„Hann skapaði þau karl og konu“
„Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“ — 1. MÓSEBÓK 1:27.
1. Hvernig er sannleikurinn kristnum körlum og konum til blessunar?
HVE ánægjulegt er ekki að vera meðal fólks Jehóva, í félagsskap karla, kvenna, pilta og stúlkna sem öðru fremur elska Guð og hlýða honum. Sannleikurinn frelsar okkur líka undan viðhorfum og hátterni sem Jehóva Guð hefur vanþóknun á, og kennir okkur að lifa eins og kristnum mönnum ber. (Jóhannes 8:32; Kólossubréfið 3:8-10) Til dæmis hefur fólk alls staðar hefðir eða hugmyndir um hvernig karlar eigi að sýna karlmennsku sína og konur kvenleika sinn. Eru karlar bara fæddir karlmannlegir og konur kvenlegar eða þarf að taka fleira með í reikninginn?
2. (a) Hvað ætti að ráða viðhorfum okkar til karlmennsku og kvenleika? (b) Hvernig eru viðhorf manna til kynjanna orðin?
2 Kristnir menn fylgja orði Guðs, óháð persónulegum, menningarlegum eða arfteknum viðhorfum sem þeir kunna að hafa tileinkað sér áður. (Matteus 15:1-9) Biblían fer ekki nákvæmlega út í allar hliðar karlmennsku og kvenleika, heldur gefur svigrúm fyrir fjölbreytni eins og við finnum í ólíkum menningarsamfélögum. Karlar verða að vera karlmannlegir til að vera það sem Guð skapaði þá til, og konur kvenlegar. Hvers vegna? Vegna þess að karlar og konur voru sköpuð til að bæta hvort annað upp, ekki aðeins líkamlega heldur áttu þau einnig að bæta hvort annað upp með karlmannlegum og kvenlegum eiginleikum sínum. (1. Mósebók 2:18, 23, 24; Matteus 19:4, 5) En viðhorf manna til kynjanna eru orðin rangsnúin og brengluð. Margir leggja karlmennsku að jöfnu við yfirdrottnun, hörku eða ímyndaðan hetjuskap. Í sumum menningarsamfélögum er sjaldgæft eða skammarlegt fyrir karlmann að gráta, hvort heldur er í annarra augsýn eða í einrúmi. En Jesús „grét“ í fjölmenni við gröf Lasarusar. (Jóhannes 11:35) Það var ekki óviðeigandi fyrir Jesú sem var fullkominn í karlmennsku sinni. Margir sjá kvenleika ekki heldur í réttu ljósi nú orðið og telja að hann felist eingöngu í líkamlegu aðdráttarafli og kynþokka.
Sönn karlmennska og sannur kvenleiki
3. Að hvaða leyti eru karlar og konur ólík?
3 Hvað er sönn karlmennska og hvað er sannur kvenleiki? Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir: „Að öllu jöfnu er það ekki aðeins líkamsgerð karla og kvenna sem er ólík heldur einnig hegðun og áhugamál. Að sumu leyti stafar það af erfðum. . . . Sá munur, sem stafar ekki af ólíkri líkamsgerð, virðist hins vegar oft orsakast af því sem hver einstaklingur lærir um kynhlutverk sitt. Fólk fæðist karlkyns eða kvenkyns en það lærir að vera karlmannlegt eða kvenlegt.“ Erfðafræðileg gerð okkar skýrir kannski margt, en viðeigandi karlmennska og kvenleiki er undir því kominn að við lærum hvers Guð krefst og hverju við kjósum að keppa eftir í lífinu.
4. Hvað segir Biblían um hlutverk karls og konu?
4 Biblíusagan leiðir í ljós að það hafi verið hlutverk Adams að taka forystuna sem höfuð konu sinnar og barna. Hann átti líka að lúta þeim vilja Guðs að uppfylla jörðina, gera sér hana undirgefna og ráða yfir óæðri sköpunarverum jarðar. (1. Mósebók 1:28) Hið kvenlega hlutverk Evu í fjölskyldunni fólst í því að vera „meðhjálp“ Adams og „við hans hæfi.“ Hún átti að vera undirgefin forystu hans og vinna með honum að því að yfirlýstur tilgangur Guðs með þau næði fram að ganga. — 1. Mósebók 2:18; 1. Korintubréf 11:3.
5. Hvernig spilltist samband karla og kvenna?
5 En Adam reis ekki undir ábyrgð sinni og Eva beitti kvenleika sínum á sannfærandi hátt til að lokka hann til að óhlýðnast Guði líka. (1. Mósebók 3:6) Þegar Adam gerði það sem hann vissi að var rangt sýndi hann ekki af sér sanna karlmennsku. Hann sýndi það veiklyndi að taka orð konu sinnar, sem hafði látið blekkjast, góð og gild í stað þess sem faðir hans og skapari hafði sagt. (1. Mósebók 2:16, 17) Fljótlega fóru hjónin að finna fyrir því sem Guð hafði séð fyrir að yrði afleiðing óhlýðninnar. Adam, sem hafði áður lýst konu sinni með fögru ljóðmáli, kallaði hana nú kuldalega ‚konuna sem þú gafst mér.‘ Ófullkomleikinn spillti karlmennsku hans svo að hún fór út á ranga braut og varð til þess að hann ‚drottnaði yfir konu sinni.‘ Eva átti aftur á móti að hafa „löngun“ til manns síns, líklega taumlausa eða óhóflega. — 1. Mósebók 3:12, 16.
6, 7. (a) Hvernig brenglaðist karlmennskuímyndin fyrir flóðið? (b) Hvað getum við lært af ástandinu fyrir flóðið?
6 Karlmennsku og kvenleika var gróflega misbeitt fyrir flóðið. Englar yfirgáfu upprunalega stöðu sína á himnum og holdguðust í mannsmynd til að eiga kynmök við konur. (1. Mósebók 6:1, 2) Frásagan nefnir að það hafi einungis fæðst sveinbörn af þessum óeðlilegu kynlífssamböndum. Og svo virðist sem afkvæmin hafi verið kynblendingar sem gátu ekki aukið kyn sitt. Þessi afkvæmi eru nefnd kapparnir, risarnir, nefílím eða fellendur vegna þess að þeir urðu öðrum að falli. (1. Mósebók 6:4) Ljóst er að þeir voru árásargjarnir ofbeldisseggir og sýndu hvorki umhyggju né blíðu.
7 Greinilegt er að karlmennska eða kvenleiki ræðst ekki sjálfkrafa af líkamsfegurð, líkamsbyggingu, stærð eða styrk. Englarnir, sem holdguðust, voru trúlega myndarlegir. Og risarnir voru stórir og vöðvastæltir en hugarfarið var brenglað. Óhlýðnu englarnir og afkvæmi þeirra fylltu jörðina siðleysi og ofbeldi. Þess vegna lét Jehóva þann heim líða undir lok. (1. Mósebók 6:5-7) En flóðið batt ekki enda á áhrif illra anda og eyddi ekki áhrifunum af synd Adams. Karlmennska og kvenleiki kom aftur fram í brenglaðri mynd eftir flóðið, og Biblían segir frá dæmum, bæði góðum og slæmum, sem við getum lært af.
8. Hvaða gott fordæmi um viðeigandi karlmennsku setti Jósef?
8 Jósef og kona Pótífars eru áhrifamikil dæmi um muninn á viðeigandi karlmennsku og veraldlegum kvenleika. Kona Pótífars var yfir sig hrifin af hinum myndarlega Jósef og reyndi að lokka hann til lags við sig. Á þeim tíma voru engin skráð lög til sem bönnuðu saurlífi eða hórdóm. En Jósef reyndist sannur guðsmaður, sýndi karlmennsku sem hafði velþóknun Guðs og flúði frá þessari siðlausu konu. — 1. Mósebók 39:7-9, 12.
9, 10. (a) Hvernig misbeitti Vastí drottning kvenleika sínum? (b) Hvaða gott fordæmi um kvenleika gaf Ester?
9 Ester og Vastí drottning eru líka eftirtektarverðar andstæður sem konur ættu að veita athygli. Vastí hélt trúlega að hún væri svo fögur að Ahasverus konungur myndi láta allt eftir henni. En fegurð hennar risti ekki dýpra en margt húðkremið sem selt er nú á dögum. Hana skorti hæversku og kvenleika því að hún sýndi manni sínum og konungi ekki undirgefni. Konungur hafnaði henni og valdi sér konu sem var í sannleika kvenleg og óttaðist reyndar einnig Jehóva. — Esterarbók 1:10-12; 2:15-17.
10 Ester er kristnum konum prýðisfordæmi. Hún var „fagurvaxin og fríð sýnum“ en skart hennar var þó „hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda.“ (Esterarbók 2:7; 1. Pétursbréf 3:4) Hún leit ekki á áberandi skraut sem aðalatriði. Hún sýndi háttvísi og sjálfstjórn og var undirgefin Ahasverusi, eiginmanni sínum, jafnvel þegar líf þjóðar hennar var í hættu. Ester þagði þegar það var hyggilegt en talaði óttalaust þegar nauðsynlegt var og tímabært. (Esterarbók 2:10; 7:3-6) Hún tók ráðum hins þroskaða Mordekais frænda síns. (Esterarbók 4:12-16) Hún sýndi fólki sínu ást og hollustu.
Ytra útlit
11. Hvað ættum við að hafa í huga í sambandi við ytra útlit?
11 Á hverju byggist viðeigandi kvenleiki? Móðir nokkur sagði: „Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull, en sú kona, sem óttast [Jehóva], á hrós skilið.“ (Orðskviðirnir 31:30) Lotningarfullur ótti við Guð er því nauðsynlegur, og ástrík góðvild, vinsemd, hæverska og mildi stuðla miklu meir að kvenleika en líkamleg fegurð. — Orðskviðirnir 31:26.
12, 13. (a) Hvað einkennir því miður tal margra? (b) Hvað merkja Orðskviðirnir 11:22?
12 Margir karlar og konur opna því miður ekki munninn með speki og hafa ekki ástúðlega fræðslu á tungu sér. Þau eru meinyrt, kaldhæðin, klúr og tillitslaus í tali. Sumir karlar halda að dónalegt málfar sé karlmennskutákn og sumar konur eru svo kjánalegar að apa eftir þeim. En getur lagleg kona, sem er óskynsöm, þrætin, kaldhæðin eða hrokafull, verið fögur í fyllsta skilningi, raunverulega kvenleg? „Eins og gullhringur í svínstrýni, svo er fríð kona, sem enga siðprýði kann.“ — Orðskviðirnir 11:22.
13 Sóðalegt málfar, kaldhæðni eða óskynsemi stingur illa í stúf við fríðleika og kvenlegt útlit. Slík óguðleg framkoma getur jafnvel gert líkamlega aðlaðandi manneskju fráhrindandi. Við gerum okkur fyllilega ljóst að líkamlegt útlit karls eða konu eitt sér bætir ekki upp eða réttlætir reiðiköst, öskur eða lastmælgi. Allir kristnir menn geta og ættu að gera sig aðlaðandi í augum Guðs og náungans með því að byggja mál sitt og framkomu á Biblíunni. — Efesusbréfið 4:31.
14. Hvers konar skart er lofað í 1. Pétursbréfi 3:3-5 og hvað finnst þér um það?
14 Enda þótt sönn karlmennska og kvenleiki byggist á andlegum eiginleikum segir framkoma okkar og útlit, þar á meðal fötin og hvernig við klæðumst þeim, ýmislegt um okkur. Pétur postuli hafði eflaust í huga ákveðna fata- og hártísku fyrstu aldar þegar hann ráðlagði kristnum konum: „Skart yðar sé ekki ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur, heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs. Þannig skreyttu sig einnig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs. Þær voru eiginmönnum sínum undirgefnar.“ — 1. Pétursbréf 3:3-5.
15. Hvað ættu kristnar konur að reyna að endurspegla í klæðaburði sínum?
15 Í 1. Tímóteusarbréfi 2:9, 10 finnum við athugasemdir Páls um klæðnað kvenna: „Sömuleiðis vil ég, að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, . . . með góðum verkum, eins og sómir konum, er Guð vilja dýrka.“ Hér lagði hann áherslu á hóglæti eða hæversku og sæmandi klæðnað sem ber vott um heilbrigt hugarfar.
16, 17. (a) Hvernig hafa margir karlar og konur misnotað sér klæðnað? (b) Hvaða ályktun ættum við að draga af ráðleggingunum í 5. Mósebók 22:5?
16 Karl, kona, piltur eða stúlka, sem er kynferðislega ögrandi í klæðaburði, er ekki að draga fram sanna karlmennsku eða kvenleika með því og vissulega ekki að heiðra Guð. Margt fólk í heiminum flaggar kyntöfrum sínum með öfgum í klæðaburði og hegðun. Aðrir reyna að fela kynjamismuninn í siðlausum tilgangi. Við sem erum kristin getum verið innilega þakklát fyrir að Biblían skuli opinbera okkur huga Guðs í málinu. Jehóva sagði Forn-Ísrael: „Eigi skal kona ganga í karlmannsbúningi og eigi skal karlmaður fara í kvenmannsföt, því að hver sá, er slíkt gjörir, er [Jehóva] Guði þínum andstyggilegur.“ — 5. Mósebók 22:5.
17 Gott er að rifja upp það sem Varðturninn sagði um þetta mál 1. mars 1989, bls. 29: „Spurningin er ekki sú hvort klæðnaður okkar sé samkvæmt allra nýjustu tísku heldur hvort hann sé sæmandi þeim sem játar sig vera þjón Guðs. (Rómverjabréfið 12:2; 2. Korintubréf 6:3) Of hversdagsleg eða of þröng föt geta dregið athyglina frá boðskap okkar. Karlmannaföt, sem eru beinlínis kvenleg, og kvenföt, sem eru beinlínis karlmannleg, eru tvímælalaust ósæmileg. (Samanber 5. Mósebók 22:5.) Að sjálfsögðu eru siðvenjur breytilegar frá einum stað til annars og ráðast oft af veðri, atvinnuháttum og öðru slíku, þannig að kristni söfnuðurinn setur ekki ósveigjanlegar reglur handa bræðrafélaginu um allan heim.“
18. Hvað gætum við gert til að fylgja ráðleggingum Biblíunnar um klæðaburð og snyrtingu?
18 Þetta eru viðeigandi ráð og öfgalaus! Því miður fylgja sumir kristnir menn, bæði karlar og konur, í blindni hverju því sem heimurinn kemur fram með í klæðaburði og snyrtingu, án þess að íhuga hvaða mynd það geti gefið af Jehóva og kristna söfnuðinum. Við gætum öll gert svolitla sjálfsrannsókn til að kanna hvort við höfum orðið fyrir áhrifum af hugsunarhætti heimsins. Eins gætum við komið að máli við virtan, reyndan bróður eða systur og spurt hvort við þurfum að breyta klæðaburði okkar á einhvern hátt, og íhuga síðan alvarlega tillögur þeirra.
Kristnir karlar og konur — sannir karlar og konur
19. Hvaða óæskilegum áhrifum þurfum við að berjast gegn?
19 Satan er guð þessa heims. Áhrifa hans gætir í kynjaruglingnum og sá ruglingur er ekki bundinn við klæðaburð eingöngu. (2. Korintubréf 4:4) Konur keppa í sumum löndum við karla um yfirráð og virða meginreglur Biblíunnar að vettugi og mikill fjöldi karla afsalar sér hreinlega forystunni eins og Adam gerði. Til eru þeir sem reyna jafnvel að breyta kynhlutverki sínu í lífinu. (Rómverjabréfið 1:26, 27) Biblían býður ekki upp á neinn annan lífsstíl sem Guð hefur velþóknun á. Og hver sá sem var óviss um kynhlutverk sitt eða kynhneigð áður en hann gerðist kristinn má treysta því að það sé honum til góðs um eilífð að lifa í samræmi við mælikvarða Guðs, þann mælikvarða sem allir þeir munu meta mikils er ná mannlegum fullkomleika.
20. Hvaða áhrif ætti Galatabréfið 5:22, 23 að hafa á viðhorf okkar til karlmennsku og kvenleika?
20 Ritningin bendir á að kristnir karlar og konur þurfi að þroska með sér og sýna ávöxt anda Guðs — kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trú, mildi og sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Í visku sinni gerði Guð karlmönnum kleift að draga fram karlmennsku sína og konur kvenleika sinn með því að rækta með sér þessa eiginleika. Það er auðvelt að virða karlmann sem ber ávöxt andans og elska konu sem gerir það.
21, 22. (a) Hvaða fyrirmynd um lífsmáta gaf Jesús Kristur? (b) Hvernig sýndi Jesús karlmennsku sína?
21 Jesús Kristur er mesta mikilmenni sem lifað hefur og kristnir menn ættu að taka sér lífsmáta hans til fyrirmyndar. (1. Pétursbréf 2:21-23) Bæði karlar og konur ættu að vera Guði holl og hlýða orði hans eins og Jesús. Hann var framúrskarandi kærleiksríkur, blíður og miskunnsamur. Sannkristnir menn eiga að líkja eftir honum til að sanna að þeir séu lærisveinar hans. — Jóhannes 13:35.
22 Jesús Kristur var sannur karlmaður og karlmennska hans endurspeglast í ævisögu hans sem er að finna í Ritningunni. Hann kvæntist aldrei en Biblían sýnir okkur að hann átti eðlilegt samband við konur. (Lúkas 10:38, 39) Hann var alltaf hreinn og heiðvirður í samskiptum sínum við karla og konur. Hann er fullkomin fyrirmynd um karlmennsku. Hann leyfði engum — hvorki karli, konu né óhlýðnum engli — að ræna sig þessari karlmennsku eða trúfesti sinni við Jehóva. Hann hikaði ekki við að axla ábyrgð sína og gerði það án þess að kvarta. — Matteus 26:39.
23. Hvernig njóta sannkristnir menn greinilegrar blessunar í sambandi við hlutverk kynjanna?
23 Það er unaðslegt að vera meðal fólks Jehóva og umgangast karla, konur, pilta og stúlkur sem hafa það fremsta hugðarefni í lífinu að elska Jehóva Guð og hlýða honum! Það er ekki þvingandi fyrir okkur að hlýða orði Guðs heldur erum við frelsuð úr fjötrum þessa heims og lifnaðarhátta hans sem auvirða fegurð, tilgang og ólík hlutverk kynjanna. Við getum notið hinnar sönnu hamingju sem fylgir því að lifa í samræmi við þá stöðu sem Guð hefur gefið okkur í lífinu, hvort heldur við erum karlar eða konur. Já, við erum Jehóva Guði, skaparanum, þakklát fyrir allar hinar kærleiksríku ráðstafanir hans í okkar þágu, þakklát fyrir að hann skapaði okkur karl og konu!
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig lýsir Biblían viðeigandi hlutverkum karla og kvenna?
◻ Hvernig brenglaðist karlmennskuímyndin fyrir flóðið og hvernig hefur afstaða manna til karlmennsku og kvenleika brenglast á okkar tímum?
◻ Hvaða ráðum Biblíunnar um útlit ætlar þú að fara eftir?
◻ Hvernig geta kristnir karlar og konur sýnt sig sanna karlmenn og konur?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Þótt Ester væri fögur er hennar sérstaklega minnst fyrir hæversku sína og hógværan og kyrrlátan anda.
[Mynd á blaðsíðu 13]
Gefðu snyrtingu hæfilegan gaum en leggðu meiri áherslu á innri fegurð.