„Ísrael Guðs“ og ‚múgurinn mikli‘
„Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið.“ — OPINBERUNARBÓKIN 7:9.
1-3. (a) Hvaða dýrlegar framtíðarhorfur eiga smurðir kristnir menn á himnum? (b) Hvernig reyndi Satan að eyðileggja söfnuðinn á fyrstu öld? (c) Hvað gerðist árið 1919 sem sýndi að Satan hafði mistekist að spilla hinum smurða kristna söfnuði?
STOFNSETNING ‚Ísraels Guðs‘ árið 33 var stórt skref í framvindu tilgangs Jehóva. (Galatabréfið 6:16) Smurðir meðlimir þessarar þjóðar hafa þá von að verða ódauðlegar andaverur og ríkja með Kristi í himnesku ríki Guðs. (1. Korintubréf 15:50, 53, 54) Í þeirri stöðu gegna þeir forystuhlutverki í að helga nafn Jehóva og sundurmola höfuð óvinarins mikla, Satans djöfulsins. (1. Mósebók 3:15; Rómverjabréfið 16:20) Það er engin furða að Satan skuli hafa gert allt sem hann gat til að eyðileggja þennan nýja söfnuð, bæði með því að ofsækja hann og reyna að spilla honum. — 2. Tímóteusarbréf 2:18; Júdasarbréfið 4; Opinberunarbókin 2:10.
2 Satan varð ekkert ágengt meðan postulanna naut við. En eftir dauða þeirra breiddist fráhvarfið óhindrað út. Frá mannlegum sjónarhóli virtist búið að spilla hinum hreina kristna söfnuði, sem Jesús stofnsetti, með fráhvarfi er Satan kom fram með þá afskræmingu sem nú er kölluð kristni heimurinn. (2. Þessaloníkubréf 2:3-8) Sönn kristni hélt þó velli. — Matteus 28:20.
3 Í dæmisögu sinni um hveitið og illgresið sagði Jesús fyrir að sannkristnir menn myndu vaxa um tíma með „illgresinu,“ eða falskristnum mönnum, og þannig fór. En hann sagði líka að á síðustu dögum yrði aftur hægt að greina „börn ríkisins“ frá „illgresinu.“ (Matteus 13:36-43) Það gerðist líka. Árið 1919 komu smurðir, sannkristnir menn út úr babýlonskri ánauð. Guð viðurkenndi þá sem hinn ‚trúa og hyggna þjón‘ og þeir tóku að prédika fagnaðarerindið um ríkið með djörfung. (Matteus 24:14, 45-47; Opinberunarbókin 18:4) Þeir voru nálega allir af þjóðunum en vegna þess að þeir höfðu trú Abrahams voru þeir í reynd „niðjar Abrahams.“ Þeir tilheyrðu „Ísrael Guðs.“ — Galatabréfið 3:7, 26-29.
‚Múgurinn mikli‘
4. Hvaða hópi kristinna manna fór að bera á, einkum á fjórða áratugnum?
4 Þeir fyrstu, sem tóku við prédikun þessara smurðu kristnu manna, urðu einnig andlegir Ísraelsmenn, þeir ‚aðrir‘ sem eftir voru af hinum 144.000 er hafa himneska von. (Opinberunarbókin 12:17) En einkum frá fjórða áratugnum fór að bera á öðrum hópi. Þetta voru hinir ‚aðrir sauðir‘ í dæmisögunni um sauðabyrgin. (Jóhannes 10:16) Þeir voru lærisveinar Krists með von um eilíft líf í paradís á jörð. Þeir voru andlegir niðjar smurðra kristinna manna ef svo má segja. (Jesaja 59:21; 66:22; samanber 1. Korintubréf 4:15, 16.) Þeir gerðu sér grein fyrir að hinn smurði kristni söfnuður var hinn trúi og hyggni þjónn, og líkt og smurðir bræður þeirra báru þeir djúpan kærleika til Jehóva, trúðu á fórn Jesú, voru kostgæfir í að lofa Jehóva og fúsir til að þjást fyrir réttlætissakir.
5. Hvernig hefur skilningur á stöðu hinna annarra sauða aukist jafnt og þétt?
5 Í fyrstu skildu menn ekki greinilega hver væri staða þessara annarra sauða, en með tímanum skýrðist það. Árið 1932 var smurðum kristnum mönnum bent á að hvetja hina aðra sauði til að taka þátt í prédikunarstarfinu — sem margir hinna annarra sauða gerðu reyndar þá þegar. Árið 1934 voru hinir aðrir sauðir hvattir til að skírast niðurdýfingarskírn. Árið 1935 var sýnt fram á að þeir væru ‚múgurinn mikli‘ í 7. kafla Opinberunarbókarinnar. Árið 1938 var þeim boðið að vera viðstaddir minningarhátíðina um dauða Jesú sem áhorfendur. Árið 1950 kom í ljós að þroskaðir karlmenn þeirra á meðal væru ‚höfðingjarnir‘ sem eru eins og „hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum.“ (Sálmur 45:17; Jesaja 32:1, 2) Árið 1953 skildu þjónar Guðs að jarðneskt skipulag hans — sem var þá að stærstum hluta hinir aðrir sauðir — væri kjarni þess jarðneska samfélags sem yrði í nýja heiminum. Árið 1985 skildu þeir að hinir aðrir sauðir væru, á grundvelli lausnarfórnar Jesú, lýstir réttlátir sem vinir Guðs með það í vændum að lifa Harmagedón af.
6. Hver er staða hinna smurðu og hinna annarra sauða nú á dögum og hvaða spurningar vekur það?
6 Núna, undir lok hinna ‚síðustu daga,‘ er meirihluti hinna 144.000 dáinn og hefur hlotið himnesk laun sín. (2. Tímóteusarbréf 3:1; Opinberunarbókin 6:9-11; 14:13) Prédikun fagnaðarerindisins hvílir að stærstum hluta á herðum kristinna manna með jarðneska von og þeir álíta það sérréttindi að styðja smurða bræður Jesú við hana. (Matteus 25:40) En þessir smurðu menn eru hinn trúi og hyggni þjónn sem hefur látið andlegu fæðuna í té alla hina síðustu daga. Hvernig verður ástatt með hina aðra sauði þegar hinir smurðu hafa allir hlotið himnesk laun sín? Hvaða ráðstafanir verða þá gerðar fyrir hina aðra sauði? Við fáum svar við því með því að athuga aðstæður í Forn-Ísrael eilítið nánar.
Táknrænt „prestaríki“
7, 8. Að hvaða marki var Forn-Ísrael prestaríki og heilagur lýður undir lagasáttmálanum?
7 Er Jehóva útvaldi Ísraelsmenn sem sérstaka þjóð sína gerði hann sáttmála við þá og sagði: „Ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín. Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.“ (2. Mósebók 19:5, 6) Ísrael var útvalin þjóð Jehóva á grundvelli lagasáttmálans. En hvernig myndi fyrirheitið um prestaríki og heilagan lýð rætast?
8 Þegar Ísraelsþjóðin var trúföst viðurkenndi hún drottinvald Jehóva og leit á hann sem konung sinn. (Jesaja 33:22) Þannig séð var Ísrael konungsríki. En eins og opinberað var síðar fól fyrirheitið um ‚ríki‘ jafnvel meira í sér en þetta. Ísraelsþjóðin var enn fremur hrein og aðgreind frá þjóðunum umhverfis er hún hlýddi lögmáli Jehóva. Hún var heilög þjóð. (5. Mósebók 7:5, 6) Var hún prestaríki? Þannig var að í Ísrael var Levíættkvísl útvalin til musterisþjónustunnar og innan hennar voru levítaprestarnir. Þegar Móselögin tóku gildi voru karlar af Levíætt teknir í skiptum fyrir frumburði allra fjölskyldna sem ekki voru af Levíætt.a (2. Mósebók 22:29; 4. Mósebók 3:11-16, 40-51) Þannig má segja að hver einasta fjölskylda í Ísrael hafi átt sér fulltrúa við musterisþjónustuna. Þjóðin gat ekki komist nær því að vera prestastétt. Engu að síður var hún fulltrúi Jehóva gagnvart þjóðunum. Sérhver útlendingur, sem vildi tilbiðja hinn sanna Guð, varð að gera það í félagi við Ísrael. — 2. Kroníkubók 6:32, 33; Jesaja 60:10.
9. Hvað kom Jehóva til að hafna norðurríkinu Ísrael sem ‚prestum fyrir sig‘?
9 Eftir dauða Salómons klofnaði þjóð Guðs í tvennt, í norðurríkið Ísrael undir stjórn Jeróbóams konungs, og í suðurríkið Júda undir stjórn Rehabeams konungs. Þar eð musterið, miðstöð sannrar tilbeiðslu, var á svæði Júda kom Jeróbóam upp ólöglegri tilbeiðslu með því að setja upp kálfalíkneski á því svæði sem hann réði. Auk þess „gjörði [hann] og hof á hæðunum og gjörði að prestum óvalda menn, er ekki voru niðjar Leví.“ (1. Konungabók 12:31) Norðurríkið sökk enn dýpra í falsguðadýrkun er Akab konungur leyfði útlendri konu sinni, Jesebel, að hefja Baalsdýrkun í landinu. Að lokum felldi Jehóva dóm yfir hinu uppreisnargjarna ríki. Hann sagði fyrir munn Hósea: „Lýður minn verður afmáður, af því að hann hefir enga þekking. Af því að þér hafið hafnað þekkingunni, þá vil ég hafna yður, svo að þér séuð ekki prestar fyrir mig.“ (Hósea 4:6) Skömmu síðar afmáðu Assýringar norðurríkið Ísrael.
10. Hvernig var suðurríkið Júda fulltrúi Jehóva frammi fyrir þjóðunum meðan það var trúfast?
10 Hvað þá um suðurríkið Júda? Á dögum Hiskía sagði Jehóva Júdamönnum fyrir munn Jesaja: „Þér eruð mínir vottar, . . . og minn þjónn, sem ég hefi útvalið . . . sá lýður, sem ég hefi skapað mér til handa, [til að] víðfrægja lof mitt.“ (Jesaja 43:10, 21; 44:21) Meðan suðurríkið var trúfast boðaði það þjóðunum dýrð Jehóva og laðaði hjartahreint fólk til að tilbiðja hann í musterinu þar sem það naut þjónustu hinnar lögmætu levítaprestastéttar.
Útlendingar í Ísrael
11, 12. Nefndu nokkra útlendinga sem komu til að þjóna Jehóva í félagi við Ísrael.
11 Lögmálið var gefið fyrir milligöngu Móse, en eiginkona hans, Sippóra, var Midíaníti. Það tók tillit til útlendinga sem brugðust vel við þessum góða vitnisburði þjóðarinnar. „Mikill fjöldi af alls konar lýð“ yfirgaf Egyptaland ásamt Ísraelsmönnum og var viðstaddur er lögmálið var gefið. (2. Mósebók 2:16-22; 12:38; 4. Mósebók 11:4) Rahab og fjölskyldu hennar var bjargað úr Jeríkó og síðar veitt aðild að söfnuði Gyðinga. (Jósúabók 6:23-25) Skömmu síðar sömdu Gíbeonítar frið við Ísrael og fengu verkefni í sambandi við tjaldbúðina. — Jósúabók 9:3-27; sjá einnig 1. Konungabók 8:41-43; Esterarbók 8:17.
12 Síðar gegndu útlendingar háum embættum. Úría Hetíti, eiginmaður Batsebu, var talinn með ‚hraustum köppum Davíðs,‘ sem og Selek Ammóníti. (1. Kroníkubók 11:26, 39, 41; 2. Samúelsbók 11:3, 4) Ebed-Melek, sem var Eþíópi, þjónaði í höllinni og hafði aðgang að konungi. (Jeremía 38:7-9) Eftir að Ísraelsmenn sneru heim úr útlegðinni í Babýlon fengu musterisþjónarnir, sem voru ekki ísraelskir, aukna ábyrgð við að aðstoða prestana. (Esrabók 7:24) Þar eð litið er á marga þessara trúföstu útlendinga sem táknmynd múgsins mikla nú á tímum er athyglisvert að skoða stöðu þeirra.
13, 14. (a) Hvaða sérréttindi og ábyrgð höfðu trúskiptingar í Ísrael? (b) Hvernig áttu Ísraelsmenn að líta á trúfasta trúskiptinga?
13 Slíkir menn voru trúskiptingar, vígðir dýrkendur Jehóva undir Móselögunum og voru ásamt Ísraelsmönnum aðgreindir frá þjóðunum. (3. Mósebók 24:22) Þeir færðu fórnir, forðuðust falsguðadýrkun og héldu sér frá blóði alveg eins og Ísraelsmenn. (3. Mósebók 17:10-14; 20:2) Þeir unnu að smíði musteris Salómons og tóku þátt í endurreisn sannrar guðsdýrkunar undir stjórn Asa konungs og Hiskía. (1. Kroníkubók 22:2; 2. Kroníkubók 15:8-14; 30:25) Þegar Pétur notaði fyrsta lykil himnaríkis á hvítasunnunni árið 33 heyrðu bæði ‚Gyðingar og þeir sem tekið höfðu trú Gyðinga‘ ræðu hans. Hugsanlegt er að sumir þeirra þrjú þúsund, sem létu skírast þann dag, hafi verið trúskiptingar. (Postulasagan 2:11, 41) Skömmu síðar skírði Filippus eþíópskan trúskipting — áður en Pétur notaði síðasta lykil himnaríkis hjá Kornelíusi og fjölskyldu hans. (Matteus 16:19; Postulasagan 8:26-40; 10:30-48) Ljóst er að trúskiptingar voru ekki álitnir heiðingjar.
14 Trúskiptingar nutu þó ekki sömu stöðu í landinu og innfæddir Ísraelsmenn. Þeir þjónuðu ekki sem prestar og frumburðir þeirra áttu sér ekki fulltrúa meðal prestastéttar Leví.b Og þeir áttu ekkert erfðaland í Ísrael. Engu að síður var Ísraelsmönnum fyrirskipað að vera tillitssamir við trúfasta trúskiptinga og líta á þá sem bræður. — 3. Mósebók 19:33, 34.
Hin andlega þjóð
15. Hvað afleiðingar hafði það er Ísrael að holdinu neitaði að taka við Messíasi?
15 Lögmálið gegndi því hlutverki að halda Ísrael hreinum, aðgreindum frá þjóðunum umhverfis. En það þjónaði líka öðrum tilgangi. Páll postuli skrifaði: „Lögmálið [hefur] orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú.“ (Galatabréfið 3:24) Því miður létu fæstir Ísraelsmenn lögmálið leiða sig til Krists. (Matteus 23:15; Jóhannes 1:11) Jehóva Guð hafnaði því þessari þjóð og lét „Ísrael Guðs“ fæðast. Enn fremur bauð hann mönnum, sem ekki voru Gyðingar, að verða fullgildir þegnar þessa nýja Ísraels. (Galatabréfið 3:28; 6:16) Það er á þessari nýju þjóð sem fyrirheit Jehóva í 2. Mósebók 19:5, 6 um konunglegt prestafélag fær stórkostlega lokauppfyllingu. Hvernig?
16, 17. Í hvaða skilningi eru smurðir kristnir menn á jörðinni ‚konunglegir‘? „Prestafélag“?
16 Pétur vitnaði í 2. Mósebók 19:6 er hann skrifaði smurðum kristnum mönnum á sinni tíð: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður.‘“ (1. Pétursbréf 2:9) Hvað þýðir það? Eru smurðir kristnir menn á jörðinni konungar? Nei, konungdómur þeirra heyrir framtíðinni til. (1. Korintubréf 4:8) Engu að síður eru þeir ‚konunglegir‘ í þeim skilningi að þeim eru ætluð konungleg sérréttindi í framtíðinni. Þeir eru nú þegar þjóð undir stjórn konungs, Jesú, sem skipaður er af alvaldinum mikla, Jehóva Guði. Páll skrifaði: „[Jehóva] hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar.“ — Kólossubréfið 1:13.
17 Eru þá smurðir kristnir menn á jörðinni prestafélag eða -stétt? Já, í vissum skilningi. Sem söfnuður gegna þeir óumdeilanlegu prestshlutverki. Pétur útskýrði það er hann sagði: „Látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús, til heilags prestafélags.“ (1. Pétursbréf 2:5; 1. Korintubréf 3:16) Núna eru leifar smurðra kristinna manna í heild hinn „trúi og hyggni þjónn,“ boðleið andlegrar fæðu. (Matteus 24:45-47) Eins og var í Forn-Ísrael verður hver sá sem vill tilbiðja Jehóva að gera það í samfélagi við þessa smurðu kristnu menn.
18. Hver er aðalábyrgð hins smurða kristna safnaðar sem prestafélags á jörðinni?
18 Smurðir kristnir menn tóku auk þess við þeim sérréttindum af Ísrael að bera vitni um mikilleik Jehóva meðal þjóðanna. Samhengið sýnir að þegar Pétur kallaði smurða kristna menn konunglegt prestafélag hafði hann prédikunarstarfið í huga. Hann sameinaði í eitt fyrirheit Jehóva í 2. Mósebók 19:6 og orð hans við Ísrael í Jesaja 43:21 er hann sagði: „Þér eruð . . . ‚konunglegt prestafélag, . . . til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ (1. Pétursbréf 2:9) Í samræmi við það líkti Páll því við musterisfórn að víðfrægja dáðir Jehóva. Hann skrifaði: „Fyrir [Jesú] skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ — Hebreabréfið 13:15.
Himnesk uppfylling
19. Hver er stórkostleg lokauppfylling fyrirheitsins um að Ísrael verði prestaríki?
19 En 2. Mósebók 19:5, 6 á sér að lokum langtum stórkostlegri uppfyllingu. Í Opinberunarbókinni heyrir Jóhannes postuli himneskar verur heimfæra þennan ritningarstað er þær lofa hinn upprisna Jesú: „Þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð. Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja [„yfir,“ Biblían 1859] jörðunni.“ (Opinberunarbókin 5:9, 10) Í lokamerkingu sinni er hið konunglega prestafélag því himneskt ríki Guðs, stjórnvaldið sem Jesús kenndi okkur að biðja um. (Lúkas 11:2) Allir hinir 144.000 smurðu kristnu menn, sem halda trúfastir út allt til enda, munu eiga hlutdeild í þessu ríki. (Opinberunarbókin 20:4, 6) Hvílík uppfylling fyrirheitsins sem gefið var endur fyrir löngu fyrir munn Móse!
20. Hvaða spurningu er enn ósvarað?
20 Hvernig er allt þetta tengt stöðu múgsins mikla og framtíð hans er hinir smurðu hafa allir saman hlotið undursamlega arfleifð sína? Það skýrist í síðustu greininni í þessari greinaröð.
[Neðanmáls]
a Er prestastétt Ísraels var vígð og sett í embætti voru frumgetnir synir ættkvísla Ísraels annarra en Leví taldir og allir karlar af Levíættkvísl. Frumburðir voru 273 fleiri en karlar af Levíættkvísl. Jehóva fyrirskipaði því að greiddir skyldu fimm siklar í lausnargjald fyrir hvern þessara 273 sem umfram voru.
b Hinn mikli fjöldi af útlendum lýð var viðstaddur gildistöku lögmálsins árið 1513 f.o.t. en frumburðir þessa lýðs voru ekki taldir með þegar Levítarnir voru teknir í skiptum fyrir frumgetninga Ísraels. (Sjá 8. tölugrein.) Levítarnir voru því ekki teknir í skiptum fyrir frumburði þessa útlenda lýðs.
Geturðu útskýrt?
◻ Hvernig hefur skilningur á stöðu hinna annarra sauða aukist jafnt og þétt?
◻ Hvers vegna hafnaði Jehóva norðurríkinu Ísrael sem prestum?
◻ Hvaða stöðu hafði Júda frammi fyrir þjóðunum meðan þjóðin var trúföst?
◻ Hver var staða trúfastra trúskiptinga í Ísrael?
◻ Hvernig þjónar hinn smurði söfnuður sem prestaríki?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Sem konunglegt prestafélag boða smurðir kristnir menn dýrð Jehóva á jörðinni.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Guðsríki er lokauppfylling 2. Mósebókar 19:6.