Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir 2. Mósebókar
BÓKIN segir frá því hvernig Ísraelsmenn voru þrælkaðir vægðarlaust en hlutu síðan frelsi. (2. Mósebók 1:13) Hún segir hrífandi sögu af því hvernig ný þjóð varð til. Hún greinir einnig frá ótrúlegum kraftaverkum og afbragðslöggjöf, auk þess að fjalla um gerð tjaldbúðarinnar. Þetta er efni 2. Mósebókar í hnotskurn.
Bókin er skrifuð af hebreska spámanninum Móse og segir sögu Ísraelsmanna í 145 ár, frá því er Jósef dó árið 1657 f.o.t. þangað til tjaldbúðin var fullgerð árið 1512 f.o.t. En bókin er meira en áhugaverð sagnaheimild því að hún er hluti af orði Guðs, boðskap hans til mannanna. Sem slík er hún ‚lifandi og kröftug‘. (Hebreabréfið 4:12) Önnur Mósebók á því mikið erindi til okkar.
„GUÐ HEYRÐI ANDVARPANIR ÞEIRRA“
Afkomendum Jakobs í Egyptalandi fjölgar svo ört að þeir eru hnepptir í þrælkun samkvæmt konunglegri tilskipun. Faraó skipar jafnvel svo fyrir að deyða skuli öll ísraelsk sveinbörn. Móse er komið undan, þriggja mánaða gömlum, og dóttir faraós tekur hann sér í sonar stað. Hann elst upp meðal konungsfjölskyldunnar en fertugur að aldri tekur hann afstöðu með þjóð sinni þegar hann verður egypskum manni að bana. (Postulasagan 7:23, 24) Hann neyðist til að flýja og fer til Midíanslands þar sem hann kvænist og gerist hjarðmaður. Dag einn sér hann runna sem logar með yfirnáttúrlegum hætti og þar felur Jehóva honum að snúa aftur til Egyptalands til að leiða Ísraelsmenn út úr þrælkuninni. Aron bróðir hans er skipaður talsmaður hans.
Biblíuspurningar og svör:
3:1 — Hvers konar prestur var Jetró? Á ættfeðratímanum var höfuð fjölskyldunnar einnig prestur hennar. Jetró mun hafa verið höfuð einnar ættkvíslar Midíaníta en þeir voru afkomendur Abrahams og Ketúru. Því er hugsanlegt að þeir hafi haft kynni af tilbeiðslunni á Jehóva. — 1. Mósebók 25:1, 2.
4:11 — Í hvaða skilningi gerir Jehóva manninn mállausan, daufan eða blindan? Þó að Jehóva hafi einstöku sinnum valdið blindu og málleysi er hann ekki ábyrgur fyrir slíkri fötlun almennt. (1. Mósebók 19:11; Lúkas 1:20-22, 62-64) Yfirleitt má rekja hana til erfðasyndarinnar. (Jobsbók 14:4; Rómverjabréfið 5:12) En þar sem Guð hefur leyft slíkt ástand gat hann orðað það þannig að hann ‚gerði‘ manninn mállausan, daufan og blindan.
4:16 — Hvernig átti Móse að vera Aroni „sem Guð“? Móse var fulltrúi Guðs. Hann var því „sem Guð“ gagnvart Aroni en Aron talaði í umboði Móse.
Lærdómur:
1:7, 14. Jehóva hélt fólki sínu uppi meðan það var kúgað í Egyptalandi. Hann annast votta sína nú á tímum með sama hætti, meira að segja þegar þeir eru grimmilega ofsóttir.
1:17-21. Jehóva man eftir því góða sem við gerum. — Nehemíabók 13:31.
3:7-10. Jehóva bregst við þegar þjónar hans kveina.
3:14. Jehóva gerir alltaf það sem hann ætlar sér. Þess vegna getum við treyst að hin biblíulega von, sem við berum í brjósti, verði að veruleika.a
4:10, 13. Móse hafði svo litla trú á að hann væri áheyrilegur að hann sárbændi Jehóva um að senda einhvern annan, jafnvel þó að Jehóva fullvissaði hann um stuðning sinn. Jehóva notaði Móse engu að síður og gaf honum visku og kraft til að takast á við verkefni sitt. Við skulum ekki einblína á það sem okkur skortir heldur reiða okkur á Jehóva og vinna trúföst að því að prédika og kenna. — Matteus 24:14; 28:19, 20.
ÓTRÚLEG KRAFTAVERK LEIÐA TIL FRELSUNAR
Móse og Aron ganga fyrir faraó og fara fram á að Ísraelsmenn fái að halda Jehóva hátíð í eyðimörkinni. Egypski valdhafinn neitar þrjóskulega. Jehóva lætur þá Móse kalla eina pláguna af annarri yfir Egyptaland. Það er ekki fyrr en eftir tíundu pláguna sem faraó gefur Ísraelsmönnum fararleyfi. En skömmu síðar er hann kominn á hæla þeirra með miklu herliði. Jehóva opnar þá fólki sínu undankomuleið gegnum Rauðahafið og frelsar það. Egyptar elta en drukkna allir sem einn þegar hafið steypist yfir þá.
Biblíuspurningar og svör:
6:3 — Í hvaða skilningi hafði Guð ekki opinberað Abraham, Ísak og Jakobi nafn sitt? Þessir ættfeður notuðu nafn Jehóva og hann gaf þeim ýmis fyrirheit. Hann hafði hins vegar ekki opinberast þeim með því að láta þessi fyrirheit rætast. — 1. Mósebók 12:1, 2; 15:7, 13-16; 26:24; 28:10-15.
7:1 — Hvernig var Móse eins og „Guð fyrir Faraó“? Guð gaf Móse mátt og vald yfir faraó þannig að hann þurfti ekki að óttast hann.
7:22 — Hvar fengu egypsku prestarnir vatn sem hafði ekki breyst í blóð? Hugsanlegt er að þeir hafi notað vatn sem hafði verið tekið úr Níl áður en plágan reið yfir. Einnig virðist hafa verið hægt að ná í hreint vatn með því að grafa brunna í raka jörðina meðfram fljótinu. — 2. Mósebók 7:24.
8:26, 27 — Hvers vegna sagði Móse að fórnir Ísraels yrðu „Egyptum andstyggð“? Fjöldi dýra var dýrkaður í Egyptalandi. Með því að minnast á fórnir var Móse að hnykkja á endurtekinni kröfu sinni um að Ísraelsmönnum yrði leyft að fara og færa Jehóva fórnir.
12:29 — Hverjir töldust til frumburða? Einungis karlkyn taldist til frumburða. (4. Mósebók 3:40-51) Faraó var ekki drepinn þótt hann væri frumburður. Hann var fjölskyldufaðir. Fjölskyldufeður dóu ekki í tíundu plágunni heldur frumgetnir synir þeirra.
12:40 — Hve lengi bjuggu Ísraelsmenn í Egyptalandi? Þau 430 ár, sem nefnd eru í versinu, er tíminn sem Ísraelsmenn bjuggu samanlagt „í Egyptalandi og Kanaanlandi“.b Abraham hélt yfir Efrat í átt til Kanaanlands árið 1943 f.o.t. (1. Mósebók 12:4) Jakob fluttist svo til Egyptalands 215 árum síðar. (1. Mósebók 21:5; 25:26; 47:9) Ísraelsmenn voru því annað eins í Egyptalandi eða 215 ár.
15:8 — Sagt er að öldur Rauðahafsins hafi ‚stirðnað‘. Merkir það að sjórinn hafi frosið? Hebreska sögnin, sem er þýdd „stirðnuðu“, merkir að skreppa saman eða þykkna. Hún er notuð í Jobsbók 10:10 um það að hleypa ost. Þetta þarf því ekki að merkja að sjórinn hafi frosið og breyst í ís. Ef hvassi austanvindurinn, sem nefndur er í 2. Mósebók 14:21, hefði verið nógu kaldur til að sjórinn frysi hefði vafalaust verið minnst á fimbulkulda í frásögunni. Þar sem ekkert sýnilegt hélt sjónum í skefjum hefur hann litið út eins og stirðnaður, hlaupinn eða þykknaður.
Lærdómur:
7:14–12:30. Plágurnar tíu voru engin tilviljun. Þeim var spáð og þær komu nákvæmlega eins og spáð var. Þetta vitnar mjög greinilega um vald skaparans yfir vatni, sólarljósi, skordýrum, skepnum og mönnum. Plágurnar sýna einnig fram á að Guð getur látið ógæfu dynja á óvinum sínum en verndað þá sem tilbiðja hann.
11:2; 12:36. Jehóva blessar fólk sitt. Hann sá greinilega til þess að Ísraelsmönnum væri launað erfiði þeirra í Egyptalandi. Þeir höfðu komið inn í landið sem frjálsir menn en ekki herfangar sem hneppa mátti í þrældóm.
14:30. Við getum treyst því að Jehóva frelsar dýrkendur sína í þrengingunni miklu sem er framundan. — Matteus 24:20-22; Opinberunarbókin 7:9, 14.
ÞJÓÐ MEÐ JEHÓVA SEM KONUNG
Ísraelsmenn slá upp búðum við rætur Sínaífjalls í þriðja mánuðinum eftir að þeir voru frelsaðir úr Egyptalandi. Þar eru þeim gefin boðorðin tíu og önnur lög, þeir gangast undir sáttmála við Jehóva og verða þjóð undir guðræðisstjórn. Móse er 40 daga á fjallinu þar sem hann tekur við fyrirmælum um sanna tilbeiðslu og gerð tjaldbúðar Jehóva sem er eins konar færanlegt musteri. Meðan því fer fram gera Ísraelsmenn sér gullkálf og tilbiðja hann. Móse sér þetta þegar hann kemur ofan af fjallinu og reiðist svo að hann brýtur steintöflurnar tvær sem Guð hafði gefið honum. Eftir að hinir seku hafa hlotið makleg málagjöld gengur Móse aftur á fjallið og fær í hendur nýjar steintöflur. Hafist er handa við gerð tjaldbúðarinnar þegar hann kemur af fjallinu. Þessi fagra tjaldbúð og öll áhöld hennar eru fullgerð undir lok fyrsta ársins eftir frelsun Ísraelsmanna, og Jehóva fyllir hana dýrð sinni.
Biblíuspurningar og svör:
20:5 — Hvers vegna vitjar Jehóva „misgjörða feðranna“ á næstu kynslóðum? Hver maður er dæmdur eftir breytni sinni og hugarfari þegar hann kemst til vits og ára. En þegar Ísraelsmenn snerust til skurðgoðadýrkunar kom það niður á næstu kynslóðum. Þeir sem voru trúfastir fundu jafnvel fyrir trúarlegum afbrotum þjóðarinnar því að þau gerðu þeim erfiðara fyrir að vera ráðvandir.
23:19; 34:26 — Hvaða þýðingu hafði boðorðið að ekki mætti sjóða kið í mjólk móður sinnar? Að sjóða kið í mjólk móður sinnar mun hafa verið heiðinn helgisiður sem átti að framkalla regn. Og þar sem móðurmjólkin átti að næra ungviðið var grimmilegt að nota hana til að sjóða afkvæmið. Þetta lagaákvæði minnti þjóna Guðs á að þeir ættu að vera umhyggjusamir og brjóstgóðir.
23:20-23 — Hver var engillinn sem hér er nefndur og hvernig var nafn Jehóva „í honum“? Líklega var þetta Jesús í fortilveru sinni, enda hafði hann það hlutverk að leiða Ísraelsmenn á leiðinni til fyrirheitna landsins. (1. Korintubréf 10:1-4) Nafn Jehóva var „í honum“ í þeim skilningi að hann ver nafnið öðrum fremur og helgar það.
32:1-8, 25-35 — Hvers vegna var Aroni ekki refsað fyrir að gera gullkálfinn? Aron var ekki í hjarta sér fylgjandi skurðgoðadýrkuninni. Eftir á tók hann greinilega afstöðu ásamt öðrum levítum með Guði og gegn þeim sem voru andsnúnir Móse. Eftir að hinir seku höfðu verið teknir af lífi minnti Móse fólkið á að það hefði syndgað stórlega, en það bendir til þess að Jehóva hafi miskunnað fleirum en Aroni.
33:11, 20 — Hvernig talaði Guð við Móse „augliti til auglitis“? Þetta orðalag er notað um innilegt tveggja manna tal. Móse talaði við fulltrúa Jehóva og fékk leiðbeiningar Jehóva munnlega frá honum. En Móse sá ekki Jehóva enda getur enginn maður séð hann og haldið lífi. Jehóva talaði reyndar ekki persónulega við Móse heldur var lögmálinu komið til skila „fyrir umsýslan engla, . . . fyrir tilstilli meðalgangara“, að sögn Galatabréfsins 3:19.
Lærdómur:
15:25; 16:12. Jehóva annast fólk sitt.
18:21. Þeir sem veljast til ábyrgðarstarfa í kristna söfnuðinum verða einnig að vera dugandi, guðhræddir, áreiðanlegir og ósérplægnir.
20:1–23:33. Jehóva er æðsti löggjafi í heimi. Þegar Ísraelsmenn hlýddu lögum hans gátu þeir tilbeðið hann með skipulegum hætti og með gleði. Jehóva á sér guðræðislegt skipulag nú á tímum. Við stuðlum að hamingju okkar og öryggi með því að vinna með því.
Gildi bókarinnar
Hvað opinberar 2. Mósebók um Jehóva? Að hann sér vel fyrir þjónum sínum, frelsar þá og uppfyllir fyrirheit sín. Hann er æðsti stjórnandi og skipuleggjari þjóðar sinnar.
Efalaust hefur 2. Mósebók djúp áhrif á þig þegar þú lest hana samhliða undirbúningi fyrir Boðunarskólann. Þú færð betri innsýn í ýmsa ritningarstaði með því að skoða þær upplýsingar sem eru gefnar undir fyrirsögninni „Biblíuspurningar og svör“. Undir fyrirsögninni „Lærdómur“ er að finna dæmi um það gagn sem þú getur haft af vikulega biblíulestrinum.
[Neðanmáls]
a Sjá einnig bókina Nálægðu þig Jehóva, bls. 9, grein 8. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.
b Versið hljóðar svo í Sjötíumannaþýðingunni: „En búseta Ísraelsmanna, er þeir bjuggu í Egyptalandi og Kanaanlandi, var fjögur hundruð og þrjátíu ár.“ Svipað orðalag er að finna í Samverska fimmbókaritinu. (Sjá neðanmáls í New World Translation of the Holy Scriptures — With References.)
[Mynd á blaðsíðu 28]
Jehóva fól hinum hógværa Móse að leiða Ísraelsmenn út úr þrælkun.
[Mynd á blaðsíðu 29]
Plágurnar tíu sýndu fram á að skaparinn ræður yfir vatni, sólarljósi, skordýrum, skepnum og mönnum.
[Mynd á blaðsíðu 30]
Jehóva notaði Móse til að koma á guðræði hjá Ísraelsmönnum.