Er eilíft líf mögulegt?
„Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ — MATTEUS 19:16.
1. Hvað má segja um æviskeið mannsins?
XERXES Persakonungur, þekktur í Biblíunni undir heitinu Ahasverus, var að gera liðskönnun fyrir orustu árið 480 f.o.t. (Esterarbók 1:1, 2) Að sögn gríska sagnfræðingsins Heródótusar tárfelldi konungurinn er hann horfði á menn sína. Af hverju? „Það hryggir mig,“ sagði Xerxes, „að íhuga hið stutta æviskeið mannsins. Eftir hundrað ár verður enginn þessara manna á lífi.“ Þú hefur sjálfsagt líka fundið fyrir því hve lífið er átakanlega stutt, og að engan langar til að verða gamall, veikjast og deyja. Bara að við gætum lifað endalaust við heilsu og hamingju æskunnar! — Jobsbók 14:1, 2.
2. Hvaða von bera margir í brjósti og hvers vegna?
2 Tímaritið The New York Times Magazine birti athyglisverða grein hinn 28. september 1997 sem hét: „Þeir vilja lifa.“ Hún vitnaði í vísindamann sem sagði: „Ég tel í fullri alvöru að við getum orðið fyrsta kynslóðin sem lifir eilíflega.“ Kannski telur þú líka að eilíft líf sé mögulegt, ef til vill vegna þess að Biblían lofar því að við getum lifað að eilífu hér á jörð. (Sálmur 37:29; Opinberunarbókin 21:3, 4) En sumir, sem trúa að eilíft líf sé mögulegt, byggja það á öðrum forsendum en Biblíunni. Ef við skoðum fáeinar þeirra gerum við okkur grein fyrir að eilíft líf er mögulegt í raun og veru.
Gerð til að lifa eilíflega
3, 4. (a) Af hverju telja sumir að við ættum að geta lifað eilíflega? (b) Hvað sagði Davíð um myndun sína?
3 Ein ástæðan fyrir því að margir telja að menn ættu að geta lifað að eilífu er sú hve undursamlega við erum úr garði gerð. Til dæmis er það algert kraftaverk hvernig við myndumst í móðurkviði. Þekktur heimildarmaður á sviði öldrunar segir: „Eftir að hafa unnið þau kraftaverk, sem fleyta okkur frá getnaði til fæðingar og síðan til kynþroska og fullorðinsaldurs, kaus náttúran að finna ekki upp það sem telja mætti einfaldara gangverk, til að halda þessum kraftaverkum hreinlega gangandi að eilífu.“ Já, þegar litið er á hve undursamlega við erum úr garði gerð er sú spurning áleitin hvers vegna við þurfum að deyja.
4 Biblíuritarinn Davíð ígrundaði þessi kraftaverk fyrir þúsundum ára þótt hann gæti ekki séð bókstaflega inn í móðurkviðinn eins og vísindamenn geta núna. Davíð velti fyrir sér hvernig hann hefði sjálfur myndast er hann var ‚ofinn í móðurlífi‘ eins og hann orðaði það. Hann sagði að ‚nýru sín hefðu verið mynduð‘ á þeim tíma. Hann talaði um myndun ‚beina‘ sinna er hann var „gjörður í leyni.“ Hann talaði um sig sem „fóstur“ og sagði að ‚allir hlutar þess hafi verið skrifaðir niður.‘ — Sálmur 139:13-16, NW.
5. Hvaða kraftaverk eiga sér stað þegar við myndumst í móðurkviði?
5 Augljóst er að það var engin bókstafleg, handgerð teikning af því hvernig Davíð myndaðist í móðurkviði. En þegar hann hugleiddi myndun ‚nýrna‘ sinna, ‚beina‘ og annarra líkamshluta virtist honum sem þeir væru myndaðir samkvæmt áætlun — að allt væri eins og ‚skrifað niður.‘ Það var engu líkara en að hin frjóvgaða fruma inni í móður hans væri með stóran sal fullan af bókum með ítarlegum fyrirmælum um það hvernig mynda ætti mannsbarn, og þessi flóknu fyrirmæli virtust ganga áfram til hverrar nýrrar frumu. Þess vegna tekur tímaritið Science World svo til orða að ‚sérhver fruma í vaxandi fóstri sé með fullan skáp af teikningum.‘
6. Hvað sýnir að við erum ‚undursamlega gerð‘ eins og Davíð skrifaði?
6 Hefurðu nokkurn tíma hugsað um hina undraverðu starfsemi mannslíkamans? Líffræðingurinn Jared Diamond segir: „Við endurnýjum frumurnar í slímhúð þarmanna á nokkurra daga fresti, í slímhúð þvagblöðrunnar á tveggja mánaða fresti og rauðu blóðkornin á fjögurra mánaða fresti.“ Hann bætir við: „Náttúran tekur okkur sundur og setur saman aftur á hverjum degi.“ Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að óháð því hve mörg ár við höfum lifað — hvort sem þau eru 8, 80 eða 800 — er líkaminn alltaf mjög ungur. Vísindamaður áætlaði einu sinni að ‚á einu ári séu 98 prósent atóma í okkur endurnýjuð með atómum sem við vinnum úr lofti, mat og drykk.‘ Já, eins og Davíð orðaði það í lofsöng erum við ‚undursamlega gerð.‘ — Sálmur 139:14.
7. Hvaða ályktanir hafa sumir dregið af gerð mannslíkamans?
7 Miðað við hönnun mannslíkamans sagði heimildarmaður á sviði öldrunar: „Það er ekki ljóst hvers vegna öldrun á að eiga sér stað.“ Það virðist raunar sem við ættum að lifa eilíflega. Og þess vegna beita menn tækninni til að reyna að ná þessu markmiði. Fyrir allnokkrum árum skrifaði Alvin Silverstein, læknir, sjálfsöruggur í bók sinni Conquest of Death: „Við munum skilja eðli lífsins. Við munum skilja . . . hvernig maðurinn hrörnar.“ Og hver verður árangurinn? Hann spáði: „Þá verður ‚gamalt‘ fólk ekki til framar, því að þekkingin sem gerir okkur kleift að sigra dauðann hefur einnig eilífa æsku í för með sér.“ Er það nokkuð svo langsótt að hugsa sér eilíft líf þegar litið er á vísindarannsóknir á gerð mannslíkamans? En það er önnur og enn veigameiri ástæða til að trúa að eilíft líf sé mögulegt.
Löngunin til að lifa að eilífu
8, 9. Hvaða von hefur verið manninum eðlislæg alla mannkynssöguna?
8 Hefurðu veitt því athygli hve löngunin til að lifa eilíflega er manninum eðlileg? Læknir sagði í þýsku tímariti: „Draumurinn um eilíft líf er sennilega jafngamall mannkyninu.“ Alfræðibókinn The New Encyclopædia Britannica lýsir hugmyndum ákveðinna Evrópubúa til forna svo: „Þeir maklegu lifa að eilífu í skínandi bústað með gullþekju.“ Og það er ekki lítið sem fólk hefur gert til að reyna að svala lönguninni í eilíft líf!
9 Alfræðibókin Encyclopedia Americana segir að í Kína fyrir rúmum 2000 árum hafi „jafnt keisarar sem [almúginn] undir forystu taóistapresta vanrækt vinnuna til að leita að lífselixír“ — hinum svonefnda æskubrunni. Alla mannkynssöguna hefur fólk trúað því að það gæti verið síungt með því að drekka ýmiss konar seyði eða jafnvel með því að drekka sérstakt vatn.
10. Hvað hefur verið reynt á síðari tímum til að lengja líf manna?
10 Tilraunir manna nú á tímum til að svala eðlislægri löngun í eilíft líf eru ekki síður eftirtektarverðar. Alþekkt dæmi er að fólk, sem verður sjúkdómum að bráð, er fryst í von um að hægt sé að lífga það aftur í framtíðinni þegar lækning hefur fundist við sjúkdómunum. Talsmaður þessarar frerageymslu skrifaði: „Ef bjartsýni okkar reynist á rökum reist og menn öðlast þekkingu á því hvernig hægt sé að lækna eða bæta allan skaðann — að ellihrörnun meðtalinni — þá öðlast þeir sem ‚deyja‘ núna óendanlegt líf í framtíðinni.“
11. Af hverju þráir fólk að lifa endalaust?
11 Þér er kannski spurn hvers vegna þessi löngun í eilíft líf sé svona samgróin hugsun okkar. Það er vegna þess að ‚Guð hefur lagt eilífðina í brjóst okkar.‘ (Prédikarinn 3:11) Þetta er sannarlega umhugsunarvert! Hugsaðu þér: Af hverju er okkur ásköpuð löngun í eilíft líf ef það var ekki ætlun skaparans að svala henni? Og væri það kærleiksríkt af honum að áskapa okkur löngun í eilíft líf og valda okkur svo vonbrigðum með því að leyfa okkur aldrei að fullnægja henni?
Hverjum eigum við að treysta?
12. Hverju trúa sumir en finnst þér það á rökum reist?
12 Á hvað eða hvern ættum við þá að treysta til að veita okkur eilíft líf? Á mannlega tækniþekkingu 20. eða 21. aldarinnar? Greinin „Þeir vilja lifa“ í tímaritinu The New York Times Magazine talaði um „nýjan guðdóm — tæknina“ og „ákafann sem tengist möguleikum tækninnar.“ Það var jafnvel sagt að vísindamaður nokkur „héldi því blákalt fram . . . að erfðatæknin verði tiltæk nógu snemma til að bjarga [okkur] með því að stöðva öldrunina og jafnvel snúa henni við.“ Veruleikinn er þó sá að menn hafa reynst algerlega ófærir um að stöðva öldrun eða sigrast á dauðanum.
13. Hvernig sýnir gerð heilans að okkur var ætlað eilíft líf?
13 Þýðir þetta að það sé engin leið til að öðlast eilíft líf? Aldeilis ekki! Leiðin er til! Stórkostleg gerð heilans og næstum ótakmörkuð hæfni hans til þekkingaröflunar ætti að sannfæra okkur um það. Sameindalíffræðingurinn James Watson kallaði mannsheilann „það flóknasta sem við höfum hingað til uppgötvað í alheiminum.“ Og taugasjúkdómafræðingurinn Richard Restak sagði: „Hvergi í hinum þekkta alheimi er nokkuð sem líkist honum hið minnsta.“ Hvers vegna skyldum við hafa heila sem getur tileinkað sér nánast ótakmarkaðar upplýsingar og líkama sem er hannaður til að lifa endalaust, hafi okkur ekki verið ætlað að lifa endalaust?
14. (a) Hver er niðurstaða biblíuritara í sambandi við líf mannsins? (b) Af hverju ættum við að treysta á Guð en ekki menn?
14 Hver er þá eina skynsamlega og raunhæfa niðurstaðan? Er hún ekki sú að við séum hönnuð af alvöldum og snjöllum skapara til að lifa eilíflega? (Jobsbók 10:8; Sálmur 36:10; 100:3; Malakí 2:10; Postulasagan 17:24, 25) Er þá ekki viturlegt af okkur að fara eftir innblásnum fyrirmælum sálmaritarans í Biblíunni: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt“? Hvers vegna eigum við ekki að treysta mönnum? Vegna þess að „andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu,“ segir sálmaritarinn. Enda þótt maðurinn eigi að geta lifað eilíflega er hann hjálparvana frammi fyrir dauðanum. Sálmaritarinn ályktar svo: „Sæll er sá . . . er setur von sína á [Jehóva], Guð sinn.“ — Sálmur 146:3-5.
Er það virkilega ætlun Guðs?
15. Hvað sýnir að það er ætlun Guðs að við lifum að eilífu?
15 En þú kannt að spyrja hvort það sé virkilega ætlun Guðs að við öðlumst eilíft líf? Já, orð hans tekur það margoft fram. „Náðargjöf Guðs er eilíft líf,“ segir Biblían. Jóhannes, þjónn Guðs, skrifaði: „Þetta er fyrirheitið, sem hann [Guð] gaf oss: Hið eilífa líf.“ Því er engin furða að ungur maður skyldi spyrja Jesú: „Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ (Rómverjabréfið 6:23; 1. Jóhannesarbréf 2:25; Matteus 19:16) Páll postuli talaði meira að segja um „von um eilíft líf. Því hefur Guð, sá er ekki lýgur, heitið frá eilífum tíðum.“ — Títusarbréfið 1:2.
16. Í hvaða skilningi kann Guð að hafa heitið eilífu lífi „frá eilífum tíðum“?
16 Hvað merkir það að Guð hafi heitið eilífu lífi „frá eilífum tíðum“? Sumir halda að Páll postuli sé að lýsa því að það hafi verið ætlun Guðs, áður en Adam og Eva urðu til að láta menn lifa eilíflega. En sé Páll að segja að Jehóva hafi látið þennan tilgang sinn í ljós einhvern tíma eftir að mennirnir voru skapaðir, þá er ljóst að það er enn þá vilji Guðs að menn hljóti eilíft líf.
17. Hvers vegna voru Adam og Eva rekin út úr Edengarðinum og hvers vegna voru kerúbar látnir standa vörð við innganginn?
17 Biblían segir að í Edengarðinum hafi ‚Jehóva Guð látið upp vaxa af jörðinni lífsins tré í miðjum aldingarðinum.‘ Adam var rekinn út úr garðinum til þess að hann „rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi“ — já, eilíflega! Eftir að Adam og Eva voru rekin út úr Edengarðinum setti Jehóva „kerúbana . . . og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré.“ — 1. Mósebók 2:9; 3:22-24.
18. (a) Hvaða þýðingu hefði það haft fyrir Adam og Evu að borða af lífsins tré? (b) Hvað táknaði það að borða af trénu?
18 Hvað hefði það þýtt fyrir Adam og Evu ef þeim hefði verið leyft að borða af lífsins tré? Nú, þau hefðu fengið þau sérréttindi að lifa eilíflega í paradís! Biblíuskýrandi kom einu sinni með þessa getgátu: „Lífsins tré hlýtur að hafa búið yfir einhvers konar mætti sem átti að bægja ellihrörnun frá mannslíkamanum eða þeirri hnignun sem leiðir til dauða.“ Hann fullyrti jafnvel að „í paradís hafi máttur jurta verið þess megnugur að sporna gegn áhrifum“ ellinnar. En Biblían segir ekki að lífsins tré hafi í sjálfu sér getað gefið mönnum líf. Það táknaði einfaldlega tryggingu Guðs fyrir eilífu lífi handa þeim sem fengju leyfi til að neyta ávaxtar þess. — Opinberunarbókin 2:7.
Tilgangur Guðs óbreyttur
19. Af hverju dó Adam og af hverju deyjum við, afkomendur hans, líka?
19 Þegar Adam syndgaði glataði hann rétti sínum til eilífs lífs og sömuleiðis rétti allra ófæddra afkomenda sinna. (1. Mósebók 2:17) Þegar hann varð syndari vegna óhlýðni sinnar varð hann gallaður, ófullkominn. Frá þeirri stundu má segja að dauðinn hafi verið forritaður í líkama Adams. „Laun syndarinnar er dauði,“ eins og Biblían segir. (Rómverjabréfið 6:23) Og ófullkomnir afkomendur Adams voru líka forritaðir til dauða en ekki eilífs lífs. Biblían segir: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann [Adam] og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ — Rómverjabréfið 5:12.
20. Hvað bendir til að okkur mönnunum hafi verið ætlað eilíft líf á jörðinni?
20 En hvernig hefði farið hefði Adam ekki syndgað? Hvernig hefði farið ef hann hefði ekki óhlýðnast Guði og fengið leyfi til að borða af lífsins tré? Hvar hefði hann notið gjafar Guðs, eilífs lífs? Á himnum? Nei! Guð sagði ekkert um að Adam færi til himna. Honum var fengið verk að vinna hér á jörðinni. Biblían segir: „[Jehóva] Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af“ og heldur áfram: „Þá tók [Jehóva] Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.“ (1. Mósebók 2:9, 15) Eftir að Eva var sköpuð sem maki Adams var þeim báðum fengið viðbótarverkefni hér á jörðinni. Guð sagði þeim: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ — 1. Mósebók 1:28.
21. Hvaða stórkostlegar framtíðarhorfur áttu fyrstu mennirnir?
21 Hugsaðu þér hve stórkostlegar framtíðarhorfur þessi fyrirmæli Guðs veittu Adam og Evu hér á jörð. Þau áttu að ala upp alheilbrigða syni og dætur í jarðneskri paradís. Þegar ástkær börn þeirra yxu úr grasi myndu þau líka vera frjósöm og taka ásamt þeim þátt í ánægjulegum garðyrkjustörfum til að viðhalda paradís. Það hefði verið mjög ánægjulegt fyrir mannkynið að hafa öll dýrin undirgefin sér. Hugsaðu þér gleðina sem hefði fylgt því að færa út mörk Edengarðsins svo að öll jörðin hefði að lokum orðið að paradís. Myndir þú njóta þess að eiga svona fallegt, jarðneskt heimili ásamt fullkomnum börnum, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af elli og dauða? Svaraðu þessari spurningu eins og hjartað býður.
22. Af hverju megum við vera viss um að Guð hafi ekki breytt fyrirætlun sinni með jörðina?
22 Ætli Guð hafi breytt þeirri fyrirætlun sinni að láta mannkynið lifa að eilífu í paradís á jörð þegar Adam og Eva óhlýðnuðust og voru rekin út úr Edengarðinum? Alls ekki. Hefði Guð gert það hefði það verið játning um vanhæfni hans til að láta upphaflega fyrirætlun sína ná fram að ganga. Við getum verið þess fullviss að Guð framkvæmir það sem hann lofar eins og hann kunngerði sjálfur: „Eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ — Jesaja 55:11.
23. (a) Hvað staðfestir að það sé fyrirætlun Guðs að þeir sem hneigjast til réttlætis lifi að eilífu á jörðinni? (b) Hvað fjöllum við um næst?
23 Það kemur skýrt fram í Biblíunni að fyrirætlun Guðs með jörðina hefur ekki breyst. Hann lofar: „Hinir réttlátu fá landið [jörðina] til eignar og búa í því um aldur.“ Jesús Kristur sagði meira að segja í fjallræðunni að hinir auðmjúku skuli erfa jörðina. (Sálmur 37:29; Matteus 5:5) En hvernig getum við öðlast eilíft líf og hvað þurfum við að gera til þess? Það er efni greinarinnar á eftir.
Hvert er svarið?
◻ Af hverju telja margir að eilíft líf sé mögulegt?
◻ Hvað ætti að sannfæra okkur um að við séum gerð til að lifa að eilífu?
◻ Hver var tilgangur Guðs í upphafi með mannkynið og jörðina?
◻ Hvers vegna getum við verið viss um að Guð stendur við upphaflegan tilgang sinn?