Fölsk trúarbrögð í hlutverki skækjunnar
1. Hvernig hafa margir litið á vændi?
SUMIR kalla það elstu atvinnugrein veraldar — starf skækjunnar, vændiskonunnar eða hórunnar. Í almennu máli merkja öll orðin hið sama; þau eru notuð um siðlausa konu sem selur blíðu sína. En sú var tíðin að það var talin heiðvirð köllun!
2, 3. Hvað var ólíkt með hlutverki kvenpresta í Forn-Babýlon og lögmáli Guðs til Ísraels varðandi vændi karla og kvenna?
2 Prófessor S. H. Hooke, sem er sérfræðingur í biblíulegri fornleifafræði, segir um prestdóm Forn-Babýloníumanna: „Prestdómurinn takmarkaðist ekki við karlmenn og voru konur einnig hluti af starfsliði stóru musteranna. Það var talinn heiður að tilheyra reglu kvenprestanna og við vitum um allmarga konunga sem helguðu dætur sínar prestlegri köllun. . . . Mikilvægasta starf þeirra var heilagt vændi á árstíðahátíðunum miklu. . . . Eðlilega var stórt starfslið slíkra kvenna við musteri Ístar [gyðju frjósemi og stríðs].“
3 Slíkt var með öllu óþekkt í tilbeiðslunni sem Ísraelsþjóðin átti að veita Jehóva Guði. Lögmálið sagði skýrt og greinilega: „Á meðal Ísraels dætra má engin vera, sú er helgi sig saurlifnaði, og á meðal Ísraels sona má enginn vera, sá er helgi sig saurlifnaði [sem kynvillingur]. Þú skalt eigi bera skækjulaun eða hundsgjald inn í hús [Jehóva] Guðs þíns eftir neinu heiti, því að einnig hvort tveggja þetta er [Jehóva] Guði þínum andstyggilegt.“ (5. Mósebók 23:17, 18) Ekki kom til greina að taka við skækjulaunum sem framlagi til helgidóms Guðs. Skækjulifnaður var smánarlegur jafnvel þótt hann væri án trúarlegra tengsla. Ísraelsmönnum var boðið: „Vanhelga eigi dóttur þína með því að halda henni til saurlifnaðar, að eigi drýgi landið hór og landið fyllist ógæfu.“ Lögin gegn vændi og kynvillu, sem var kölluð „viðurstyggð,“ vernduðu þjóðina bæði andlega og líkamlega. — 3. Mósebók 19:29; 20:13.
Andlegt skækjulífi er enn verra
4. Hvers konar skækjulífi er alvarlegast?
4 Samkvæmt viðhorfi Guðs er þó til skækjulífi sem verra er — andlegt skækjulífi fólgið í því að segjast tilbiðja hinn sanna Guð en dýrka og elska í raun aðra guði. Forn-Jerúsalem gekk skrefi lengra í vændi sínu. Hún færði gjafir þeim þjóðum sem drýgðu með henni andlegan saurlifnað og spilltu sannri guðsdýrkun. — Esekíel 16:34.
5, 6. Hver lifir andlegu skækjulífi núna á 20. öldinni og hvaða spurningu vekur það?
5 Jafnvel núna á 20. öldinni er andlegt skækjulífi algengt í trúkerfi heimsins. Kristni heimurinn er fyrirferðarmestur innan þess trúkerfis en Biblían kallar það í heild ‚Babýlon hina miklu, móður hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.‘ — Opinberunarbókin 17:5.
6 En hver verða örlög Babýlonar hinnar miklu? Hvaða áhrif munu þau hafa á þig og ástvini þína? Hvað mun Guð gera í sambandi við andlegt skækjulífi nútímans úr því að hann dæmdi skækjur harðlega til forna? Greinarnar á eftir munu svara þeim spurningum og öðrum fleiri.