Tímamótahátíðir í sögu Ísraels
„Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir [Jehóva] Guði þínum á þeim stað, sem hann mun velja . . . og fyrir [Jehóva] skal enginn koma tómhentur.“ — 5. MÓSEBÓK 16:16.
1. Hvað má segja um hátíðir á biblíutímanum?
HVAÐ kemur upp í hugann þegar minnst er á hátíð? Sumar hátíðir til forna einkenndust af óhófi og siðleysi. Hið sama má segja um sumar hátíðir nú á tímum. En hátíðir Ísraels, sem greint er frá í lögmáli Guðs, voru öðruvísi. Þetta voru vissulega gleðihátíðir en þær voru líka kallaðar „helgar samkomur.“ — 3. Mósebók 23:2.
2. (a) Hvað þurftu ísraelskir karlmenn að gera þrisvar á ári? (b) Hvað er „hátíð“ samkvæmt orðinu sem notað er í 5. Mósebók 16:16?
2 Trúfastir ísraelskir karlmenn — oft í fylgd fjölskyldna sinna — nutu þess að ferðast til Jerúsalem, ‚staðarins sem Jehóva valdi,‘ og lögðu örlátlega fram til þriggja, mikilla hátíða. (5. Mósebók 16:16) Bókin Old Testament Word Studies skilgreinir hebreska orðið, sem þýtt er „hátíð“ í 5. Mósebók 16:16, sem „mjög gleðilegan viðburð . . . þar sem haldið var upp á eitthvert markvert dæmi um velþóknun Guðs með fórnum og veisluhöldum.“a
Gildi stórhátíðanna
3. Hvaða blessun minntu hinar þrjár árlegu hátíðir á?
3 Ísraelskt þjóðfélag byggði afkomu sína á jarðyrkju svo að þjóðin var háð því að Guð blessaði hana með regni. Stórhátíðirnar þrjár, sem Móselögin kváðu á um, fóru saman við bygguppskeruna snemma vors, hveitiuppskeruna síðla vors og aðra uppskeru síðsumars. Þetta voru miklar gleði- og þakkarhátíðir til lofs skapara jarðar sem viðhélt hringrás regnsins. En hátíðirnar voru miklu meira en það. — 5. Mósebók 11:11-14.
4. Hvaða atburðar var minnst á fyrstu hátíðinni?
4 Fyrsta hátíðin var haldin í fyrsta mánuðinum samkvæmt fornu tímatali Biblíunnar, dagana 15. til 21. nísan sem svarar til síðari hluta mars eða fyrri hluta apríl. Hún var kölluð hátíð hinna ósýrðu brauða og var einnig nefnd ‚páskahátíðin‘ þar eð hún var haldin strax eftir páska 14. nísan. (Lúkas 2:41; 3. Mósebók 23:5, 6) Þessi hátíð minnti Ísraelsmenn á frelsun sína úr ánauð í Egyptalandi og ósýrða brauðið var kallað „neyðarbrauð.“ (5. Mósebók 16:3) Það minnti þá á að þeir flúðu Egyptaland í svo miklum flýti að þeim vannst ekki tími til að blanda súrdeigi í deigið og bíða þess að það lyfti sér. (2. Mósebók 12:34) Meðan hátíðin stóð yfir mátti ekkert sýrt brauð finnast á ísraelskum heimilum. Það var dauðasök fyrir hátíðargest að borða sýrt brauð og gilti einu hvort hann var Ísraelsmaður eða búfastur útlendingur. — 2. Mósebók 12:19.
5. Hvaða sérréttindi kann önnur hátíðin að hafa minnt á og hverjir áttu líka að taka þátt í fögnuðinum?
5 Önnur hátíðin var haldin sjö vikum (49 dögum) eftir 16. nísan og bar upp á 6. dag þriðja mánaðarins, sívan, sem svaraði til síðari hluta maímánaðar. (3. Mósebók 23:15, 16) Hún var kölluð viknahátíðin (á dögum Jesú var hún einnig kölluð hvítasunna, pentekostos á grísku sem merkir „fimmtugasti“) og var haldin nálægt sama árstíma og Ísrael gekkst undir lagasáttmálann við Sínaífjall. (2. Mósebók 19:1, 2) Á þessari hátíð má vera að trúfastir Ísraelsmenn hafi íhugað þau sérréttindi að vera aðgreindir sem heilög þjóð Guðs. Að vera kjörþjóð Guðs útheimti hlýðni við lögmál hans, svo sem fyrirmælin um að sýna bágstöddum kærleiksríka umhyggju svo að þeir gætu líka notið hátíðarinnar. — 3. Mósebók 23:22; 5. Mósebók 16:10-12.
6. Á hvaða reynslu minnti þriðja hátíðin fólk Guðs?
6 Sú síðasta af hinum árlegu stórhátíðum var kölluð uppskeruhátíðin eða laufskálahátíðin. Hún var haldin 15. til 21. dag sjöunda mánaðarins sem nefndist tisrí eða etaním. Það svarar til fyrri hluta október. (3. Mósebók 23:34) Á hátíðinni hafðist fólk Guðs við utan dyra eða á húsþökum í bráðabirgðaskýlum eða skálum úr trjágreinum og laufi. Það minnti Ísraelsmenn á 40 ára ferð sína frá Egyptalandi til fyrirheitna landsins þegar þjóðin þurfti að læra að reiða sig á að Guð fullnægði daglegum þörfum hennar. — 3. Mósebók 23:42, 43; 5. Mósebók 8:15, 16.
7. Hvaða gagn höfum við af því að kynna okkur hátíðirnar sem haldnar voru í Forn-Ísrael?
7 Við skulum skoða nokkrar hátíðir sem mörkuðu tímamót í sögu þjóðar Guðs til forna. Það ætti að vera hvetjandi fyrir okkur því að okkur er líka boðið að koma reglulega saman í hverri viku og þrisvar á ári til fjölmennra svæðis- og umdæmismóta. — Hebreabréfið 10:24, 25.
Á dögum konunga af ætt Davíðs
8. (a) Hvaða sögufræg hátíð var haldin á dögum Salómons konungs? (b) Hvaða stórfenglegs hámarks getum við hlakkað til sem laufskálahátíðin táknaði?
8 Í stjórnartíð Salómons konungs, sonar Davíðs, var haldin sögufræg hátíð um laufskálahátíðarleytið. „Afar mikill söfnuður“ kom saman allt frá endimörkum fyrirheitna landsins til að vera viðstaddur laufskálahátíðina og vígslu musterisins. (2. Kroníkubók 7:8) Þegar hátíðinni var lokið lét Salómon konungur hátíðargesti fara sem „kvöddu konung og fóru heim til sín, glaðir og í góðu skapi yfir öllum þeim gæðum, sem [Jehóva] hafði veitt Davíð þjóni sínum og lýð sínum Ísrael.“ (1. Konungabók 8:66) Það var mikil tímamótahátíð. Nú á dögum hlakka þjónar Guðs til stórfenglegs hámarks þess sem laufskálahátíðin táknaði. Það verður í lok þúsund ára stjórnar hins meiri Salómons, Jesú Krists. (Opinberunarbókin 20:3, 7-10, 14, 15) Þá munu menn úr öllum heimshornum sameinast í gleðilegri tilbeiðslu á Jehóva Guði, bæði þeir sem komast gegnum Harmagedón og þeir sem verða reistir upp. — Sakaría 14:16.
9-11. (a) Hver var aðdragandi tímamótahátíðar á dögum Hiskía konungs? (b) Hvaða fordæmi gáfu margir í tíuættkvíslaríkinu í norðri og hvað minnir það okkur á?
9 Næsta tímamótahátíð, sem Biblían segir frá, var haldin eftir illa stjórn Akasar konungs sem hafði látið loka musterinu og leitt Júdaríkið frá trúnni. Hinn góði konungur Hiskía tók við af Akasi. Á fyrsta stjórnarári sínu, þá 25 ára gamall, hóf Hiskía mikið endurreisnar- og umbótastarf. Hann lét opna musterið þegar í stað og lagði drög að viðgerð á því. Því næst sendi konungur bréf til Ísraelsmanna í hinu fjandsamlega tíuættkvíslaríki Ísrael í norðri og bauð þeim að koma og halda páska og hátíð ósýrðu brauðanna. Margir komu þrátt fyrir háðsglósur samlanda sinna. — 2. Kroníkubók 30:1, 10, 11, 18.
10 Heppnaðist hátíðin vel? Biblían segir: „Svo héldu þá Ísraelsmenn, þeir er voru í Jerúsalem, hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með miklum fögnuði, og prestarnir og levítarnir lofuðu [Jehóva] dag eftir dag af öllum mætti.“ (2. Kroníkubók 30:21) Þessir Ísraelsmenn eru þjónum Guðs nú á tímum afbragðsfordæmi en þeir búa margir við andstöðu og þurfa að fara langan veg til að sækja mótin.
11 Tökum sem dæmi þrjú umdæmismót með einkunnarorðunum „Guðrækni“ sem haldin voru í Póllandi árið 1989. Meðal gestanna 166.518 voru stórir hópar frá Sovétríkjunum fyrrverandi og frá öðrum Austur-Evrópulöndum þar sem starf votta Jehóva var bannað á þeim tíma. Bókin Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs.b segir: „Sumir, sem sóttu mótin, höfðu aldrei áður komið saman með fleirum en 15 eða 20 trúbræðrum í einu. Hjörtu þeirra voru barmafull af þakklæti er þeir horfðu yfir leikvangana á tugþúsundir bræðra sinna og tóku þátt með þeim í bæn og sungu saman lofsöngva til Jehóva.“ — Bls. 279.
12. Hver var aðdragandi tímamótahátíðarinnar í stjórnartíð Jósía konungs?
12 Eftir dauða Hiskía snerust Júdamenn aftur til falskrar tilbeiðslu undir stjórn konunganna Manasse og Amóns. Síðan tók annar góður konungur við, hinn ungi Jósía sem tók hugrakkur forystu í að endurreisa sanna tilbeiðslu. Hann var 25 ára þegar hann fyrirskipaði að gert skyldi við musterið. (2. Kroníkubók 34:8) Meðan á viðgerðinni stóð fannst lögmálsbókin, sem Móse hafði skrifað, í musterinu. Jósía konungur var djúpt snortinn af því sem hann las í lögmáli Guðs og gerði ráðstafanir til að það yrði lesið upp fyrir alla þjóðina. (2. Kroníkubók 34:14, 30) Síðan lét hann halda páska eins og ritað var. Konungur gaf líka gott fordæmi með því að gefa sjálfur örlátlega til hátíðarinnar. Biblían segir um árangurinn: „Engir slíkir páskar höfðu haldnir verið í Ísrael frá því á dögum Samúels spámanns.“ — 2. Kroníkubók 35:7, 17, 18.
13. Hvað minna hátíðirnar á dögum Hiskía og Jósía okkur á?
13 Siðbót Hiskía og Jósía er hliðstæð hinni stórfenglegu endurreisn sannrar tilbeiðslu sem hefur átt sér stað meðal sannkristinna manna frá krýningu Jesú Krists árið 1914. Endurreisnin nú á tímum hefur verið byggð á því sem stendur í orði Guðs, alveg eins og siðbót Jósía. Hliðstætt dögum Hiskía og Jósía hefur endurreisnin nú á tímum einkennst af mótum með hrífandi skýringum á spádómum Biblíunnar og tímabærri heimfærslu á meginreglum hennar. Og margir hafa látið skírast en það hefur gert þessi fræðandi mót enn ánægjulegri. Líkt og iðrunarfullir Ísraelsmenn á dögum Hiskía og Jósía hefur nýlega skírt fólk snúið baki við vondum verkum kristna heimsins og heims Satans í heild. Árið 1997 létu rösklega 375.000 manns skírast til tákns um vígslu sína við hinn heilaga Guð, Jehóva — meira en 1000 á dag að meðaltali.
Eftir útlegðina
14. Hver var aðdragandi tímamótahátíðar árið 537 f.o.t.?
14 Eftir að Jósía dó snerist þjóðin aftur til auvirðilegrar falsdýrkunar. Að lokum, árið 607 f.o.t., refsaði Jehóva þjóð sinni með því að leiða babýlonskan her gegn Jerúsalem. Borgin og musterið voru jöfnuð við jörðu og landið var lagt í auðn. Við tók 70 ára útlegð í Babýlon. Þá endurvakti Guð iðrunarfullar leifar Gyðinga sem sneru heim til fyrirheitna landsins til að endurreisa sanna tilbeiðslu. Þeir komu heim að rústum Jerúsalemborgar í sjöunda mánuðinum árið 537 f.o.t. Fyrsta verk þeirra var að reisa altari til að færa daglegar fórnir eins og mælt var fyrir í lagasáttmálanum. Þetta var rétt í tæka tíð til að halda aðra sögulega hátíð. „Og þeir héldu laufskálahátíðina, eftir því sem fyrir er mælt.“ — Esrabók 3:1-4.
15. Hvaða starf áttu hinar heimkomnu leifar framundan árið 537 f.o.t. og hvaða hliðstætt ástand ríkti árið 1919?
15 Þessir heimkomnu útlagar áttu mikið starf fyrir höndum — að endurreisa musteri Guðs og Jerúsalem ásamt múrum hennar. Öfundsjúkir nágrannar veittu þeim harða mótspyrnu. Bygging musterisins var ‚lítil byrjun.‘ (Sakaría 4:10) Ástandið var hliðstætt því hvernig komið var fyrir trúföstum smurðum kristnum mönnum árið 1919. Þetta eftirminnilega ár var þeim sleppt úr andlegri ánauð Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða. Þeir voru aðeins nokkrar þúsundir talsins og áttu í höggi við fjandsamlegan heim. Myndu óvinir Guðs geta stöðvað framsókn sannrar tilbeiðslu? Svarið við þeirri spurningu minnir á síðustu tvær hátíðirnar sem sagt er frá í Hebresku ritningunum.
16. Hvað var þýðingarmikið í sambandi við hátíð árið 515 f.o.t.?
16 Endurreisn musterisins lauk loks í adarmánuði árið 515 f.o.t. rétt í tæka tíð fyrir vorhátíð nísanmánaðar sama ár. Biblían segir svo frá: „Þannig héldu þeir hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með fögnuði, því að [Jehóva] hafði glatt þá og snúið hjarta Assýríukonungs til þeirra, svo að hann styrkti hendur þeirra við byggingu musteris Guðs, Ísraels Guðs.“ — Esrabók 6:22.
17, 18. (a) Hvaða tímamótahátíð var haldin árið 455 f.o.t.? (b) Hvað er líkt með stöðu okkar núna?
17 Sextíu árum síðar, árið 455 f.o.t., urðu önnur tímamót. Það var um laufskálahátíðarleytið sem endurreisn múra Jerúsalem lauk. Biblían segir: „Allur söfnuðurinn, þeir er aftur voru heim komnir úr herleiðingunni, byggðu laufskála og bjuggu í laufskálunum. Því að Ísraelsmenn höfðu eigi gjört það síðan á dögum Jósúa Núnssonar allt til þessa dags, og varð þar því mjög mikil gleði.“ — Nehemíabók 8:17.
18 Þetta var minnisverð endurreisn sannrar tilbeiðslu á Guði þrátt fyrir harða mótstöðu. Ástandið er svipað núna. Þrátt fyrir andstöðu- og ofsóknaröldur hefur hið mikla prédikunarstarf Guðsríkis náð til endimarka jarðar og dómsboðskapur Guðs hefur borist út um allt. (Matteus 24:14) Nú nálgast lokainnsiglun þeirra sem eftir eru af hinum 144.000 smurðu. Meira en fimm milljónum félaga þeirra, hinum ‚öðrum sauðum,‘ hefur verið safnað úr öllum þjóðum í ‚eina hjörð‘ með hinum smurðu leifum. (Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:3, 9, 10) Hvílík uppfylling þess sem laufskálahátíðin táknaði! Og þetta mikilfenglega söfnunarstarf heldur áfram inn í nýja heiminn þegar milljörðum upprisinna manna verður boðið að taka þátt í þeim fögnuði sem laufskálahátíðin táknaði. — Sakaría 14:16-19.
Á fyrstu öld okkar tímatals
19. Fyrir hvað var laufskálahátíðin árið 32 sérstök?
19 Einhverjar merkustu hátíðirnar, sem Biblían segir frá, eru eflaust þær sem sonur Guðs, Jesús Kristur, sótti. Tökum sem dæmi laufskálahátíðina sem Jesús var viðstaddur árið 32. Hann notaði tækifærið til að kenna mikilvæg sannindi og studdi kennslu sína með tilvitnunum í Hebresku ritningarnar. (Jóhannes 7:2, 14, 37-39) Það var siður á þessari hátíð að kveikja á fjórum, stórum ljósastikum í innri forgarði musterisins. Það stuðlaði að ánægjulegum hátíðahöldum sem stóðu fram á nótt. Jesús var ef til vill að vísa til þessara miklu ljósastika þegar hann sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“ — Jóhannes 8:12.
20. Af hverju voru páskarnir árið 33 sérstakir?
20 Svo komu páskarnir og hátíð ósýrðu brauðanna hið þýðingarmikla ár 33. Á páskadag var Jesús líflátinn af óvinum sínum og varð það sem páskalambið táknaði. Hann dó til að taka burt „synd heimsins.“ (Jóhannes 1:29; 1. Korintubréf 5:7) Þrem dögum síðar, 16. nísan, reisti Guð Jesú upp í ódauðlegum andalíkama. Það fór saman við frumgróðafórn bygguppskerunnar eins og kveðið var á um í lögmálinu. Þannig varð hinn upprisni Drottinn Jesús Kristur „frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.“ — 1. Korintubréf 15:20.
21. Hvað gerðist á hvítasunnunni árið 33?
21 Hvítasunnuhátíðin árið 33 var einstök. Margir Gyðingar og trúskiptingar voru samankomnir í Jerúsalem þann dag, þeirra á meðal um 120 lærisveinar Jesú. Meðan hátíðin stóð yfir úthellti hinn upprisni Drottinn Jesús Kristur heilögum anda Guðs yfir þá 120. (Postulasagan 1:15; 2:1-4, 33) Þar með voru þeir smurðir og urðu ný, útvalin þjóð Guðs fyrir tilstuðlan nýja sáttmálans sem Jesús Kristur miðlaði. Á hátíðinni bar æðstiprestur Gyðinga fram tvö sýrð brauð bökuð úr frumgróða hveitiuppskerunnar. (3. Mósebók 23:15-17) Þessi sýrðu brauð tákna hina 144.000 ófullkomnu menn sem Jesús ‚keypti Guði til handa‘ til að þjóna sem ‚konungsríki og prestar og ríkja yfir jörðinni.‘ (Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1, 3) Sýrðu brauðin tvö geta líka táknað þá staðreynd að þessir himnesku stjórnendur koma af tveim greinum syndugs mannkyns, Gyðingum og heiðingjum.
22. (a) Af hverju halda kristnir menn ekki hátíðir lagasáttmálans? (b) Hvað er fjallað um í næstu grein?
22 Þegar nýi sáttmálinn tók gildi á hvítasunnunni árið 33 merkti það að gamli lagasáttmálinn væri hættur að hafa gildi í augum Guðs. (2. Korintubréf 3:14; Hebreabréfið 9:15; 10:16) Það merkir ekki að smurðir kristnir menn séu án laga. Þeir eru undir lögum Guðs sem Jesús Kristur kenndi og eru rituð á hjörtu þeirra. (Galatabréfið 6:2) Þess vegna halda kristnir menn ekki hinar þrjár árlegu hátíðir sem tilheyrðu gamla lagasáttmálanum. (Kólossubréfið 2:16, 17) Engu að síður getum við lært margt af viðhorfum þjóna Guðs fyrir daga kristninnar til hátíða sinna og annarra tilbeiðslusamkoma. Í næstu grein skoðum við dæmi sem minna alla á að þeir þurfi að sækja kristin mót og samkomur að staðaldri.
[Neðanmáls]
a Sjá einnig Innsýn í Ritninguna, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., 1. bindi, bls. 820, 1. dálk, greinar 1 og 3 undir flettunni „Festival“ (hátíð).
b Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Upprifjunarspurningar
◻ Hvaða tilgangi þjónuðu þrjár árlegar stórhátíðir Ísraels?
◻ Hvað einkenndi hátíðirnar á dögum Hiskía og Jósía?
◻ Hvaða tímamóta var minnst árið 455 f.o.t. og af hverju er það hvetjandi fyrir okkur?
◻ Hvað var sérstakt við páskana og hvítasunnuna árið 33?
[Rammi á blaðsíðu 22]
Lærdómur sem við getum dregið af fornri hátíð
Allir sem vilja hafa varanlegt gagn af friðþægingarfórn Jesú þurfa að lifa í samræmi við það sem hátíð ósýrðu brauðanna táknaði. Hátíðin táknar að smurðir kristnir menn halda fagnandi upp á það að þeir séu frelsaðir frá þessum illa heimi og séu lausir undan fordæmingu syndarinnar vegna lausnargjalds Jesú. (Galatabréfið 1:4; Kólossubréfið 1:13, 14) Hin bókstaflega hátíð stóð í sjö daga — en talan sjö er notuð í Biblíunni til tákns um andlegan fullkomleika. Það sem hátíðin táknaði stendur allan tímann sem hinn smurði kristni söfnuður er á jörðinni og það þarf að halda hátíðlegt í ‚hreinleika og sannleika.‘ Það merkir að vera stöðugt á varðbergi gagnvart táknrænu súrdegi. Súrdeig er notað í Biblíunni til tákns um spilltar kenningar, hræsni og illsku. Sannir dýrkendur Jehóva verða að hata slíkt súrdeig. Þeir mega ekki leyfa því að spilla lífi sínu eða láta það spilla hreinleika kristna safnaðarins. — 1. Korintubréf 5:6-8; Matteus 16:6, 12.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Knippi af nýskornu byggi var fært að fórn 16. nísan ár hvert, sama dag og Jesús var reistur upp.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Vera kann að Jesús hafi verið að vísa óbeint til hátíðarljósanna þegar hann kallaði sig „ljós heimsins.“