Gleðstu í þekkingunni á Jehóva
„Sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ — LÚKAS 11:28.
1. Hvenær byrjaði Jehóva að hafa samband við mennina?
JEHÓVA elskar mennina og er mjög annt um velferð þeirra. Það er því eðlilegt að hann skuli hafa samband við þá og upplýsa þá um margt. Hann byrjaði á því strax í Eden. Samkvæmt 1. Mósebók 3:8 gerðist það dag einn „í kveldsvalanum“ að Adam og Eva „heyrðu til [Jehóva] Guðs.“ Sumir segja þetta benda til þess að Jehóva hafi að staðaldri haft samband við Adam á þessum tíma, ef til vill daglega. Hvernig sem það var er ljóst af Biblíunni að Guð tók sér tíma til að fræða fyrsta manninn og kenna honum það sem hann þurfti að vita til að gegna skyldum sínum. — 1. Mósebók 1:28-30.
2. Hvernig slitu fyrstu mennirnir sig úr tengslum við handleiðslu Jehóva og með hvaða afleiðingum?
2 Jehóva gaf Adam og Evu lífið, fól þeim yfirráð yfir dýrunum og vald yfir allri jörðinni. Aðeins eitt bann var sett sem var það að þau máttu ekki borða ávöxtinn af skilningstrénu góðs og ills. Undir áhrifum Satans óhlýðnuðust þau skipun Guðs. (1. Mósebók 2:16, 17; 3:1-6) Þau völdu að vera óháð honum og ákveða sjálf hvað væri rétt og rangt. Það var heimskulegt því að þar með slitu þau sig úr tengslum við ástríka handleiðslu skapara síns. Það hafði hrikalegar afleiðingar fyrir þau og ófædda afkomendur þeirra. Adam og Eva eltust og dóu án upprisuvonar. Afkomendur þeirra erfðu syndina og dauðann sem er afleiðing hennar. — Rómverjabréfið 5:12.
3. Af hverju talaði Jehóva við Kain og hvernig tók Kain því?
3 Þrátt fyrir uppreisnina í Eden hélt Jehóva áfram að eiga samskipti við mennina. Syndin var langt komin með að yfirbuga Kain, frumgetinn son Adams og Evu og Jehóva varaði hann við því að hann væri á hættulegri braut og ráðlagði honum að ‚gera rétt.‘ Kain hafnaði þessu kærleiksráði og myrti bróður sinn. (1. Mósebók 4:3-8) Fyrstu þrír mennirnir á jörðinni forsmáðu þannig skýra handleiðslu lífgjafans sem kennir þjónum sínum það sem þeim er gagnlegt. (Jesaja 48:17) Jehóva hlýtur að hafa verið mjög vonsvikinn.
Jehóva opinberast mönnum til forna
4. Hverju treysti Jehóva í sambandi við afkomendur Adams og hvaða von boðaði hann þeim?
4 Jehóva hætti ekki að eiga samskipti við mennina þó að það hefði verið fullkomlega réttmætt. Hann treysti því að sumir afkomendur Adams myndu sýna þá visku að fylgja handleiðslu sinni. Er hann felldi dóminn yfir Adam og Evu boðaði hann til dæmis að fram kæmi ‚sæði‘ til að standa gegn höggorminum sem var Satan djöfullinn. Að lokum yrði höfuð Satans marið honum til bana. (1. Mósebók 3:15) Spádómurinn var gleðilegur vonarboðskapur í eyrum ‚þeirra sem heyrðu Guðs orð og varðveittu það.‘ — Lúkas 11:28.
5, 6. Hvernig kom Jehóva vilja sínum á framfæri við þjóna sína fyrir komu Messíasar og hvernig nutu þeir góðs af?
5 Jehóva kom vilja sínum á framfæri við trúfasta ættfeður, svo sem Nóa, Abraham, Ísak, Jakob og Job. (1. Mósebók 6:13; 2. Mósebók 33:1; Jobsbók 38:1-3) Síðar lét hann Móse færa Ísraelsmönnum heilan lagabálk. Móselögin voru þeim til gagns á marga vegu. Með því að fylgja þeim héldu þeir sér aðgreindum frá öllum öðrum og voru kjörþjóð Guðs. Guð fullvissaði þá um að hann myndi blessa þá bæði efnislega og andlega og gera þá að prestaríki og heilagri þjóð, ef þeir hlýddu lögum hans. Í lögmálinu voru meira að segja ákvæði um mataræði og hreinlæti sem stuðluðu að góðu heilsufari. En Jehóva varaði líka við því að það hefði slæmar afleiðingar að óhlýðnast. — 2. Mósebók 19:5, 6; 5. Mósebók 28:1-68.
6 Smám saman bættust fleiri innblásnar bækur við helgiritasafn Biblíunnar. Þetta voru sögurit sem fjölluðu um samskipti Jehóva við þjóðir, ljóðræn rit sem lýstu eiginleikum hans í fögru máli og spádómsbækur sem lýstu því hvernig vilja hans myndi vinda fram með tíð og tíma. Trúfastir menn til forna rannsökuðu þessi innblásnu rit vandlega og fóru eftir þeim. Einn skrifaði: „Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ (Sálmur 119:105) Jehóva fræddi og upplýsti þá sem vildu hlusta.
Ljósið verður skærara
7. Fyrir hvað var Jesús fyrst og fremst þekktur, þótt hann ynni kraftaverk? Skýrðu svarið.
7 Á fyrstu öld voru trúarhópar Gyðinga búnir að bæta erfikenningum manna við lögmálið. Lögmálinu var misbeitt og erfikenningarnar gerðu það þjakandi en ekki fræðandi. (Matteus 23:2-4) En Jesús kom fram sem Messías árið 29. Verkefni hans var ekki einasta að gefa líf sitt fyrir mannkynið heldur einnig að ‚bera sannleikanum vitni.‘ Þótt hann ynni mörg kraftaverk var hann fyrst og fremst þekktur sem „meistari“ eða kennari. Kennsla hans var eins og ljós sem skein gegnum hið andlega myrkur í hugum manna. Hann sagðist réttilega vera „ljós heimsins.“ — Jóhannes 8:12; 11:28; 18:37.
8. Hvaða innblásnar bækur voru ritaðar á fyrstu öld og hvaða gagn höfðu frumkristnir menn af þeim?
8 Síðar bættust guðspjöllin við, frásögurnar fjórar af ævi Jesú, og Postulasagan sem lýsir útbreiðslu kristninnar eftir dauða Jesú. Lærisveinum hans var einnig innblásið að skrifa bréf og hina spádómlegu Opinberunarbók. Þessi rit, ásamt hinum hebresku, mynduðu til samans helgiritasafn Biblíunnar. Með hjálp þessa innblásna bókasafns gátu kristnir menn ‚skilið, ásamt öllum heilögum, hve sannleikurinn er víður og langur, hár og djúpur.‘ (Efesusbréfið 3:14-18) Þeir gátu haft „huga Krists.“ (1. Korintubréf 2:16) En frumkristnir menn skildu ekki ásetning Jehóva að öllu leyti. „Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá,“ skrifaði Páll postuli trúbræðrum sínum. (1. Korintubréf 13:12) Þessi skuggsjá var málmspegill sem speglaði útlínur en ekki öll smáatriði. Fyllri skilningur á orði Guðs kæmi síðar.
9. Hvað hefur verið upplýst „á síðustu dögum“?
9 Við lifum nú tíma sem kallast ‚síðustu dagar‘ og þeir eru ‚örðugir.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Spámaðurinn Daníel sagði fyrir að ‚þekkingin myndi vaxa‘ á þessu tímaskeiði. (Daníel 12:4) Jehóva hefur því hjálpað hjartahreinum mönnum að skilja orð sitt. Mikill fjöldi manna skilur nú að Kristur Jesús var krýndur á himnum árið 1914, ósýnilegur mönnum. Þeir vita líka að hann mun bráðlega binda enda á alla illsku og breyta jörðinni í paradís. Þetta er mikilvægur þáttur fagnaðarerindisins um ríkið sem verið er að prédika út um heim allan. — Matteus 24:14.
10. Hvernig hefur fólk brugðist við ráðum Jehóva í aldanna rás?
10 Jehóva hefur sem sagt alla söguna opinberað fólki á jörðinni vilja sinn og ásetning. Biblían segir frá mörgum sem hlustuðu, tóku visku Guðs til sín og hlutu blessun fyrir. Hún segir líka frá fólki sem hafnaði kærleiksráðum Guðs og fylgdi skaðræðisstefnu Adams og Evu. Jesús lýsti þessu ástandi er hann talaði um tvo táknræna vegi. Annar er víður og breiður og liggur til glötunar. Margir hafna orði Guðs og fara hann. Hinn er mjór og liggur til eilífs lífs. Hann fara þeir fáu sem viðurkenna að Biblían sé orð Guðs og lifa í samræmi við hana. — Matteus 7:13, 14.
Verum þakklát fyrir það sem við höfum
11. Merki hvers er það að við skulum þekkja Biblíuna og trúa á hana?
11 Hefur þú valið veginn til lífsins? Ef svo er viltu áreiðanlega halda þig á honum. Hvernig geturðu gert það? Hugsaðu oft og með þakklæti til þess hvílíka blessun sannleikur Biblíunnar hefur fært þér. Það er eitt merki blessunar Guðs að þú skulir hafa tekið við fagnaðarerindinu. Jesús gaf það í skyn er hann bað til föður síns: „Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.“ (Matteus 11:25) Fiskimenn og tollheimtumenn skildu það sem Jesús kenndi en hámenntaðir trúarleiðtogar ekki. Jesús sagði einnig: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ (Jóhannes 6:44) Ef þú hefur kynnst Biblíunni, trúir kenningum hennar og fylgir þeim, þá er það merki þess að Jehóva hafi dregið þig til sín. Og það er fagnaðarefni.
12. Hvernig upplýsir Biblían okkur?
12 Orð Guðs inniheldur frelsandi og fræðandi sannleika. Þeir sem lifa eftir þekkingu sinni á Biblíunni eru frjálsir undan hjátrú, falskenningum og fáfræði sem stjórnar lífi milljóna. Þeir sem vita sannleikann um sálina óttast til dæmis ekki að hinir dánu geti gert okkur mein eða að látnir ættingjar þjáist. (Esekíel 18:4) Að þekkja sannleikann um illa engla forðar okkur frá háskalegum spíritisma. Upprisukenningin hughreystir þá sem misst hafa ástvin í dauðann. (Jóhannes 11:25) Biblíuspádómar sýna hvar við stöndum í framrás tímans og gefa okkur traust á fyrirheitum Guðs um framtíðina. Og þeir styrkja vonina um eilíft líf.
13. Hvernig er það heilsusamlegt að fylgja orði Guðs?
13 Meginreglur Guðs í Biblíunni kenna okkur að lifa sjálfum okkur til góðs. Við lærum til dæmis að forðast athafnir sem saurga líkamann, svo sem notkun tóbaks og fíkniefna. Við misnotum ekki áfengi. (2. Korintubréf 7:1) Að fara eftir siðferðisreglum Guðs er vernd gegn samræðissjúkdómum. (1. Korintubréf 6:18) Ef við forðumst fégirnd, eins og Guð ráðleggur, spillum við ekki hugarró okkar eins og margir gera sem vilja verða ríkir. (1. Tímóteusarbréf 6:10) Hvernig hefurðu gert sjálfum þér gott með því að fara eftir orði Guðs?
14. Hvaða áhrif hefur heilagur andi á líf okkar?
14 Guð gefur okkur heilagan anda sinn ef við lifum í samræmi við orð hans. Við þroskum með okkur kristinn persónuleika sem einkennist af aðlaðandi eiginleikum eins og miskunn og umhyggjusemi. (Efesusbréfið 4:24, 32) Andi Guðs ber ávöxt sinn — kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Þessir eiginleikar stuðla að góðu og innihaldsríku sambandi við aðra, þar á meðal fjölskylduna. Við öðlumst innri styrk sem hjálpar okkur að mæta þrengingum með hugrekki. Kemurðu auga á hvernig heilagur andi hefur bætt líf þitt?
15. Hvernig er það til góðs að laga líf sitt að vilja Guðs?
15 Við styrkjum sambandið við Guð þegar við lögum líf okkar að vilja hans. Við verðum æ sannfærðari um að hann skilji okkur og elski. Við lærum af reynslunni að hann styður okkur í erfiðleikum. (Sálmur 18:19) Við finnum að hann hlustar raunverulega á bænir okkar. (Sálmur 65:3) Við förum að reiða okkur á leiðsögn hans því að við treystum að hún sé til góðs. Og við berum í brjósti þá dýrlegu von að með tíð og tíma fullkomni Guð trúa þjóna sína og veiti þeim eilíft líf að gjöf. (Rómverjabréfið 6:23) „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. (Jakobsbréfið 4:8) Hefurðu nálægt þig Jehóva og fundið samband þitt við hann styrkjast?
Óviðjafnanlegur fjársjóður
16. Hvernig breyttu sumir sér á fyrstu öld?
16 Páll minnti andasmurða kristna menn á það að sumir þeirra hefðu verið saurlífismenn, hórkarlar, kynvillingar, þjófar, ágjarnir, drykkjumenn, lastmálir og ræningjar áður fyrr. (1. Korintubréf 6:9-11) Sannleikur Biblíunnar gerbreytti þeim; þeir ‚létu laugast.‘ Reyndu að ímynda þér hvernig lífið væri hjá þér án hins frelsandi sannleika sem þú hefur lært af Biblíunni. Sannleikurinn er óviðjafnanlegur fjársjóður, og við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að opinbera okkur hann.
17. Hvaða andlega næringu hafa vottar Jehóva fengið á safnaðarsamkomum?
17 Hugsaðu um ánægjuna sem við njótum innan bræðrafélagsins. Þar er fólk af öllum kynþáttum. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ ber fram andlegan mat á réttum tíma, þar á meðal biblíur, tímarit og önnur rit á fjölda tungumála. (Matteus 24:45-47) Á safnaðarsamkomum ársins 2000 fóru vottar Jehóva víða um lönd yfir átta af hinum stærri bókum Biblíunnar. Þeir kynntu sér ævi og þjónustu 40 biblíupersóna sem fjallað er um í bókinni Insight on the Scriptures. Þeir fóru yfir um það bil fjórðung bókarinnar Mesta mikilmenni sem lifað hefur og næstum alla bókina Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar. Farið var yfir 36 aukagreinar í tímaritinu Varðturninn, auk 52 námsgreina. Og fólk Jehóva fékk andlega næringu í 12 tölublöðum Ríkisþjónustu okkar og vikulegum opinberum fyrirlestrum um margs kyns biblíuefni. Þetta er ekkert smáræði af andlegri þekkingu!
18. Hvaða stuðning veitir kristni söfnuðurinn?
18 Meira en 91.000 söfnuðir um heim allan veita þjónum Guðs hvetjandi fræðslu á samkomum og góðan félagsskap. Við njótum stuðnings þroskaðra trúbræðra sem eru reiðubúnir að styrkja okkur andlega. (Efesusbréfið 4:11-13) Já, þekkingin á sannleikanum hefur gert okkur mikið gagn. Það er gleðilegt að þekkja Jehóva og þjóna honum. Það er mikill sannleikur í orðum sálmaritarans sem sagði: „Sæl er sú þjóð, sem á [Jehóva] að Guði.“ — Sálmur 144:15.
Manstu?
• Við hverja átti Jehóva samskipti á forkristnum tíma?
• Hvernig varð andlega ljósið sterkara á fyrstu öld? Í nútímanum?
• Hvaða blessun fylgir því að lifa í samræmi við þekkinguna á Jehóva?
• Af hverju gleðjumst við í þekkingunni á Guði?
[Myndir á blaðsíðu 8]
Jehóva opinberaði Móse, Nóa og Abraham vilja sinn.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Jehóva hefur varpað ljósi á orð sitt nú á dögum.
[Myndir á blaðsíðu 10]
Í bræðrafélagi okkar er fólk af öllum kynþáttum.