppi á fjórðu öld fyrir Krist, kenndi: „Sálin er ódauðleg og óforgengileg og sálir vorar munu sannarlega lifa í öðrum heimi!“ — The Dialogues of Plato.
20. Hvenær og hvernig þrengdi heiðin heimspeki sér inn í kristnina?
20 Hvenær komst þessi heiðna heimspeki inn í kristnina? The New Encyclopedia Britannica segir: „Frá miðbiki annarrar aldar eftir Krist þótti kristnum mönnum, sem höfðu fengið einhverja menntun í grískri heimspeki, þeir þurfa að tjá trúna með orðfæri hennar, bæði til að fullnægja vitsmunalegri þörf sinni og til að snúa menntuðum heiðingjum til trúar. Platonisminn var sú heimspeki sem hentaði þeim best.“ Því fór svo, eins og Britannica segir, að „kristnir heimspekingar fyrstu alda tóku upp hina grísku hugmynd um ódauðleika sálarinnar.“ Jafnvel Jóhannes Páll páfi II viðurkennir að kenningin um ódauðlega sál feli í sér „kenningar ákveðinna skóla grískrar heimspeki.“ En með því að taka upp á arma sínar kenningar grískrar heimspeki var kristindómurinn að snúa baki við hinum einfalda sannleika sem fram kemur í 1. Mósebók 2:7: ‚Maðurinn varð lifandi sál.‘
21. Hve langt aftur í tímann má rekja trúna á ódauðlega sál?
21 En kenningin um ódauðlega sál er miklu eldri en Platon. Í bókinni The Religion of Babylon and Assyria eftir Morris Jastrow lesum við: „Ráðgátan um ódauðleika . . . var alvarlegt hugðarefni guðfræðinga Babýloníu. . . . Dauðinn var umbreyting yfir til annars konar lífs.“ Þá segir í bókinni Egyptian Religion eftir Sigfried Morenz: „Egyptar til forna litu einfaldlega á lífið eftir dauðann sem framhald lífsins á jörðinni.“ The Jewish Encyclopedia bendir á tengsl þessara fornu trúarbragða og Platons er hún segir að rekja megi hugmyndir Platons um ódauðlega sál til „orfískra og elevsískra leyndardóma þar sem hugmyndir Babýloníumanna og Egypta blönduðust með undarlegum hætti.“
22. Hvers vegna má segja að frækornum kenningarinnar um ódauðlega sál hafi verið sáð í upphafi mannkynssögunnar?
22 Hugmyndin um ódauðlega sál er því ævaforn. Reyndar má rekja rætur hennar allt aftur til upphafs mannkynssögunnar! Eftir að Adam hafði verið sagt að hann myndi deyja ef hann óhlýðnaðist Guði var konu hans, Evu, sagt annað. Henni var sagt: „Vissulega munuð þið ekki deyja!“ Þarna var sáð fyrsta frækorni kenningarinnar um ódauðlega sál. Allar götur síðan hefur ein siðmenningin af annarri tileinkað sér þá heiðnu hugmynd að ‚menn deyi ekki í raun og veru heldur haldi áfram að lifa.‘ Þetta hefur kristni heimurinn einnig gert og dregið fylgjendur sína út í fráhvarf gegn vilja og tilgangi Guðs. — 1. Mósebók 3:1-5; Matteus 7:15-23; 13:36-43; Postulasagan 20:29, 30; 2. Þessaloníkubréf 2:3, 7.
23. Hver mótaði kenninguna um ódauðlega sál og hvers vegna?
23 Hver var það sem kom mönnum til að trúa þessari lygi? Jesús afhjúpaði hann er hann sagði trúarleiðtogum samtíðar sinnar: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. . . . Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því að hann er lygari og lyginnar faðir.“ (Jóhannes 8:44) Já, það var Satan sem mótaði hugmyndina um ódauðlega sál í því skyni að teyma fólk burt frá sannri guðsdýrkun. Menn láta leiða sig á villigötur og bera í brjósti falskar vonir með því að trúa á kenningar sem eru sprottnar af fyrstu lyginni sem Biblían segir frá — enda þótt Eva hafi vafalaust skilið höggorminn svo að hún myndi aldrei deyja í holdinu.
24. Hvaða spurninga má spyrja varðandi eilíft líf og ódauðleika?
24 Biblían kennir ekki að menn hafi ódauðlega sál. Hvers vegna heldur hún þá á lofti von um eilíft líf? Og segir ekki í 1. Korintubréfi 15:53: „Þetta dauðlega [á] að íklæðast ódauðleikanum“? Og fór ekki Jesús til himna eftir upprisu sína og kenndi hann ekki að aðrir ættu líka að fara til himna? Fjallað verður um þessar spurningar og fleiri í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
a Í íslensku biblíunni, líkt og í King James Version, er hebreska orðið nefes ekki alltaf þýtt sem „sál.“ Nýheimsþýðing heilagrar ritningar (NW) gerir það hins vegar og gefur þannig glögga mynd af því hverning orðið nefes er notað í frumtextanum.
Upprifjun
◻ Hvað kenna flest trúarbrögð um sálina?
◻ Hvernig sýnir Biblían að maðurinn var ekki skapaður með ódauðlega sál?
◻ Hvað er ljóst af notkun hebresku og grísku orðanna fyrir „sál“ í Biblíunni?
◻ Hvað segja margir fræðimenn um skilning Biblíunnar á sálinni?
◻ Hve langt aftur í tímann má rekja kenninguna um ódauðlega sál?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Þau eru öll sálir.