Hafðu stöðugt gát á kennslu þinni
„Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:16.
1. Hvers vegna er þetta ekki rétti tíminn til að hægja á í prédikun Guðsríkis?
JEHÓVA er núna að hraða samansöfnun sauðumlíkra manna. Því er ekki rétti tíminn núna fyrir þjóna hans að hægja á í því starfi að prédika Guðsríki og gera menn að lærisveinum. (Jesaja 60:8, 22; Matteus 24:14; 28:19, 20) Við þurfum að breyta í samræmi við anda þess sem Guð er að gera á okkar tímum. Eftir því sem nær dregur endalokunum munum við heimsækja nágranna okkar oftar og oftar. Starfið á akrinum, sem er heimurinn, færist í aukana um leið og boðberum og brautryðjendum fjölgar. Og þessi mikla samansöfnun á enn eftir að vaxa. — Jesaja 60:11; samanber Sálm 126:5, 6.
2. (a) Hvert getum við, samkvæmt Jesaja 40:28-31, sótt kraft til að fullna prédikun Guðsríkis? (b) Hvers vegna eigum við núna að gefa sérstakan gaum að gæðum þjónustu okkar?
2 Í stað þess að láta uppgjafartilfinningu ná tökum á okkur, vegna þess að farið er svo oft yfir starfssvæðið, ættum við að gera okkur grein fyrir að núna er rétti tíminn til að biðja Jehóva að gefa okkur nægan „kraft“ til að ljúka verkinu. (Jesaja 40:28-31; 1. Jóhannesarbréf 5:14) Að vísu hefur nú þegar verið safnað ‚miklum múgi‘ ‚annarra sauða‘ í milljónatali. En það sem einu sinni nægði til að hjálpa vissu fólki dugir kannski ekki til að hjálpa þeim sem enn eru eftir. (Opinberunarbókin 7:9, 10; Jóhannes 10:16) Þess vegna þurfum við að gefa sérstakan gaum að gæðum þjónustu okkar.
3. Hvernig getum við endurnýjað eldmóð okkar fyrir þjónustunni á akrinum?
3 Við getum einbeitt okkur að því að bæta þjónustu okkar þannig að við náum betri árangri. Það getur endurnýjað eldmóð okkar og einbeitni í þjónustunni á akrinum. En hvernig er hægt að gera það? Með því að ‚hafa stöðugt gát á sjálfum okkur og fræðslunni,‘ þannig að við tökum ekki þátt í henni aðeins af gömlum vana. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Þær „lofgjörðarfórnir,“ sem við berum fram með vörum okkar, verða að vera annað og meira en málamyndafórnir. (Hebreabréfið 13:15) Við ættum að vera leikin í starfi okkar við prédikun fagnaðarerindisins. (Orðskviðirnir 22:29) Hér verða ræddar nokkrar hliðar á þjónustu okkar sem við þurfum að ‚gefa stöðugan gaum.‘
Hvernig má vinna upp „nýtt“ starfssvæði
4. Hvernig getum við búið okkur til „nýtt“ starfssvæði innan svæðismarka safnaðarins?
4 Við skulum líta á nokkrar raunhæfar leiðir. Margir söfnuðir hafa ekki til umráða neitt nýtt starfssvæði eða svæði sem sjaldan er starfað á. En hvernig væri að reyna að vinna upp „nýtt“ svæði innan þeirra svæðismarka sem söfnuðinum eru sett. Hvernig? Þegar við störfum oft á sama svæði getum við ekki látið eins og við höfum aldrei komið þangað áður og sagt það sama og við höfum venjulega sagt við dyrnar. Líklega veit fólk hverjir við erum ef við höfum starfað margoft á því svæði. Í bókinni Rökrætt út af Ritningunni eru yfir 40 tillögur að inngangsorðum sem við getum notað í þjónustu okkar. Ef við undirbúum okkur vel og tengjum inngangsorðin einhverju sem er í brennidepli þá stundina, mun það sem við segjum hljóma ferskt og höfða til fólks. Við þurfum ekki að afsaka það að við skulum knýja svona oft dyra heldur hafa jákvætt viðhorf og gera starfssvæði okkar „nýtt“ með því að hafa kynningarorð okkar í háum gæðaflokki. En mun það koma að gagni ef húsráðandi er óvingjarnlegur?
5. (a) Hvernig getum við fært okkur í nyt neikvæð viðhorf húsráðandans áður? (b) Hvað hefur reynst vel á þínu starfssvæði? (c) Hvers vegna er gott að hlusta á húsráðanda og sýna honum einlægan áhuga?
5 Ef við vitum hver viðbrögð húráðandans hafa áður verið getur það haft í för með sér að við höfum neikvætt hugarfar gagnvart því að heimsækja hann aftur. En hvernig væri að nota þá vitneskju fagnaðarerindinu til framdráttar? Ef til vill gætir þú í byrjun vísað til þess sem þú sagðir við síðustu heimsókn. Þú gætir kannski sagt: „Góðan dag, Jón.“ Ef þú telur það viðeigandi gætir þú bætt við: „Hvernig hefur þú það?“ Síðan gætir þú haldið áfram: „Þegar ég var hér síðast á ferð sagðir þú mér að þú hefðir þína barnatrú og að hún nægði þér. Ég skildi það svo að þú tækir trú þína alvarlega, og ég er þér sammála í því að okkur ber að taka trú okkar alvarlega. Þess vegna langar mig til að spyrja þig hvað kirkjan þín segi um kjarnorkuógnunina og horfurnar á því að mannkynið fái bjargað lífi sínu.“ Hlustaðu síðan á svar hans og láttu hann finna að þú hafir áhuga á skoðunum hans. Ef til vill getur það breytt einhverju um afstöðu hans. Oft er fólk sátt við að fá okkur aftur í heimsókn ef það getur sjálft fengið tækifæri til að viðra skoðanir sínar. Að sjálfsöðgu vilt þú síðan aðlaga boðskap þinn því sem húsráðandinn lagði til málanna.
6. (a) Hvernig getum við vanið fólk við tíðar heimsóknir okkar? (b) Með hvaða orðalagi getum við náð góðum árangri? (c) Hvað reynist vel á þínu starfssvæði?
6 Með því sem við segjum getum við komið húsráðandanum til að búast við því að við komum með reglulegu millibili. Þú gætir til dæmis sagt: „Góðan daginn, Sigríður. Það er ánægjulegt að hitta þig heima. Í dag erum við að tala við nágranna okkar um . . . “ Þú gætir líka sagt: „Góðan daginn. Við erum í okkar reglulegu yfirferð um hverfið. Það er ánægjulegt að hitta þig heima. Við höfum verið að tala við nágranna þína um . . . “ Haltu síðan áfram. Með þessum hætti getur þú að nokkru leyti gert svæðið „nýtt“ fyrir þig. Þessi inngangsorð eru auðvitað aðeins tillögur sem þú getur aðlagað starfssvæði þínu og sjálfum þér. Hvernig væri að reyna þessa aðferð?
7. (a) Hvernig búa sumir vottar húsráðandann undir næstu heimsókn áður en þeir kveðja? (b) Hvað hefur reynst þér vel á þínu starfssvæði?
7 Sumir vottar hafa séð góðan árangur af því að búa húsráðandann undir næstu heimsókn með því að ljúka samtalinu eitthvað í þessa áttina: „Við hlökkum til að hitta þig aftur fljótlega.“ Við þá sem voru eilítið tregir til að tala við þig í byrjun gætir þú sagt: „Það var ánægjulegt að tala við þig og kynnast viðhorfum þínum. Þetta tók fáeinar mínútur en við létum að minnsta kosti vera að tala um slæmu fréttirnar sem við getum heyrt hvenær sem við viljum. Þetta var jákvætt samtal.“ Vafalaust munt þú sjálfur velja þér ýmsar leiðir til að ræða við fólk. Að minnsta kosti getum við, með því að vera jákvæði í viðmóti, vingjarnleg og vanda kynningu okkar, hjálpað fólki til að taka tíðum heimsóknum okkar ekki illa.
Berðu rækilega vitni
8, 9. Hvaða tillögur eru gefnar hér um það að leita rækilega að ‚hinum verðugu‘?
8 Það að gera rækilega leit að hinum ‚verðugu‘ er annað atriði sem við getum gefið gaum til að viðhalda eldmóði okkar. (Postulasagan 8:25; 20:24, NW) Ef kona eða barn koma venjulega til dyra um helgar eða á kvöldin gæti boðberinn til dæmis spurt eftir húsbóndanum. Trúlega er það konan sem við oftast höfum talað við. Við getum því nálgast fjölskylduna úr nýrri átt með því að tala við fjölskylduföðurinn. Við getum aðlagað kynningu okkar honum með því að segja til dæmis: „Hvað heldur þú að geti best tryggt framtíðarheill fjölskyldunnar?“ eða „Sjáðu hvernig Biblían stuðlar að einingu fjölskyldunnar.“ Hrósaðu manninum fyrir jákvæðar hugmyndir sem hann lætur í ljós.
9 Önnur leið til að finna sér „nýtt“ starfssvæði er að leitast við að ná sambandi við fleiri úr sömu fjölskyldu sem búa undir sama þaki — ömmu, frænda sem er þar til húsa vegna náms eða mágkonu sem vinnur úti alla virka daga. Stundum geta dyrabjöllur, póstkassar eða rafmagnsmælar gefið til kynna að innréttuð hafi verið leiguíbúð í kjallara eða á loftinu. Reyndu að ná til þeirra sem þar búa — skólanema, einhleypinga, ekkna eða hverra sem í hlut eiga. Með þeim hætti er einnig hægt að drýgja starfssvæðið.
10. Nefndu aðra leið til að drýgja starfssvæði okkar. Hvað hafa sumir gert til að ná til þeirra sem vinna um kvöld og nætur?
10 Önnur leið til að drýgja starfssvæðið er sú að gefa því hvíld af og til meðan við tökum þátt í öðrum greinum þjónustunnar. Til tilbreytingar gætum við starfað í svæði þar sem boðið er ókeypis biblíunám. Hugsanlegt er að við getum á vinnustað náð til þeirra sem við höfum ekki fundið heima. Boðunarstarf í verslunar- og viðskiptahverfum getur borið mjög góðan ávöxt. Suma af þeim, sem ekki eru heima, er einnig hægt að hitta í götustarfi ef það er gert á hentugum tíma. Brautryðjendur í Kanada hafa náð góðum árangri í því að fara seint um kvöld til afgreiðslumanna á bensínstöðvum, sem eru opnar allan sólarhringinn, afgreiðslufólks í verslunum og starfsfólks í móttökum hótela sem hefur yfirleitt lítið að gera á þeim tíma og þiggur gjarnan eitthvað að lesa. Að sjálfsögðu þurfa þó sér í lagi systur að varast ákveðna staði seint að kvöldlagi.
11. (a) Hvað gera sumir vottar þar sem fáir voru heima í fyrstu heimsókn? (b) Hvaða áhrif getur það haft ef við leggjum okkur fram um að leita uppi þá sem ekki eru heima?
11 Hvað um þau hús og íbúðir þar sem enginn hefur verið heima? Þar þurfum við líka að gera starfi okkar rækileg skil. Sumir boðberar byrja aftur á byrjuninni um leið og þeir eru komnir svæðið á enda. Með hjálp minnisblaðanna fara þeir aftur á þá staði þar sem enginn var heima fyrr um daginn. Oft er fólk þá komið heim eða þeir sem unnið hafa að nóttu til vaknaðir. Algengt er að enginn sé heima í meira en helmingi íbúða að degi til. Við getum því í reynd tvöfaldað starfssvæðið með því að fara á mismunandi tímum í þau hús þar sem enginn var heima þangað til við finnum einhvern. Brautryðjendur og reyndir boðberar eru sammála um að kostgæf leit að þeim sem ekki voru heima skili oft meiri árangri en fyrsta yfirferð okkar yfir svæðið. Með því að gefa gaum þessum þætti þjónustu okkar er líklegt að við uppskerum margar blessanir. — Orðskviðirnir 10:22.
Þeir sem kvarta
12. Hvernig eigum við að bregðast við þegar fólk kvartar undan að við komum of oft? Hvers vegna?
12 Hvað er hægt að segja við það fólk sem kvartar undan því að við séum of oft á ferðinni? Fyrst og fremst verðum við að vera skilningsrík. (Matteus 7:12) Þeim finnst við koma allt of fljótt aftur. En það er gott að hafa í huga að jafnvel fyrir mörgum árum sagði fólk stundum: ‚Þið voruð hérna í síðustu viku,‘ þótt við vissum mætavel að hálft ár eða lengra væri liðið frá síðustu heimsókn. Auk þess geta tíðar heimsóknir vakið áhuga. Á Guadelupe hljóp maður á eftir votti og sagði: „Ég hef fylgst með ykkur í nokkrar vikur. Yfirleitt hlusta ég ekki á vottana en ég verð að fá að vita hvers vegna þið komið svona oft til fólks!“ Biblíunám var stofnað.
13, 14. Hvað gera sumir boðberar þegar húsráðandi kvartar?
13 Sumir bræður hafa vingjarnlega sagt þeim sem kvarta nákvæma dagsetningu fyrri heimsóknar og boðið síðan nýjustu blöðin og undirstrikað að þau geymdu annað efni en blöðin sem við buðum í síðustu heimsókn. Ef til vill getum við rökrætt við húsráðanda eftir þeim nótum að hann hafi sennilega fengið fjölda dagblaða og tímarita síðan við vorum á ferðinni síðast, en að þau hafi ekki alltaf innihaldið góðar fréttir. Við gætum útskýrt að við séum að flytja góðar fréttir og að við stöldrum ekki lengi við. En ef húsráðandinn er önnum kafinn gætum við sagt: „Ef það stendur mjög illa á hjá þér núna gæti ég komið til þín þegar ég verð á ferðinni aftur í næstu viku.“
14 Hvað annað væri hægt að segja? Það ræðst af viðhorfum húsráðanda og því hvað telst til almennrar kurteisi þar sem við búum. Systir í Japan skýrir tíðar komur okkar með þessum hætti: ‚Ef fárviðri er í aðsigi eru lesnar upp tíðar aðvaranir í útvarpi og sjónvarpi vegna þeirra sem hafa ef til vill ekki heyrt fyrri aðvaranir. Það er gert vegna þess að mannslíf eru í húfi. Eftir því sem óveðrið nálgast verða aðvaranir tíðari. Eftir því sem Harmagedónstormviðrið nálgast þarf að vara oftar og oftar við því til að bjarga eins mörgum mannslífum og hægt er.‘ Ef við kjósum að nota aðferð sem þessa verðum við að sjálfsögðu að vera vingjarnleg og einlæg í fasi í von um að ná til hjarta áheyrandans.
Glímt við áhugaleysi
15. (a) Hvað getur færst í aukana þegar við störfum oftar á svæðinu? (b) Hvers vegna eru sumir áhugalausir?
15 Eftir því sem heimsóknir okkar verða tíðari verðum við oftar vör við almennt áhugaleysi. Það er viss áskorun á okkur, en ef við könnum eilítið nánar orsök þessa áhugaleysis sjáum við að í mörgum tilvikum kann enn að vera mögulegt að ná til hjartans hjá sumu af þessu fólki. Það getur uppörvað okkur. Áhugaleysi þess kann að endurspegla vonbrigði og vonleysi. Því getur fundist sem engin leið sé út úr þeim vandamálum sem heimurinn á í og hugsa þá með sér að best sé að reyna að fá eins mikið út úr lífinu og hægt sé. Aðrir hafa fengið sig fullsadda af stjórnmálaafskiptum trúarleiðtoga, siðleysi þeirra eða linri afstöðu gegn siðleysi. Þetta fólk er vonsvikið og lifir aðeins fyrir líðandi stund.
16. Hvernig kann að vera hægt að ná til hjarta manns sem sýnir lítinn áhuga?
16 Við vitum að kristnir boðberar á fyrstu öld tókust með góðum árangri á við sömu viðhorf, því að margir sögðu: ‚Etum og drekkum því að á morgun deyjum við!‘ (1. Korintubréf 15:32) Við vitum að við höfum einmitt það sem þetta fólk þarf að fá að heyra. En hvernig getum við náð til hjartna þess? Ein leiðin er sú að stinga biblíuritunum aftur niður í tösku að þeim ásjáandi og spyrja síðan úthugsaðra spurninga líkt og: „Heldur þú að það sé einhver lausn á þeim vandamálum sem nú er við að glíma, lausn sem fæstir hafa enn fundið? Álítur þú að við ættum að vera jákvæð og halda áfram að leita?“ Við aðra gætir þú sagt: „Þú ert áreiðanlega sammála því að það sé betra að hafa einhverja von heldur en að lifa án vonar um betri tíð. Hvaða von eygir þú?“ Við gætum spurt: „Hver heldur þú að sé stærsta hindrunin í vegi heimsfriðar og einingar?“ Og enn einn möguleiki væri að spyrja: „Heldur þú að öll trúarbrögð séu eins og þú hefur lýst?“ Slíkar spurningar fá menn oft til að tjá viðhorf sín. Gættu þess að hlusta vel þegar þeir tala. Leyfðu þeim að úthella hjarta sínu fyrir þér. Margir þeirra „andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru.“ — Esekíel 9:4.
17. Hvernig er ef til vill hægt að nota ritin til að ná til sumra sem segjast í fyrstu ekki hafa áhuga?
17 Þá er hægt að nálgast áhugaleysi með þeim hætti að taka vel eftir mótbárum húsráðanda og koma aftur síðar með blað eða annað rit Varðturnsfélagsins sem fjallar um það mál. Það gæti jafnvel verið efni sem ekki er af trúarlegum toga spunnið, líkt og grein um vöggudauða eða eyðingu skóga. Þú getur sagt til skýringar að þú hafir verið að hugsa um hvað vekti áhuga húsráðandans og þá munað eftir þessari grein. Síðan gætir þú bent á aðalatriði greinarinnar. Kona, sem var nýbúin að afþakka rit okkar, þáði blað aðeins nokkrum sekúndum síðar. Hvers vegna? Vegna þess að votturinn spurði konuna hvort hún vissi að gerðar væru 55 milljónir fóstureyðinga á ári í heiminum. Konunni brá við að heyra þessa tölu og bað um að fá blaðið sem þessar upplýsingar stæðu í.
Ljúktu verkinu
18, 19. (a) Hvaða öðrum atriðum ættum við að ‚hafa gát á‘ í þjónustu okkar? (b) Hvaða fordóma hafa sumir gagnvart trú okkar og hvernig getum við svarað þeim?
18 Umfram allt þurfum við að vera þolinmóð við fólk. Tölum rólega og hlýlega. Látum í ljós kærleika og vinsemd. (Galatabréfið 5:22, 23) Áður en við bönkum á næstu dyr skulum við íhuga hvað gerðist við þær síðustu og reyna að koma auga á hvað við gætum gert betur. Verum skilningsrík því að margir hafa gert sér rangar hugmyndir um votta Jehóva. Þeir segja kannski: ‚Þið haldið ykkur frá stjórnmálum og skjótið ykkur undan borgaralegum skyldum,‘ ‚Þið neitið að gegna herþjónustu‘ eða ‚Þið sundrið fjölskyldum.‘ En þessi viðhorf eru harla lík afstöðu heimsins til trúbræðra okkar á fyrstu öld. Sýndu húsráðandanum það, kannski með því að lesa tilvitnanir í Rökræðubókinni undir yfirskriftinni „Hlutleysi.“
19 Sagnfræðingurinn Will Durant skrifaði um frumkristna menn: „Fyrir kristinn mann var trúin aðgreind frá og hafin yfir þjóðfélagið og stjórnmál; æðsta tryggð hans og hollusta tilheyrði ekki keisaranum heldur Kristi. . . . Áhugaleysi kristinna manna á jarðneskum málum var í augum heiðinna manna eins og flótti undan borgaralegri skyldu sem veikti vilja og samheldni þjóðarinnar. Tertúllíanus hvatti kristna menn til að neita að gegna herþjónustu; . . . leiðtogar kristinna manna hvöttu þá til að forðast þá sem ekki voru kristnir og sniðganga hátíðaleiki þeirra sem villimannlega og leikhús þeirra sem klámbæli. . . . Kristnir menn voru sakaðir um að sundra heimilum [með því að snúa mönnum til trúar].“ — Ceasar and Christ, bls. 647.
20, 21. (a) Hvað viljum við fullvissa okkur um þegar fólk vill ekki hlusta á boðskapinn? (b) Hvers vegna ættum við ekki að gefast upp heldur halda áfram hinu góða starfi að prédika Guðsríki?
20 Sumir hlusta ekki, hvað sem við segjum. En það ætti að vera vegna þess að þeir eru að hafna boðskapnum um Guðsríki, en ekki stafa af því að við höfum ekki kynnt hann vel. (Lúkas 10:8-11; Postulasagan 17:32; Esekíel 3:17-19) Við ættum að gera okkar besta með hjálp Guðs og Jehóva mun sjá til þess að ‚fullna‘ verkið. — Samanber Filippíbréfið 1:6.
21 Við skulum því í fullu trúartrausti halda áfram að vera ‚síauðug í verki Drottins, vitandi að erfiði okkar er ekki árangurslaust í Drottni.‘ (1. Korintubréf 15:58) „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ (1. Tímóteusarbréf 4:16) Framar öllu öðru skulum við ‚ekki þreytast að gera það sem gott er, því að á sínum tíma munum við uppskera, ef við gefumst ekki upp.‘ — Galatabréfið 6:9.
Manst þú?
◻ Nefndu nokkrar leiðir til að viðhalda jákvæðum viðhorfum þar sem oft er starfað yfir svæðið.
◻ Hvernig getum við gert betur í því að finna ‚verðuga‘?
◻ Hvað getum við reynt að segja við þá sem kvarta undan að við komum of oft?
◻ Hvað getum við gert þegar fólk er áhugalaust?
◻ Hvernig getum við aukið gæði þjónustunnar?
[Rammi á blaðsíðu 32]
ÞAR SEM OFT ER STARFAÐ YFIR SVÆÐIÐ
þurfum við að hafa stöðugt gát á:
◻ Jákvæðum inngangi og kynningu.
◻ Rækilegri leit að þeim sem hneigjast til réttlætis.
◻ Þolinmæði gagnvart þeim sem kvarta.
◻ Að bregðast rétt við áhugaleysi og misskilningi.