Lifir sálin af líkamsdauðann?
„SÁL . . . sá hluti persónunnar sem margir hugsa sér að lifi áfram eftir líkamsdauðann (að eilífu).“ (Orðabók Menningarsjóðs) Flest trúarbrögð eru í aðalatriðum sammála þessari skilgreiningu. New Catholic Encyclopedia segir: „Sú kenning að mannssálin sé ódauðleg og lifi áfram eftir dauða mannsins . . . er einn af hornsteinum kristinnar heimspeki og guðfræði.“
Það kemur þér kannski á óvart að þessi hornsteinn trúarinnar skuli kominn úr heiðinni heimspeki. Löngu fyrir fæðingu Jesú trúðu menn að sálin væri óáþreifanlegt fyrirbæri sem gæti lifað utan líkamans. Hún gat því lifað af líkamsdauðann, lifað áfram sem vofa eða andi.
Grikkir lýstu þessari trúarskoðun með heimspekilegu orðfæri. Haft er eftir hinum kunna gríska heimspekingi Sókratesi: „Sálin . . . ef hún kveður líkamann hrein og dregur ekkert af honum með sér . . . hverfur burt til þess sem er henni líkt, til hins ósýnilega, guðlega, ódauðlega og vitra, og er hún kemur þangað er hún sæl, frelsuð úr fjötrum villu og flónsku og ótta . . og undan öllum öðrum mannlegum meinum og . . . lifir í sannleika eftir það að eilífu með guðunum.“ — Phaedo, 80, D, E; 81, A.
Ekki kenning Biblíunnar
Hvernig bar það til að farið var að kenna þessa heiðnu trú um ódauðleika sálarinnar innan kristna heimsins og gyðingdómsins?
New Catholic Encyclopedia tekur vægar til orða en efni standa til er hún segir: „Sú hugmynd að sálin lifi eftir dauðann kemur ekki skýrt fram í Biblíunni.“ Það væri réttara að segja að kenningin um ódauðleika sálarinnar fyrirfyndist alls ekki í Biblíunni! Þessi alfræðibók viðurkennir: „Hugmyndin um mannssálina er ekki sú sama í Gamlatestamentinu og í grískri heimspeki og nútímaheimspeki.“
Hebreska orðið nefes, almennt þýtt „sál,“ kemur 754 sinnum fyrir í hinu svonefnda Gamlatestamenti. Í þeim hluta Biblíunnar sem nefndur er Nýjatestamentið stendur gríska orðið psykhe, sem þýtt er „sál,“ 102 sinnum. Athyglisverð mynd kemur í ljós er við athugum hvernig þessi orð eru notuð í Biblíunni.
Í 1. Mósebók 2:7 lesum við að Guð hafi blásið lífsanda í nasir Adams og Adam ‚hafi orðið lifandi sál [á hebresku nefes].‘ Taktu eftir því að Adam var ekki gefin sál heldur varð hann sál. Hinn nýskapaði Adam var með öðrum orðum sál! Það kemur því ekki á óvart að í orðaskýringum við íslensku biblíuna frá 1981 skuli standa: „Hebr.: nefes. Merkir persónuna alla, líkama og anda mannsins.“ New Catholic Encyclopedia segir: „Sálin í Gamlatestamentinu merkir ekki hluta mannsins heldur manninn allan — manninn sem lifandi veru.“
Aðrir ritningarstaðir staðfesta það. Þriðja Mósebók 7:20 segir til dæmis: „Hver sá [á hebresku nefes, sál], sem etur kjöt af heillafórn.“ Þriðja Mósebók 23:30 segir: „Og hvern þann [á hebresku nefes, sál], er eitthvert verk vinnur.“ Orðskviðirnir 25:25 segja: „Góður boðskapur af fjarlægu landi er sem kalt vatn þyrstri sálu.“ (Ísl. bi. 1859) Og Sálmur 105:18 segir okkur: „Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann [bókstaflega „sál hans“] var lagður í járn.“ Hvað er það sem getur etið kjöt, unnið, hresst sig með vatni og verið lagt í járn? Er það aðskiljanlegur, andlegur hluti mannsins eða maðurinn sjálfur? Svarið er augljóst.
Athygli vekur að maðurinn er ekki einn um það að vera sál. Fyrsta Mósebók 1:20 segir okkur að á einu sköpunartímabilinu hafi Guð sagt: „Vötnin verði kvik af lifandi skepnum [á hebresku nefes, sálum].“ Já, meira að segja fiskarnir eru sálir! Á öðru sköpunartímabili gaf Guð til kynna að ‚fénaður, skriðkvikindi og villidýr‘ væru sálir! — 1. Mósebók 1:24; samanber 3. Mósebók 11:10, 46; 24:18; 4. Mósebók 31:28; Jobsbók 41:21; Esekíel 47:9.
Í Biblíunni er „sál“ því ekki einhver andi eða vofa sem yfirgefur líkamann við dauðann. Hún merkir persónu eða dýr, eða þá það líf sem persóna eða dýr nýtur.
Hvað gerist eftir dauðann?
Biblían er því greinilega á öndverðum meiði við þá heiðnu hugmynd að maðurinn sé gæddur ódauðlegri sál. Hverjir heldur þú að hafa kennt sannleikann um þetta efni? Heiðnir, grískir heimspekingar eða sáttmálaþjóð Guðs? Auðvitað var það þjóð Guðs sem hann gaf innblásið orð sitt.
Enn er þeirri spurningu ósvarað hvað verði um sálina eftir dauðann. Úr því að sálin er persónan hlýtur að vera ljóst að sálin deyr þegar persónan deyr. Dauð persóna er með öðrum orðum dauð sál. Tugir ritningargreina staðfesta það. „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja,“ segir Esekíel 18:4. Í Dómarabókinni 16:30 lesum við: „Þá mælti Samson: ‚Deyi nú sála mín með Filistum.‘“ Aðrir ritningarstaðir sýna að hægt er að uppræta sálir (1. Mósebók 17:14), fella með sverði (Jósúabók 10:37), þær geta kafnað (Jobsbók 7:15) og drukknað (Jónas 2:5). Látin sál eða dáin sál er dáin persóna. — 3. Mósebók 19:28; 21:1, 11.
Hvert er þá ástand þeirrar sálar sem dáin er? Dauðinn er einfaldlega andstæða lífsins. Öll skilningarvit okkar eru bundin líkamanum. Sjón, heyrn og hugsun er háð því að augu, eyru og heili starfi eðlilega. Án augna sjáum við ekki. Án eyrna heyrum við ekki. Án heila getum við ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Þegar maðurinn deyr hættir starfsemi allra þessara líffæra. Við hættum að vera til.
Í samræmi við það segir Prédikarinn 9:5, 10: „Hinir dauðu vita ekki neitt . . . í dánarheimum [gröfinni], þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ Sálmur 146:3, 4 tekur í sama streng: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt. Andi þeirra [lífskraftur] líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“ Þegar menn (sálir) deyja hætta þeir einfaldlega að vera til.
Frá heiðinni kenningu til kirkjulegs trúaratriðis
‚En kennir ekki Nýjatestamentið ódauðleika sálarinnar?‘ spyrja sumir. Alls ekki. New Catholic Encyclopedia viðurkennir: „Nýjatestamentið fylgir þessum skilningi [Gamlatestamentisins] á dauðanum.“ Með öðrum orðum kennir „Nýjatestamentið“ að sálin deyi. Jesús Kristur sýndi fram á að hann tryði ekki að sálin væri ódauðleg. Hann spurði: „Hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi [á grísku psykhen, sálu] eða deyða?“ (Markús 3:4) Kristni postulinn Páll studdi einnig viðhorf „Gamlatestamentisins“ til sálarinnar með tilvitnun í 1. Mósebók 2:7: „Þannig er og ritað: ‚Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál.‘“ — 1. Korintubréf 15:45.
Hvernig urðu þá hugmyndir Platons að kirkjulegu trúaratriði? Encyclopædia of Religion and Ethics eftir James Hastings svarar: „Er fagnaðarerindi kristninnar gekk út á leikvang Rómaveldis um samkunduhlið Gyðinga stóð sálarhugmynd, er var hebresk í smáu sem stóru, andspænis grísku menningarumhverfi sem hafði ekki lítil áhrif á aðlögunarferlið.“ Kirkjulegir fræðarar freistuðu þess að gera boðskap sinn „skiljanlegan í heimi grískrar hugsunar“ með því að nota „hin viðteknu hugtök og hugmyndir grískrar sálfræði.“ „Sterkra platonskra áhrifa“ fór einnig að gæta í ritum guðfræðinga Gyðinga. — Encyclopædia Judaica.
Kenningu Biblíunnar um sálina var þannig lagt fyrir róða og í staðinn tekin upp kenning sem var greinilega heiðin. Þetta verður með engu móti réttlætt á þeim forsendum að það hafi verið nauðsynlegt til að gera kristnina meðtækilegri fyrir fjöldann. Er Páll postuli prédikaði í Aþenu, miðstöð grískrar menningar, kenndi hann ekki kenningu Platons um sálina. Hann prédikaði hina kristnu kenningu um upprisu, jafnvel þótt margir af Grikkjunum, sem á hann hlýddu, ættu erfitt með að fallast á það sem hann kenndi. — Postulasagan 17:22-32.
Páll postuli varaði sterklega við því að blanda saman sannleika Biblíunnar og heiðni er hann spurði: „Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur? Hver er samhljóðan Krists við Belíar?“ (2. Korintubréf 6:14, 15) Það er engum blöðum um það að fletta að kristni heimurinn hefur svívirt Guð með því að gera heiðna kenningu að hornsteini heimspeki sinnar og guðfræði!
Von hinna dánu
Fólki er frjálst að trúa hverju sem það vill. Því verður þó ekki neitað að kenningin um ódauðleika sálarinnar er óbiblíuleg. Hafa menn þá enga von um líf eftir dauðann?
Eftir að Job spurði: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ svaraði hann spurningunni vegna innblásturs frá Guði. Hann sagði: „Þú [Jehóva] mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:14, 15) Já, Biblían veitir öllum sem Guð man eftir von um upprisu. Hann þráir að vekja upp frá dauðum trúfasta þjóna sína, svo sem Job. Kristur Jesús staðfesti að þessi von væri áreiðanleg er hann sagði: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“ — Jóhannes 5:28, 29.
Jesaja 25:8 lofar að Guð muni „afmá dauðann að eilífu“ þegar sá tími kemur að þessi spádómur rætist. Þá gengur í garð veröld þar sem „dauðinn mun ekki framar til vera,“ eins og Opinberunarbókin 21:4 orðar það. Gætir þú hugsað þér að búa í heimi þar sem ekki væru jarðarfarir, grafreitir og legsteinar, og enginn myndi tárfella af sorg, aðeins gleði?
Vera má að þér hafi verið kennt frá blautu barnsbeini að maðurinn hafi ódauðlega sál. Með því að kynna þér Biblíuna vandlega getur þú byggt upp trú á fyrirheit hennar sem frelsa menn úr fjötrum rangra hugmynda.a Þú getur líka komist að raun um hvað þú þarft að gera til að erfa það sem Biblían lofar, ekki að lifa af líkamsdauðann sem ódauðleg sál heldur öðlast ‚eilíft líf‘ á jörð sem verður paradís! — Jóhannes 17:3; Lúkas 23:43.
[Neðanmáls]
a Þér er velkomið að skrifa útgefendum þessa tímarits eða hafa samband við votta Jehóva á staðnum í næsta Ríkissal, ef þig langar til að fá frekari upplýsingar eða aðstoð.