Jehóva er Guð sáttmála
„Ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús.“ — JEREMÍA 31:31.
1, 2. (a) Til hvaða hátíðar stofnaði Jesús kvöldið 14. nísan árið 33? (b) Hvaða sáttmála minntist Jesús á í sambandi við dauða sinn?
KVÖLDIÐ 14. nísan árið 33 hélt Jesús páska ásamt postulum sínum 12. Jesús vissi að þetta yrði síðasta máltíðin sem þeir neyttu saman og að hann myndi bráðlega deyja fyrir hendi óvina sinna, svo að hann notaði tækifærið til að útskýra mörg mikilvæg mál fyrir þeim lærisveinum sem stóðu honum næst. — Jóhannes 13:1–17:26.
2 Það var þá, eftir að Jesús hafði vísað Júdasi Ískaríot á dyr, að hann kom á einu árlegu trúarhátíðinni sem kristnum mönnum er fyrirskipað að halda — minningarhátíðinni um dauða sinn. Frásagan segir: „Þá er þeir mötuðust, tók Jesús brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: ‚Takið og etið, þetta er líkami minn.‘ Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: ‚Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.‘“ (Matteus 26:26-28) Fylgjendur Jesú áttu að minnast dauða hans með einföldum og virðulegum hætti. Og Jesús talaði um sáttmála í sambandi við dauða sinn. Í frásögn Lúkasar er hann kallaður ‚nýi sáttmálinn.‘ — Lúkas 22:20.
3. Hvaða spurningum er varpað fram um nýja sáttmálann?
3 Hvað er nýi sáttmálinn? Ef þetta er nýr sáttmáli, merkir það þá að til sé gamall sáttmáli? Eru einhverjir aðrir sáttmálar tengdir honum? Þetta eru mikilvægar spurningar því að Jesús sagði að blóði sáttmálans yrði úthellt „til fyrirgefningar synda.“ Öll þörfnumst við sárlega slíkrar fyrirgefningar. — Rómverjabréfið 3:23.
Sáttmáli við Abraham
4. Hvaða fornt fyrirheit auðveldar okkur að skilja nýja sáttmálann?
4 Til að skilja nýja sáttmálann þurfum við að fara langt aftur í tímann, næstum 2000 ár fyrir jarðneska þjónustu Jesú þegar Tara og fjölskylda hans — þar á meðal Abram (síðar kallaður Abraham) og eiginkona Abrams, Saraí (síðar nefnd Sara) — lögðu í langferð frá velmektarborginni Úr í Kaldeu til Harran í norðurhluta Mesópótamíu. Þar bjuggu þau uns Tara dó. Þá fór hinn 75 ára gamli Abraham yfir Efrat að boði Jehóva, hélt í suðvesturátt til Kanaanlands og bjó þar í tjöldum sem hirðingi. (1. Mósebók 11:31–12:1, 4, 5; Postulasagan 7:2-5) Það var árið 1943 f.o.t. Abraham var enn í Harran þegar Jehóva sagði honum: „Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera. Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.“ Síðar, eftir að Abraham var kominn inn í Kanaanland, bætti Jehóva við: „Niðjum þínum vil ég gefa þetta land.“ — 1. Mósebók 12:2, 3, 7.
5. Hvaða sögufrægum spádómi er fyrirheit Jehóva við Abraham tengt?
5 Fyrirheit Jehóva við Abraham tengdist öðru fyrirheiti hans. Það gerði Abraham að einni aðalpersónu mannkynssögunnar, að hlekk í uppfyllingu fyrsta spádómsins sem skráður er. Eftir að Adam og Eva syndguðu í Edengarðinum felldi Jehóva dóm yfir þeim báðum. Samtímis ávarpaði hann Satan sem hafði afvegaleitt Evu: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Sáttmáli Jehóva við Abraham gaf til kynna að sæðið, sem yrði þess valdandi að verk Satans yrðu að engu, kæmi af þessum ættföður.
6. (a) Fyrir tilstilli hvers ætlaði Jehóva að uppfylla fyrirheit sitt við Abraham? (b) Hvað er Abrahamssáttmálinn?
6 Þar eð fyrirheit Jehóva tengdist sæði eða afkvæmi þurfti Abraham að eignast son sem sæðið gæti komið af. En þau Sara voru orðin öldruð og voru enn barnlaus. Loks blessaði Jehóva þau og vann það kraftaverk að endurlífga getnaðarmátt þeirra, þannig að Sara ól Abraham soninn Ísak og hélt fyrirheitinu um sæði lifandi. (1. Mósebók 17:15-17; 21:1-7) Mörgum árum síðar reyndi Jehóva trú Abrahams og lét hann sýna í verki að hann væri fús til að fórna ástkærum syni sínum, Ísak, og þá endurtók hann fyrirheit sitt við hann: „Skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna. Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu.“ (1. Mósebók 22:15-18) Þetta útvíkkaða fyrirheit er oft kallað Abrahamssáttmálinn, og nýi sáttmálinn, sem kom síðar til, yrði nátengdur honum.
7. Hvernig tók sæði Abrahams að fjölga og hvað leiddi til þess að afkomendur hans settust að í Egyptalandi?
7 Síðar eignaðist Ísak tvíburana Esaú og Jakob. Jehóva valdi Jakob til að vera forfaðir fyrirheitna sæðisins. (1. Mósebók 28:10-15; Rómverjabréfið 9:10-13) Jakob átti 12 syni. Ljóst var að nú var kominn tími til að afkvæmi eða sæði Abrahams tæki að margfaldast. Þegar synir Jakobs voru fulltíða og margir hverjir fjölskyldufeður neyddust þeir til að flytja til Egyptalands sökum hungursneyðar. Þar hafði Jósef, sonur Jakobs, búið í haginn fyrir þá vegna forsjónar Guðs. (1. Mósebók 45:5-13; 46:26, 27) Fáeinum árum síðar linnti hungursneyðinni í Kanaan. En ætt Jakobs dvaldist áfram í Egyptalandi, fyrst sem gestir en síðar sem þrælar. Það var ekki fyrr en árið 1513 f.o.t., 430 árum eftir að Abraham fór yfir Efrat, að Móse leiddi afkomendur Jakobs út úr Egyptalandi til frelsis. (2. Mósebók 1:8-14; 12:40, 41; Galatabréfið 3:16, 17) Nú var kominn tími til að Jehóva gæfi sérstakan gaum að sáttmála sínum við Abraham. — 2. Mósebók 2:24; 6:2-5.
‚Gamli sáttmálinn‘
8. Hvaða sáttmála gerði Jehóva við afkomendur Jakobs við Sínaífjall og hvernig tengdist það Abrahamssáttmálanum?
8 Jakob og synir hans voru stórfjölskylda þegar þeir fluttust til Egyptalands en afkomendur þeirra yfirgáfu Egyptaland sem stór hópur fjölmennra ættkvísla. (2. Mósebók 1:5-7; 12:37, 38) Áður en Jehóva leiddi þá til Kanaanlands lét hann þá halda suður að fjalli sem nefnist Hóreb (eða Sínaí) í Arabíu. Þar gerði hann sáttmála við þá. Hann var síðar kallaður ‚gamli sáttmálinn‘ í samanburði við ‚nýja sáttmálann.‘ (2. Korintubréf 3:14) Jehóva notaði gamla sáttmálann til tákns um uppfyllingu sáttmála síns við Abraham.
9. (a) Hverju fernu lofaði Jehóva fyrir tilstilli Abrahamssáttmálans? (b) Hvað annað bauð sáttmáli Jehóva við Ísrael upp á og með hvaða skilyrði?
9 Jehóva útskýrði ákvæði þessa sáttmála fyrir Ísrael: „Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín. Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.“ (2. Mósebók 19:5, 6) Jehóva hafði heitið því að sæði Abrahams yrði (1) mikil þjóð, (2) yrði veittur sigur yfir óvinum sínum, (3) myndi erfa Kanaanland og (4) yrði farvegur Guðs til að blessa þjóðirnar. Núna opinberaði hann að Ísraelsmenn gætu sjálfir hlotið þessa blessun sem útvalin þjóð hans, sem „prestaríki og heilagur lýður,“ ef þeir hlýddu boðum hans. Féllust Ísraelsmenn á að gangast undir þennan sáttmála? Þeir svöruðu einum munni: „Vér viljum gjöra allt það, sem [Jehóva] býður.“ — 2. Mósebók 19:8.
10. Hvernig kom Jehóva á þjóðskipulagi hjá Ísraelsmönnum og hvers vænti hann af þeim?
10 Jehóva kom þannig á þjóðskipulagi hjá Ísraelsmönnum. Hann gaf þeim lög um tilbeiðslu og borgaraleg mál. Hann lét þeim í té tjaldbúð (síðar musteri í Jerúsalem) og prestastétt til að veita heilaga þjónustu í tjaldbúðinni. Að halda sáttmálann þýddi að hlýða lögum Jehóva en þó öðru fremur að tilbiðja hann einan. Fyrsta boðorðið af þeim tíu, sem voru kjarni þessara laga, var á þessa leið: „Ég er [Jehóva] Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“ — 2. Mósebók 20:2, 3.
Blessun fyrir atbeina lagasáttmálans
11, 12. Á hvaða vegu uppfylltust fyrirheit gamla sáttmálans á Ísrael?
11 Uppfylltust fyrirheit lagasáttmálans á Ísrael? Varð Ísrael „heilagur lýður“ eða þjóð? Ísraelsmenn voru afkomendur Adams og þar af leiðandi syndarar. (Rómverjabréfið 5:12) Lagasáttmálinn kvað hins vegar á um fórnir til að breiða yfir syndir þeirra. Jehóva sagði um fórnirnar sem færðar voru á hinum árlega friðþægingardegi: „Á þessum degi skal friðþægt verða fyrir yður til þess að hreinsa yður. Af öllum syndum yðar skuluð þér hreinir vera fyrir [Jehóva].“ (3. Mósebók 16:30) Þegar Ísraelsmenn voru trúfastir voru þeir heilög þjóð, hreinsaðir til þjónustu Jehóva. En þessi hreinleiki var undir því kominn að þeir hlýddu lögmálinu og færðu stöðugar fórnir.
12 Varð Ísrael „prestaríki“? Allt frá upphafi var Ísrael konungsríki með Jehóva sem himneskan konung. (Jesaja 33:22) Í lagasáttmálanum voru ákvæði um mennskan konungdóm, þannig að síðar ríktu konungar í Jerúsalem sem fulltrúar Jehóva. (5. Mósebók 17:14-18) En var Ísrael prestaríki? Þjóðin átti sér prestastétt sem veitti heilaga þjónustu í tjaldbúðinni. Tjaldbúðin (og síðar musterið) var miðstöð hreinnar tilbeiðslu Ísraelsmanna og einnig manna af öðrum þjóðum. Og þjóðin var eina boðleið Guðs til að opinbera mannkyninu sannleikann. (2. Kroníkubók 6:32, 33; Rómverjabréfið 3:1, 2) Allir trúfastir Ísraelsmenn, ekki aðeins prestarnir af ætt Leví, voru „vottar“ Jehóva. Ísrael var „þjónn“ Jehóva til að ‚víðfrægja lof hans.‘ (Jesaja 43:10, 21) Margir auðmjúkir menn af öðrum þjóðum sáu mátt Jehóva að verki í þágu fólks hans og löðuðust að sannri tilbeiðslu. Þeir snerust til trúar. (Jósúabók 2:9-13) En aðeins ein ættkvísl þjónaði raunverulega sem smurðir prestar.
Trúskiptingar í Ísrael
13, 14. (a) Af hverju er hægt að segja að trúskiptingar hafi ekki átt aðild að lagasáttmálanum? (b) Hvernig náði lagasáttmálinn til trúskiptinga?
13 Hver var staða slíkra trúskiptinga? Þegar Jehóva gerði sáttmála sinn var hann einungis gerður við Ísraelsmenn; hinn ‚mikli fjöldi af alls konar lýð,‘ sem var með þeim, var ekki nefndur sem þátttakandi. (2. Mósebók 12:38; 19:3, 7, 8) Frumburðir þeirra voru ekki meðtaldir þegar lausnargjaldið fyrir frumburði Ísraelsmanna var reiknað. (4. Mósebók 3:44-51) Áratugum síðar, þegar Kanaanlandi var skipt milli ættkvísla Ísraelsmanna, var trúuðum mönnum af öðrum þjóðum ekki úthlutað neinu landi. (1. Mósebók 12:7; Jósúabók 13:1-14) Af hverju? Af því að lagasáttmálinn var ekki gerður við trúskiptinga. Karlmenn, sem skiptu um trú, voru þó umskornir í samræmi við lögmálið. Þeir héldu ákvæði þess og nutu góðs af þeim. Jafnt trúskiptingar sem Ísraelsmenn voru settir undir ákvæði lagasáttmálans. — 2. Mósebók 12:48, 49; 4. Mósebók 15:14-16; Rómverjabréfið 3:19.
14 Ef trúskiptingur varð manni óviljandi að bana, svo dæmi sé tekið, gat hann flúið í griðaborg líkt og Ísraelsmaður. (4. Mósebók 35:15, 22-25; Jósúabók 20:9) Á friðþægingardeginum var færð fórn „fyrir allan Ísraels söfnuð.“ Trúskiptingar tilheyrðu söfnuðinum og tóku þátt í því sem fram fór og fórnin breiddi líka yfir syndir þeirra. (3. Mósebók 16:7-10, 15, 17, 29; 5. Mósebók 23:7, 8) Trúskiptingarnir voru svo nátengdir Ísraelsmönnum undir lagasáttmálanum að á hvítasunnunni árið 33, þegar fyrsti ‚lykill himnaríkis‘ var notaður í þágu Gyðinga, nutu þeir líka góðs af. Þar af leiðandi gerðist „Nikolás frá Antíokkíu, sem tekið hafði gyðingatrú,“ kristinn og var einn þeirra ‚sjö vel kynntu manna‘ sem skipaðir voru til að sinna þörfum safnaðarins í Jerúsalem. — Matteus 16:19; Postulasagan 2:5-10; 6:3-6; 8:26-39.
Jehóva blessar sæði Abrahams
15, 16. Hvernig rættist sáttmáli Jehóva við Abraham undir lagasáttmálanum?
15 Þegar búið var að koma þjóðskipulagi á afkomendur Abrahams undir lagasáttmálanum blessaði Jehóva þá í samræmi við fyrirheit sitt við ættföðurinn. Árið 1473 f.o.t. leiddi Jósúa, arftaki Móse, Ísraelsmenn inn í Kanaanland. Skipting landsins milli ættkvíslanna uppfyllti loforð Jehóva um að gefa afkomendum Abrahams landið. Meðan Ísraelsmenn voru trúfastir stóð Jehóva við loforð sitt um að veita þeim sigur yfir óvinum sínum. Það var mjög áberandi í stjórnartíð Davíðs konungs. Þegar Salómon, sonur Davíðs, var við völd rættist þriðji þáttur Abrahamssáttmálans. „Júda og Ísrael voru fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir.“ — 1. Konungabók 4:20.
16 En hvernig gátu þjóðirnar hlotið blessun fyrir atbeina Ísraelsmanna, sæðis Abrahams? Eins og áður er nefnt voru Ísraelsmenn útvalin þjóð Jehóva, fulltrúi hans meðal þjóðanna. Skömmu áður en Ísraelsmenn gengu inn í Kanaanland sagði Móse: „Vegsamið, þjóðir, lýð hans!“ (5. Mósebók 32:43) Margir útlendingar gerðu það. „Mikill fjöldi af alls konar lýð“ hafði fylgt Ísraelsmönnum út úr Egyptalandi, orðið vitni að mætti Jehóva í eyðimörkinni og heyrt hvatningu Móse um að vegsama eða fagna. (2. Mósebók 12:37, 38) Síðar giftist Rut hin móabítíska Ísraelsmanninum Bóasi og varð ein af ættmæðrum Messíasar. (Rutarbók 4:13-22) Kenítinn Jónadab og afkomendur hans og Eþíópíumaðurinn Ebed-Melek skáru sig úr með því að fylgja réttum meginreglum þegar margir Ísraelsmenn að holdinu voru ótrúir. (2. Konungabók 10:15-17; Jeremía 35:1-19; 38:7-13) Undir stjórn Persaveldis tóku margir útlendingar trú og börðust með Ísraelsmönnum gegn óvinum þeirra. — Esterarbók 8:17.
Nýr sáttmáli nauðsynlegur
17. (a) Af hverju hafnaði Jehóva norður- og suðurríki Ísraels? (b) Hvað leiddi til þess að Gyðingum var endanlega hafnað?
17 En útvalin þjóð Guðs varð að vera trú til að fyrirheit hans uppfylltust á henni að fullu. Það var hún ekki. Að vísu voru til Ísraelsmenn sem sýndu einstaka trú. (Hebreabréfið 11:32–12:1) Oftsinnis sneri þjóðin sér þó að heiðnum guðum og vonaðist til að hafa efnislegan hag af því. (Jeremía 34:8-16; 44:15-18) Einstaklingar mistúlkuðu lögmálið eða hreinlega hunsuðu það. (Nehemíabók 5:1-5; Jesaja 59:2-8; Malakí 1:12-14) Eftir dauða Salómons skiptist Ísrael í norður- og suðurríki. Þegar uppreisnargirni norðurríkisins reyndist óviðráðanleg tilkynnti Jehóva: „Af því að þér hafið hafnað þekkingunni, þá vil ég hafna yður, svo að þér séuð ekki prestar fyrir mig.“ (Hósea 4:6) Suðurríkinu var líka refsað harðlega fyrir að hafa ekki haldið sáttmálann. (Jeremía 5:29-31) Þegar Gyðingar höfnuðu Jesú sem Messíasi hafnaði Jehóva þeim í staðinn. (Postulasagan 3:13-15; Rómverjabréfið 9:31–10:4) Loks gerði Jehóva nýja ráðstöfun til að uppfylla Abrahamssáttmálann að fullu. — Rómverjabréfið 3:20.
18, 19. Hvaða nýtt fyrirkomulag gerði Jehóva til að Abrahamssáttmálinn gæti ræst fullkomlega?
18 Þetta nýja fyrirkomulag var nýi sáttmálinn. Jehóva hafði spáð því þegar hann sagði: „Sjá, þeir dagar munu koma — segir [Jehóva] — að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús . . . En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta — segir [Jehóva]: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.“ — Jeremía 31:31-33.
19 Þetta er nýi sáttmálinn sem Jesús minntist á hinn 14. nísan árið 33. Þá opinberaði Jesús að hinn fyrirheitni sáttmáli væri í þann mund að taka gildi milli lærisveinanna og Jehóva. Sjálfur yrði Jesús meðalgangari hans. (1. Korintubréf 11:25; 1. Tímóteusarbréf 2:5; Hebreabréfið 12:24) Fyrir tilstilli þessa nýja sáttmála átti fyrirheit Jehóva við Abraham að hljóta enn dýrlegri og varanlegri uppfyllingu eins og við sjáum í næstu grein.
Geturðu svarað?
◻ Hverju hét Jehóva í Abrahamssáttmálanum?
◻ Hvernig lét Jehóva Abrahamssáttmálann uppfyllast í þágu Ísraels að holdinu?
◻ Hvernig nutu trúskiptingar góðs af gamla sáttmálanum?
◻ Hvers vegna þurfti nýjan sáttmála?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Jehóva notaði lagasáttmálann til tákns um uppfyllingu Abrahamssáttmálans.