12. KAFLI
Að sigrast á vandamálum sem skaða fjölskylduna
1. Hvaða dulin vandamál eiga sumar fjölskyldur við að stríða?
GAMLI bíllinn er nýþveginn og bónaður. Fljótt á litið virðist hann fallegur og gljáandi, næstum eins og nýr. En undir yfirborðinu er hann að ryðga í sundur. Þannig eru sumar fjölskyldur. Allt er slétt og fellt á yfirborðinu en á bak við brosandi andlitin býr ótti og sársauki. Að baki luktum dyrum eru eyðingaröfl að verki sem eru að spilla heimilisfriðnum. Tvö af þeim vandamálum, sem geta haft þessi áhrif, eru alkóhólismi og ofbeldi.
SKAÐLEG ÁHRIF ALKÓHÓLISMA
2. (a) Hvað segir Biblían um neyslu áfengis? (b) Hvað er alkóhólismi?
2 Hófleg notkun áfengis er ekki fordæmd í Biblíunni en drykkjuskapur er hins vegar fordæmdur. (Orðskviðirnir 23:20, 21; 1. Korintubréf 6:9, 10; 1. Tímóteusarbréf 5:23; Títusarbréfið 2:2, 3) Alkóhólismi er aftur á móti meira en drykkjuskapur. Alkóhólistinn hugsar ekki um annað en að drekka og er búinn að missa algerlega tökin á neyslunni. Fullorðnir geta verið alkóhólistar en því miður geta unglingar verið það líka.
3, 4. Lýstu áhrifum alkóhólisma á maka og börn alkóhólistans.
3 Biblían gaf til kynna endur fyrir löngu að misnotkun áfengis gæti spillt friði fjölskyldunnar. (5. Mósebók 21:18-21) Skaðleg áhrif alkóhólismans koma niður á allri fjölskyldunni. Oft verður eiginkona alkóhólistans algerlega upptekin af því að reyna að fá hann til að hætta að drekka eða reyna að takast á við óútreiknanlega hegðun hans.a Hún felur áfengið, hellir því niður, felur peningana fyrir honum og höfðar til ástar hans á fjölskyldunni, lífinu eða jafnvel Guði en allt kemur fyrir ekki — alkóhólistinn heldur áfram að drekka. Þegar tilraunir hennar til að hafa hemil á drykkju hans bera ekki árangur verður hún vonsvikin og óánægð með sjálfa sig. Ótti, reiði, sektarkennd og kvíði sækja á hana. Hún verður taugaóstyrk og sjálfsvirðingunni hrakar.
4 Alkóhólismi foreldra kemur oft niður á börnunum. Sum sæta líkamlegu ofbeldi, stundum kynferðisofbeldi. Þau kenna jafnvel sjálfum sér um að foreldrið skuli drekka. Óútreiknanleg hegðun alkóhólistans getur orðið til þess að þau verði ófær um að treysta öðrum. Þar sem þau eiga erfitt með að tala um það sem er að gerast á heimilinu læra þau kannski að bæla niður tilfinningar sínar en það hefur oft skaðleg áhrif á heilsufar þeirra. (Orðskviðirnir 17:22) Þessi börn skortir sjálfstraust og sjálfsvirðingu sem getur fylgt þeim allt til fullorðinsára.
HVAÐ GETUR FJÖLSKYLDAN GERT?
5. Hvernig er hægt að takast á við alkóhólisma en af hverju er það erfitt?
5 Margt fagfólk segir að alkóhólismi sé ólæknandi en flestir eru á einu máli um að hægt sé að ná sér að töluverðu leyti með algeru bindindi. (Samanber Matteus 5:29.) Það er þó hægara sagt en gert að fá alkóhólistann til að þiggja hjálp því að hann neitar því yfirleitt að hann eigi við vanda að stríða. En þegar fjölskyldan gerir ráðstafanir til að bregðast við þeim áhrifum, sem alkóhólisminn hefur haft, rennur kannski upp fyrir alkóhólistanum að hann á við vandamál að stríða. Læknir, sem hefur reynslu af því að hjálpa alkóhólistum og fjölskyldum þeirra, segir: „Ég held að það sé mikilvægast fyrir fjölskylduna að halda áfram að lifa lífinu á sem heilbrigðastan hátt. Alkóhólistinn rekur sig þá meir og meir á það hve mikill munur er á honum og hinum í fjölskyldunni.“
6. Hvar getur fjölskylda, sem býr með alkóhólista, fengið bestu leiðbeiningarnar?
6 Innblásin ráð Biblíunnar geta hjálpað fjölskyldu, sem býr með alkóhólista, að lifa sem heilbrigðustu lífi. (Jesaja 48:17; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Við skulum líta á nokkrar meginreglur sem hafa hjálpað fjölskyldum að glíma við þetta vandamál.
7. Hver ber ábyrgðina ef einhver í fjölskyldunni er alkóhólisti?
7 Taktu ekki á þig sökina. „Sérhver mun verða að bera sína byrði“ og „sérhver af oss [skal] lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig“, segir Biblían. (Galatabréfið 6:5; Rómverjabréfið 14:12) Alkóhólistinn gefur kannski í skyn að hinir í fjölskyldunni beri sökina. „Ég myndi ekki drekka ef þið væruð betri við mig,“ segir hann ef til vill. Ef hinir virðast taka undir það eru þeir að hvetja hann til að halda áfram að drekka. Við þurfum öll að bera ábyrgð á gerðum okkar, jafnvel þó að við séum fórnarlömb aðstæðna eða annarra manna. Alkóhólistar þurfa að gera það líka. — Samanber Filippíbréfið 2:12.
8. Hvernig væri hægt að hjálpa alkóhólista að horfast í augu við afleiðingar drykkjunnar?
8 Þú þarft ekki alltaf að hlífa alkóhólistanum við afleiðingum drykkjunnar. Í Orðskviðunum segir um reiðan mann: „Ætlir þú að bjarga, gjörir þú illt verra.“ Þetta má alveg eins heimfæra upp á alkóhólista. (Orðskviðirnir 19:19) Leyfðu honum að finna fyrir afleiðingum drykkjunnar. Leyfðu honum að þrífa eftir sig eða hringja sjálfur í vinnuveitandann morguninn eftir.
9, 10. Af hverju ættu fjölskyldur alkóhólista að leita aðstoðar og hvert ættu þær helst að leita?
9 Þiggðu hjálp annarra. „Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir,“ segir í Orðskviðunum 17:17. Þú ert að vissu leyti í nauðum staddur ef það er alkóhólisti í fjölskyldunni. Þú þarft á aðstoð að halda. Hikaðu ekki við að leita hjálpar hjá traustum vinum. (Orðskviðirnir 18:24) Þú færð ef til vill góðar ábendingar um hvað þú ættir að gera og hvað þú ættir að forðast ef þú talar við aðra sem skilja vandann eða hafa átt í svipuðum erfiðleikum sjálfir. En gættu þó jafnvægis. Talaðu við vini sem þú treystir til að vera þagmælskir. — Orðskviðirnir 11:13.
10 Lærðu að treysta safnaðaröldungum. Öldungar safnaðarins geta verið til mikillar hjálpar. Þetta eru þroskaðir menn sem eru vel heima í Biblíunni og eru þaulvanir að beita meginreglum hennar. Þeir geta verið þér „sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi“. (Jesaja 32:2) Öldungarnir hafa ekki aðeins það hlutverk að verja söfnuðinn sem heild fyrir skaðlegum áhrifum. Þeir leggja sig líka fram um að hughreysta, styðja og styrkja einstaka safnaðarmenn og sinna persónulega þeim sem eiga við vandamál að stríða. Nýttu þér aðstoð þeirra.
11, 12. Hjá hverjum ættu fjölskyldur alkóhólista umfram allt að leita hjálpar og hvernig fá þær hana?
11 Sæktu umfram allt styrk til Jehóva. Við finnum þessi hlýlegu orð í Biblíunni: „Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.“ (Sálmur 34:19) Ef þér finnst þú vera að bugast vegna álagsins sem fylgir því að búa með alkóhólista, þá máttu vita að Jehóva er nálægur. Hann skilur hve erfiðar heimilisaðstæður þínar eru. — 1. Pétursbréf 5:6, 7.
12 Ef þú treystir því sem Jehóva segir í orði sínu getur það auðveldað þér að takast á við kvíðann og áhyggjurnar. (Sálmur 130:3, 4; Matteus 6:25-34; 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20) Með því að leggja þig fram við að lesa og hugleiða orð Biblíunnar og lifa samkvæmt meginreglum hennar geturðu fengið hjálp heilags anda Guðs. Hann getur gefið þér „ofurmagn kraftarins“ til að þrauka frá degi til dags. — 2. Korintubréf 4:7.b
13. Hvaða annað vandamál hefur skaðleg áhrif á margar fjölskyldur?
13 Misnotkun áfengis getur leitt af sér annað vandamál sem hefur skaðleg áhrif á margar fjölskyldur. Það er heimilisofbeldi.
SKAÐLEG ÁHRIF HEIMILISOFBELDIS
14. Hvenær byrjaði heimilisofbeldi og hvernig er staðan núna?
14 Fyrsta ofbeldisverk sögunnar var heimilisofbeldi þar sem bræðurnir Kain og Abel áttu í hlut. (1. Mósebók 4:8) Allar götur síðan hefur heimilisofbeldi í mörgum myndum verið sem plága á mannkyninu. Til eru eiginmenn sem lemja eiginkonur sínar, konur sem ráðast á menn sína, foreldrar sem berja börnin og fullvaxta börn sem misþyrma öldruðum foreldrum.
15. Hvaða áhrif hefur heimilisofbeldi á tilfinningalíf fólks?
15 Skaðinn af völdum heimilisofbeldis er ekki aðeins fólginn í líkamlegum áverkum. Kona, sem bjó við ofbeldi á heimilinu, segir: „Maður finnur fyrir heilmikilli sektarkennd og skömm. Flesta morgna langar mann mest til að liggja áfram í rúminu í von um að þetta hafi bara verið vondur draumur.“ Ef börn horfa upp á ofbeldi á heimilinu eða verða fyrir því sjálf er hætta á að þau verði ofbeldisfull þegar þau stofna eigið heimili.
16, 17. Í hverju felst andlegt ofbeldi og hvaða áhrif hefur það á fjölskylduna?
16 Heimilisofbeldi er ekki aðeins fólgið í líkamsmeiðingum. Oft birtist ofbeldið í orðum. „Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur,“ segir í Orðskviðunum 12:18. Þessar „stungur“ geta verið öskur og svívirðingar, stöðug gagnrýni, niðurlægjandi orð og hótanir um líkamlegt ofbeldi. Sárin, sem fylgja andlegu ofbeldi, eru ósýnileg og oft falin fyrir öðrum.
17 Það er sérlega dapurlegt þegar barn sætir andlegu ofbeldi — ef það má þola sífelldar aðfinnslur og gagnrýni og heyrir stöðugt að það geti ekki neitt, kunni ekki neitt eða sé einskis virði. Andlegt ofbeldi af þessu tagi getur brotið niður sjálfstraust barnsins. Öll börn þurfa að vísu að fá ögun en Biblían segir feðrum: „Verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“ — Kólossubréfið 3:21.
AÐ AFSTÝRA HEIMILISOFBELDI
18. Hvar á heimilisofbeldi upptök sín og hvernig er hægt að stöðva það, að sögn Biblíunnar?
18 Heimilisofbeldi á upptök sín í hjartanu og huganum — hugsunin er kveikja athafna. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Til að stöðva vítahring ofbeldisins þarf ofbeldismaðurinn að breyta hugsunarhætti sínum. (Rómverjabréfið 12:2) Er það hægt? Já, orð Guðs býr yfir krafti til að breyta fólki. Það getur jafnvel ‚brotið niður vígi‘ skaðlegra viðhorfa. (2. Korintubréf 10:4; Hebreabréfið 4:12) Nákvæm biblíuþekking getur breytt fólki svo mikið að talað er um að það íklæðist nýjum manni. — Efesusbréfið 4:22-24; Kólossubréfið 3:8-10.
19. Hvernig ætti kristin manneskja að líta á maka sinn og koma fram við hann?
19 Viðhorf til makans. Orð Guðs segir: „Eiginmennirnir [skulu] elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig.“ (Efesusbréfið 5:28) Biblían segir enn fremur að eiginmaður eigi að hugsa um konuna sína sem ‚veikara ker og veita henni virðingu‘. (1. Pétursbréf 3:7) Eiginkonur eru hvattar til að „elska menn sína“ og sýna þeim djúpa virðingu. (Títusarbréfið 2:4; Efesusbréfið 5:33) Varla getur nokkur guðhræddur eiginmaður haldið því fram að hann virði konuna sína ef hann beitir hana líkamlegu eða andlegu ofbeldi. Og tæplega getur eiginkona sagt að hún elski og virði eiginmann sinn í alvöru ef hún öskrar á hann, hæðist að honum eða skammast í honum daginn út og daginn inn.
20. Frammi fyrir hverjum bera foreldrar ábyrgð á börnunum og af hverju ættu þeir ekki að gera óraunhæfar kröfur til þeirra?
20 Rétt viðhorf til barnanna. Börnin bæði verðskulda og þarfnast ástar og athygli foreldra sinna. Biblían kallar börn „gjöf frá Drottni“ og „umbun“. (Sálmur 127:3) Foreldrar bera þá ábyrgð frammi fyrir Jehóva að annast þessa gjöf. Í Biblíunni er minnst á ‚barnaskap‘ og ‚fíflsku sem situr föst í hjarta sveinsins‘. (1. Korintubréf 13:11; Orðskviðirnir 22:15) Það ætti því ekki að koma foreldrum á óvart að verða varir við einhverja ‚fíflsku‘ í fari barnanna. Krakkar eru ekki fullorðið fólk í smækkaðri mynd og foreldrarnir ættu ekki að ætlast til meira af þeim en eðlilegt er miðað við aldur þeirra, uppeldisumhverfi og getu. — Sjá 1. Mósebók 33:12-14.
21. Hvernig eigum við að líta á aldraða foreldra okkar og koma fram við þá, að sögn Biblíunnar?
21 Viðhorf til aldraðra foreldra. „Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið,“ segir í lögmáli Guðs í 3. Mósebók 19:32. Þannig var fólk hvatt til að sýna öldruðum virðingu og tillitssemi. Þetta getur reynst þrautin þyngri ef aldrað foreldri virðist gera óhóflegar kröfur, er lasburða eða er orðið hægfara í hreyfingum og virðist lengi að átta sig á hlutunum. Börn eru engu að síður minnt á að „endurgjalda foreldrum sínum“. (1. Tímóteusarbréf 5:4) Það felur í sér að heiðra þá og virða og sjá þeim jafnvel farborða. Það gengur þvert gegn leiðbeiningum Biblíunnar að fara illa með aldraða foreldra sína, hvort heldur líkamlega eða á annan hátt.
22. Hvaða eiginleiki er afar mikilvægur til að fyrirbyggja heimilisofbeldi og hvernig er hægt að sýna hann?
22 Temdu þér sjálfstjórn. Í Orðskviðunum 29:11 segir: „Heimskinginn úthellir allri reiði sinni, en vitur maður sefar hana að lokum.“ Hvernig geturðu haft stjórn á skapsmunum þínum? Það er mikilvægt að láta ekki gremju gerjast innra með sér heldur vera fljótur að leysa ágreining. (Efesusbréfið 4:26, 27) Ef þú ert að missa stjórn á þér er best að ganga í burtu. Biddu um heilagan anda Guðs til að geta sýnt sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Göngutúr eða líkamleg áreynsla getur verið ágætis leið til að ná tökum á tilfinningunum. (Orðskviðirnir 17:14, 27) Reyndu umfram allt að vera „seinn til reiði“. — Orðskviðirnir 14:29.
AÐ HALDA SAMAN EÐA SLÍTA SAMVISTUM?
23. Hvað getur gerst ef einhver í kristna söfnuðinum leyfir sér æ ofan í æ að fá stjórnlaus reiðiköst og misþyrmir ef til vill fjölskyldunni án þess að iðrast?
23 Biblían tilgreinir ýmislegt sem Guð fordæmir. Þar á meðal má nefna ‚fjandskap, deilur og reiði‘ og hún segir að „þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki“. (Galatabréfið 5:19-21) Það er hægt að víkja manni úr kristna söfnuðinum ef hann leyfir sér æ ofan í æ að fá stjórnlaus reiðiköst og misþyrmir ef til vill maka eða börnum en iðrast svo einskis. (Samanber 2. Jóhannesarbréf 9, 10.) Þannig er þess gætt að halda söfnuðinum hreinum af ofbeldisfullu fólki. — 1. Korintubréf 5:6, 7; Galatabréfið 5:9.
24. (a) Hvað á fólk um að velja ef það býr við heimilisofbeldi? (b) Hvernig geta umhyggjusamir vinir og safnaðaröldungar stutt þann sem ofbeldinu sætir en hvað ættu þeir ekki að gera?
24 Hvað getur kristinn maður gert ef makinn beitir hann ofbeldi og sýnir engin merki um að hann ætli að breyta sér? Sumir kjósa af ýmsum ástæðum að búa áfram með maka sínum. Aðrir kjósa hins vegar að yfirgefa maka sinn því að þeir óttast um líkamlega, andlega og trúarlega velferð sína, jafnvel um líf sitt. Hver og einn þarf að ákveða frammi fyrir Jehóva hvað hann gerir við þessar aðstæður. (1. Korintubréf 7:10, 11) Umhyggjusamir vinir, ættingjar og safnaðaröldungar vilja eflaust gefa góð ráð, en þeir ættu ekki að þrýsta á viðkomandi til að velja annan kostinn frekar en hinn. Þá ákvörðun verður makinn, sem ofbeldinu sætir, að taka sjálfur. — Rómverjabréfið 14:4; Galatabréfið 6:5.
VANDAMÁLIN TAKA ENDA
25. Hvernig átti fjölskyldulífið að vera samkvæmt ætlun Jehóva?
25 Þegar Jehóva leiddi Adam og Evu saman í hjónaband var það ekki ætlun hans að skaðleg vandamál á borð við alkóhólisma eða ofbeldi fengju að skemma fjölskylduna. Heimilið átti að vera staður þar sem kærleikur og friður fengju að dafna og þar átti að sjá vel fyrir andlegum og tilfinningalegum þörfum allra í fjölskyldunni. En með tilkomu syndarinnar hallaði fljótt undan fæti. — Samanber Prédikarann 8:9.
26. Hvaða framtíð bíður þeirra sem reyna að lifa í samræmi við kröfur Jehóva?
26 Sem betur fer hefur Jehóva ekki breytt fyrirætlun sinni með fjölskylduna. Hann lofar að gefa mönnum nýjan og friðsælan heim þar sem allir fá að ‚búa óhultir og enginn skelfir þá‘. (Esekíel 34:28) Þá verða skaðleg vandamál á borð við alkóhólisma og heimilisofbeldi liðin tíð. Þá leynist ekki lengur ótti og sársauki á bak við brosandi andlitin heldur geisla þau af gleði og „ríkulegri gæfu“. — Sálmur 37:11.
a Þó að talað sé um alkóhólistann í karlkyni eiga sömu meginreglur við ef alkóhólistinn er kona.
b Víða bjóða spítalar, meðferðarstofnanir og samtök upp á sérstaka meðferð handa alkóhólistum og fjölskyldum þeirra. Hver og einn verður að ákveða sjálfur hvort hann leitar sér aðstoðar á þeim vettvangi. Vottar Jehóva mæla ekki með einni meðferð umfram aðra. Sá sem leitar sér aðstoðar þarf að gæta þess að dragast ekki inn í neitt sem stangast á við meginreglur Biblíunnar.