Banvæn hungursneyð á nægtatímum
„Þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra.“ — JESAJA 65:13.
1, 2. (a) Hvaða vandamál berjast þjóðirnar árangurslaust við? (b) Hvaða raunhæfa von bendir Biblían á?
HUNGURVOFAN grúfir yfir mannkyninu! Ritstjórnargrein í dagblaðinu The Boston Globe sagði um þetta kreppuástand: „Heimur með nálega einn milljarð manna við hungurmörk verður að finna leiðir til að hjálpa fátækustu þjóðunum að njóta einhvers brots af þeim nægtum sem auðugustu löndin uppskera.“ En jafnvel hinar svonefndu tæknivæddu þjóðir geta ekki stært sig af því að allir þegnar þeirra hafi nóg að bíta og brenna. Þeim hefur líka mistekist að tryggja öllum þegnum sínum mannsæmandi viðurværi. Áhyggjufullir mannvinir berjast við þetta vaxandi vandamál. Er einhverja lausn að finna?
2 Höfundur áðurnefndrar ritstjórnargreinar viðurkenndi: „Dapurlegasta hlið vannæringarinnar . . . er sú að heimurinn er ótvírætt fær um að brauðfæða alla.“ Samt sem áður færist matvælaskortur og hungur í aukana. En þannig þarf það ekki að vera, því að kærleiksríkur skapari okkar hefur séð ríkulega fyrir öllum þeim milljörðum sem byggja jörðina. Þegar hann undirbjó jörðina fyrir heimili handa manninum bjó hann svo um hnútana að hún gæti gefið ríkulega af sér, meira en nóg handa öllum. (Sálmur 72:16-19; 104:15, 16, 24) Jafnvel á okkar erfiðu tímum erum við fullvissuð um að hinn mikli gjafari okkar sjái þeim sem leita hans fyrir nægu viðurværi. Fyrir milligöngu hans sem hann gerði að sínum mikla matvælamiðlara segir hann okkur: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis, þá mun allt þetta [lífsnauðsynjarnar] veitast yður að auki.“ — Matteus 6:33; 1. Jóhannesarbréf 4:14.
Banvæn hungursneyð
3. Hvaða hungursneyð er alvarlegust og hvernig var hún sögð fyrir?
3 Alvarlegasta hungursneyð jarðarinnar nú á tímum er andleg hungursneyð. Hún er nátengd þeim ófriði sem herjar á jörðina. Mannkynið skjögrar áfram í örvæntingarfullri leit að undankomuleið. Endur fyrir löngu lét alvaldur Guð spámann sinn lýsa þessu ástandi þannig: „Sjá, þeir dagar munu koma, — segir [Jehóva] Guð, — að ég mun senda hungur inn í landið, ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð [Jehóva], svo að menn skulu reika frá einu hafinu til annars og renna frá norðri til austurs til þess að leita eftir orði [Jehóva]. En þeir skulu ekki finna það.“ — Amos 8:11, 12.
4, 5. (a) Hvers vegna finna sumir ekki Guð þótt þeir leiti hans? (b) Í hverju var Jesús ólíkur trúarleiðtogum samtíðar sinnar? (Matteus 15:1-14)
4 Er einhver leið út úr þessum ógöngum? Páll postuli svarar því játandi og hvetur með þessum orðum: „Guð, sem skóp heiminn . . . [ákvað] setta tíma og mörk bólstaða þeirra [þjóðanna]. Hann vildi, að þær leituðu Guðs, ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af oss.“ — Postulasagan 17:24-27.
5 Ef Guð er ‚ekki langt frá neinum af oss,‘ hvernig stendur þá á því að margir skuli leita hans en ekki finna? Það stafar af því að þeir leita hans á röngum stað. Hve margir, sem kalla sig kristna, leita sjálfir í frumkennslubók kristninnar, Heilagri biblíu? Hve margir hinna svokölluðu „hirða“ nota orð Guðs til að kenna „sauðunum“? (Samanber Esekíel 34:10.) Jesús sagði drambsömum trúarleiðtogum sinnar samtíðar að þeir ‚hvorki þekktu Ritningarnar né mátt Guðs.‘ (Matteus 22:29; Jóhannes 5:44) En Jesús bæði þekkti Ritninguna og fræddi fólk um hana, þá sem hann „kenndi . . . í brjósti um . . . því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ — Matteus 9:36.
Nægtatímar
6. Hvernig fullvissar Jehóva þjóna sína um að þeir muni njóta andlegra nægta?
6 Jehóva hvetur og uppörvar þá sem í einlægni leitast við að þekkja hann. Fyrir munn spámannsins Jesaja ávítar hann falska trúarhirða og segir: „Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna.“ (Jesaja 65:13, 14) En hvernig sér Guð þjónum sínum fyrir nægtum? Hvað þurfum við að gera til að fá hlut í ráðstöfun hans til verndar lífi, mitt í andlegri hungursneyð veraldar?
7. Hvaða forn sjónleikur er geymdur okkur til hvatningar?
7 Með því að björgun er algerlega undir því komin að við þekkjum kröfur Guðs og breytum eftir þeim í trú, þá ættum við að rannsaka orð hans með gleði, leitast við að kynnast vilja hans með okkur og skynja hvernig samskiptum hans við okkur er háttað. (Jóhannes 17:3) Okkur til hjálpar skulum við skoða biblíulegan sjónleik sem er hliðstæður því sem nú er að gerast. Aðalpersóna sjónleiksins er ættfaðirinn Jósef. Á sama hátt og Jehóva notaði Jósef til að sjá fyrir þjónum sínum leiðir hann nú á dögum þá sem leita hans. — Samanber Rómverjabréfið 15:4; 1. Korintubréf 10:11; Galatabréfið 4:24.
Jósef hjálpaði öðrum að lifa
8, 9. (a) Hvaða fyrirmyndir sjáum við í Jósef, Jakob og Faraó? (b) Hvaða hlutverki getum við gegnt í uppfyllingu þessa sjónleiks?
8 Jósef, sonur Jakobs, gegndi einstæðu hlutverki í að hjálpa öðrum að halda sér lifandi. Er það fyrirmynd um síðari tíma atburði? Til að kanna það skulum við skoða hvernig Jósef þoldi óverðskuldaða meðferð bræðra sinna og prófraunir og þrengingar í ókunnu landi, óhagganlega trú hans, ráðvendni og upphafningu í stöðu viturs stjórnanda á tímum stórkostlegrar hungursneyðar. (1. Mósebók 39:1-3, 7-9; 41:38-41) Sjáum við ekki hliðstæðu í lífshlaupi Jesú?
9 Í gegnum mótlæti og raunir varð Jesús brauð lífsins í heimi sem hungrar „eftir því að heyra orð [Jehóva].“ (Amos 8:11; Hebreabréfið 5:8, 9; Jóhannes 6:35) Gagnvart Jósef minna bæði Jakob og Faraó okkur á Jehóva og það sem hann áorkar fyrir milligöngu sonar síns. (Jóhannes 3:17, 34; 20:17; Rómverjabréfið 8:15, 16; Lúkas 4:18) En persónur þessa raunsanna sjónleiks voru fleiri og við munum skoða hlutverk þeirra af athygli. Vafalaust verðum við minnt á hvernig við séum háð hinum meiri Jósef, Kristi Jesú. Við erum innilega þakklát fyrir að hann skuli vernda okkur fyrir banvænni hungursneyð á okkar örðugu „síðustu dögum“! — 2. Tímóteusarbréf 3:1, 13.
Sjónleikurinn hefst
10. (a) Hvernig var Jósef búinn undir þá ábyrgð sem honum átti að falla í skaut? (b) Hvaða eiginleika sýndi hann sem ungur piltur?
10 Á dögum Jósefs gat enginn maður vitað fyrir hvað Jehóva ætlaðist fyrir með fólk sitt. Þegar Jósef var kallaður til síns mikilvæga hlutverks var Jehóva búinn að þjálfa og fullkomna hæfileika hans. Við lesum um unglingsár hans: „Þegar Jósef var seytján ára gamall, gætti hann sauða með bræðrum sínum. En hann var smásveinn hjá þeim sonum Bílu og sonum Silpu, er voru konur föður hans. Og Jósef bar föður sínum illan orðróm um þá.“ (1. Mósebók 37:2) Hann var trúr hagsmunum föður síns alveg eins og Jesús sýndi órjúfanlega hollustu þegar hann gætti hjarðar föður síns meðal ‚vantrúrrar og rangsnúinnar kynslóðar.‘ — Matteus 17:17, 22, 23.
11. (a) Hvers vegna fengu hálfbræður Jósefs hatur á honum? (b) Hvaða líkar aðstæður mátti Jesús þola?
11 Faðir Jósefs, Ísrael, fékk meiri ást á honum en öllum bræðrum hans og sýndi það með því að láta gera honum röndóttan dragkyrtil. Af þeim sökum lögðu bræður Jósefs „hatur á hann og gátu ekki talað við hann vinsamlegt orð.“ Tveir draumar hans, sem þeir túlkuðu svo að hann myndi drottna yfir þeim, urðu þeim enn frekara hatursefni. Á líkan hátt fengu leiðtogar meðal Gyðinga hatur á Jesú vegna hollustu hans, sannfærandi kennslu og augljósrar blessunar Jehóva með honum. — 1. Mósebók 37:3-11; Jóhannes 7:46; 8:40.
12. (a) Hvers vegna hafði Jósef áhyggjur af sonum sínum? (b) Hvaða hliðstæðu sjáum við með viðhorfum Jósefs og Jesú?
12 Einhverju sinni gættu bræður Jósefs sauða í grennd við Síkem. Faðir þeirra hafði af þeim áhyggjur sökum þess að þar hafði Síkem flekað Dínu og Símeon og Leví, ásamt bræðrum sínum, drepið alla karlmenn í borginni. Jakob bað Jósef að vitja þeirra, sjá hvernig þeim vegnaði og skýra sér svo frá. Jósef lagði þegar af stað þótt hann vissi af fjandskap bræðra sinna gegn sér. Á líkan hátt tók Jesús glaður að sér það verkefni, sem Jehóva fól honum hér á jörðinni, þótt það hefði í för með sér miklar þjáningar meðan verið væri að fullkomna hann sem aðalmiðlara hjálpræðis. Með fordæmi sínu gaf Jesús okkur öllum frábært fordæmi! — 1. Mósebók 34:25-27; 37:12-17; Hebreabréfið 2:10; 12:1, 2.
13. (a) Hvernig braust hatur hálfbræðra Jósefs út? (b) Við hvað má líkja sorg Jósefs?
13 Tíu hálfbræður Jósefs sáu hann álengdar. Reiði þeirra blossaði upp gegn honum og þeir lögðu á ráðin um að losna við hann. Í fyrstu áformuðu þeir að drepa hann, en Rúben, er fann til ábyrgðar sinnar sem frumgetningur, taldi þá á að kasta honum í tóman brunn. Síðar ætlaði hann sér að sleppa honum. En áður en það gat orðið taldi Júda bræður sína á að selja hann sem þræl Ísmaelítum er áttu leið þar hjá. Síðan tóku bræðurnir dragkyrtil Jósefs, velktu honum upp úr geithafursblóði og sendu föður sínum. Þegar Jakob sá hann hrópaði hann: „Það er kyrtill sonar míns. Óargadýr hefir etið hann. Sannlega er Jósef sundur rifinn.“ Þjáningar Jesú, þegar hann lauk hlutverki sínu á jörðinni, hljóta að hafa valdið Jehóva svipaðri kvöl. — 1. Mósebók 37:18-35; 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.
Jósef í Egyptalandi
14. Hvernig getur þessi forni sjónleikur verið okkur til gagns?
14 Við megum ekki ætla að spádómssjónleikurinn í kringum Jósef uppfyllist nákvæmlega í tímaröð. Þess í stað beinum við athygli okkar að ákveðnu mynstri sem er okkur til fræðslu og hvatningar nú á dögum. Það er eins og Páll postuli komst að orði: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri. En Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú, til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.“ — Rómverjabréfið 15:4-6.
15. Hvers vegna dafnaði Jósef og hús Pótífars?
15 Jósef var fluttur til Egyptalands þar sem hann var seldur Egypta að nafni Pótífar en hann var lífvarðarforingi Faraós. Jehóva var með Jósef sem hélt áfram að lifa eftir þeim góðu lífsreglum, sem faðir hans hafði innrætt honum, jafnvel þótt hann væri fjarri húsi föður síns. Jósef hætti ekki að tilbiðja Jehóva. Húsbóndi hans, Pótífar, fékk slíkar mætur á honum og kostum hans að hann setti hann yfir allt hús sitt. Jehóva blessaði hús Pótífars vegna Jósefs. — 1. Mósebók 37:36; 39:1-6.
16, 17. (a) Hvernig brást Jósef við þegar ráðvendni hans var reynd enn frekar? (b) Hver stýrði atburðarásinni meðan Jósef sat í fangelsi?
16 Það var þar sem kona Pótífars reyndi að táldraga Jósef. Hann neitaði henni staðfastlega. Dag einn greip hún í skikkju hans en hann flýði og lét skikkjuna eftir í hendi hennar. Þá klagaði hún Jósef við mann sinn fyrir að hafa haft uppi siðlausa tilburði og Pótífar lét varpa honum í fangelsi. Um tíma var hann hafður í járnhlekkjum. En í gegnum raunir sínar í fangelsinu sannaði Jósef sig ráðvandan mann. Fangelsisstjórinn gerði hann því að umsjónarmanni með öllum föngunum. — 1. Mósebók 39:7-23; Sálmur 105:17, 18.
17 Nú gerðist það að Faraó mislíkaði við yfirbyrlara sinn og yfirbakara og lét varpa þeim í fangelsi. Jósef var falið að þjóna þeim. Enn á ný stýrði Jehóva atburðarásinni. Hirðmennina tvo dreymdi drauma sem þeir skildu ekki. Eftir að hafa lagt á það áherslu að það sé „Guðs að ráða drauma“ sagði Jósef þeim merkingu draumanna. Og eins og Jósef hafði sagt var yfirbyrlaranum veitt sín fyrri staða á ný þrem dögum síðar (á afmælisdegi Faraós) en yfirbakarinn var hengdur. — 1. Mósebók 40:1-22.
18. (a) Hvað kom til að byrlarinn mundi eftir Jósef? (b) Hvað dreymdi Faraó?
18 Þótt Jósef hefði beðið byrlarann að tala máli sínu við Faraó liðu tvö ár áður en maðurinn minntist Jósefs. Og jafnvel þá minntist hann hans einungis vegna þess að Faraó hafði tvívegis dreymt torráðna drauma. Þegar enginn af spáprestum konungsins gat túlkað draumana sagði byrlarinn Faraó að Jósef gæti ráðið drauma. Faraó lét því senda eftir Jósef sem auðmjúkur gaf Jehóva heiðurinn og sagði: „Guð mun birta Faraó það, er honum má til heilla verða.“ Síðan sagði drottnari Egyptalands Jósef drauma sína:
Mig dreymdi, að ég stæði á árbakkanum. Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, feitar á hold og fallegar útlits, og fóru að bíta sefgresið. Og sjá, á eftir þeim komu upp sjö aðrar kýr, renglulegar og mjög ljótar útlits og magrar á hold. Hef ég engar séð jafn ljótar á öllu Egyptalandi. Og hinar mögru og ljótu kýrnar átu sjö fyrri feitu kýrnar. En er þær höfðu etið þær, var það ekki á þeim að sjá, að þær hefðu etið þær, heldur voru þær ljótar útlits sem áður. . . .
Og ég sá í draumi mínum, og sjá, sjö öx uxu á einni stöng, full og væn. Og sjö öx kornlaus, grönn og skrælnuð af austanvindi, spruttu á eftir þeim. Og hin grönnu öxin svelgdu í sig sjö vænu öxin. Ég hefi sagt spásagnamönnunum frá þessu, en enginn getur úr leyst. — 1. Mósebók 40:23-41:24.
19. (a) Hvernig sýndi Jósef auðmýkt? (b) Hvaða boðskapur fólst í draumunum?
19 Þetta voru kynlegir draumar! Gat nokkur maður ráðið þá? Jósef gerði það, þó ekki sjálfum sér til vegsauka. Hann sagði: „Draumur Faraós er einn. Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann boðað Faraó.“ Síðan lyfti Jósef skýlunni af hinum magnþrungna boðskap draumanna og sagði:
Sjá, sjö ár munu koma. Munu þá verða miklar nægtir um allt Egyptaland. En eftir þau munu koma sjö hallærisár. Munu þá gleymast allar nægtirnar í Egyptalandi og hungrið eyða landið. Og eigi mun nægtanna gæta í landinu sakir hallærisins, sem á eftir kemur, því að það mun verða mjög mikið. En þar sem Faraó dreymdi tvisvar sinnum hið sama, þá er það fyrir þá sök, að þetta er fastráðið af Guði, og Guð mun skjótlega framkvæma það. — 1. Mósebók 41:25-32.
20, 21. (a) Hvernig brást Faraó við aðvöruninni? (b) Hvernig má á þessu stigi líkja Jósef við Jesú?
20 Hvað gat Faraó gert í sambandi við þessa yfirvofandi hungursneyð? Jósef lagði til að Faraó hæfi strax undirbúning með því að setja vitran og hygginn mann yfir landið, í því skyni að safna umframuppskeru góðu áranna. Faraó hafði nú komið auga á hina einstöku hæfileika Jósefs. Hann tók innsiglishringinn af hönd sér, dró hann á hönd Jósefs og setti hann yfir allt Egyptaland. — 1. Mósebók 41:33-46.
21 Jósef var þrítugur að aldri þegar hann stóð frammi fyrir Faraó, jafngamall Jesú Kristi þegar hann var skírður og hóf þá þjónustu sem veitti mönnum líf. Í greininni sem á eftir kemur er því lýst hvernig Jehóva notaði Jósef sem fyrirmynd um „foringja og frelsara“ Jehóva á tímum andlegrar hungursneyðar, einkum nú á okkar tímum. — Postulasagan 3:15; 5:31.
Samantekt
◻ Hvaða tvenns konar hungursneyð herjar á jörðina núna?
◻ Hvaða góða eiginleika ræktaði Jósef meðan hann var með hálfbræðrum sínum?
◻ Hvað getum við lært af því sem dreif á daga Jósefs í fyrstu í Egyptalandi?
◻ Hvaða trygging fyrir okkur er fólgin í umhyggju Jehóva fyrir Jósef og því fólki sem hungursneyðin kom yfir?
[Rammi á blaðsíðu 21]
Dálkahöfundur sagði í The Sunday Star (Toronto, þann 30. mars 1986) um hinar stóru kirkjudeildir: „Þær skortir mikið á að svara hinni djúpu, andlegu hungursneyð sem karlar, konur og börn okkar tíma líða.“