Fimmta Mósebók
21 Ef einhver finnst myrtur úti á víðavangi í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér til eignar og ekki er vitað hver drap hann 2 eiga öldungarnir og dómararnir+ að fara og mæla fjarlægðina frá líkinu til borganna í kring. 3 Síðan eiga öldungarnir í borginni sem er næst líkinu að velja kvígu sem hefur aldrei verið notuð til vinnu og aldrei gengið undir oki. 4 Öldungar borgarinnar eiga að fara með kvíguna niður í dal með rennandi vatni þar sem hvorki hefur verið plægt né sáð og hálsbrjóta hana þar í dalnum.+
5 Levítaprestarnir eiga að vera viðstaddir því að Jehóva Guð þinn hefur valið þá til að þjóna sér+ og blessa í nafni Jehóva.+ Þeir eiga að lýsa yfir hvernig leysa eigi úr öllum deilum sem varða ofbeldisverk.+ 6 Allir öldungar borgarinnar sem er næst líkinu skulu síðan þvo hendur sínar+ yfir kvígunni sem var hálsbrotin í dalnum 7 og lýsa yfir: ‚Hendur okkar úthelltu ekki þessu blóði og augu okkar sáu ekki þegar því var úthellt. 8 Jehóva, kallaðu ekki þjóð þína, Ísrael, sem þú leystir,+ til ábyrgðar fyrir þetta og láttu ekki sekt vegna saklauss blóðs hvíla á þjóð þinni, Ísrael.‘+ Þá verður hún ekki dregin til ábyrgðar fyrir blóðskuldina. 9 Þannig gerirðu það sem er rétt í augum Jehóva og hreinsar þig af sök vegna saklauss blóðs.
10 Ef þú ferð í stríð við óvini þína, Jehóva Guð þinn sigrar þá og þú tekur fanga+ 11 og sérð fallega konu meðal fanganna, laðast að henni og vilt taka hana þér fyrir konu 12 þá máttu fara með hana heim til þín. Hún á að raka af sér hárið, klippa neglurnar, 13 fara úr fötunum sem hún var í þegar hún var tekin til fanga og búa hjá þér. Hún á að syrgja föður sinn og móður í heilan mánuð+ og eftir það máttu eiga mök við hana. Þú verður eiginmaður hennar og hún verður eiginkona þín. 14 En ef þú ert ekki ánægður með hana skaltu leyfa henni að fara+ hvert sem hún vill. Þú mátt þó ekki selja hana eða vera harðneskjulegur við hana þar sem þú hefur niðurlægt hana.
15 Segjum að maður eigi tvær konur og elski aðra meira en hina* og báðar hafi alið honum syni og frumburðurinn sé sonur þeirrar sem hann elskar minna.+ 16 Daginn sem hann skiptir arfi með sonum sínum má hann ekki koma fram við son konunnar sem hann elskar meira eins og hann væri frumburðurinn. Hann má ekki taka hann fram yfir frumburðinn, son konunnar sem hann elskar minna. 17 Hann á að viðurkenna frumburðinn, son konunnar sem hann elskar minna, með því að gefa honum tvöfaldan hlut af öllu sem hann á því að hann er frumgróði karlmennsku hans. Frumburðarrétturinn tilheyrir honum.+
18 Ef maður á son sem er þrjóskur og uppreisnargjarn og hlýðir ekki föður sínum eða móður+ og þau hafa reynt að leiðrétta hann en hann hlustar ekki á þau+ 19 eiga þau að fara með hann til öldunganna við borgarhliðið 20 og segja við öldunga borgarinnar: ‚Þessi sonur okkar er þrjóskur og uppreisnargjarn og hlýðir okkur ekki. Hann er mathákur+ og drekkur í óhófi.‘+ 21 Þá eiga allir borgarmenn að grýta hann til bana. Þannig skaltu útrýma hinu illa á meðal ykkar og allur Ísrael mun frétta það og óttast.+
22 Ef maður drýgir synd sem dauðarefsing liggur við, hann er tekinn af lífi+ og þú hengir hann á staur+ 23 má líkið ekki hanga næturlangt á staurnum.+ Þú skalt jarða hann samdægurs því að sá sem er hengdur á staur er bölvaður af Guði+ og þú mátt ekki óhreinka landið sem Jehóva Guð þinn gefur þér að erfðahlut.+