Paradísarvonin enn í gildi þrátt fyrir óhlýðni mannsins
1. Hvert og í hvaða umhverfi eru mannhjónin komin síðar?
TÍMINN hefur liðið. Maðurinn og konan ganga ekki lengur um saklaus og nakin. Nú eru þau klædd síðum skinnkyrtlum og standa rétt utan inngangsins í Edengarðinn. Þau snúa baki í garðinn og horfa á það sem við þeim blasir. Jörðin er óræktuð svo langt sem augað eygir. Augljóst er að blessun Guðs hvílir ekki yfir þessu landi þyrna og þistla. Er þetta ekki jörðin sem þau áttu að leggja undir sig? Jú, en þau eru ekki þarna til að færa út landamæri Edengarðsins.
2. Hvers vegna reyna maðurinn og konan ekki að komast aftur inn í paradís?
2 Hvers vegna snúa þau ekki aftur inn í paradísargarðinn við þessa dapurlegu sýn? Það er hægara sagt en gert því að bak við þau, við innganginn í garðinn, og einnig inni í garðinum standa sköpunarverur sem þau hafa aldrei áður séð. Þetta eru kerúbar sem varna þeim inngöngu í garðinn, ásamt logandi sverði sem snýst í sífellu. Þau komast aldrei þangað inn aftur! — 1. Mósebók 3:24.
3. Hvers vegna hafa aðstæður Adams og Evu breyst svona mjög?
3 Hvað hefur gerst? Það er enginn leyndardómur sem vísindin hafa staðið ráðþrota frammi fyrir um þúsundir ára. Það á sér einfalda skýringu. Fyrsti maðurinn og konan áttu fyrir sér undursamlega framtíð samhliða því verkefni sem Guð fól þeim á brúðkaupsdegi sínum, að því tilskildu að þau hlýddu himneskum föður sínum í smáu sem stóru. Skilyrðislaus hlýðni þeirra var prófuð með einu og einföldu banni: Þau máttu ekki neyta ávaxtarins af „skilningstrénu góðs og ills.“ (1. Mósebók 2:16, 17) Ef þau gerðu það í bága við bann Guðs myndu þau deyja. Það var það sem Adam, spámaður Guðs, sagði konu sinni sem var honum yngri. En svo undarlegt sem það var mótmælti nashash, þessi höggormur, því að Guð hefði verið að segja Adam satt er hann varaði hann við því að neyta ávaxtarins af „skilningstrénu góðs og ills.“ Höggormurinn taldi konunni trú um að hún myndi verða eins og Guð og verða óháð honum í því að ákveða hvað væri gott og illt, ef hún bryti lög Guðs og æti forboðna ávöxtinn. — 1. Mósebók 3:1-5.
Engin goðsaga
4, 5. Hvernig sýndi Páll postuli að hann leit ekki á frásöguna af því er höggormurinn tældi konuna sem goðsögn?
4 Hljómar þetta ótrúlega? Er það of líkt goðsögu eða þjóðsögu sem ekki er byggð á staðreyndum og upplýst nútímafólk getur þar með ekki viðurkennt? Ekki ef marka má orð víðlesins og trúverðugs rithöfundar, útvalins postula sem þekkti sannleiksgildi þess er hann var að skrifa. Þetta var Páll postuli. Hann skrifaði söfnuði fullvaxta kristinna manna í hinni veraldarvísu Korintuborg: „Ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.“ — 2. Korintubréf 11:3.
5 Páll gat varla verið að vísa hér í helgisögn eða þjóðsögu og nota ímyndaða atburði til að undirstrika það sem hann vildi koma á framfæri við Korintumenn, en þeir þekktu vel goðsagnir hinna heiðnu, grísku trúarbragða. Hann vitnaði í hinar innblásnu Hebresku ritningar, sem hann lýsti vera ‚orð Guðs,‘ og staðfesti að ‚höggormurinn hefði tælt Evu með slægð sinni.‘ (1. Þessaloníkubréf 2:13) Auk þess sagði hann í bréfi til kristins umsjónarmanns er falin var sú ábyrgð að kenna ‚hin heilnæmu orð‘: „Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva. Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg.“ — 2. Tímóteusarbréf 1:13; 1. Tímóteusarbréf 2:13, 14.
6. (a) Í hverju var afbrot Adams gegn Guði ólíkt afbroti konunnar? (b) Hvernig getum við verið viss um að konan var ekki að skálda söguna um höggorminn?
6 Það er engin þjóðsaga að konan hafi verið tæld af höggorminum heldur staðreynd, jafnáreiðanleg og augljósar afleiðingar þess að hún skyldi óhlýðnast og eta forboðinn ávöxtinn. Eftir að hún hafði brotið lög Guðs fékk hún mann sinn til að eta með sér, en hann át ekki af því að hann hafi verið gjörsamlega blekktur. (1. Mósebók 3:6) Frásagan segir að Adam hafi afsakað athæfi sitt við Guð með þessum orðum: „‚Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át.‘ Þá sagði [Jehóva] Guð við konuna: ‚Hvað hefir þú gjört?‘ Og konan svaraði: ‚Höggormurinn tældi mig, svo að ég át.‘“ (1. Mósebók 3:12, 13) Konan var ekki að spinna upp sögu um nashash, höggorminn, og Jehóva Guð tók ekki skýringu hennar sem uppspuna eða lygi. Hann tók á höggorminum eins og hann hefði verið verkfæri í því að tæla konuna til að brjóta gegn honum, Guði hennar og skapara. Það hefði verið virðingu Guðs ósamboðið að skipta sér af höggormi sem var goðsagnavera ein.
7. (a) Hvernig hljóðar dómur Guðs yfir höggorminum? (b) Hvernig getur höggormurinn, sem tældi fyrstu konuna, einnig tælt okkur? (Sjá einnig neðanmálsathugasemd.)
7 Frásagan lýsir dómi Guðs yfir höggorminum í Edengarðinum svo: „Þá sagði [Jehóva] Guð við höggorminn: ‚Af því að þú gjörðir þetta, skalt þú vera bölvaður meðal alls fénaðarins og allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skalt þú skríða og mold eta alla þína lífdaga. Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.‘“ (1. Mósebók 3:14, 15) Sérhver heilvita dómstóll fjallar um staðreyndir og áþreifanleg sönnunargögn, ekki goðsögur. Jehóva Guð var ekki að gera sig að fífli með því að fella dóm yfir goðsögulegum höggormi, heldur var hann að fella dóm yfir raunverulegri sköpunarveru sem hann gat látið standa fyrir verkum sínum. Það væri ekki hlægilegt heldur átakanlegt ef þessi sami höggormur blekkti okkur til að halda að hann hefði aldrei verið til, að hann væri einungis goðsaga og ekki væri hægt að draga hann til ábyrgðar fyrir neitt sem miður hefur farið á jörðinni.a
8. Hvaða dóm felldi Guð yfir konunni og hvaða afleiðingu hafði hann fyrir dætur hennar og dætradætur?
8 Jehóva tók sem staðreynd það sem konan sagði um höggorminn og því segir frásagan: „En við konuna sagði hann: ‚Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.‘“ (1. Mósebók 3:16) Guð hafði ekki sagt neitt þessu líkt er hann blessaði Adam og Evu við brúðkaup þeirra og sagði við þau: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina.“ (1. Mósebók 1:28) Þetta blessunarríka verkefni fyrstu mannhjónanna fól í sér endurtekna þungun og barnsburð en engar ónauðsynlegar kvalir eða þjáningu og enga kúgun af hálfu mannsins. Þessi dómur yfir hinni brotlegu konu átti eftir að hafa áhrif á dætur hennar og dætradætur kynslóð eftir kynslóð.
Dómur Guðs yfir Adam vekur virðingu fyrir lögum Guðs
9, 10. (a) Hvaða aðvörun hafði Adam fengið beint frá Guði og hvaða afleiðingar hefði það ef Guð fullnægði slíkri refsingu? (b) Hvaða dóm felldi Guð yfir Adam?
9 Hvaða breyttum aðstæðum átti konan að deila með manni sínum sem hún hafði fengið til að fylgja sér í syndinni? Guð hafði sagt milliliðalaust við þennan mann: „Af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:17) Ætlaði dómarinn, Guð, að fylgja þessari ströngu og endanlegu refsingu fast eftir úr því að það eina, sem Adam hafði gert af sér, var að bragða á einum ávexti? Hugsaðu þér hvað dómurinn fól í sér! Hann gerði að engu þær björtu framtíðarhorfur sem Adam og Eva áttu fyrir sér á brúðkaupsdegi sínum, þær að fylla jörðina afkomendum sínum þannig að fullkomið mannkyn byggi saman í friði og eilífri æsku á jörð sem væri paradís og ættu friðsamlegt samband við Guð sinn og himneskan föður! Ætlaði Guð að gera að engu hinn dýrlega tilgang sinn með mannkynið og hið jarðneska heimili hans með því að fullnægja dauðadómnum vægðarlaust yfir fyrstu foreldrum alls mannkyns? Hlustaðu á úrskurð Guðs sem stendur skýrum stöfum í frásögn Biblíunnar:
10 „Og við manninn sagði hann: ‚Af því að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af því tré, sem ég bannaði þér, er ég sagði: „Þú mátt ekki eta af því,“ þá sé jörðin bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga. Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar. Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!‘“ — 1. Mósebók 3:17-19.
11. Hvaða atriði varðandi hlýðni sýna að Adam verðskuldaði þann dóm sem hann fékk?
11 Þessi dómur fól í sér að fullnægt yrði dauðarefsingu á manninum, óháð því hvaða afleiðingar það hefði á þann tilgang Guðs að jörðin ætti að verða paradís byggð fullkomnum körlum og konum sem byggju saman í ást og friði að eilífu og yrktu og gættu paradísargarðsins um allan heim. Maðurinn hafði hlýtt röddu konu sinnar í stað Guði sem bannaði honum að eta af „skilningstrénu góðs og ills.“ Og ef hann hlýddi ekki einu sinni raustu Guðs síns og skapara, var þá líklegt að hann myndi kenna börnum sínum að gera það? Myndi fordæmi hans vera þeim hvatning til að hlýða Jehóva Guði? — Samanber 1. Samúelsbók 15:22.
12, 13. (a) Hvernig átti synd Adams eftir að hafa áhrif á börn hans? (b) Hvers vegna verðskuldaði Adam ekki að lifa að eilífu í paradís eða annars staðar á jörðinni?
12 Myndu börn Adams geta hlýtt lögum Guðs fullkomlega eins og hann hafði einu sinni getað í fullkomleika sínum? Myndi ekki erfðalögmálið valda því að hann gæfi börnum sínum í arf veikleika sinn og tilhneigingu til að óhlýðnast röddu Guðs og hlýða einhverri annarri? Mannkynssagan hefur svarað þessum spurningum. — Rómverjabréfið 5:12.
13 Verðskuldaði slíkur maður eilíft líf í paradís eða líf yfirleitt, maður sem hafði látið aðra mannveru koma sér til að hætta fullkominni hlýðni við Guð? Væri óhætt að leyfa honum að lifa eilíflega á jörðinni? Myndi það auka virðingu fyrir lögum Guðs og vitna um algert réttlæti hans ef Adam yrði leyft að lifa eilíflega á jörðinni, eða myndi það spilla virðingu annarra fyrir lögum Guðs og gefa í skyn að orðum Guðs væri ekki treystandi?
Rekin út úr Edengarði
14. Hvernig lýsir Biblían aðgerðum Guðs gegn Adam og konu hans?
14 Biblían segir okkur hvaða ákvörðun Guð tók í þessu máli: „Og [Jehóva] Guð gjörði manninum og konu hans skinnkyrtla og lét þau klæðast þeim. [Jehóva] Guð sagði: ‚Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!‘ Þá lét [Jehóva] Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af. Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré.“ — 1. Mósebók 3:21-24.
15. Hvernig tók Guð tillit til blygðunartilfinningar Adams og Evu vegna nektar þeirra? (b) Hvernig voru fyrstu mannhjónin rekin út úr Eden? (c) Hvaða breyttar aðstæður blöstu við Adam og konu hans utan Edengarðsins?
15 Dómarinn, Guð, tók tillit til þess að syndararnir Adam og Eva skömmuðust sín nú fyrir að vera nakin. Á einhvern ótilgreindan máta lét hann þeim í té síða skinnkyrtla í staðinn fyrir mittisskýlurnar sem þau höfðu gert sér úr fíkjuviðarblöðum. (1. Mósebók 3:7) Skinnkyrtlarnir myndu endast lengur og veita þeim meiri vernd fyrir þyrnum og þistlum og öðru sem gat orðið þeim til meins utan Edengarðsins. Eftir að hafa syndgað höfðu þau fengið slæma samvisku og reynt að fela sig fyrir Guði milli trjánna í Edengarðinum. (1. Mósebók 3:8) Núna, eftir að þau höfðu fengið dóm sinn, knúði Guð þau með einhverjum hætti til að yfirgefa garðinn. Þau voru rekin til austurs og innan skamms voru þau komin út fyrir garðinn og áttu ekki þangað afturkvæmt. Nú myndu þau ekki vinna framar að því að færa út landamæri garðsins uns paradís næði um alla jörðina. Héðan í frá myndu þau eta brauð gert af gróðri jarðar en það myndi ekki viðhalda lífi þeirra til eilífðar. Þeim var meinaður aðgangur að „lífsins tré.“ Að einhverjum tíma liðnum myndu þau deyja!
Upphaflegur tilgangur Jehóva getur ekki brugðist
16. Hvað ákvað Guð ekki að gera og hvers vegna?
16 Ákvað Guð nú með sjálfum sér að eyðileggja jörðina, tunglið, sólina og stjörnurnar í einhverjum alheimshamförum, út af því að þessar tvær sköpunarverur af dufti höfðu syndgað gegn honum? Ef hann hefði gert það, hefði það þá ekki þýtt að hinn stórkostlegi tilgangur hans væri að engu orðinn, aðeins vegna þess sem nashash hafði komið af stað? Gat lítilmótlegur höggormur gert tilgang Guðs að engu? Hann hafði gert Adam og Evu tilgang sinn kunnan á brúðkaupsdegi þeirra er hann blessaði þau og sagði þeim hver væri vilji hans með þau: að uppfylla jörðina fullkomnum mönnum og leggja alla jörðina undir sig þannig að hún yrði eins og Edengarður og drottna í friði yfir hinum óæðri sköpunarverum á jörðinni og í vötnunum. Þetta var stórkostleg framtíðarsýn af því hvernig vilji Guðs yrði fullnaður og hann hafði undirbúið þær þúsundir ára sem sköpunardagarnir sex tóku. Varð hann nú að hverfa frá þessum tilgangi, aðeins vegna höggorms og þess að fyrstu mannhjónin höfðu brugðist? Tæplega! — Samanber Jesaja 46:9-11.
17. Hvað hafði Guð ákveðið í sambandi við sjöunda daginn og hvernig mun honum því ljúka?
17 Enn stóð sjöundi dagurinn, hvíldardagur Jehóva Guðs. Hann hafði ákveðið að blessa þennan dag og helga hann. Hann myndi ekki láta neitt verða til þess að dagurinn yrði bölvaður og ef einhver reyndi að kalla bölvun yfir hvíldardag hans myndi hann vinna gegn því og breyta bölvuninni í blessun, þannig að dagurinn yrði blessaður er hann væri á enda. Eftir þennan hvíldardag myndi öll jörðin verða heilög og fullkomið mannkyn gera vilja Guðs á jörðinni eins og hann er gerður á himni. — Samanber Matteus 6:10.
18, 19. (a) Hvers vegna geta þjáðir afkomendur hinna fyrstu syndara verið vongóðir? (b) Hvað mun Varðturninn halda áfram að fjalla um?
18 Guð var ekki í vafa um hvað hann ætlaði að gera. Hann sneri ekki baki við tilgangi sínum. Hann ákvað að upphefja sig sem hinn áreiðanlega Guð er bæði hefur tilgang og framfylgir þeim tilgangi, sjálfum sér til heiðurs. (Jesaja 45:18) Ófullkomnir og þjáðir afkomendur hinna fyrstu, syndugu foreldra mannsins geta því glaðst og hlakkað til þess að Guð framfylgi upprunalegum tilgangi sínum þeim til eilífrar blessunar. Nú þegar eru liðnar þúsundir ára af hvíldardegi hans og síðasti hlutinn, sem mun njóta sérstakrar blessunar hans, er í nánd. „Kveld“ hvíldardags hans nálgast og „morgunn“ hlýtur að taka við, alveg eins og á hinum sköpunardögunum sex. Þegar þessi „morgunn“ hefur náð hámarki, svo að hægt verður að sjá allt það sem gert hefur verið samkvæmt óbreytanlegum tilgangi Guðs, þá verður hægt að færa í letur: ‚Og það varð kvöld og það varð morgunn, hinn sjöundi dagur.‘ Það eru stórkostlegar framtíðarhorfur!
19 Allt er þetta mjög spennandi umhugsunarefni. Í þessu tölublaði Varðturnsins verður haldið áfram að fjalla um þá hrífandi framtíð sem bíður hlýðinna manna, þeirra sem elska lög Guðs.
[Neðanmáls]
a Í Opinberunarbókinni 12:9 er talað um Satan djöfulinn sem ‚hinn gamla höggorm‘ og í Jóhannesi 8:44 talar Jesús Kristur um hann sem ‚lyginnar föður.‘
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna misstu fyrstu mannlegu hjónin paradísarheimili sitt?
◻ Hvernig vitum við að frásagan af því er höggormurinn tældi Evu er ekki goðsaga?
◻ Hvaða dóm felldi Guð yfir konunni?
◻ Hvaða dóm felldi Guð yfir Adam og hvernig jók það virðingu fyrir lögum hans?
◻ Hvers vegna gafst Guð ekki upp á þeim tilgangi sínum að gera jörðina að paradís byggða fullkomnum mönnum?