Hvernig innblés Guð Biblíuna?
BOÐMIÐLUN er áhugaverðari nú en nokkru sinni fyrr í sögunni. Símar, bréfasímar og tölvur — hver hefði getað ímyndað sér fyrir mörgum árum að hægt yrði að senda boð á augabragði nánast hvert sem er í heiminum?
En forvitnilegasta boðmiðlunin er sú sem menn ráða ekki yfir — innblástur frá Guði. Jehóva innblés um 40 mennskum riturum að færa orð sitt, Heilaga biblíu, í letur. Hann notaði til þess ólíkar aðferðir líkt og menn geta valið um mismunandi boðskiptatækni.
Fyrirlestur. Guð las fyrir ákveðinn boðskap sem varð síðar hluti Biblíunnar.a Tökum ákvæði lagasáttmálans sem dæmi. „Skrifa þú upp þessi orð,“ sagði Jehóva við Móse, „því að samkvæmt þessum orðum hefi ég gjört sáttmála við þig og við Ísrael.“ (2. Mósebók 34:27) Móse skrifaði niður þessi „orð,“ sem miðlað var „fyrir umsýslan engla,“ og þau er nú að finna í Annari, Þriðju, Fjórðu og Fimmtu Mósebók í Biblíunni. — Postulasagan 7:53.
Margir aðrir spámenn, þeirra á meðal Jesaja, Jeremía, Esekíel, Amos, Nahúm og Míka, fengu ákveðinn boðskap frá Guði fyrir milligöngu engla. Stundum hafa þessir menn eftirfarandi formála að orðum sínum: „Svo segir [Jehóva].“ (Jesaja 37:6; Jeremía 2:2; Esekíel 11:5; Amos 1:3; Míka 2:3; Nahúm 1:12) Síðan skrifuðu þeir það sem Guð las fyrir.
Sýnir, draumar og leiðsla. Sýn er boðskapur eða mynd sem komið er inn í huga manns í vöku, yfirleitt með einhverjum yfirnáttúrlegum hætti. Pétur, Jakob og Jóhannes „vöknuðu“ til dæmis og voru glaðvakandi þegar þeir sáu Jesú ummyndast í sýn. (Lúkas 9:28-36; 2. Pétursbréf 1:16-21) Í sumum tilvikum var boðskapur sendur í draumi eða nætursýn og var þá festur í undirmeðvitund viðtakanda í svefni. Daníel minnist þannig á ‚sýnir þær er fyrir hann bar í rekkju hans‘ — eða, eins og biblíuþýðandinn Ronald A. Knox kemst að orði, ‚er hann lá og horfði á í draumi sínum.‘ — Daníel 4:10.
Þegar Jehóva lét mann falla í leiðslu virðist hann hafa verið gagntekinn ákafri einbeitingu en vakandi, að minnsta kosti að nokkru leyti. (Samanber Postulasöguna 10:9-16.) Gríska orðið ekʹstasis, sem þýtt er „frá sér numinn“ í íslensku biblíunni, merkir ‚að leggja til hliðar, tilfærsla.‘ Það felur í sér þá hugmynd að setja hugann í annarlegt ástand. Sá sem er í þannig leiðslu er úr sambandi við umhverfi sitt en þó fyllilega móttækilegur fyrir sýninni. Páll postuli var líklega í leiðslu þegar hann var „hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð, sem engum manni er leyft að mæla.“ — 2. Korintubréf 12:2-4.
Þegar biblíuritarar sáu sýnir eða vitranir, dreymdi drauma eða féllu í leiðslu höfðu þeir oft eitthvert svigrúm til að lýsa með eigin orðum því sem þeir sáu, ólíkt þeim sem skrifuðu upp boðskap er Guð las fyrir. Habakkuk var sagt: „Skrifa þú vitrunina upp og letra svo skýrt á spjöldin, að lesa megi viðstöðulaust.“ — Habakkuk 2:2.
Ber þá að skilja þetta svo að þessir hlutar Biblíunnar séu eitthvað síður innblásnir en kaflar sem lesnir voru orðrétt fyrir? Alls ekki. Með anda sínum festi Jehóva boðskap sinn kirfilega í huga ritarans þannig að það voru hugmyndir Jehóva en ekki manna sem komið var á framfæri. Enda þótt Guð leyfði ritaranum að velja viðeigandi orð stýrði hann huga hans og hjarta þannig að orðin væru réttilega álitin orð Guðs og engar nauðsynlegar upplýsingar féllu niður. — 1. Þessaloníkubréf 2:13.
Opinberun. Biblían inniheldur spádóma — opinberaða og fyrirframritaða mannkynssögu — um atburði sem er ekki í mannlegu valdi að sjá fyrir. Sem dæmi má nefna að uppgangi og falli ‚Grikklands konungs,‘ Alexanders mikla, var spáð um 200 árum fyrirfram! (Daníel 8:1-8, 20-22) Biblían opinberar líka atburði sem menn hafa aldrei augum litið. Sköpun himins og jarðar er eitt dæmi. (1. Mósebók 1:1-27; 2:7, 8) Þá má nefna samræður sem áttu sér stað á himnum, líkt og þær sem Jobsbók greinir frá. — Jobsbók 1:6-12; 2:1-6.
Ef Guð opinberaði ekki ritaranum slíka atburði beint kunngerði hann þá einhverjum öðrum svo að þeir varðveittust í ritum eða munnlegri geymd frá kynslóð til kynslóðar uns þeir urðu hluti af biblíusögunni. (Sjá rammann á bls. 7.) Að minnsta kosti getum við verið viss um að allar slíkar upplýsingar hafi komið frá Jehóva og að hann hafi leiðbeint riturunum svo að frásögur þeirra væru ekki ónákvæmar, ýktar eða goðsagnakenndar. Pétur skrifaði um spádómana: „Menn [töluðu] orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“b — 2. Pétursbréf 1:21.
Mikillar nákvæmni krafist
Þótt biblíuritararnir væru „knúðir af heilögum anda“ þurftu þeir engu að síður að íhuga vandlega það sem þeir voru að gera. Salómon „rannsakaði og kynnti sér og samdi mörg spakmæli,“ svo dæmi sé nefnt. Hann „leitaðist við að finna fögur orð, og það sem hann hefir skrifað í einlægni, eru sannleiksorð.“ — Prédikarinn 12:9, 10.
Sumir biblíuritarar þurftu að leggja út í töluverðar rannsóknir til að styðja með gögnum það sem þeir skrifuðu. Lúkas sagði til dæmis um guðspjall sitt: „Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu.“ Guð blessaði vitaskuld viðleitni Lúkasar og leiðbeindi honum vafalaust með anda sínum til að hann fyndi trúverðugar söguheimildir og ræddi við áreiðanlega sjónarvotta, svo sem eftirlifandi lærisveina og hugsanlega Maríu, móður Jesú. Andi Guðs hefur síðan leiðbeint Lúkasi svo að hann skráði efnið nákvæmlega. — Lúkas 1:1-4.
Ólíkt Lúkasarguðspjalli er Jóhannesarguðspjall frásögn sjónarvotts, skráð um 65 árum eftir dauða Jesú. Eflaust skerpti andi Jehóva minni Jóhannesar svo að það bilaði ekki með tímanum. Það hefði verið í samræmi við loforð Jesú við fylgjendur sína: „Hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.“ — Jóhannes 14:26.
Í sumum tilfellum tóku biblíuritarar með samantekt úr heimildum sagnaritara frá fyrri tíð sem ekki voru allar innblásnar. Jeremía tók Fyrri og Síðari Konungabók saman að mestu leyti með þeim hætti. (2. Konungabók 1:18) Esra sótti efnivið Fyrri og Síðari Kroníkubókar í að minnsta kosti 14 óinnblásnar heimildir, þeirra á meðal ‚árbækur Davíðs konungs‘ og ‚bækur Júda- og Ísraelskonunga.‘ (1. Kroníkubók 27:24; 2. Kroníkubók 16:11) Móse vitnaði jafnvel í ‚bókina um bardaga Jehóva‘ sem hefur greinilega verið áreiðanleg heimild um stríð þjóðar Guðs. — 4. Mósebók 21:14, 15.
Heilagur andi kom við sögu í slíkum tilvikum og knúði biblíuritarana til að velja aðeins áreiðanlegt efni sem varð síðan hluti hinnar innblásnu biblíusögu.
Hagnýt ráð — frá hverjum?
Biblían inniheldur sjóð hagnýtra ráðlegginga sem byggðar eru á glöggskyggni og eftirtektarsemi biblíuritaranna. Salómon skrifaði til dæmis: „Það er ekkert betra til með mönnum en að eta og drekka og láta sálu sína njóta fagnaðar af striti sínu. En það hefi ég séð, að einnig þetta kemur af Guðs hendi.“ (Prédikarinn 2:24) Páll sagði að ráðleggingar hans um hjónaband hafi verið eftir ‚sinni skoðun‘ en bætti við að hann ‚þættist og hafa anda Guðs.‘ (1. Korintubréf 7:25, 39, 40) Páll hafði vissulega anda Guðs því eins og Pétur postuli benti á skrifaði Páll „eftir þeirri speki, sem honum er gefin.“ (2. Pétursbréf 3:15, 16) Hann lét því skoðun sína í ljós undir leiðsögn anda Guðs.
Þegar biblíuritarar létu sannfæringu sína í ljós byggðu þeir hana á námi í þeim ritningum, sem til voru, og heimfærslu þeirra. Við getum treyst að rit þeirra hafi verið í samræmi við viðhorf Guðs. Það sem þeir skrifuðu varð hluti af orði hans.
Í Biblíunni er auðvitað að finna orð manna sem hugsuðu skakkt. (Berðu saman Jobsbók 15:15 og 42:7.) Í fáeinum tilvikum eru höfð eftir orð angistarfullra þjóna Guðs án þess þó að segja alla söguna.c Þótt ritarinn kæmi með persónulegar athugasemdir sem þessar naut hann eftir sem áður leiðsagnar anda Guðs til að frásagan yrði nákvæm og þjónaði þeim tilgangi að benda á og afhjúpa rangan hugsunarhátt. Í öllum tilvikum sér sanngjarn lesandi auk þess af samhenginu hvort ritarinn hugsar rétt eða ekki.
Í stuttu máli getum við verið viss um að öll Biblían sé boðskapur Guðs. Jehóva sá svo sannarlega til þess að allt efni hennar þjónaði tilgangi hans og veitti þeim sem vildu þjóna honum nauðsynlegar upplýsingar. — Rómverjabréfið 15:4.
Mennskir ritarar — af hverju?
Það ber vott um mikla visku Jehóva að nota menn til að rita Biblíuna. Heldurðu að Biblían höfðaði jafnsterkt til manna ef Guð hefði falið englum að skrifa hana? Auðvitað væri hrífandi að lesa um eiginleika Guðs og samskipti frá sjónarhóli engils, en ef mannlega þáttinn vantaði algerlega gætum við átt í erfiðleikum með að skilja boðskap Biblíunnar.
Tökum dæmi: Biblían gæti einfaldlega sagt að Davíð konungur hafi drýgt hór og framið morð og síðan iðrast. En það er miklu betra að geta lesið orð Davíðs sjálfs sem lýsa nístandi angist hans vegna þess sem hann gerði, og bæn hans um fyrirgefningu Jehóva! „Synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum,“ skrifaði hann. „Sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.“ (Sálmur 51:5, 19) Biblían höfðar þannig til okkar og býr yfir þeirri hlýju og fjölbreytni sem mannlegi þátturinn veitir henni.
Já, Jehóva valdi bestu leiðina til að gefa okkur orð sitt. Enda þótt hann hafi notað breyska og ófullkomna menn voru þeir knúðir af heilögum anda svo að engar villur slæddust inn í það sem þeir skrifuðu. Biblían er því óviðjafnanlega verðmæt. Ráð hennar eru traust og spádómar hennar um paradís framtíðarinnar hér á jörð eru áreiðanlegir. — Sálmur 119:105; 2. Pétursbréf 3:13.
Hví ekki að gera þér að venju að lesa einhverja kafla í orði Guðs á hverjum degi? Pétur skrifaði: „Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis.“ (1. Pétursbréf 2:2) Þar eð Ritningin er innblásin af Guði er hún öll „nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
[Neðanmáls]
a Í að minnsta kosti einu tilviki voru upplýsingar ritaðar beint „með fingri Guðs,“ en það voru boðorðin tíu. Móse afritaði orðin síðan í bókrollu eða á annan miðil. — 2. Mósebók 31:18; 5. Mósebók 10:1-5.
b Gríska orðið feʹro, sem þýtt er „knúðir,“ er notað í annarri mynd í Postulasögunni 27:15, 17 til að lýsa skipi sem berst fyrir vindi. Það má því segja að heilagur andi hafi ‚lóðsað‘ biblíuritarana. Hann fékk þá til að hafna öllum vafasömum upplýsingum og halda aðeins því sem byggt var á staðreyndum.
c Berðu til dæmis 1. Konungabók 19:4 saman við vers 14 og 18; Jobsbók 10:1-3; Sálm 73:12, 13, 21; Jónas 4:1-3, 9; Habakkuk 1:1-4, 13.
[Rammi á blaðsíðu 7]
Hvar fékk Móse upplýsingarnar?
MÓSE skrifaði Fyrstu Mósebók, en bókin fjallar öll um atburði sem áttu sér stað löngu fyrir hans dag. Hvaðan fékk hann þá upplýsingarnar? Guð kann að hafa opinberað honum þær beint og sumt kann að hafa varðveist í munnlegri geymd frá kynslóð til kynslóðar. Menn lifðu lengur í þá daga en síðar varð, og stór hluti þess efnis, sem Móse skráði í 1. Mósebók, gæti hafa borist frá Adam til Móse með aðeins fimm tengiliðum — Metúsala, Sem, Ísak, Leví og Amram.
Og hugsanlegt er að Móse hafi leitað fanga í skráðum heimildum. Eftirtektarvert er að hann notar oft orðalagið „þetta er saga“ eða „þetta er ættartala“ áður en hann nefnir persónuna sem til umræðu er. (1. Mósebók 6:9; 10:1; 11:10, 27; 25:12, 19; 36:1, 9; 37:2) Sumir fræðimenn segja að hebreska orðið tohleðohðʹ, sem hér er þýtt „saga“ eða „ættartala,“ vísi til skráðra söguheimilda er Móse hafi sótt efnivið í. En um það verður ekkert sagt með vissu.
Vera kann að Móse hafi fengið efni Fyrstu Mósebókar eftir öllum þrem leiðunum — sumt með beinni opinberun, sumt eftir munnlegri geymd og sumt úr skráðum heimildum. Það sem mestu skiptir er að það var andi Jehóva sem veitti Móse innblástur. Þess vegna er rétt að líta á verk hans sem orð Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 4]
Guð innblés mönnum með ýmsum hætti að skrifa Biblíuna.